Ritað af Margréti Jóhannsdóttur Háhóli eftir frásögn Árna. Birt í Öglublaðinu 2007.
Fyrir rúmlega 80 árum var lítill strákur sem hét Árni. Hann átti heima í Álftártungu á Mýrum. Jólin voru að nálgast og Árni og systur hans hlökkuðu mikið til þeirra, þótt jólin í þá daga væru fátæklegri en nú á tímum. Þótt jólagjafirnar væru fáar og fátæklegar var spenningurinn alltaf sá sami á hverjum jólum, það var mest spennandi að sjá innihald pakkanna. Mamma krakkanna í Álftártungu sagði þeim alltaf söguna um Jesúbarnið sem fæddist í fjárhúsinu og var lagt í jötu. Krakkarnir staðfærðu atburðinn í fjárhúsin heima hjá þeim í Álftártungu, vegna þess að foreldrar þeirra voru fátækir.
Eitt sinn þegar Árni var að bíða eftir jólunum, var hann óþolinmóður eftir því að jólahátíðin gengi í garð. Hann rýndi út um stofugluggann. Þá sá hann í hálfrökkrinu þennan eftirminnilega aðfangadag, stórkostlega sýn. Jólin komu upp flóasundið neðan við túnið heima hjá honum, þar sem heitir Flaga. Þetta sá hann með eigin augum. Hann sá jólin nálgast hægt og hægt og kitlur fóru um litla magann af spenningi og tilhlökkun. Árni mátti til með að kalla á systur sínar sem voru eldri, svo þær mættu einnig verða aðnjótandi þeirrar dýrðarsýnar sem hann varð vitni að.
En þegar þau komu að gluggunum aftur, var sýnin horfin og ekkert sást nema skammdegismyrkrið. Þetta hafðist þá uppúr því að ætla að leyfa systrunum að njóta fegurðarinnar með sér. Árni sem sagt, missti sjónar á jólunum við það að hverfa frá glugganum. En hann sá nú í hendi sér og mátti vita það, að systur hans hefðu nú aldrei komið auga á slíka fegurð sem kom þarna upp Flöguna. Það eina sem upp úr góðsemi Árna hafðist þann daginn var, að systur hans minntu hann á það að hann hefði verið óþekkur fyrr um daginn og þess vegna hefðu jólin farið framhjá og myndu ekki koma á bæ þar sem svo óþekku strákur ætti heima. Þetta olli Árna litla miklu hugarangri; gat það verið að Guð sem var svo góður, eftir því sem krökkunum var sagt, að hann léti jólin hverfa þó maður hafi kannski brotið eitthvað af sér fyrr um daginn?
Í lengstu lög vonaði Árni að jólin hefðu laumast heim að bænum þegar hann sótti stelpurnar, sem hann hefði betur látið ógert. Hann vonaði að þau hefðu laumast að þeirri hlið hússins sem var gluggalaus og kæmu svo úr fylgsni sínu klukkan sex, þegar hátíðin gengi í garð. Hann var þess reyndar fullviss, að þótt jólin færu framhjá Álftártungu, kæmu þau á næstu bæi, Hraundal og Álftá. Þar voru eintóm góð börn. Árni vonaði að hann fengi að skreppa á þá bæi og fengi að njóta jólahelginnar þar, þó aðfangadagsgleðin tapaðist.
En það fór nú reyndar svo, að jólin komu á tilsettum tíma í Álftártungu þetta aðfangadagskvöld eins og önnur. En dýrðarsýnin sem Árni missti úr huga sínum og það að hann hafði verið óþægur, varð til þess að hann kvaldist af ástæðulausum ótta þennan dag. Sennilega hefur þetta verið í fyrsta sinn sem Árni skynjaði fyrir alvöru að Guð er góður og fyrirgefur misbresti mannanna hvort sem þeir eru stórir eða smáir.