
En stangaleikurinn – hægur, hljóður –
hve hann var inndæll og vær og góður.
Hann var eins og koss á vör.
Þessar ljóðlínur úr erfiljóði eftir Sigurð Jónsson frá Brún að Hesta-Bjarna látnum, en hann var kunnur hestamaður í Skagafirði, minna mig alltaf á Þórð Valdimarsson. Orsökin er sú að við Þórður vorum á hestaferðalagi ásamt fleirum. Í áningu fór einhver með framangreindar hendingar, þá fór Þórður með kvæðið allt án þess að reka í vörður.
Einhverntíma á gullaldarárum okkar Þórðar vorum við á sveitaballi í Brautartungu Lundarreykjadal. Við Þórður vorum saman við borð ásamt fleirum. Eitthvað var búið að bergja á veigum þeim sem liðka tungutak manna og fór þá einhver með síðustu ljóðlínur níunda erindis úr kvæðinu Áfangar eftir Jón Helgason:
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði.
Þá fór Þórður með alla vísuna. Ég er viss um að Þórður kunni allt kvæðið, enda mikil tilviljun ef svo hefði ekki verið. Einnig kunni Þórður mikið safn lausavísna, sem glatast hafa við fráfall hans, sérstaklega eftir föður hans Valdimar Davíðsson.
Í nokkuð mörg ár eftir að Þórður flutti í Borgarnes voru hestar hans í sumarhögum hjá okkur á Beigalda. Þá átti Þórður rauðblesóttan hest sem ekki var stórbrotinn eða háreistur gæðingur en samt góður reiðhestur sem öllum hentaði, kallaður Góði-Blesi. Þá var Guðmundur sonur okkar hjóna og frændi Þórðar 8 ára, hann mátti nota Blesa hvenær sem hann vildi. Eitt sinn hittist svo á þegar reka átti sauðfé til fjalls á Beigalda, voru um þá sömu helgi kappreiðar Dalamanna á Nesodda. Þangað fór Þórður. Þá skildi hann Blesa eftir svo Guðmundur gæti riðið honum við fjallreksturinn, enda var Þórður velríðandi þrátt fyrir það. Oft var Guðmundur búinn að sækja hesta Þórðar þegar hann kom til útreiða, þá rétti hann Guðmundi alltaf aura í þakklætisskyni. Á þeim tíma þurfti ekki háar fjárhæðir til að gleðja auralítinn dreng. Þegar Guðmundur var orðinn fulltíða maður sýndi Þórður honum mikið vinarþel sem gleymist ekki, en sýndi að hann hafði miklar mætur á frænda sínum.
Fyrir um það bil tveimur árum hringdi ég í Þórð til að kanna hvort ég færi rétt með vísu eftir föður hans. Þá var Þórður í sínu rétta formi eins og ég hafði þekkt hann áður. Ég er þakklátur fyrir þetta samtal sem minnti mig á það sem einu sinni var.
Nú er logn og léttbær kyrrð
líf að mestu blundar.
Áfram okkar hrossahirð
harða veginn skundar.
(höf.: Valdimar Davíðsson)
Góða ferð.
Árni Guðmundsson frá Beigalda