Það var manvænlegur hópur barna sem var að alast upp í Syðri-Hraundal í Álftaneshreppi á árunum 1920-1948, en það voru börn þeirra hjóna Vigdísar Eyjólfsdóttur og Péturs Þorbergssonar, sem þar bjuggu og tóku við búskap af foreldrum Péturs, þeim Kristínu Pálsdóttur og Þorbergi Péturssyni. Í Syðri Hraundal fæddust og ólust upp átta börn þeirra hjóna, Vigdísar og Péturs, sem öll komust til manns og eru dugmikið myndarfólk.
Nú hefur það fyrsta úr systkinahópnum kvatt þennan heim, Skúli bóndi á Nautaflötum í Ölfusi, en hann lést þann 19. september síðastliðinn og er hér minnst.
Með miklum dugnaði og hjálp barna sinna eftir því sem þau komust á legg tókst þeim hjónum að brjótast úr fátækt í góðar bjargálnir og byggja upp á ábýlisjörð sinni með myndarskap og eftir þeim kröfum sem þá voru gerðar til bygginga í sveitum.
Í Syðri-Hraundal, sem er fyrst og fremst fjárjörð, bjó Pétur stóru og góðu fjárbúi. Á fjórða áratugnum reið mikið áfall yfir sauðfjárbúskap hér um slóðir þegar mæðiveikin kom upp og herjaði á fé bænda. Það var ekki einungis fjárhagstjón sem hún olli, heldur líka og ekki síður olli hún andlegu áfalli og þá sérstaklega fyrir unga menn, sem sáu ekkert nema vonleysi fram undan í atvinnugrein sinni.
Á þeim árum var ekki fýsilegt fyrir Pétur í Syðri-Hraundal að breyta yfir í mjólkurframleiðslu, þar sem jörðin er afskekkt og vegasamband þá algerlega ófullkomið til slíkra flutninga.
Árið 1948, þegar Skúli Pétursson er 29 ára, flytur fjölskyldan búferlum að Breiðabólsstað í Miðdölum. Ekki hefur það verið sársaukalaust fyrir þau að fara frá Syðri-Hraundal, en ungu og framagjörnu fólki hefur sjálfsagt þótt lítil framtíð þar í baráttu við sauðfjárpestir, vegleysur og einangrun.
Það var mikil blóðtaka sem Álfthreppingar urðu fyrir vorið 1948, þegar allt hið mannvænlega fólk í Syðri-Hraundal flutti úr sveitinni ásamt fleira ungu fólki það vor og þau næstu.
Þó segja megi að fjölskyldan frá Syðri-Hraundal hafi reist bú sitt um þjóðbraut þvera þegar komið var að Breiðabólstað var þrá Skúla Péturssonar og bræðra hans um breytta og bætta búskaparhætti ekki fullnægt með því. Áfram skyldi haldið á framfarabraut í því efni. Og þegar landnám ríkisins hófst handa um stofnun nýbýla urðu þeir Skúli og bræður hans fyrstu landnemarnir undir Ingólfsfjalli og nefndu býli sitt Nautaflatir.
Þegar hér er komið sögu slitna tengsli mín við hið ágæta fólk, en mér er kunnugt um að ávallt var haldið til tæknivæddra búskaparhátta og hverri nýjung í búskap tekið opnum huga.
Bernskuminning mín um Skúla Pétursson er bundin krækiberjum á Bæjarfjalli og Litursstaðahlíð, aðalbláberjum, bláberjum og hrútaberjum á Selfjalli og í Hraundalshrauni.
Æskuminningin er aftur á móti bundin þyt í laufi, grasi og gróðri og vorilmi í lofti, smalamennskum og vorrúningu, þegar sólin var komin hátt á himin á nýjum degi er haldið var til hvíldar og lambajarmur kliðaði fyrir eyrum uns svefni var náð. Hún er einnig bundin göngum og réttum á hausti og ýmsu fjárragi þegar hausta tók að. Þá var Skúli fótfráastur allra, enda ekki fyrir neina aukvisa að fylgja honum á göngu ef svo bar undir, hvort heldur var í brattlendi eða á jafnsléttu.
Skúli Pétursson féll frá á þeim tíma árs þegar riðið skyldi til fjalls og afréttir smalaðir. Þá eins og nú var tilhlökkun til leitanna mikil, og ekki sakaði að komast í einhverja örðugleika og sigrast á þeim.
Nú hefur Skúli lagt í sína hinstu ferð. Ég trúi því að hann hafi á andlátsstund sinni eygt sólfagra dalinn í vestri, hugur hans tekið snarpan sprett upp bratta brekku og af þeirri útsýnishæð séð „sólu fegri á súlum standa höll“ og haldið svo beint til framtíðarlandsins.
Samúðarkveðjur systkinanna frá Álftártungu til þeirra sem um sárt eiga að binda við fráfall Skúla Péturssonar.
Árni Guðmundsson