Örnefni í Álftártungu

Þessi grein hefur ekki verið birt.

Fyrir nokkrum árum fékk ég frá Örnefnastofnun afrit af örnefnaskráningu fyrir jörðina Álftártungu í Álftaneshreppi. Ég sá að mörg örnefni vantaði.

Á seinni árum hef ég haft áhuga á að koma þessari þekkingu minni til skila áður en það yrði of seint. Sumir telja að með hverri kynslóð tapist örnefni. Í þessari skráningu minni eru örnefni sem ég heyrði ungur drengur en var hætt að nota á mínum fullorðinsárum og læt ég þess getið þegar það á við. Ég númera örnefnin í áframhaldi af númerunum í örnefnaskránni. Ég ætla að vinna þetta þannig að ég fer í huganum rangsælis meðfram landamerkjunum frá þeim stað sem ég byrja. Númerslausu örnefnin eru í örnefnaskránni.

Spölkorn austan við gamla túnið í Álftártungu rennur Bræðrungakelda í Suðurá, þar er Stífla (57). Stíflugarðurinn var heill þegar ég man fyrst eftir með tunnu sem notuð var sem vatnsauga og tunnubotn, sem notaður var við að stífla kelduna, lá á stíflugarðinum. Þessi stífla hefur  trúlega verið notuð til að veita vatni á Bræðrungakeldu sunnan Þrengsla sem koma seinna við sögu. Fljótlega kom skarð í hleðsluna og tunnustafir ásamt ryðguðum gjörðum lágu á dreif um bakkann.

Upp af stíflunni gengur stór samfelldur holtaklasi sem nefnist Skjól með ýmsum sérnöfnum. Næst eru Skjólatögl (58) sem alltaf eru nefnd í fleirtölu. Milli þeirra er Kringlumýri (59). Norður frá Skjólatöglunum kemur Pétursstekkur. Uppi á honum hafa bergveggirnir gliðnað sundur og myndað gjá sem heitir Grýlubæli (60). Í norður frá Pétursstekk er Skjólamelur (61), eftir honum liggur Skjólagata (62). Ferðamenn frá Álftártungu hurfu sjónum smátt og smátt bak við Skjólamelinn. Þá fannst mér að þeir væru komnir hinum megin við himininn. Sennilega hefur þessi hugmynd mín um heimskringluna staðið skamman tíma.

Norður af Skjólamelnum eru Skjólaklettar (63) lítið notað örnefni en kemur fram í varðveittu landamerkjabréfi frá Álftártungukoti dagsett í apríl 1884. Suðvestan klettanna er Nátthagi (64). Hafa klettarnir verið notaðir á einn veg en annars staðar görðum hlöðnum úr grjóti á melum, en úr hnaus þar sem mýrardrag er. Í vesturhorni Nátthagans er lítið nafnlaust holt. Nátthagi er síðasta örnefnið sem tilheyrir Skjólunum. Úr Skjólaklettum gengur lágur holtarani sem nær suðvestur yfir Bræðrungakeldu. Þar sem holtaraninn nær yfir Bræðrungakeldu heita Þrengsli (65). Skammt norður af Skjólunum er fljót sem myndast þar sem Landalækur úr norðri og Sellækur úr austri koma saman. Norðvestan við fljótið, sem hefur minnkað mikið frá því ég man fyrst, trúlega vegna framburðar úr lækjunum, er nokkuð hátt holt með klettum mót austri. Við klettana er mjög gamall stekkur. Þetta holt heitir Fljótastekkur (66). Úr fljótinu rennur Suðurá. Við skulum fara niður með henni að Dagmálaholti sunnan hennar í Álftártungukotslandi. Nokkrum metrum norðan Dagmálaholtsenda rennur í Suðurá frá austri afrennsli úr litlu dýi austan Dagmálaholts. Í landamerkjabréfum er það nefnt Dý (67) en í örnefnaskráningu fyrir Álftártungukot skrásett af Sesselju Þorvaldsdóttur nefnir hún þennan sama pitt Merkjapitt. Frá því að dýjasytran kemur í Suðurá er hún á merkjum milli Álftártungubæjanna að áður nefndu dýi þaðan í vörðu á neðri enda Klifsáss.

Ekki eru allir sáttir við þessi landamerki og því vil ég segja þetta: Þegar Páll Þorsteinsson fór að búa í Álftártungu 1937 á móti Guðmundi Árnasyni sem þar var bóndi frá 1900 til 1948 var túni og engjum skipt jafnt í tvo hluta svo sem auðið var en hagi var óskiptur. Þá kom í hlut Páls Sellækur og Hestlækur og að mig minnir Fjárhúsásakelda. Því ef svo hefði ekki verið hefði sá hlutur sem dreginn var Páli verið rýrari.

Ég man eins og gerst hafi í gær þegar komið var þar sem dýjasytran rann í Suðurá að slegið var beggja megin við ána. Að minnsta kosti einu sinni man ég að Guðmundur fékk leyfi til þess að slá að Dagmálaholtsenda hjá Ólafi bónda í Álftártungukoti. Austan Suðurár og sunnan Sellækjar er melur sem heitir Fljótamelur, stutt flóasund er á milli hans og Klifsáss. Þar á móti norðan Sellækjar eru engjastykki sem heitir Breið (68). Klauf er í gegnum klettana norðarlega á Klifsá, hún heitir Klif (69). Ekki er hægt að skilja örnefnaskrána öðru vísi en það heiti Illaklif. Það er ekki rétt því Illaklif er sunnan Sellækjar við upptök hans þar sem Kirkjuvegslækur kemur úr norðri og Dyngjáskelda úr austri koma saman. Norðan Sellækjar móti Illaklifi er Lækjarsel sem er nefnt í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín en Sel nú á dögum.

Örnefni austan Klifsáss eru öll í Grímsstaðalandi síðan Guðmundur Árnason seldi til Grímsstaða stóra spildu sem gekk í austur úr Álftártungulandi en hélt eftir engjaítaki á Sellæk austan Klifsáss. Kaupsamningur þessi var undirritaður á Grímsstöðum 24. apríl 1920 og endanlegt afsal fyrir eigninni þegar hún var að fullu greidd á sama stað 23. apríl 1923. Landamerkjalína milli Grímsstaða og Álftártungu er úr vörðu á neðri enda Klifsáss eftir háásnum í Klifsárkletta nyrst og þaðan í Þrætuáshaus ytri (70).

Norðan lækjar á móti Klifsás er Klifsásbróðir (71) sem tekur stefnu í austur. Þar af leiðandi er aðeins vesturhorn hans í Álftártungulandi. Merki mili Syðri-Hraundals og Álftártungu úr Þrætuáshaus ytri í Arnarsetur sem er nálægt norðurhorni Neðra-Fljóts sem svo heitir til aðgreiningar frá Efra-Fljóti í Syðri-Hraundalslandi. Milli Þrætuása og Veitu að Bræðrungakeldu er stórt land þar sem skiptast á skógarásar og broksund sem voru áður fyrr mikið notuð til vetrarbeitar sauðfjár. Ég geri enga athugasemd við örnefni á þessu svæði nema Stelpusteinás er allur í Álftártungulandi.

Nú förum við niður með ánni Veitu sem rennur á löngu svæði milli Álftártungu og Álftár. Á móts við Skála í Álftárlandi var í ánni hylur sem hét Skálahylur (72). Spölkorn neðar tekur áin krappa beygju til austurs, þar heitir Árkrókur (74). Stuttan spöl fyrir austan Árkrókinn er lítið holt sem heitir Stapi (74) þar sem Veita tekur aftur beygju til suðurs mætir hún Bræðrungakeldu. Nokkru neðar er nafnlaust vað á Veitu þar sem farið var vestur yfir ána sennilega til að losna við að fara yfir Bræðrungakeldu. Frá þessum stað við ána er samfelldur holtaklasi að gamla túninu í Álftártungu sem nefnd eru Holtin, (75), alltaf í fleirtölu þó er syðsti hluti þeirra með sérnafni, Réttarholt (76) með lágum klettum sem liggja mót austri. Þegar Guðmundur Þórðarson bjó í Álftártungukoti árin 1926-1933 hlóð Þorvaldur Sigurðsson búsettur í Álftártungu upp þessi réttarbrot til sameiginlegra nota fyrir Álftártungubæina. Í fyrsta sinn eftir endurbygginguna var hún notuð í sambandi við rúningu sauðfjár fyrir báða bæina. Þá kom í ljós að innrekstur í hana var afar erfiður. Eftir mikinn eltingarleik tókst að koma öllu fénu í hana. Mér sex til átta ára drengnum er þessi eltingarleikur mjög minnistæður. Ekki var gerð önnur tilraun til að nota hana. Elín Guðmundsdóttir og Finnur Einarsson húshjón í Álftártungu frá 1941 til 1948 byggðu yfir þessa rétt og hýstu þar nokkrar kindur og fáeinar hænur. Réttarholt er upp af eystri kanti gamla túnsins í Álftártungu. Eftir þennan útúrdúr höldum við áfram ferð okkar niður með Veitu. Þegar kemur á móts við Bolása í Álftárlandi er í ánni Bolásahylur (77). Þaðan í stefnu að Álftártungu í austur / suður var víðáttumikill nokkuð blautur flói. Þar ofan til við miðju hans er Kjóastapi (78). Þar var kjói með búsvæði sitt. Páll Þorsteinsson bóndi í Álftártungu frá 1937-1988 þurrkaði þessa mýri og ræktaði þar fallegt tún. Þar sést ekki lengur kjói en stapinn er á sínum stað. Áfram niður með Veitu frá Bolásahyl þar til komið er að vaði þar sem farið er yfir Veitu þegar bæjarleiðin milli Álftár og Álftártungu er farin. Það heitir Kelduvað (79). Nokkru neðar meðfram háum moldarbakka var Móhylur (80). Þess ber að geta að Skálahylur og Móhylur eru horfnir með öllu samkvæmt frásögn Svans Pálssonar bónda í Álftártungu. Orsök er óþekkt. Neðar er Foss (81) þar sem Páll Þorsteinsson reisti vatnsaflsstöð 1950. Þar sem Veita mætir Suðurá og heldur Veita nafninu er Oddi (82). Þar upp af er Oddaholt þar sem Svanhildur Svansdóttir og Sigurður Arilíusson hafa byggt íbúðarhús. Í gamla túninu eru örnefni sem ég man eftir en vanta í Örnefnaskrána. Kippkorn í austur frá efri enda Kastala er harðbalagrund sem heitir Dúkur (83), suðvestur af eystri enda hans í átt að kirkjunni eru Hólahólar eða Hólakotshólar (84). Þar eru rústir sem nú eru trúlega horfnar vegna gróðurs. Þetta örnefni heyrði ég aldrei síðan á barnsaldri. Milli Álftártungubæjanna í Suðurá eru Klappir (85). Þar var farið yfir Suðurá þurrum fótum. Vestur af neðri enda Kastala er Móholt (86) rétt utan við gamla túnið. Þaðan í átt að Oddaholti eru mógrafir sem Móholtið ber nafn af.

Frá Dýjaveitunni þar sem hún kemur í Suðurá er Suðurá á merkjum milli Álftártungujarðanna þar til komið er á móts við Langholtsenda (87). Þetta nafn var ekki notað svo ég muni eftir heldur Móholt sem segir frá í örnefnaskránni. Austan við það er stórt mógrafasvæði. Langholtsendi er nefndur í landamerkjaskrá. Norðan Langholtsenda er slakki í landslagið sem heitir Lægð (88), Flaga (89) mýrin niður með Langholtunum að austan að Dúrhól í þeim skilningi sem ég hef á henni. Hún var öll í Álftártungulandi samkvæmt Landamerkjabréfi 1884 en í landamerkjabréfi frá 1923 er hún að mestu leyti í Álftártungukotslandi. Efralangholt (90) með Langholtsenda / Móholti nyrst er aðskilið frá Neðralangholti (91) með nokkurra metra breiðri mýri. Nyrst á því er Neðrilangholtshaus (92). Frá suðurenda Neðralangholts lá gamli vagnvegurinn að Veitu þar sem hann gekk niður ána um hólma í henni, þar heita Eyrar (93). Upp úr ánni kom vegurinn í land á nefi sem gengur út frá Svörtubakkakeldu norður að Veitu. Ég tek ekki þetta nef með örnefnunum vegna óljóss minnis. Við nefið breytir áin um stefnu í vesturátt vestan við það er farið út í ána aftur og liggur slóðinn eftir henni miðri að Árkrók (94). Með vegalagningu 1942 lagðist síðast nefndi vaðallinn af. Til að greina Árkrókana í sundur var sagt uppí eða niðrí í Árkrók með þeirri málvenju sem notuð var á þessum slóðum áður fyrr að áttirnar voru fjórar. Upp, niður, út og suður. Frá Árkrók tekur áin stefnu nálægt suðri þegar komið er að þar sem Veita og Álftá koma saman og heldur Álftá nafni sínu er Ármótavað (95) sem gat orðið nokkuð djúpt í vatnavöxtum. Það var notað meðan vagnvegurinn lá þar yfir, eftir Ytri-Ármótaás í Álftárlandi og þar á þjóðveginn. Þar sem elsta brúin var yfir Álftá hjá Brúarlandi heitir Hrafnshylur (96). Þar norðaustur er mikið landssvæði sem markast þannig, milli Álftártungujarðanna liggja mörkin frá Langholtsenda / Móholts í Dúrhól þaðan á stein sem reistur er á rönd í Miðholti, þaðan að Hestlæk sjónhending norðast á Valshamarsolnboga, Hestlækur á merkjum milli Valshamars og Arnarstapa annars vegar en Álftártungu hinum megin, þar sem hann rennur í Álftá. Milli Brúarlands og Álftár að vestan að ármótum Álftár og Veitu. Þaðan með Veitu milli Álftár og Álftártungu að Arnarsetri. Á þessu svæði vil ég gera tvær athugasemdir:

  1. Olnboginn í Álftártungulandi er ekki norður frá Garðásum heldur í suðvestur.
  2. Fjárhúsásarnir eru þrír þótt tveir þeir vestustu séu samtengdir nyrst.

Í þeim syðsta hafa Steinunn Pálsdóttir og Sigurður Þorsteinsson reist sumarbústað og njóta þeirrar veðursældar sem ríkir á þessum slóðum.

Að endingu vil ég taka fram að ég er engan veginn að gera lítið úr því sem áður hefur verið gert í örnefnasöfnun fyrir Álftártungu en vil sýna fram á að örnefnasöfnun er vandasamt verk sem verður að taka sinn tíma því annars er hætt við að örnefni sem lítið eru notuð tapist.

Árni Guðmundsson frá Beigalda

Fæddur í Álftártungu og átt þar heima til 25 ára aldurs.