Sláturhúsið – athugasemd vegna greinar

Athugasemd sem var birt í Skessuhorni, fréttablaði á Vesturlandi.

Í Skessuhorni 27. ágúst 2003 kom fram í viðtali við Axel Ólafsson framkvæmdastjóra Borgarnes Kjötvara að afköst í sláturhúsinu í Borgarnesi hefði verið þegar best lét rúmar 70.000 fjár. Þessi sláturfjártala kom einnig fram í sjónvarpsfréttum laugardaginn 23. ágúst og í viðtali við Guðstein Einarsson stjórnarformann Borgarnes Kjötvara í Morgunblaðinu mánudaginn 25. ágúst. Ég leyfi mér að gera athugasemd við framan skráða tölu þar sem sláturfjártalan var í mörg haust 80-85.000 fjár og hæst komst fjártalan þegar vantaði aðeins 3-400 að hún næði 88.000 fjár. Á þessum árum var slátrað í Borgarnesi um 10% af öllu sláturfé landsmanna. Fljótlega eftir að sláturhús K.B.B. tók upp uppi hangandi fláningu að nýsjálenskri fyrirmynd árið 1967, fékk það leyfi fyrir útflutning á dilkakjöti til Evrópu og Ameríku, í mörg ár eitt sláturhúsa á landinu. Þess vegna þegar senda þurfti kjöt til sýnis eða sölu á viðkvæma erlenda markaði var ætíð leitað til Borgarnes. Á seinni árum hefur forráðamönnum ekki sýnst ástæða til að sláturhúsið í Borgarnesi væri lengur í forystusveit hvað vinnubrögð áhrærir. Í áður tilvitnuðu Morgunblaðsviðtali telur Guðsteinn Einarsson að á síðustu árum hafi sláturhúsið hrörnað jafnt og þétt. Ef til vill er það rétt því öll hús þurfa viðhald, en ég tel að hrörnunin hafi orðið miklu mun meiri í hugarheimi þeirra manna sem þar hafa ráðið ríkjum síðan 1990.