Saga Ungmennafélagsins Egils Skallagrímssonar

Ræða flutt á 70 ára afmæli félagsins, í Lyngbrekku 1980. Fyrir neðan ræðuna eru nokkrar myndir úr ferðlögum félagsins sem Árni var búinn að merkja og setja í albúm.

Ungmennafélagið Egill Skallagrímsson var stofnað 19. júní 1910. Á þessum fyrstu árum þess lét það mjög til sín taka ýmis velferðar- og áhugamál sveitarinnar. Þó starfar félagið að miklu leyti sem málfundafélag þar sem lagðar eru fyrir fundamenn verkefni til framsögu svo sem venja er í málfundafélögum. Á öðrum fundi 10. júlí er talað um að stofna glímufélag. Samþykkt er að gefa út félagsblað sem enn í dag er við líði. Þá var mikill áhugi á verndun móðurmálsins sem er enn eitt meginmarkmið ungmennafélaganna og kosin mállýtanefnd. Samþykkt tillaga um stofnun söngflokks, framsöguræða um þegnskylduvinnu sem þá var mikið á dagskrá þjóðarinnar allrar. Á fundi 28. ágúst 1910 lætur félagið bókasafnsmál til sín taka og samþykkt að leggja sitt af mörkum til endurreisnar lestrarfélagsins Stjarnan eins og það er orðað. Á 4. fundi 2. okt. 1910 er svo samþykkt að stofna lestarfélag sem allir, jafnt utanfélagsmenn sem innan hefðu aðgang að. Skógræktarmál eru þá tekin til umræðu.

25. mars 1911 er samþykkt að efna til hlutaveltu í félagi með ungmennafélaginu í Hraunhreppi og er það að sjálfsögðu fyrsta tilraun með samvinnu þessara félaga. Á fundi 10. sept. 1911 sést fyrst hvað félagsblaðið heitir s.s. Hákur en hvergi er að sjá bókun um að sú nafngift hafi verið samþykkt. 15. feb. 1912 kemur fyrst á dagskrá félagsins umræður um fundahúsbyggingu, einnig á þeim fundi gerð samþykkt um að leita sér að bletti til friðunar skóglendis. 16. júní 1912 var samþykktur samningur milli félagsins og Jóns hreppstjóra Hallssonar Smiðjuhóli um landspildu til skógræktar. Til marks um hve áhugamál félagsins voru víðfeðm er að á þessum fundi er einnig samþykkt að stofna grasafræðifélag innan félagsins sem hafi það markmið að félagar þess safni grösum og sjaldgæfum jurtum til nota við barnakennslu á vetrum. 1. sept. 1912 samþykkt tillaga um sölu á hlutabréfum ef til húsbyggingar kemur. Á næstu árum eru viðfangsefnin á fundum félagsins forvitnileg og væri freistandi að telja upp hin margvíslegu og frumlegu efni sem framsögumenn velja sér til umræðu en slíkt yrði of langt mál. 19. júlí  1919 er hafið máls á merku máli sem sýnir að ungmennafélagið lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi því þá er samþykkt tillaga um samvinnu við hreppinn um möguleika á vegalagningu neðan til í hreppnum. 20. júní 1920 er samþykkt að stofna húsbyggingarsjóð með 1000 kr framlagi ungmennafélagsins sem ekki hefur verið nein smá upphæð í þá daga. 19. mars 1922 er samþykkt nýmæli. Það er um hvort tiltækilegt sé að stofna sjúkrasamlag í hreppnum. 12. ágúst 1925 er samþykkt tillaga um kynningamót ungmennafélaga í Hraun- og Álftaneshrepp. 26. júní 1927 halda Ungmennafélagið Björn Hítdælakappi og Egill Skallagrímsson sameiginlegan fund að Leirulæk og þá rætt um möguleika á samstarfi sem yrði fólgið í því að halda sameiginlega samkomu einu sinni á sumri til skiptis í hreppunum. Ekki munu forráðamenn félaganna þá hafa órað fyrir hinu farsæla og góða samstarfi sem þessi ungmennafélög stóðu að seinna og stendur enn á traustum grunni. Á fundi 12. ágúst 1928 er i ræðu stungið upp á skemmtilegu nýmæli sem ég get ekki stillt mig um að rifja upp en það er í umræðum um hvar skólinn yrði byggður sem seinna var valinn staður í Reykholti. Orðrétt úr fundargerð: „ræðumaður taldi ekki sama hvar skólinn væri byggður, vildi hafa hann í miðju héraði þar sem íþróttamótið væri haft og prýða þann stað verulega og hafa þar skemmtanir jafnvel á hverjum sunnudegi, lána skólann frítt til afnota fyrir skáld og listamenn gegn því að þeir skemmtu með list sinni á sunnudögum“. Það er gaman að hugsjónum jafnvel þótt þær séu andvana fæddar. Síðasta fundargerð sem bókuð er í þessum kafla ungmennafélagsins er frá 14. febr. 1930. Eftir það lenti ungmennafélagið í öldudal sem það lyfti sér ekki upp úr fyrr en 1940. Þó man ég eftir starfsemi ungmennafélgsins á þessum áratug sem ég heyrði talað um á bernskuárum mínum og man eftir einni skemmtiferð þar sem farið var ríðandi að Kattarfossi í Hítará til móts við ungmennafélagið Björn Hítdælakappa. Þetta er mér minnistætt vegna þess að heima í Álftártungu gisti fólk neðan af Mýrum nóttina fyrir umræddan dag og gat ég talið það upp með nöfnum. Sumt af því er horfið bak við móðuna miklu en aðrir meðlimir þessarar ferðar sem gistu heima eru enn í fullu fjöri. Ég tel þessa þátttakendur ekki upp vegna þess að i upphafi við samantekningu þessara hugleiðinga ákvað ég að nefna engin nöfn. Þar er svo vandratað sundið milli skers og báru. En ef einhver hefir í fórum sínum bókanir félagsins frá þessum áratug væri það mikils virði að fá þær fram í dagsljósið því nóg rúm er í fundargerðarbókinni eldri.

Áratugurinn 1930-1940 reyndist þungur í skauti fyrir starf og hugsjón margra ungmennafélaga. Á þessum árum skall yfir landið heimskreppan mikla sem Íslendingar fóru ekki varhluta af þrátt fyrir dugnað og elju hinna merku stjórnmálamanna sem uppi voru á þessu tímabili og leiddu þjóðina til margvíslegra, bæði verklegra og andlegra, framfara s.s. byggingu skóla, brúalagningu svo eitthvað sé nefnt. Greip samt um sig vonleysi og áhugaleysi meðal almennings í landinu. Það er skoðun mín að þessar kringumstæður hafi lamað félagslegt viðnám þess fólks sem að félagsmálum ungmennafélaga stóðu. En hvað sem um það er þá varð þetta tímabil öldudalur í starfi margra ungmennafélaga, svo fór einnig fyrir ungmennafélaginu Egill Skallagrímsson. En þegar líða tók á síðari hluta þessa áratugs komu upp raddir um það að ekki væri vandalaust fyrir sveit eins og Álftaneshrepp með svo mörgu ungu og lífsglöðu fólki með takmarkalausan vilja til að gera gagn á hinum félagslega vettvangi svo og með brennandi löngun til að halda uppi félagsskap til gagns og gamans að endurreisa ekki ungmennafélag sveitarinnar. Enda fór það svo að sú alda sem reis upp úr aldamótum 1939-1940 varð ekki stöðvuð enda man ég ekki neinar raddir sem höfðu hug á að lægja hana á einn eða annan hátt.

Það var því stór dagur dagurinn 5. maí 1940 þegar Ungmennafélagið Egill Skallagrímsson var endurreist. Þann dag man ég eins og hann hefði verið í gær og þær hugrenningar sem læstu sig í sál minni þar sem ég mætti í fyrsta sinn á fund þar sem viðhafðar voru almennar fundarreglur. Á þessum fyrsta fundi las Einar Sigmundsson upp lög ungmennafélagsins og voru þau rædd. Í fundargerð sést að einhver ágreiningur hefur verið um þau sem síðan verður til þess að kosin er bráðabirgðastjórn sem hafði það verkefni eitt að athuga lög félagsins og samræma þau lögum annarra ungmennafélaga og boða til annars fundar sem var haldinn 2. júní sama ár, einnig að Urriðaá. Á þeim fundi verða umræður um formsatriði hins endurreista félags gagnvart því félagi sem áður starfaði. Á þessum fundi og þeim næsta 15. sept sama ár er endanlega gengið frá þeim formsatriðum sem allir máttu vel við una og hefir dugað félaginu fram á þennan dag. Á þessum næstu árum var félagslíf fábrotið og eingöngu bundið við fundahöld og einhverja skemmtun í sambandi við þau. Á fyrstu árunum eftir 1940 starfaði félagið svo sem áður að nokkru leyti sem málfundafélag þar sem kosnar voru verkefnanefndir þar sem menn héldu framsöguræður um hin margvíslegustu málefni, lögðu fram spurningar hver fyrir annan og síðan leyfðar umræður á eftir. Margir hafa eflaust stigið sín fyrstu spor í ræðumennsku á þessum málfundum ungmennafélagsins með öllu því átaki sem því fylgir enda hafa ungmennafélögin verið einhver sá besti félagsmálaskóli sem völ er á.

Strax á þessum árum er talað um margvíslegar fjáröflunarleiðir svo sem áður til þess að ná því marki að eignast þak yfir höfuðið og kosnar fjáröflunarnefndir. Haldnar voru hlutaveltur en þó öllu heldur bögglauppboð sem venjulega var haft í sambandi við böll sem svo voru nefnd þá en varla mundi æskufólk í dag kalla þau því nafni. Ekki var um annað húsnæði að ræða en þegar vinsamlegir húsráðendur leyfðu slíkt í heimahúsum. Þau heimili sem leitað var til til þessara hlut var fyrst og fremst Urriðaá þar sem meðlimir félagsins voru alltaf velkomnir í hvert sinn sem sinna þurfti málefnum félagsins. Þá var á Smiðjuhóli stundum fengið inni með samkomur, eins á Valshamri og í  Álftártungu. Um tíma var mikið um það rætt að félagið kæmi sér upp aðstöðu til útisamkomuhalds og kæmi sér upp danspalli í fjáröflunarskini til að ná því takmarki að eignast þak yfir starfsemi sína. En áður en að því kom buðu þau Urriðaárhjón félaginu að innrétta ófullgerða viðbyggingu við Urriðarárhúsið. Þetta höfðinglega boð var tekið tveim höndum og hætt við aðrar hugrenningar í sambandi við aðstöðu til útisamkomuhalds.

Árið 1943, síðasta vetrardag, bauð ungmennafélagið Borg Borgarhreppi ungmennafélaginu Agli Skallagrímssyni til umræðufundar og að honum loknum til skemmtunar í skólahúsi Borghreppinga að Brennistöðum. Þar var rætt um að koma á samstarfi þessara félaga í einni eða annarri mynd og þá helst í íþróttamálum um sameiginleg íþróttanámskeið og fleira. Um þetta samstarf hefur farið nokkur tími í umræður á fundum félagsins á næstu árum en aldrei orðið neitt úr athöfnum enda beindist áhugi ungmennafélagsins von bráðar til annarrar áttar um samstarf sem haldist hefur æ siðan.

Á fundi félagsins að Urriðaá 31. jan 1943 er samþykkt tillaga um að félagið komi sér upp skógræktarreit eins og það er kallað í tillögunni og undir vorið verður fyrir valinu ás í Urriðaárlandi sem heitir Þernuklettur og þar hafist handa um friðun með aðstoð frá Skógrækt Ríkisins svo sem lög mæla fyrir. 30. des 1944 er svo gengið formlega frá gjafabréfi Sigurðar Guðjónssonar Urriðaá til handa ungmennafélaginu á fyrrnefndum ás. Hér sem svo oft fyrr og síðar voru Urriðaárhjónin hinir sönnu vinir og hjálparhellur ungmennafélagsins sem vildu veg þess og virðingu sem mesta. Þennan ás lít ég á sem heilög vé og það sem mér hefir þótt vænst um í starfi mínu fyrir ungmennafélagið. Á þessum árum verða á fundum félagsins nokkrar umræður um byggingu skólahúss fyrir Álftanes- og Hraunhrepp með aðstöðu ungmennafélaga í Hraun- og Álftaneshreppi í fyrirhuguðu íþróttahúsi þess. Á fundi 7. nóv 1943 er skýrt frá sameiginlegum fundi skólanefnda og stjórna ungmennafélaga í Álftanes- og Hraunhreppi um byggingu skóla og íþróttahúss. Á þessum fundi eru kosnir 4 menn er vinni að þessum málum ásamt stjórn félagsins. Á aðalfundi félagsins 30 des. 1944 barst tilkynning frá Bjarna Ásgeirssyni þingmanni Mýramanna sem fyrr á árum var mikill velunnari félagsins um að hann gæfi ungmennafélaginu Agli Skallagrímssyni og ungmennafélaginu Birni Hítdælakappa samkomuskála sem byggður hafði  verið á hernámsárunum í landi Reykja i Mosfellssveit. Gefandinn hefir þó séð að ekki mundi þetta verða framtíðarlausn í húsnæðismálum félaganna og setti þau skilyrði að ¼ hluti seldra aðgöngumiða renni í húsbyggingasjóð skóla- og íþróttahúss sem ungmennafélögin hefðu aðgang að og einnig að skólanefndirnar fengju ókeypis aðgang að húsinu ef þær vildu efla byggingasjóð væntanlegs skólahúss. Samþykkti Egill Skallagrímsson fyrir sitt leyti. Við tilkomu samkomuskálans verða straumhvörf í tekjuöflunarmálum félagsins til byggingar varanlegs samkomuhúss. En um byggingu skólahúss er það að segja að um þetta leyti og nokkru seinna tóku þau byggingamál aðra stefnu sem er kunn og allir una viðEnda þótt þessi gjöf hafi verið þegin voru ekki allir ánægðir og allir voru sammála um að við svo búið mætti ekki lengi una og hefjast handa eins fljótt og auðið yrði á nýju félagsheimili. Samt sem áður og eftir á að hyggja hefir þetta bráðabirgðahúsnæði verið til mikillar blessunar fyrir félögin, þar sem þau hefðu ef til vill ráðist í það að byggja félagsheimili á þessum tíma sem hvergi nærri hefði svarað nútímakröfum. En þetta varð þó til þess að bygging þessa veglega félagsheimilis sem við erum nú í dróst nóg á langinn til þess að það svarar kröfum tímans enn en ekki það lengi að verðbólgan væri búin að rýra krónuna okkar að nokkru marki.

21. feb. 1945 komu svo húsbyggingarnefndir ungmennafélaganna Egils og Björns til sameiginlegs fundar að Arnarstapa og höfðu þá bæði félögin samþykkt hvort í sínu lagi að veita gjöfinni viðtöku. Kom strax fram á þeim fyrsta fundi að mögulegt yrði að fá byggingarleyfi í Arnarstapa eins og raun varð á. Á þessum fundi hófst samstarf tveggja félaga að sameiginlegu marki sem helst enn í dag. Segja má að eftir byggingu samkomuskálans hafi hafist blómaskeið í félagslífinu og ýmislegt gert til gagns og gamans og í nokkur ár var það venja að ungmennafélagið Egill Skallagrímsson bauð Hraunhreppingum og öðrum sveitum með sér til samkomu síðasta vetrardag þar sem fram fóru leiksýningar, upplestrar, dans og önnur skemmtan Til gamans fyrir ungt fólk í dag má geta þess að nokkru áður hafði ungmennafélagið fest kaup á grammófóni ásamt plötusafni til hljómflutninga fyrir dansi en þetta voru þeirrar tíðar „diskótek“ og okkur þótti eins mikið til þess koma þá eins og ungu fólki með fullkomnum hljómflutningstækjum í dag. Allt frá upphafi hafa íþróttamót verið mikið á dagskrá funda hjá ungmennafélaginu og um nokkur ár í kringum 1960 voru íþróttakeppnir haldnar á milli ungmennafélagsins Egils Skallagrímssonar og Björns Hítdælakappa á hinum svo að segja sjálfgerðu íþróttavöllum við sjávarsíðu þessara sveita. Þessar keppnir munu hafa lagst niður nú um sinn en óskandi væri að þær yrðu teknar upp að nýju.

Umræður um byggingu nýs samkomuhúss eru samkvæmt fundargerðum fyrst opnaðar á fundi í félaginu 10. feb 1952 sem haldinn var að Urriðaá, urðu litlar umræður um málið. Enn er vakið máls á húsbyggingu á fundi 21. marss 1953. Þá eru húsbyggingarmálin á dagskrá á öllum fundum þar til samþykkt er aðild að félagsheimilisbyggingunni  ásamt u.m.f. Birni Hítdælakappa og hreppsfélögum Hraun- og Álftaneshrepps á fundi að Arnarstapa 12. júní 1955.

Var þá stigið mikilvægt spor í sögu ungmennafélagsins sem telst til þessa merkasta í sögu þess. Þegar svo nokkru síðar er hafist handa með verklegar framkvæmdir eru framlög og sjálfboðavinna ungmennafélaga mikil og margir hafa lagt fram fórnfúst starf gefið af góðum hug. Slík er saga allra félaga hvaða nafni sem þau nefnast. Velferð þeirra er í beinu samhengi við fórnfúst starf einstaklinganna sem mynda félagsheildirnar.

Nú gæti ég látið máli mínu lokið þó vildi ég bæta því við að það er einkennandi fyrir þetta félag hvað það hefir verið lánsamt með alla málsmeðferð og framkvæmd mála. Það er eins og allar gerðir þess hafi beinst óbeint að einu og sama takmarkinu og þó stundum hafi verið teknar umdeildar ákvarðanir þá hafa þær ávallt vísað til réttrar áttar.

Saga Ungmennafélagsins Egils Skallagrímssonar verður eflaust skráð á viðunandi hátt í framtíðinni hvað ytri umgjörð áhrærir. En saga þeirrar vonar sem hver einstaklingur bar í brjósti, sérstaklega á árdögum félagsins þegar ungt fólk fylkti sér um félagsstofnun með því takmarki að vinna undir kjörorðinu „Íslandi allt“ verður aldrei skráð, ekki heldur innri barátta einangraðs æskupilts eða stúlku sem brýtur allar brýr að baki sér og kveður sér hljóðs í fyrsta sinn. Enn í dag er það talið af félagsmálamönnum mikið átak hvað þá fyrir 70 árum þegar unglingar sem bjuggu við einangrun og fásinni áttu í hlut. Saga ungmennafélagsins er samtvinnuð sögu æskufólksins í sveitinni, saga þess er saga æskunnar og saga æskufólksins er saga félagsins.

Þegar ég var að taka saman þetta ágrip af sögu félagsins komu mér í hug ljóðlínur úr hálfgleymdu kvæði Jakobs Smára:

              Nú heyri ég minnar þjóðar þúsund ár
              sem þyt í laufi á sumarkvöldi hljóðu.

Það rifjuðust upp fyrir mér hálf gleymdar æskuminningar sem eru mér dýrmætari en flest annað og þessir gleymdu atburðir runnu svo ljóslifandi upp fyrir mér að mér finnst eins og sumt af því hafi gerst í gær.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri á að rifja upp þessar æskuminningar mínar og vona einnig að þið hafið haft gagn og gaman af.

Ég óska ungmennafélagi Egils Skallagrímssonar til hamingju með æviárin sem ávallt eru síung og óska þess gæfu og gengis á ókomnum árum með þá ósk að það verði ætíð sami vaxtarbroddur í lífi æskufólksins í sveitinni sem hingað til.

Nokkrar myndir úr ferðlögum félagsins sem Árni var búinn að merkja og setja í albúm.

Ferðalag Umf. Egils Skallagrímssonar á hestum í Hítarhólm sumarið 1941. Efri röð f.v. Hallur Jónsson Hofsstöðum, Haukur Þorsteinsson Urriðaá, Skúli Pétursson Syðri Hraundal, Karl Ólafsson Álftártungukoti, Jón Sveinsson Urriðaá, Árni Guðmundsson Álftártungu. Neðri röð f.v. Helgi Hálfdánarson Valshamri, Haraldur Guðjónsson Kvíslhöfða, Ragnar Thorvaldssen Urriðaá
Ferðalag Umf. Egils Skallagrímssonar á hestum í Hítarhólm sumarið 1941. Jóhanna, Erla, Kata, Sigga Valshamri, Helga, Gunna, Hallur, Sigga í Koti, Rósa, sést í hvítan hárborða, Anna, Jón, Haukur að súpa á könnu, Kalli, Árni, Helgi, Halli, Raggi, Skúli. Júlla tók myndina.

Ferðalag Umf. Egils Skallagrímssonar á hestum 1942. Farið var inn Skorradal, gist í hlöðu á Háafelli, síðan haldið yfir hálsinn milli Efsta-Bæjar og Englands og niður Lundareykjadal.
Ferðalag Umf. Egils Skallagrímssonar á hestum 1942. Farið var inn Skorradal, gist í hlöðu á Háafelli, síðan haldið yfir hálsinn milli Efsta-Bæjar og Englands og niður Lundareykjadal. Efri röð frá vinstri: Guðrún Pétursdóttir Syðri-Hraundal, Valgerður Anna Guðmundsdóttir Álftártungu, Sigríður Hálfdándardóttir Valshamri, Helga Guðónsdóttir Kvíslhöfða, Kristín Pétursdóttir Syðri-Hraundal. Neðri röð frá vinstri: Katrín Pétursdóttir Syðri-Hraundal, Erla Þórðardóttir Krossnesi, Jóhanna Hálfdánardóttir Valshamri, Sigríður Ólafsdóttir Álftártungukoti, Elín Baldvinsdóttir Lambastöðum.
Félagar úr Umf. Egils Skallagrímssonar á ferðalagi að fjallhúsi Álfthreppinga við Lambafell sumarið 1943. Efst: Halldór Þorkelsson Álftá. Miðröð: Skúli Pétursson Syðri-Hraundal, Árni Guðmundsson Álftártungu, Haraldur Guðjónsson Kvíslhöfða, Baldur Leópoldsson Lambastöðum. Neðst: Elín Baldvinsdóttir Lambastöðum, Elísabet Pálsdóttir Syðri-Hraundal, Soffía Pétursdóttir Syðri-Hraundal, Anna Guðmundsdóttir Álftártungu, Helga Guðjónsdóttir Kvíslhöfða, Elin Brynjólfsdóttir Lambastöðum, Gunnar Sigurðsson Leirulækjarseli. Myndin tekin upp á Lambafelli.
Félagar úr Umf. Egils Skallagrímssonar á ferðalagi að fjallhúsi Álfthreppinga við Lambafell sumarið 1943
Félagar úr Umf. Egils Skallagrímssonar á ferðalagi að fjallhúsi Álfthreppinga við Lambafell sumarið 1943