Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Um fjallendi af afréttarlönd Borghreppinga, Álfthreppinga og Hraunhreppinga liggja víða góðar reiðleiðir eftir ótroðnum slóðum um dali og bratta og allháa hálsa. Nú skal nokkrum þeirra lýst.
Fyrst er að nefna ágæta leið frá leitarmannahúsi Hraunhreppinga um Þórarinsdal til leitarmannahúsa Álfthreppinga eða Borghreppinga. Þá er farið frá leitarmannahúsinu við Hítarhólm, en leiðarlýsing þangað er skráð á öðrum stað, síðan í suðausturátt meðfram Hítarhólmi, eftir vegi fyrst í stað, en þegar suður fyrir Hólminn kemur, taka við allskýrar götur, troðnar eftir hesta og fé. Þarna er mjög góður reiðvegur um svæði myndað af gosefnum, um lágan háls með eldvörpum, sem hraun hefur runnið úr um Þórarinsdal og niður Hítardal. Þegar suður fyrir þessa hálsa er komið, opnast Þórarinsdalur með flatan og hallalausan botn og grónar grundir, sem sérleg unun er að ríða um. Nokkuð há og brött fjöll umlykja dalinn. Á vinstri hönd er fyrst til að byrja með Grafheiði með brekkum mót suðvestri, sem farið er meðfram og Löngubrekkur kallast. Þær ná alla leið að Grafheiðartindum, og síðar tekur við snarbrattur hnjúkur sem Smérhnjúkur heitir. Eftir drjúgan spöl kemur svo krókur á dalinn til hægri. Stefnubreyting þessi nefnist Olnbogi, og var þangað til farið í austsuðaustur, en síðan til suðsuðvesturs. Á milli Grafheiðartinda og Smérhnjúks er Dýjadalur. Um hann má finna ágæta reiðleið en nokkuð bratta upp í dalinn, þaðan eftir ótroðnum leiðum norður í Suðurárdal til vinstri, og þegar út úr honum kemur, tekur við mjög grasi gróið flatlendi austan og norðan Hítarvatns. Þaðan eru allar leiðir greiðar til Tjaldbrekku og á leið um Svínbjúg til Dala.
Við höldum nú áfram ferðinni eftir hinni skemmtilegu og grasi grónu leið suður Þórarinsdal. Sunnan Smérhnjúks er lítið nafnlaust skarð milli hans og Langavatnsmúla. Rétt um miðjan Olnbogann er skarð í Langavatnsmúlann, sem Gvendarskarð heitir, og um þetta skarð er ferðinni heitið. Í munnmælasögum er sagt að þar hafi Hítardalsprestur orðið úti, þá er hann ætlaði til guðsþjónustuhalds að Borg í Langavatnsdal. Í fótspor Hítardalspresta ætlum við að halda. Bratt er upp í skarðið beggja megin frá og ástæða til að ganga og teyma reiðhest sinn, nema hann sé því hraustari og brattsæknari. Þegar suður úr skarðinu kemur, er um tvær leiðir að velja. Önnur til vinstri, skáhallt niður og inn múlann í átt á miðjan Hafradal, sem hér er á vinstri hönd, yfir Hafradalsá, fyrir innan gil, sem hún fellur þarna í á leið sinni út dalinn og heitir Hafradalsgil. Þaðan er farið norðaustan við ána fyrir enda Kattarhryggs, sem áður er nefndur, niður á Hafradalseyrar, yfir Langavatnsdalsá og að Borg á Langavatnsdal. Er þá komið að leið frá Svignaskarði að Sópandaskarði.
Hin leiðin liggur til hægri og er frekar mælt með henni, því hún er mun greiðfærari en ef til vill örlítið lengri. Skáskera skal Langavatnsmúlann niður á við til hægri, þar til komið er á veg, sem lýst er annars staðar. Þá má halda hvort heldur er til vinstri inn múlann, niður á Hafradalseyrar og að Borg, eða til hægri að leitarmannahúsi Álfthreppinga og niður Hraundal eða Grenjadal svo sem verkast vill.
Úr Þórarinsdal er hægt að velja sér enn aðra leið, ekki síðri. Í þetta sinn ríðum við Þórarinsdal á enda og ennþá eftir góðum reiðgötum, þar til við komum í botn hans. Þá er komið að brunasandi milli dalbotna Þórarinsdals og Kvígindisdal. Þar heitir Kvígindisdalssandur, og er farið upp með honum. Þar eru engar troðnar slóðir frekar en annars staðar um þessa hálsa. Þarna er ekki alveg eins bratt og um Gvendarskarð og nokkru lægra. Það eina, sem þarf að varast, er að missa ekki lausu hestana út á sandinn sjálfan, en fara þó sem næst honum eftir múlanum. Brátt hallar suður af til Kvígindisdals. Þegar niður á jafnsléttu er komið, tekur við góð reiðleið eftir greiðum götum, svo sem alls staðar eru í dölum fjalllendis Mýramanna. Eftir stundarreið er komið á leið milli Hraundals og Sópandaskarðs, sem annars staðar er lýst, til fjallhúss við Lambafell.