Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2011.
Á tíunda áratug síðustu aldar talaðist svo til milli þriggja gamalla Álfthreppinga og vina í leitum þeirra, sem síðar verða nefndir, að forða frá gleymsku dilkaskipun í Hraundalsrétt til ársins 1948, en ætla má að sú dilkaskipun hafi verið svo um langan aldur. A.m.k. heyrðum við aldrei um það talað af eldri mönnum að hún hefði verið öðru vísi.
Elstu heimildir sem ég hef séð um Hraundalsrétt eru í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar[1] og í Öldin átjánda[2] þar sem fjallað er um árið 1753.
Ennfremur segir Guðrún Ása Grímsdóttir í Árbók Ferðafélags Íslands um Hraundalsrétt: „Almenningur og milliveggir eru hlaðnir úr hraungrýti, undirstaðan rétt til fundin og grjótið látið stöðvast af sjálfu sér og falla að ójöfnum sínum, en sumir veggirnir eru hraunbrúnin sjálf. Réttin sveigist og stendur með landslaginu, er sem musteri íslenska bóndans, sáttmáli manns og jarðar.“ [3]
Þeir sem efast, eða vita ekki um forna frægð þessarar réttar er bent á að fletta upp í áðurnefndum heimildum, en þær eru of langar til að birtast hér.
Númerið tuttugu og fimm eru þar sem ævaforn réttarbrot gæti hafa verið dilkur og eru nú varla sýnileg, enda nemur loftmyndavél þau ekki. Í dag undrast ég að mér hafi ekki þótt ástæða til að nefna þessi veggjabrot í samantekt minni frá 2003.
Brotalínan milli dilka númer 20 og 21 er tilkomin vegna þess að eftir 1963 fór fjármargur bóndi, Páll Þorsteinsson í Álftártungu, að draga í þessa dilka. Þá var veggurinn á milli þeirra rifinn enda óþarfur eins og sakir stóðu. Ef til vill hefur vantað grjót til hækkunar á öðrum réttarveggjum. Slíkt væri ekki leyft í dag.

Dilkaskipun í Hraundalsrétt til 1948.
- Borgarhreppur.
- Hraunhreppur, miðsveit.
- Álftártunga og Álftártungukot.
- Hofsstaðir.
- Hraunhreppur, uppsveit.
- Urriðaá.
- Langárfoss.
- Leirulækur, (Smiðjuhóll og Leirulækjarsel).
- Straumfjörður, Knarrarnes og Vogalækur.
- Oftast ómerkingar, stundum Ytri-Hraundalur eða Grenjar.
- Syðri-Hraundalur.
- Valshamar og Háhóll.
- Grímsstaðir
- Álftárós og Krossnes
- Smiðjuhóll, (Leirulækur og Leirulækjarsel).
- Hraunhreppur, niðursveit.
- Til ráðstöfunar fyrir réttarstjóra, stundum fengu Hraunhreppingar að nota hann svo dæmi sé tekið.
- Arnarstapi, Álftárbakki og Þverholt.
- Hvítstaðir og Grenjar fyrr á tímum.
- Lambastaðir og Miðhús.
- Álftanes og ýmsu kot.
- Almenningur
- Lögrétta
- Trypparétt einnig til nota fyrir Hraunhreppinga meðan fjárrétt stóð yfir.
Dilkaskipun í Hraundalsrétt eins og hún var þegar ég man fyrst eða í kringum 1930 – 1948 að ég hætti að fylgjast með fjárdrætti þar. Brotnu línurnar setti ég þar sem réttarveggir eru en línurnar ná ekki yfir á teikingunni.
Heimildamenn um dilkaskipan í Hraundalsrétt auk Finns, Þiðriks og Árna
Að tilhlutan Finns Einarssonar fyrrverandi bónda á Gufuá fórum við, Árni, Finnur, Þiðrik Baldvinsson frá Grenjum, í ferð að Hraundalsrétt í þeim tilgangi að rifja upp dilkaskipan þar eins og hún hefði verið á árunum 1930 – 1948 eða á því tímabili sem við mundum fyrst eftir. Eftir þessa ferð fékk ég efasemdir um að minni okkar væri óbrigðult á þessu sviði og leitaði til eftirtalinna manna.
1 Fór seinna í réttina ásamt Helga Hálfdánarsonar á Valshamri, sem er mjög minnugur, og staðfesti hann margt sem ég var í vafa með og leiðrétti annað.
2 Fór með Jóhanni Sigurðssyni frá Stóra-Kálfalæk í réttina til umsagnar um þrjá Hraunhreppingadilka. Hann leiðrétti misminni hjá mér um þá og bar ég það síðan undir Odd Sigurðsson frá Stóra-Kálfalæk, sem staðfesti að þær leiðréttingar væru réttar.
3 Samtal við Hauk Þorsteinsson fyrrverandi bónda í Háhóli eyddi efasemdum um Urriðaárdilk og Hraunhreppsdilk, uppsveit. Gaf hann einnig upplýsingar um dilka inn af lögréttu og samvinnu Smiðjuhóls og Leirulækjar og Leirulækjarsels.
4 Talaði símleiðis við Axel Thorsteinsson frá Álftárósi og Jón Erlendsson frá Álftárósi um röð Álftárósdilks og Smiðjuhólsdilks.
5 Talaði við Harald Sveinsson Álftanesi (kenndur við Timburverslunina Völund), sem mundi ekki fyrir víst dilkaskipan milli Álftaness og Lambastaða, en minnti þó að Álftanesdilkur hefði verið í horninu eða nær útvegg (númer 21).
6 Síðast en ekki síst talaði ég við Eyjólfs Pétursson frá Syðri-Hraundal sem er í bernskuminni dilkaskipan í Hraundalsrétt frá þessum tíma.
Í samtali við Hauk Þorsteinsson komu fram upplýsingar um samvinnu Smiðjuhóls, Leirulækjar og Leirulækjarsels, sem fólst í því að í upphafi réttar drógu menn frá þessum bæjum í dilk númer 15, en þegar var farið að draga úr lögréttu í dilk númer 8. Eins þeir sem drógu í dilka númer 7 og 9 höfðu sig lítið í frammi við fjárdrátt fyrr en fækkaði í réttinni og búið var að tæma lögréttu. Þá drógu þeir til skiptis í hana og ráku í viðkomandi dilka á milli. Eftir fjárskiptin árið 1950-1951 breyttist fjártala á bæjum og um leið dilkaskipunin á milli þeirra.
Upplýsinga aflað á nokkrum árum kringum árið 2000 og handrit skrifað í janúar 2003.[4]
Lokaorð
Tilefni þess að ég bið Borgfirðingabók um birtingu þessar samantektar er sú að Umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar sá ekki ástæðu til að friðlýsa Hraundalsrétt þrátt fyrir tilmæli þar um.
Lilja Árnadóttir óskar eftir að fylgjandi athugasemd birtist aftan við samantekt Árna:
Í greinargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar í nóvember 2010 er vísað til þjóðminjalaga sem gengu úr gildi árið 2001 þegar ný lög þjóðminjalög tóku gildi. Samkvæmt gildandi þjóðminjalögum nr. 107 frá 2001 eru Hraundalsrétt og önnur mannvirki 100 ára og eldri sjálfkrafa friðuð sbr. 9. gr. þeirra. Það er því lögbundið að öll umgengni um mannvirkið verður að lúta því að réttin er friðuð og að óheimilt er að hrófla við henni án eftirlits Fornleifaverndar ríkisins.

[1] Sjá Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1752 -1757, Reykjavík 1981, bls. 118-119.
[2] Öldin átjánda, Reykjavík 1960, bls. 198.
[3] Guðrún Ása Grímsdóttir, Árbók Ferðafélags Íslands, Reykjavík 1997, bls. 78.
[4] Við lokafrágang þessarar samantektar janúar 2011 eru Finnur Einarsson, Þiðrik Baldvinsson, Oddur Sigurðsson, Haukur Þorsteinsson og Jón Erlendsson látnir.