Um Karlsdal, frá Glitstöðum að Höfða

Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994

Kort fengið að láni úr bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna.

Farið er út af vegi framan túns á Glitstöðum í gegnum hlið á túngirðingu. Þar fram undan er Karlsdalurinn, sem liggur frá norðvestri til suðausturs. Allbrattir sneiðingar liggja upp í dalinn, og er riðið norðaustan megin í honum, vinstra megin þegar frá Glitstöðum er farið, með fram brekkum, sem liggja langleiðina gegnum hann. Áður en komið er upp úr aðalbrattanum er farið yfir hól eða allhátt hæðardrag. Þegar suður fyrir það kemur, skal varast að fara ekki troðninga til vinstri eða þvert úr leið heldur fylgja þeirri reglu að fara með fram brekkunum sem áður sagði.

Áður en riðið er upp í aðalbrekkuna er farið fram hjá einstökum klettahól, sem heitir Kolluhóll, yfir læk og þar áfram upp. Þegar upp á háhálsinn kemur, verður fyrir girðing með góðu hliði. Handan hennar er farið fram hjá tjörn. Flykkistjörn, sem er á hægri hönd. Enn haldast brekkurnar til vinstri, en til hægri er landið mun lægra. Þvert á leið fellur lækur niður brekkurnar og taka þá við klapparholt. Þar er beygt til hægri og hallar hér landi allmjög niður í móti. Þá er brátt komið að öðru gili. Farið er niður með því að austan, eða með það á hægri hönd. Það nefnist Höfðagil. Er nú komið á skýra götutroðninga, sem haldast alla leið niður úr dalnum enda stutt eftir á þjóðveg hjá Höfða í Þverárhlíð.

Ef ókunnugur eru á ferð, er rétt að fara og fá nánari upplýsingar um, hvar best er að fara upp í dalinn, annað hvort á Glitstöðum eða Höfða, eftir því í hvora áttina er farið. Þó að götuslóðar séu orðnir óskýrir um þverdal þennan, háttar landslagi þar svo að vandræðalítið er að fara hann. Auður Eiríksdóttir á Glitstöðum sagði til vegar.