Reiðleiðir að og frá Kaldármelum

Birt Eiðfaxa í júní 1997.

Vegna breytinga á fyrirkomulagi lands- og fjórðungsmóta verður síðasta fjórðungsmót hins gamla skipulags haldið í ár. Það mót halda Vestlendingar að Kaldármelum. Að venju munu margir hestamenn hugsa til hreyfings og leggja leið sína þangað.

Ritstjóri Eiðfaxa hefir beðið mig um að rifja upp og benda mönnum á hinar fjölmörgu reiðleiðir sem um er að velja og þangað liggja.

Sjálfsagt þarf ekki að minna Snæfellinga á Löngufjörur svo sjálfsagðar sem þær eru.

Ég sagði einhvern tíma, þar sem menn voru samankomnir, að ég efaðist um að sá maður sem aldrei hefði riðið fjöruna meðfram Staðarsveit að Stakkhamri í Miklaholtshreppi, hafi nokkurn tíma drukkið þann „gleðinnar dropa í grunn“ sem Einar Benediktsson talar um í kvæði sínu „Fákar“.

Nokkrar leiðir eru yfir Snæfellsnesfjallgarðinn. Ef reiðmenn lengra að komnir ætla að fara þar er nauðsynlegt að fá heimamenn til samráðs. Þá kemur til sögunnar leið sem heitir Flatnavegur (í æsku minni kallað „að fara Flatir“). Ég hef á tilfinningunni að ferðum um þessa skemmtilegu leið hafi fækkað á seinni árum. Að ríða Heydal kemur varla til greina vegna bílvegarins enda óþarft. Þá er næst í röð fjallaleið á milli Dala annars vegar og Hnappadals og Mýra hins vegar: Rauðamelsheiði, þá Fossavegur. Þar næst leið yfir Svínbjúg um Hítardal.

Til gamans má geta þess að á fyrstu Herforingjaráðskortum sem gefin voru út er ekki merktur götuslóði yfir Svínbjúg, heldur austur með Bjúgshlíð upp úr Austurárdal, síðan suð-austur Mjóadal og um Sópandaskarð til Dala. Á þetta er bent um leið.

Þá er næst til að taka að fara yfir Sópandaskarð um Langavatnsdal en suð-vestur úr honum er um fjórar leiðir að velja. Vestast er Hraundalur og mun öllum henta sem ætla að Kaldármelum. Þá er Grenjadalur, síðan um Valbjarnarvallamúla að Valbjarnarvöllum og loks hinn akfæri vegur að Svignaskarði. Þá má ekki gleyma hinni ævafornu leið sem heitir Skarðsheiðarvegur vestri, en hann er á milli Grísatungu í Stafholtstungum og Ytri-Hraundals í Hraunhreppi og hentar vel þeim sem koma úr uppsveitum Borgarfjarðar. Þeir sem koma sunnan yfir Hvítárbrú hjá Hvítárvöllum og Ferjukoti munu flestir fara fjölförnustu leið til Kaldármela, þ.e. með Múlum, en benda má á til að auka fjölbreytni ferðalagsins, að fara niður Borgarhrepp, t.d. Ferjubakkveg, síðan hjá hesthúsahverfi Borgnesinga yfir Langá á Hvítsstaðavaði, eða hvar sem er, þá á Grímsstaðaveg hjá eyðibýlinu Árbæ að Grímsstöðum. Einnig er hægt að fara áfram meðfram þjóðvegi 1 að Ólafsvíkurvegi – þau sem koma sunnan yfir Borgarfjarðarbrú geta notað þessa ábendingu, – vestur með Ólafsvíkurvegi að Arnarstapa á Mýrum, þá niður Hraunhreppsveg að Ökrum í Hraunhreppi þar, eða á milli Akra og Stóra-Kálfalækjar, á fjöruna um Snorrastaði að Kaldármelum. Þarna eru menn háðir sjávarföllum og þurfa kunnugan leiðsögumann sem kann góð skil á duttlungum sjávarins hvað við kemur flóði og fjöru, sem ræðst af tunglkomum, veðri og vindum. Þar sem hin síðastnefnda ábending um reiðleið að Kaldármelum liggur á löngum kafla meðfram stofnbrautum (og á reyndar víðar við) er nauðsynlegt að taka hesta í taum þar sem svo háttar til, enda þyrfti að leggja áherslu á í tamningu hrossa að þau teymist vel og frjálslega, jafnvel mörg saman. Þá kemur í hug að hanna einhvern búnað, sem hægt vræi að nota með þeim hætti að hestar hlaupi í lest svo sem einu sinni var, en þá með því ráði að bundið var í tagl og þannig mynduð lest nokkurra hesta. Það verður að sjálfsögðu ekki gert nú á tímum.

Þessar ábendingar um reiðleiðir að og frá Kaldármelum áttu aldrei að verða leiðarlýsingar, það hefði orðið of langt mál. Bent er á bókina Áfangar II. Þar eru nákvæmar lýsingar á öllum þessum leiðum.

Þeim sem eru ókunnugir og ekki geta fengið kunnugan mann til fylgdar, er bent á að taka ljósrit af viðkomandi leiðarlýsingu í Áföngum II og hafa með í för. Ekki er hér um þau reginöræfi að tala, að hætta sé á ferðum, þó eitthvað beri útaf réttri leið.