Skólaferðalag með nemendur í Varmalandi

Þessi grein var í fórum Árna en hefur eftir því sem best er vitað hvergi verið birt.

Sú nýbreytni var gerð á tilhögun skólaferðalags efstu bekkja Varmalandsskóla í vor að fara í ferðalag á hestum. Þessi tilbreyting var skemmtileg og þjóðleg auk þess sem nemendur fengu innsýn í þá veröld sem ferðafólk á hestum lifir í og er að öllu leyti mjög frábrugðin þeim ferðalögum sem stofnað er til á vélknúnum farartækjum.

Ferðin hófst frá Munaðarnesi í Stafholtstungum þriðjudaginn 4. júlí 1995, en þangað höfðu sumir þátttakendur komið með hesta sína kvöldið áður, en aðrir sama morguninn og þá e.t.v. í jeppakerrum.

Frá Munaðarnesi var riðið um Stóru-Skóga, fram hjá Stapaseli og langleiðina að Múlakoti en þetta eru eyðibýli í Stafholtstungum. Mörgum þótti ótrúlegt að þarna hefði einhvern tíma verið akfær vegur, en þarna lá vegurinn að Múlakoti og Jafnaskarði fyrst eftir að bílfært varð á þessa bæi. Þegar komið var í gegnum hlið á skógræktargirðingu, sem spannar yfir stærsta hluta ystu Stafholtstungurnar var beygt til vinstri með brekkum á hægri hönd að Þinghólsrétt sem var lögskilarétt  Borghreppinga þar til hún var færð að Svignaskarði.

Á leiðinni meðfram áðurnefndum brekkum eru skýrar og góðar reiðgötur um skógi vaxið land en svo mikil framför er í skóginum þarna að erfitt er um að ríða, a.m.k. þegar teyma þarf lausa hesta e.t.v. tvo, og er þetta þó utan hins friðaða svæðis. Hver var svo að tala um, að landið okkar væri alls staðar að blása upp.

Þinghólsrétt sem einu sinni var, dregur nafn sitt af Þinghól þar sem þing var haldið á fyrstu öldum byggðar í landinu eftir að menn sömdu lög í landi. Þar er líka nefnd til sögunnar Þingbrekka. Þarna var Þorsteinn  Egilsson á Borg staddur þegar á hann sótti svefn og dreymdi drauminn fræga, sem austmaðurinn, sem með honum var, réð fyrir ástamálum ófæddrar dóttur Þorsteins, Helgu hinnar fögru, sjá Gunnlaugssögu Ormstungu. Þjóðminjasafn Íslands hefir friðlýst þennan sögufræga stað ásamt veggjabrotum hinnar fornu réttar.

Nestisbíll ferðarinnar kom á staðinn og ferðfólkið tók vel til matar síns.

Frá Þinghólsrétt var riðið í vestur meðfram Gljúfurá eftir hinni fornu leið, sem hét Skarðsheiðarvegur vestari en fjalllendið sem fram undan er var á allvíðáttu miklu svæði nefnt Skarðsheiði vestari og enn í dag eru örnefni á þessum slóðum kennd við hina fornu nafngift, má þar til nefna Heiðarvað yfir Langá, Heiðarhyli í sömu á og Heiðarsund innst á Grenjardal.

Stutt var farið eftir Heiðarvegi en beygt út af honum þegar komið var yfir Gljúfurá í svonefndum Nautakrók og haldið niður Valbjarnarvallamúla og áð við Topphólsfljót í Gljúfurá. Eftir að fjallendi lauk var haldið vestur með Múlum sem kallað er.

Ég kenndi nokkurs kvíða fyrir því að fara yfir Langá á Sveðjuvaði, en það er ávallt talið viðsjárvert ef einhver vöxtur er í ánni vegna klappa og flúða sem þar eru og nálægðar fossbrúnarinnar þ.e. Sveðjufoss. Í áningu vestan Litla-Fjalls var ferðalöngum gefnar ráðleggingar um þegar riðið er yfir ár og ákveðið ef einhver vöxtur væri í ánni að ríða niður með henni að sunnan og yfir hana á svonefndu Lækjarósvaði sem er ágætt vað. Þegar að Langá kom reyndist mjög lítið vatn í henni og fórum við óhrædd yfir hana á Sveðjuvaði. Þá var örstutt eftir í náttstað að Grenjum. Vel hafði ræst úr veðri þennan fyrsta dag ferðalagsins þótt rigningarlegt væri. En veðurguðirnir voru hliðhollir hinu unga ferðafólki, sem var að öllu leyti vel búið og tilbúið að takast á við og verjast íslenskri veðráttu.

Á Grenjum, bóndabýli í Álftaneshreppi, sem hefir verið í eyði í nokkur ár, er góð aðstaða til gistingar fyrir hesta, nægur hagi og vatn, og fyrir menn, svefnpoka aðstaða í húsi. Samt sem áður tjölduðu ungir þátttakendur ferðalagsins en þeir eldri sváfu í húsi. Óvenju mikla rigningu gerði kvöldið fyrir hina fyrri gistinótt en þrátt fyrir það leið öllum vel um morguninn. Þetta fyrra kvöld voru matreiddar grillaðar pylsur og ósleitilega tekið til matar.

Annan dag ferðarinnar var áætlunin að ríða að Ytri-Hraundal, inn Hraundal með viðkomu hjá leitarmannahúsi Álfthreppinga við Lambafell og niður Grenjadal. Sú áætlun stóðst.

Um morguninn þegar blundi var brugðið hafði stytt upp rigningu og ferðaveður hið ákjósanlegasta, nokkur sterk suð-vestan gola, ekki hlý, samt til bóta fyrir menn og hesta sérstaklega með tilliti til mýbits sem er mjög mikið á ferðaleið þessari. Mjög vel gekk að ná hestum og koma sér af stað og riðinn gamli vegurinn að Grenjum, sem er nær Grenjamúla og vestar Grímsstaðamúla en nýji vegurinn, sem lagður var fyrir allmörgum árum, en þá gefst betra tækifæri á að virða fyrir sér einkennilega klettamyndanir í múlunum og veðrun í þeim. Einnig var riðið ofangarðs á Grímsstöðum og útsýnis notið niður og vestur Mýrar og til fjallgarðsins út Snæfellsnes sem endar á Snæfellsjökli.

Rétt sunnan Syðri-Hraundals var komið við í Hraundalsrétt þar sem munnmæli herma að réttað hafi verið fé af miklu stærra svæði en nú er og menn rekið þaðan til allra átta. Um þetta er að finna í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og sá kafli er birtur orðréttur í bókinni Áfangar, 2. bindi sem er ferðahandbók hestamanna og Landssamband hestamannafélaga gaf út 1994. Eftir góða áningu í Hraundalsrétt, sem hætt var að nota þegar hlutverk hennar var flutt í nýja rétt að Grímsstöðum, var riðið að Ytri-Hraundal, þangað kom nestisbíllinn, ef svo hefði viljað til að einhverjir hefðu ekki tekið nóg nesti til dagsins. Þá var riðið inn Hraundal yfir svonefnda Rauðhálsa, áð við Slýdalstjörn og nesti dagsins tekið upp. Þá var haldið inn Slýdali, eftir greiðum götum með fram Lambafelli, stansað við minnismerki Sveins Sveinssonar frá Hvítsstöðum, en hann varð bráðkvaddur á þeim stað við fjárrekstur til fjalls vorið 1955. Nokkru innar er svo leitarmannahús Álfthreppinga. Eftir stuttan stans þar var haldið niður Grenjadal. Nú var farið að hvessa af norðri og því kærkomið að ferðinni skyldi ekki haldið lengra og undan veðrinu að sækja það sem eftir var leiðar.

Ég hef alltaf heyrt að á Grenjadal hefðu verið tvö kotbýli en skrifaðar heimildir minnast einungis á eitt. En víst er um það að örnefnin eru tvö, Innra-Kot og Neðra-Kot og samnefnd gil hjá báðum.

Svo óhönduglega hefur viljað til þegar rutt var fyrir bílfærri slóð inn Grenjadal var ýtt yfir sjáanlegar mannvistarleifar í Innra-Koti en þó sést fyrir hringlaga tóft sem sloppið hefur, vestan vegar þegar upp er komið allbratta brekku þar sem rústirnar voru.

Ætlunin var að á þarna hestum, sýna fólki þessi einu veggjabrot sem eftir standa, en svo óheppilega vildi til að nú hvessti allverulega af norðri og yfirdreif haglél svo erfitt var að hemja hestana og sama veður hélst þegar riðið var framhjá Neðra-Koti, en þar eru mjög skýrar og áberandi rústir og grasigrónar veggjahleðslur.

Þegar að Grenjum var komið voru tjöld farin að fjúka upp og Kristinn nestisbílstjóri búinn að bjarga einhverjum þeirra frá skemmdum. Er skemmst frá því að segja að taka þurfti öll tjöldin upp að einu undanskyldu sem var í skjóli við íbúðarhúsið og öðru var tjaldað þar aftur í skjöli. Öllum var svo komið fyrir í húsinu um nóttina þó þröngt yrði. Ég er sannfærður um að þetta atvik verður til þess að gera ferðina eftirminnilega eða kannski ógleymanlega.

Þegar komið var í áfangastað var fólkið orðið meira og minna matlystugt, en svo vildi til að afgangur varð af pylsunum kvöldið áður og sárasta hungrið deyft með þeim, þar til dilkalærin sem grilluð voru til kvöldverðar voru tilbúin.

Þriðja dag ferðarinnar var riðið að Svignaskarði þar sem hinni formlegu ferð lauk. Vel gekk undirbúningur brottfarar síðasta daginn en nú þurfti að taka saman allar ferðaföggur, skúra gólf og skilja við staðinn svo sem virðingu okkar var til sóma.

Ákveðið var að ríða niður með Langá að vestan og fara hana á Lækjarósvaði til tilbreytingar en á leiðinni upp með henni að sunnan sést nokkuð vel til Sveðjufoss. Ekki var hægt að stíga af baki og skoða fossinn og gljúfrið sem áin fellur í neðan hans en norðan hvassviðrið gerði þá áætlun óframkvæmanlega vegna óróa í hestunum. Eftir 2-3 tíma ferð var komið að Svignaskarði þar sem hinni formlegu ferð lauk. Þar voru komnir foreldrar sumra barnanna sem tóku hesta í jeppakerrur en aðrir héldu áfram ríðandi til síns heima. Ekki náðu samt allir heim um kvöldið vegna norðan stormsins sem ekki hafði lægt.

Þar með lauk ferðalagi sem margir hafa eflaust hlakkað til og beðið með eftirvæntingu. Ferðalagi og reynslu sem allt í einu heyrði sögunni til og vonandi verður minnisstæð í hugum allra jafnt þátttakenda og stjórnenda

Þakklátur hugur stefnir til Katrínar og Haraldar í Munaðarnesi fyrir sjálfsagða fyrirgreiðslu og hlýlegt viðmót.

Veg og vanda af þessu ferðlagi höfðu og voru með í ferð: Flemming Jessen, skólastjóri, Ingibjörg Daníelsdóttir, kennari, Guðrún Fjeldsted, Ölvaldsstöum og höfðu þau ennfremur veg og vanda af allri matseld sem tókst í alla staði af mikilli prýði og svo Árni Guðmundsson frá Beigalda sem var blessunarlega laus við allt sem tilheyrði hinni frumstæðu þörf okkar hvað næringu snertir nema sjá um eigin munn og maga. Síðast en ekki síst má minnast nestisbílstjórans Kristins Egilssonar, Örnólfsdal sem af alkunnri lipurð leysti hvers manns vanda og rakti starfið með mikilli prýði og samviskusemi. Að endingu skal þess getið að ferðaleiðum þessum er öllum lýst í Áföngum 2. bindi ferðahandbók L.H. sem getið er um í greininni á einum stað.