Um leitir og réttir í vestanverðri Mýrasýslu

Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2008.

(Að uppistöðu ræða sem höfundur flutti á kvöldfundi í Rotary klúbbi Borgarness haustið 2002.)

Frá upphafi vega hafa leitir og réttir verið sterkur þáttur í atvinnusögu landbúnaðar á Íslandi.

Fram á okkar daga hefur sauðfjárrækt og framleiðsla afurða hennar verið sterkasti þáttur hans, þó breyting hafi orðið þar á síðustu ár.

Þegar ég hóf vegferð mína í þessum heimi fyrir rúmum 80 árum var það eftirsóknarvert tilhlökkunarefni fyrir stráka strax og þeir höfðu aldur til að fara í leitir. Þegar fjallskilaseðillinn kom „boðleið rétta“ að Álftártungu fermingarsumarið mitt og í ljós kom að faðir minn átti ekki að senda mann í I. leit beið ég milli vonar og ótta um það hvort ég kæmist það  haust í leitir. En síðustu daga fyrir fjallferð vantaði Egil á Langárfossi mann í I. leit og ég hlaut hið eftirsóknarverða hnoss. Ég er ekki frá því að fermingardrengurinn frá því um vorið hafi verið farinn að vatna músum þegar enginn sá til þegar hann höndlaði gæfuna, og svo mikið er víst að andvökunæturnar breyttust úr kvíða í tilhlökkun og spenning. Ég var forsjóninni þakklátur fyrir það að jafnaldra mín Katrín, elsta barn hjónanna Fríðu og Egils á Langárfossi skyldi var stelpa. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að stúlkur fóru að fara í leitir. Vonandi er það rangt sem margir halda fram að áhugi hjá ungu fólki á því að fara í leitir sé minni en áður var. Sé það hins vegar rétt er hætta á að það leiði til þess að verkefnið sé ekki unnið af sömu samviskusemi og áður, sem getur svo orðið til þess að kunnátta til þess að smala fé í fjalllendi glatist.

Á síðustu áratugum hefur verið farið í leitir á mismunandi tímum. Hér í Mýrasýslu þegar ég man fyrst eftir var „riðið til fjalls“, svo sem kallað var á Mýrum, sunnudaginn í 22. viku sumars. Þá stóðu leitirnar einum degi lengur, því innsti hluti afréttarins var smalaður tvisvar. Réttirnar voru því þannig að Hítardalsrétt og Svignaskarðsrétt voru fimmtudaginn í 23. viku sumars og Hraundalsrétt daginn eftir.  Ég hef ekki leitað mér upplýsinga um hvenær leitir þessara sveita voru styttar um einn dag. Ef ég man rétt gerðist það um eða rétt fyrir 1940. Leita- og réttafærsla var gerð yfir sýsluna alla árið 1868 því þar áður var farið í leitir viku fyrr og því var sunnudagurinn í 21. viku sumars kallaður gamli fjallreiðarsunnudagurinn á uppvaxtarárum mínum.

Síðasta breyting á tímasetningu leita var gerð fyrir fáum árum þegar smaladagar voru færðir fram um tvo daga og riðið til fjalls föstudag og smalað laugardag og sunnudag. Trúlega hefir þetta verið gert til hægðarauka í því skyni að manna leitirnar.

Um réttir á þessu svæði er meira að segja en leitir. Við athugun á þeim kemur í ljós að í þessum þrem sveitum eru þrjár og sumstaðar fjórar kynslóðir rétta, auk annarra rétta sem ekki er gott að átta sig á til hvers hafa verið notaðar. Vegna þess að margt er hálfgleymt og annað hulið með öllu um notkun þeirra er spennandi að láta hugann reika til liðinna alda og gera sér í hugarlund þau störf sem þar fóru fram. Þegar gengið er um veggjabrot þessara gömlu skilarétta kemur greinilega í ljós að forfeðrum okkar hefir ekki verið sýnt að skapa góða vinnuaðstöðu þar, ens og fram kemur síðar í þessari grein.

Við skulum í huganum fara sveit úr sveit og skoða þetta nánar.

Hraunhreppur

Frásögnin um réttir hefst í Hraunhreppi. Í Hagahrauni eru að minnsta kosti tvær réttir sem vitað er um. Var önnur þeirra notuð til aðrekstrar á fé sem smalaðist þar í seinni leitum, dregið í sundur fé frá Hítardal og ef til vill fleiri bæjum og afgangurinn rekin til Melsréttar. Um 1970 lagðist notkun Hagaréttar niður.

Eftirtaldar réttir nefni ég í Hítardal, en þær eru eitthvað fleiri: Er þar fyrst að nefna svonefnda Þorleifsrétt sem ekki er auðvelt að finna út hvenær síðast hefur verið notuð. Talið er að hún beri nafn Þorleifs Beiskalda (d.1200) sem var fjárríkur bóndi í Hítardal og goðorðsmaður á Sturlungaöld. Þá Bretabergsrétt við svonefnt Bretaberg, sem er nokkurn spöl sunnan Hítarár í norðvestur frá Hítardalsrétt, en Þorleifsrétt er nokkru neðar og lengra frá ánni. Sagan segir að Bretabergsrétt hafi rúmað 2000 fjár. Á seinni hluta 15. aldar sat Hítardal fjárríkur klerkur, Sigurður Jónsson, og mældi hann ásetningsfénað sinn í fulla Bretabergsrétt og slátraði því sem af gekk réttinni.

Samkvæmt Árbók Ferðafélags Íslands 1997 segir í prestasögum Jóns Halldórssonar prófasts: „Hann segir réttina kennda við séra Sólmund, sauðauðugan prest á 14. öld sem sagði eftir harðan vetur: „fátt er nú um veturgamla sauði“. Átti hann þó um hundrað gemlinga þetta vor.“

Næst ætla ég að nefna rétt sem lítið ber á; þó er hún nálægt alfaravegi inn að Hítarhólmi. Þessari rétt er tvískipt og var því trúlega notuð til sundurdráttar á sauðfé. Norðvestan vegar, neðan fjallgirðingar um þveran Hítardal stendur hún. Finnbogi Leifsson bóndi í Hítardal sem er heimildarmaður minn um þessa rétt og sumt annað um réttir í Hítardal, hefir aldrei heyrt um notkun hennar né í hvaða tilgangi hún hefir verið byggð.

Neðan við svonefnt Réttargil (Gínandagil) sem er innst á Vatnshlíð, en hún er meðfram Hítarvatni að vestan, er ævaforn rétt sem óvíst er hvaða tilgangi hefur þjónað, en trúlega hefir þar verið rekið að fé sem smalað var af þessum hluta afréttarins og dregið í sundur fé úr Dölum og Mýrum, og hefur hún þá gegnt sama hlutverki og réttin í Réttarvatnstanga þar sem dregið var sundur fé Borgfirðinga og Húnvetninga. Meðan byggð var á Tjaldbrekku árin 1840-1891 hefir þessi rétt fengið nýtt hlutverk, því ætla má að fé þaðan hafi verið dregið úr safninu.

Við brekkurætur Bæjarfells að norðanverðu eru rústir af mjög gamalli rétt sem augsýnilega hefir verið skilarétt, því þar eru að minnsta kosti 20 dilkar sem standa þó ekki allir útfrá almenningnum, því sumir hafa verið hlaðnir nokkrum metrum frá honum. Trúlega er þetta rétt sem hefur verið notuð sem skilarétt sveitarinnar næst á undan þeirri sem nú er notuð. Engin leið er að draga fram í dagsljósið á hvaða tíma hún hefur verið fyrst notuð. Á fyrstu árum 19. aldar var byggð ný rétt sem enn er í notkun og hefur á þeim árum verið á undan sinni samtíð. Heimildum sem ég hef tiltækar ber ekki saman um hvenær hún var fyrst notuð. Guðrún Ása Grímsdóttir segir í Árbók Ferðafélags Íslands að hún hafi verið fyrst notuð 1809 eða síðar, en heimamenn telja samkvæmt munnlegri geymd að það hafi verið árið 1828.

Veggjabrot af gömlu Hítardalsrétt. Í baksýn Hróbjörg nær, fjær Hróbjargastaðafjall. Hrútaborg ber hæst til hægri. Á myndinni eru f.v. Finnbogi Leifsson bóndi í Hítardal, Guðmundur Árnason Beigalda og Árni Guðmundsson frá Beigalda. Ljósmyndari: Ragna Sverrisdóttir.
Hítardalsrétt séð frá austri. Í baksýn Grettisbæli t.v. og Hróbjargastaðafjall. Ljósmyndari: Ragna Sverrisdóttir

Melsrétt stendur við hraunbrún suðaustan við túnið á Mel. Þar var réttað þrisvar á hausti fé úr seinni leitum og óskilafé sem smalaðist í heimahögum. Með bættum samgöngum og menn fóru að keyra fé á milli bæja var hætt að halda við tveimur réttum og hún lögð niður og síðast notuð 1991.

Melsrétt. Í baksýn Svarfhólsmúli. Sést í Hraundal til hægri og Grjótárdal til vinstri. Myndin er tekin í ágúst 2006. Athygli vekur hve réttarveggirnir standa vel þótt réttin hafi ekki verið notuð síðan 1991. Ljósmyndari: Ragna Sverrisdóttir

Snertispöl innan við túnið í Ytri-Hraundal er heimarétt þaðan sem jafnframt var notuð til aðrekstrar á fé sem smalaðist í fjallleitum við Ytri-Hraundal og dregið úr safninu fé frá Ytri-Hraundal og Svarfhóli.

Álftaneshreppur

Í Álftaneshreppi eru þrjár kynslóðir rétta sem vitað er um. Í svonefndu Sandvatnsnesi sem er neðarlega á Álfthreppingaafrétti kúra í hraunkima ævaforn réttarbrot sem tala sjálf sínu máli, því engar sagnir hafa geymst um fjárrétt þarna, hvorki ritaðar né í munnmælum. En skilarétt hefur þetta verið. Þar mótar greinilega fyrir því sem ætla má að hafi verið almenningur eða nátthagi og sýnilegir eru a.m.k. átta eða níu dilkar, og þar sem þeir eru hlaðnir upp á hraunkambinn og hafa fasta klöpp undir eru hleðslurnar ótrúlega stæðilegar. Þarna eru dilkarnir ekki umhverfis almenninginn heldur fáeina metra frá honum, flestir í einni röð, þó sést mót fyrir dilkum einum sér. Það var þessi vinnuaðstaða ásamt aðstöðu í hinni gömlu Hítardalsrétt norðar Bæjarfells sem ég hafði í huga í upphafi þessarar greinar þegar ég taldi að forfeðrum okkar hefði verið ósýnt um vinnuhagræðingu.

Freistandi er að láta hugann reika að réttarstörfum bænda á þessum undurfagra og rómantíska stað þar sem vatnslítill og kristalstær bergvatnslækur rennur og liðast milli grasi gróinna bakka og hverfur undir hraunbarðið sem dilkarnir standa að nokkru leyti á og kemur undan hrauninu uppsprettulind suðaustur við Langá nokkrum neðar en hún fellur úr Langavatni. Þótt þessi forna rétt sé ekki inni á Langavatsnsdal eins og við skilgreinum hann í dag hlýtur að vera leyfilegt að láta hugmyndaflugið hlaupa með sig í gönur og ímynda´ser að þetta séu þær réttir sem húskarlar Bjarnar voru í samkvæmt Bjarnar sögu Hítdælakappa og hann fáliðaður heima, þegar Þórður í Hítanesi gerði aðför að honum og varð honum að bana.

Við stæðilegasta veggjarbrotið af réttinni í Sandvatnsnesi. Höfundur með nokkur barnabarna sinna. F.v. Árni Guðmundsson, Heiðar Eiríksson, Leifur Eiríksson, Óðinn Guðmundsson, Bjarni Jónsson, Árni Guðmundsson eldri og Áslaug Eiríksdóttir. Myndin var tekin í ágúst 1996 af Lilju Árnadóttur.

Engar sagnir eru til um hvenær Hraundalsrétt var fyrst notuð en svo mikið er víst að hún er margra alda gömul og fornfræg svo sem segir í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. En gefum Guðrúnu Ásu Grímsdóttur orðið í Árbók Ferðafélags Íslands 1997 þar sem hún segir um Hraundalsrétt: „Almenningur og milliveggir eru hlaðnir úr hraungrýti, undirstaðan rétt til fundin og grjótið látið stöðvast af sjálfu sér og falla að ójöfnum sínum, en sumir veggirnir eru hraunbrúnin sjálf. Réttin sveigist og stendur með landslaginu, er sem musteri íslenska bóndans, sáttmáli manns og jarðar“.

Stóði réttað í Hraundalsrétt haustið 1942. Þessir menn eru á myndinni: (neðar) 1. Guðjón Jónsson Kvíslhöfða, 2. Jón Sveinsson Urriðaá, 3. Axel Hallgrímsson Grímsstöðum (með svipu í hendi), 4. Sveinn Sveinsson Álftanesi, 5. Baldvin Jóhannesson Lambastöðum (nr. 4 og 5 eru báðir með hvíta húfu), ofar 6. Haraldur Bjarnason Álftanesi, 7. Baldur Leópoldsson Lambastöðum eða Haraldur Jónasson Álftanesi, 8. Bergur Guðjónsson Smiðjuhóli, 9. Hallgrímur Níelsson Grímsstöðum, 10. Finnur Einarsson Álftártungu, 11. Axel Ólafsson Álftártungukoti, 12. Jón Jónsson Fíflholtum, 13. Guðjón Guðmundsson Svarfhóli, 14. Páll Þorsteinsson Álftártungu, 15. Þorbergur Pétursson Syðri Hraundal, 16. Halldór Thorsteinsson Álftárósi.

Haustið 1978 var réttað í Hraundalsrétt í síðasta sinn. Næsta haust var réttað í arftaka hennar Grímsstaðarétt í fyrsta sinn. Þegar réttarstörfum lauk þann góðviðrisdag riðu menn vestur í Hraundalsrétt, lyftu og dreyptu á réttapelum sínum og sungu nokkur vel valin lög. Þannig var hún kvödd á viðeigandi hátt. Eftir stendur hún um langan aldur og vitnar um atorku íslenskra bænda á þeim tíma. Slík verk þurfa ekki að fara í umhverfismat. Þau eru náttúran sjálf.

Smiðjuhólsrétt sem réttað var í þrisvar sinnum á hausti var skilarétt Álfthreppinga um langan aldur. Þar var réttað fé sem fannst í II. og III. leit svo og óskilafénaði úr heimahögum. Hún lagðist niður af sömu ástæðu og Melsrétt.

Þá er að geta þess að fé sem smalaðist af Grímsstaðamúla í fjallleitum vaar alltaf rekið að á Grímsstöðum og fé þaðan dregið úr safninu. Þessi rétt á Grímsstöðum var fyrir margra hluta sakir merkilegt mannvirki en hefir nú því miður verið jöfnuð við jörðu. Í sama tilgangi var heimarétt á Grenjum notuð vegna smölunar á Grenjamúla. Sú rétt stendur enn.

Borgarhreppur

Í Borgarhreppi eru fjórar kynslóðir rétta sem vitað er um.

Klaufhamarsrétt sem stóð suð-vestan við Gljúfurá við svonefndan Klaufhamar var notuð frá ómunatíð við hinar verstu aðstæður í nokkuð hallandi brekku sem hefur gert réttarstörf erfið.

Í handriti Daníels Jónssonar (1802-1890) bónda á Fróðastöðum, skrifuðu  1872, um leitir og réttir í Mýrasýslu, sem birtist í riti Kaupfélags Borgfirðinga árg. 1967, segir að Þinghólsrétt og Brekkurétt í Norðurárdal hafi fyrst verið notaðar haustið 1831. Þinghólsrétt stóð sömu megin við Gljúfurá og Klaufhamarsrétt en nokkru neðar, þar sem Gljúfurá tekur krappa beygju til suðvesturs, norðaustan Þinghóls sem kemur við sögu í Egilssögu og Gunnlaugssögu Ormstungu.

Þinghólsrétt. Myndin er tekin til suðurs. Í baksýn má greina Hafnarfjall í hitamóðu sólmánaðar. Ljósmyndari: Jón Bjarnason.

Eina sögu langar mig að segja sem tengist Þinghólsrétt. Árin 1888 til 1900 bjó í Múlakoti (nú í eyði)) fátækur bóndi, Finnur Ólafsson. Múlakot er stutta bæjarleið austan Þinghólsréttar. Þó Múlakot hafi trúlega átt til Brekkuréttar að sækja hvað lögskil varðar kom stór hluti kinda frá Múlakoti í Þinghólsrétt og þar átti Múlakot dilkshorn. Eitt haust þegar Finnur er á leiðinni í Þinghólsrétt verður hann þess var að heimalingurinn eltir hann. Honum brá ekki vari á að ekki væri óhætt að fara með hann til réttarinnar. Annað koma á daginn. Þar sem hann var ómarkaður lenti hann í ómerkingum í réttinni og hinn fátæki bóndi mátti sjá á eftir honum með þeim fénaði sem enginn gat sannað eignarrétt sinn á og þess vegna komin í eigu sveitarsjóðs Borghreppinga. Sveitarhöfðingar á þessum tíma voru ekki mannlegir þegar lítilmagnar áttu í hlut.

Við hrunin veggjabrot Þinghólsréttar. Séð inn í Litluárgljúfrið. Vikrafell í baksýn vinstra megin við miðja mynd. Feðginin Árni Guðmundsson frá Beigalda og Lilja Árnadóttir. Ljósmyndari: Jón Bjarnason.

Þótt Þingholsrétt væri mikið mannvirki með vel hlöðnum veggjum og ótrúlega stórum steinum varð saga hennar stutt, því seinast var þar réttað haustið 1924. Þann 18. október 1924 var samþykkt á almennum hreppsfundi í Borgarhreppi að færa réttina og henni valin staður í Svignaskarði. Þá var á þeim fundi lögð fram kostnaðaráætlun um framkvæmdina að upphæð kr. 7010.- Ennfremur var lögð fram tillaga um stærð dilka þar sem væntanlega er miðað við sauðfjáreign á árinu 1924. Einnig áform um hvaða bæir væru saman um dilk. Þessi áætlun var samþykkt og er svohljóðandi samkvæmt fundargerðabók:

Á Ferjubakka eru þrjú ábýli óskilgreind enda sama fjártala á þeim öllum. Á Ölvaldsstöðum eru fjögur býli. Þar er fjártalan einnig óskilgreina á milli býla. Kotin sem nefnd eru í Brekkudilknum hljóta að vara Álfgerðarholt, Brekkunes og e.t.v. Laufás.

Ekki var látið sitja við samþykktina eina, heldur hafist handa þá um haustið og næsta sumar og í fyrsta sinn réttað í Svignaskarðsrétt haustið 1925. Vinnuaðstaða í hinni nýju rétt var ekki eins góð og í Þinghólsrétt. Þegar sá tími kom að bændur fóru að keyra fé sitt úr réttinni var aðstaða til að taka fé á ökutæki afar slæm. Meðal annars þess vegna var það að ný rétt var byggð stuttan spöl austan við gömlu réttina sem síðast var réttað í haustið 1974. Í fyrsta sinn haustið 1975 og síðan hafa Borghreppingar réttað fé sínu við góða vinnuaðstöðu.

Fólk að störfum í Svignaskarðsrétt 18. september 2006. Ljósmyndari: Árni Guðmundsson yngri, Beigalda.

Til að sýna hvað við lifum á hraðfleygum og breytilegum tímum vil ég benda mönnum á að nú 31 ári síðar væri Svignaskarðsrétt ef til vill ekki byggð á þeim stað þar sem hún stendur nú.

Í Borgarhreppi voru seinni réttir við Eskiholtshús (beitarhús frá Eskiholti) til 1925 þegar aðalréttin var færð neðar í sveitina.

Að lokum langar mig að segja sögu úr leitum Álfthreppinga og réttir það aðeins þann skarða hlut sem leitir fá í þessari umfjöllun minni. Um skeið gistu í fjallhúsi Álfthreppinga aðfaranótt mánudags í I. leit 31 maður, því þá gistu þar einnig réttarmenn sem fóru í Dalaréttir, en þegar þeir komu til baka voru sumir leitarmenn komnir í gistingu á fjallbæjum. Svona var þetta þegar ég fór fyrst í leitir 1937, en breyttist þegar fé fækkaði og fjallskilastjórnir fóru að spara sér til skaða með því að fækka leitarmönnum. Það kemur alltaf fram í seinna verkinu sem gert er í því fyrra. Einhverju sinni voru menn komnir í hús á sunnudagskvöldi í I. leit. Gleðskap var haldið á lofti. Þegar leið á kvöldið vildi leitarstjóri að menn færu að ganga til hvílu. Þá eins og nú voru menn ekki tilbúnir að hætta gleðskap þegar hæst fram fór. Þó samdist um það við leitarstjóra að menn mættu hafa uppi söng og önnur gamanmál til kl. 12:00 (24.00). Þá varð þessi vísa til sem ég hef aldrei heyrt hver muni vera höfundur að:

Ekki er klukkan orðin tölf,
ennþá má ég syngja.
Við erum fjórtán, fimm og tólf,
fjallmenn Álfthreppinga.
(höf. ókunnur)

Heimildir
Árbók Ferðafélags Íslands, 1997. Höf. Guðrún Ása Grímsdóttir.
Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.
Finnbogi Leifsson bóndi í Hítardal. Munnleg heimild.
Finnur Einarsson fyrrverandi bóndi Gufuá, Borgarnesi. Munnleg heimild.
Fundargerðabók Borgarhrepps (1924), geymd á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar í Borgarnesi.
Handrit Daníels Jónssonar á Fróðastöðum skrifað 1872, birt í riti Kaupfélags Borgfirðinga, árg. 1967.
Jóhann Sigurðsson fyrrverandi bóndi Stóra-Kálfalæk, Borgarnesi. Munnleg heimild.