Eftirfarandi viðtal við Árna tók Egill Ólafsson við undirbúning bókarinnar, Saga Borgarness sem kom út árið 2017. Viðtal þetta er birt með góðfúslegu leyfi ekkju Egils, Unnar Lárusdóttur.
Viðtal við Árna Guðmundsson frá Beigalda, tekið 12. febrúar 2014.
Ég kom fyrst í Borgarnes með móður minni, Sesselju Þorvaldsdóttur, í kringum 1930. Manni fannst þetta gríðarlega stórt pláss og þar væri vandratað. Við heimsóttum alltaf Friðrik Þorvaldsson, sem var móðurbróðir minn og síðan fórum við um borð í Suðurlandið, sem þá var í ferðum á milli Borgarness og Reykjavíkur. Mamma vildi heimsækja vinkonu sína, Guðrúnu Maríu Guðmundsdóttur, en hún starfaði sem skipsjómfrú í skipinu. Sonur hennar, Valdimar Stefánsson, var stýrimaður á skipinu. Mér fannst mikið ævintýri að fá að fara um borð í svona stórt skip. Á þessum tíma var bryggjan komin og brú yfir Brákarsund, svo ég hef verið orðinn 7-8 ára.
Seinna fór ég í aðdráttarferðir í Borgarnes með förður mínum, Guðmundi Árnasyni, bónda í Álftatungu. Við fórum með ullina á vorin sem manni þótti afar skemmtilegt. Ullarinnleggið var bændum afar mikilvægt, sem sést best af því að menn voru að elta fé inn um öll fjöll á vorin til að ná ullinni. Á þeim árum voru engar girðingar við afrétti og fé komst á fjöllin, stundum áður en náðist að taka af þeim. En menn voru að elta ærnar um fjöllin vegna þess að ullin var mikilvægur hluti tekna bænda á þessum tíma.
Maður fór líka ótrúlega snemma að reka sláturlömbin í Borgarnes. Það var venjulega rekið fé af þremur bæjum, þ.e. frá Álftatungubæjunum og frá Arnarstapa. Lömbin frá Álftatungubæjunum voru rekin í Arnarstapa kvöldið áður.
Fénu var slátrað í sláturhúsi kaupfélagsins sem stóð við Brákarsund. Sláturhús Verslunarfélags Borgarfjarðar var beint á móti, en faðir minn lagði alltaf inn nokkur lömb þar vegna þess að hann átti einhver viðskipti við félagið. Það var samkeppni á milli félaganna um slátrun. Það var fátækt á þessum árum og þessi innlegg hjá Verslunarfélaginu kom til vegna þess að foreldrar mínir gátu fengið úttekt þar þegar var kannski ekki hægt að fá úttekt hjá kaupfélaginu. Þannig var baráttan hjá fólki á þessum árum.
Eftir þessa vorferð var ekki farið aftur í Borgarnes fyrr en seinnipart sumars. Ég man að ég var sendur um 12 ára aldur í Borgarnes til að ná í eitthvað smálegt sem vantaði. Það var yfirleitt ekki meira keypt en sem komst fyrir í einni hnakktösku. Síðan var auðvitað farið í Borgarnes á haustin með sláturféð.
Það sem var keypt til heimilis úr kaupfélaginu var aðallega sekkjavara. Mjölvaran var í sekkjum, eins og hveiti, haframjöl og rúgmjöl. Rúgmjölið var ódýrast og því keypt talsvert mikið af því. Heimabökuð rúgbrauð var algeng fæða á þessum árum. Síðan voru einnig keyptir sykurkassar.
Á vorin keypti faðir minn líka orf, ljái, brýni, hrífur og brúnspón. Brúnspónn var viðartegund sem notaður var í tinda í hrífurnar þegar þeir brotnuðu.
Nýr fiskur var sjaldan á borðum í sveitum á þessum árum, en saltfiskur var mikið borðaður. Á heimili foreldra minna var reyndar stundum nýr fiskur. Uppeldisbróðir pabba, sem hét Jónas Sigurgeirsson, var sjómaður á Akranesi og hann sendi stundum fiskmeti með bátnum. Eftir að sími var kominn í Álftatungu hringdi hann til að láta vita um að nú væri von á fisksendingu. Þetta var bæði ferskur fiskur, saltfiskur og söltuð skata, sem mér fannst ágætur matur.
Mikilvægasta fæðan á æskuheimili mínu var saltkjöt, saltfiskur og slátur. Það voru yfirleitt eldaðar súpur, m.a. úr saltkjöti, til að drýgja matinn. Venjulega var elduð það mikil súpa að það var hægt að bjóða upp á hana líka í kvöldmat. Súpan var þá hituð upp og gjarnan borðað slátur með.
Á kreppuárunum, á milli 1930-40, var mikið atvinnuleysi í Borgarnesi og erfið staða í sveitunum. Það má segja að það hafi enga vinnu verið að hafa í bænum nema það sem menn fengu við bátinn, sem kallað var, þ.e. flóabátinn. Einstaka maður fór í vegavinnu. Afkoma íbúa í Borgarnesi byggðist á því að eiga nokkrar kindur og kýr.
Árið 1940, þegar ég var sautján ára, fór ég í setuliðsvinnu í Borgarnesi, en herinn borgaði verkamönnum talsvert hærra kaup en þeir áttu kost á annars staðar. Um haustið fór ég í þriðju leit og þá man ég að Hallgrímur Níelsson á Grímsstöðum, sem var hreppsstjóri Álfthreppinga, óskapaðist mikið yfir þessu háa kaupi sem menn hefðu í setuliðsvinnunni.
Vinnan hjá setuðliðinu fól í sér að byggja bragga. Við steyptum grunna og hlóðum síðan utan um sökklana sniddukant til skjóls. Það var eina einangrunin sem notast var við í gólfinu.
Ég byrjaði í setuliðsvinnunni um sumarið og vann þar eins lengi og veður leyfðu. Mér fannst þetta ágætt. Maður fékk þarna aura. Með mér í þessari vinnu voru bæði sveitamenn og Borgnesingar.
Í framhaldinu fór ég í Bretavinnu í Reykjavík. Ég var á þessum árum í Bretavinnu á vorin, þangað til vegavinnan byrjaði og fór svo aftur í Bretavinnu í Reykjavík á haustin.
Ég byrjaði í vegavinnu árið 1937. Fyrstu árin sem ég var í vegavinnu var notast við hestavagna. Ég var í vegavinnu til ársins 1948, en það var ekki fyrr en 3-5 síðustu árin sem farið var að notast við bíla. Fyrstu árin eftir að vörubílar komu var mokað á þá með höndunum. Þá voru bílarnir ekki með neinar sturtur. Hlassið var sett í eina hrúgu og svo máttu menn dreifa úr því. Seinna komu gröfur og sturtubílar sem gátu dreift úr hlassinu. Þá varð þetta allt léttara. Þessi vegavinna var þrotlaust erfiði á þessum árum. Það voru fáir sem komust að í þessa vinnu og maður var auðvitað að keppast við að reyna að standa sig. Þetta voru mest ungir menn í þessari vinnu. Þeir sem unnu í vegavinnu í Álftaneshrepp voru aðallega menn úr Álftaneshrepp. Síðar var stofnaður annar vinnuflokkur í Hraunhreppnum voru aðallega menn úr Hraunhrepp ráðnir í þá vinnu.
Vegirnir voru hlaðnir upp með sniddu og borið ofan í. Á Mýrunum, sérstaklega í Álftaneshrepp, var víða lítið um malarofaníburð og því var púkkað sem kallað var. Það fól í sér að við keyrðum grjót ofan í veginn og síðan var grjótið mulið með sleggju. Að því loknu var möl keyrð yfir. Púkkað var í veginn til að drýgja mölina. Vegalagningin var sérstaklega erfið á leiðinni frá Langárfossi niður að Leirulæk. Þar var enga möl að fá, bara klappir og grjót.
Í ás rétt fyrir neðan Langárfoss, sem heitir Húsás er gömul fjárrétt, en sumir í vinnuflokknum vildu taka grjót úr þessari rétt og nota í veginn, en Ágúst Jónsson frá Miðhúsum, sem var verkstjóri okkar, sagði að það kæmi ekki til greina að við færum að taka grjót úr réttinni. Hann var það framsýnn að hann vildi ekki eyðileggja þetta gamla mannvirki.
Vegavinnan stóð frá lok maí og fram í miðjan september. Einu sinni unnum við reyndar fram í nóvember. Við gistum í tjöldum, en mötuneyti var í eldurnarskúr þar sem ráðskona eldaði.
Árið 1948 hætti ég í vegavinnu og fór að vinna hjá símanum. Þá var verið að ljúka við að byggja upp loftlínukerfið í sveitunum. Við vorum líka mikið í viðhaldi. Þetta var vinna sem stóð mestan hluta ársins. Við byrjuðum í mars og vorum fram að jólum. Við unnum við að rífa gamlar línur þegar frost var komið í jörðu, en á þessum árum var byrjað að leggja jarðstrengi. Við gistum í tjöldum yfir sumarið og á bæjum á haustin. Ég var í þessari símavinnu þar til ég flutti að Beigalda árið 1954. Þetta var skemmtileg vinna fyrir lausamenn, en kannski ekki eins skemmtileg fyrir fjölskyldumenn.
Á þessum árum fór maður til vinnu á vorin og kom ekki heim aftur fyrr en á haustin. Maður fékk þvegið af sér á sveitabæjum. Það var ekkert verið að fara að óþörfu langar leiðir á þessum árum. Árið 1949 voru aukakosningar um haustið. Við vorum þá að vinna í Helgafellssveit og það fór enginn heim til að kjósa. Við fórum allir í einum flokki til sýslumannsins í Stykkishólmi til að kjósa utankjörstaða.
Þegar ég fór fyrst til Reykjavíkur var maður fimm klukkutíma af fara með bíl, en ferðin með Suðurlandinu tók þrjá tíma. Ég var óskaplega sjóveikur þegar ég tók bátinn, en maður vildi samt fara með skipinu, en hossast í bíl í fimm tíma.
Á þessum árum áttu bændur almennt ekki bíla, en kaupfélagið hélt hins vegar uppi áætlunarferðum upp í sveitirnar á hálfs mánaðar fresti. Þá flykktust menn úr þeirri sveit í kaupstaðinn til að versla. Síðan var farið úr Borgarnesi til baka kl. 16. Ég var hins vegar svo vel í sveit settur á Beigalda að ég gat farið nær daglega, því að flesta daga var farið framhjá Beigalda.
Eftir að ég flutti að Beigalda fór ég strax að vinna við slátrun í Borgarnesi. Fyrstu þrjú haustin vann ég hjá Verslunarfélaginu Borg og síðan fór ég að vinna hjá kaupfélaginu og alla tíð síðan. Ég vann við slátrun frá 1954 til 1989 að báðum haustum meðtöldum.
Sláturhúsið sem Borg rak var sæmilegt hús og mun betra en sláturhúsið sem kaupfélagið reisti í Brákarey árið 1940. Það var ekki gott sláturhús. Kjötsalur og slátursalur var í einum opnum sal. Í Borg var hægt að fjarlægja kjötið úr slátursalnum strax sem eykur kjötgæði því það var alltaf talsvert óloft í fláningssal. Það skiptir máli upp á þrifnað að hafa kjötgeymslu á öðrum stað en þar sem fláning fer fram. Sláturhúsið sem byggt var árið 1940 var því afturför frá því sem hafði verið í gamla sláturhúsinu sem byggt var 1908.
Sláturfélag Suðurlands byggði sláturhús við Brákarsund árið 1908, en félagið rak það hins vegar bara í nokkur ár. Félagið ákvað að minnka umsvif sín og dró mörk um félagssvæði sitt við Skarðsheiði. Árið 1920 keypti Sláturfélag Borgfirðinga húsið af SS og rak það til ársins 1931 þegar félagið var sameinað Kaupfélagi Borgfirðinga.
Með þessu sláturhúsi, sem reist var 1908, var stigið mikið framfaraskref hvað varðar þrifnað og heilbrigðisskoðun, ef hún hefði einhver verið þá. Áður en þetta hús kom til var slátrað á blóðvelli, sem kallað var. Það hefur verið mikið stökk að slátra undir beru lofti á blóðvelli yfir í svona stórt og gott hús.
Það var fyrst slátrað í nýja sláturhúsinu í Brákarey árið 1964. Grétar Ingimundarson var orðinn sláturhússtjóri og hann var mjög framsýnn og vildi nýta bestu mögulega tækni í slátrun. Hann lagði áherslu á að Borgarnes yrði í forystu í slátrun. Upphaflega var hugmyndin sú að byggja á svokallaðri hringfláningu og að gærurnar yrðu dregnar af með talíu. Þannig var unnið 1964 og 1965. Árið 1966 var starfrækt svokallað tilraunasláturhús. Þá var byggt á nýjum aðferðum sem voru komnar frá Nýja-Sjálandi. Aðferðin byggði á því að öll slátrun færi fram á einu færibandi. Það voru tveir menn, Gunnar Þorsteinsson og Jón Reynir Magnússon arkitektar sem fóru til Nýja-Sjálands til að kynna sér þessar slátrunaraðferðir. Þeir voru ekki slátrarar og upplýsingar sem þeir öfluðu nýttust ekki eins og vonast hafði verið eftir. Við ætluðum að læra þessar aðferðir með því að notast við myndir frá Nýja-Sjálandi, en þar sem Gunnar og Jón höfðu ekki unnið við slátrun áttuðu þeir sig ekki á að taka myndir af öllu því sem máli skipti. Þetta haust varð því nokkuð erfitt hjá okkur.
Árið 1967 var fenginn nýsjálenskur kennari til að kenna slátrun og hann var hjá okkur í þrjár vikur. Ég held að við hefðum aldrei komist upp á lag með að vinna þetta án hans aðstoðar því að þessi aðgerð kallaði á svo breytt vinnubrögð í slátrun. Eftir þetta varð sláturhús Kaupfélags Borgfirðinga í algjörri forystu í slátrun í landinu og þeirri forystu héldum við til 1990.
Sú aðferð sem við tókum upp var síðar tekin upp víða um land. Við fórum og kenndum hana mönnum á Húsavík, Blönduósi, Sauðárkróki, Búðardal, Selfossi og Hómavík.
Það var þannig á þessum árum að ef það þurfti að ná í kjöt á viðkvæma markaði eða sýnishorn á nýja markaði var alltaf leitað til okkar í Borgarnesi. Sláturhúsið fékk útflutningsleyfi bæði á Ameríku og Evrópu-markað. Okkur fannst að kröfurnar á Evrópu-markað væru jafnvel strangari en á Ameríku-markaði, en oft var samt talað um að kröfurnar væru strangastar varðandi sölu til Ameríku.
Útflutningsleyfið var alltaf veitt til eins árs í einu, en það komu menn á hverju hausti frá þessum löndum til að taka húsið út. Á þessum árum var gjarnan skrifuð frétt í blöðum um það þegar sláturhúsið í Borgarnesi var komið með útflutningsleyfi.
Sláturhúsið í Borgarnesi var stærsta sláturhús landsins, en þar var mest slátrað yfir 88 þúsund fjár á ári. Það þurfti mikinn kraft til að ná að slátra svona miklu því að við gátum ekki byrjað að slátra á fullum afköstum fyrr en 2-3 vikur voru liðnar af sláturtíð. Núna geta menn byrjað af krafti strax því að stór hluti starfsfólksins er útlendingar, en þeir koma hingað sérstaklega til að vinna í slátrun. Við treystum mikið á menn úr sveitinni en þeir voru uppteknir í leitum og réttum í september. Margir unglingar úr Borgarnesi unnu hjá okkur við upphaf sláturtíðar í um hálfan mánuð. Þegar skólinn byrjaði hjá þeim var oft erfitt að manna húsið í um það bil eina viku þangað til sveitamennirnir skiluðu sér í vinnu í sláturhúsinu.
Ég var verkstjóri í fláningssal og vann undir stjórn Grétars Ingimundarsonar og síðar Gunnars Aðalsteinssonar sem voru sláturhússtjórar á þessum árum. Það mæddi talsvert mikið á mér því afköst við slátrun réðust af því hvernig gekk í fláningu.
Við vorum að slátra 2.600-2.800 á dag þegar við vorum komin með full afköst í húsinu. Þau afköst stóðu hins vegar ekki nema í þrjár vikur.
Frystihús var reist í Brákarey árið 1938 og það var síðan stækkað árið 1945. Á þeim tíma var sláturhúsið hins vegar hinu megin við Brákarsundið. Sjálfsagt hafa menn hugsað sér að byggja frystihús og síðar sláturhús í eyjunni, sem og varð. Staðseting á sláturhúsi var að mörgu leyti betri út í eyju vegna þess að samkvæmt reglugerð á að leggja skolpleiðslu út fyrir lægstu stórstraumsfjöru. Það var mun auðveldara að gera það úti í Brákarey en í landi, en það náðist nú reyndar aldrei að uppfylla þessar kröfur til fulls.
Þó að það væri komið frystihús í Borgarnes varð að flytja talsvert stóran hluta af kjötinu annað til geymslu. Þegar kom fram í miðja sláturtíð var kjöt flutt með bílum daglega suður. Fryst kjöt þurfti ekki að vera hangandi en var staflað í bílana. Ef kjötið var flutt ófrosið varð að flytja það hangandi.
Það var gerð stórfelld breyting á vinnubrögðum í sláturhúsinu haustið 1988. Undirbúningur undir þessar breytingar hófst árið 1987, en þá voru menn sendir til Noregs til að kynna sér þau vinnubrögð sem þar höfðu verið tekin upp við slátrun. Norðmenn höfðu þá tekið upp róbót eða vélmenni. Þá var Sigurður Einarsson aðstoðarmaður yfirdýralæknis og hann sagði að það yrði ekki farið í þessa ferð til Noregs nema að í hana færu líka menn úr Borgarnesi. Ég fór því í þessa ferð ásamt tveimur öðrum sláturhúsamönnum. Hinir voru frá Höfn í Hornafirði og Blönduósi.
Ég tók þátt í að innleiða þessa nýju tækni í Borgarnesi árið 1988. Ég varð 67 ára árið 1990 og var ákveðinn í að hætta á þeim tímamótin. Ég tel því að þegar ég hætti hafi sláturhúsið í Borgarnesi enn verið í forystu sláturhúsa á Íslandi. Það var reyndar verið að segja að húsið væri illa farið og nánst ónýtt. Það hafði verið byggt úr vikursteypu og lak, en það þurfti ekkert annað en að klæða það að utan til að laga það. Það þurfa öll hús viðhald.
Ég þekki vel til um sláturhús víðar á landinu og mér hefur alltaf fundist að það synd hvernig fór fyrir sláturhúsinu í Búðardal. Það var eina sláturhúsið sem var byggt utan um færibandskerfið. Á hinum stöðunum var verið að setja upp færibönd í eldri hús sem voru ekki hönnuð fyrir færibandakerfi. Húsið í Búðardal var hannað af Gunnari Þorsteinssyni, sem starfaði hjá Teiknistofu Sambandsins, og þar var færibandið bein lína.
Frá árinu 1990 hafa forráðamenn sláturhússins í Borgarnesi ekki séð ástæðu til að hafa forystu í sauðfjárslátrun og meðferð sláturafurða eins og verið hafði allt frá árinu 1908. Reyndar tapaði Borgarnes þeirri forystu árið 1940, en endurheimti hana árið 1965, þegar nýja sláturhúsið var reist.
Það eru sjálfsagt fleiri en ein skýring á því hvers vegna hætt var að slátra í Borgarnesi. Það skipti t.d. máli að kaupfélagið missti frá sér slátrun vegna þess að bændur í héraðinu hófu viðskipti við önnur sláturhús. Menn fóru að slátra hjá Sláturfélagi Suðurlands á Laxá og einnig í öðrum sláturhúsum. Ég veit ekki hvað hefur valdið því, en það gæti verið að það tengist áburðarkaupum. Afurðasölufyrirtæki sem voru liðleg með að hjálpa bændum við áburðarkaup fengu frekar sauðfjárslátrun til sín en fyrirtæki sem gengu hart fram við að innheimta skuldir.
Ég starfaði við fleira en slátrun þegar ég var hjá kaupfélaginu. Um 1970 varð ég heilsársmaður hjá félaginu. Þá tók ég við úti verkstjórn hjá deild 6 hjá KB. Deild 6 var með mikil umsvif á þessum tíma. Hún var með áburðasöluna, fóðurbætissöluna, sementssölu, öllu sem laut að girðingarvinnu og fleira. Þessi vara var nær öll flutt með skipum og það lagðist a.m.k. eitt skip í mánuði við bryggju í Borgarnesi meðan ég var í þessu starfi. Við sáum um uppskipun og sölu á þessum vörum. Mesta vinnan var í kringum sölu á kjarnfóðri sem var flutt laust með skipum til Borgarness. Við sáum síðan um að sekkja fóðrið.
Stórgripasláturhúsið var líka undir þessari deild og ég var í henni fyrstu árin. Stórgripaslátrunin stóð þá yfir einungis á haustin, frá því að sauðfjárslátrun lauk í nóvember og fram í miðjan desember. Síðar, eftir að það var byggt nýtt sláturhús fyrir stórgripi í Brákarey, var farið að slátra þeim allt árið, en þá hætti ég í stórgripaslátrun.
Þessi sláturhúsaár voru skemmtileg ár. Maður kynntist mörgum. Það var líka heilmikið félagslíf í sláturtíðinni. Þeir sem höfðu farið á vertíð sögðu að það væri vertíðarstemming í sláturtíðinni.