Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2009

Inngangur
Sveinn I. Sveinsson var fæddur 21. april 1895. Hann ólst upp á Hvítsstöðum í Álftaneshreppi hjá föður sínum til 1914 þegar faðir hans lést. Síðan var hann lengst af á Álftanesi til ársins 1946 þegar hann gerðist bóndi á Vogalæk. Stofnaði nýbýlið Sveinsstaði úr Vogarlækjarlandi árið 1952.
Á uppvaxtarárum Sveins á Hvítsstöðum voru heimalönd allra jarða ógirt, ennfremur fjalllendi. Á þessum árum máttu bændur ekki missa þær tekjur sem ullin af fénu gaf af sér, en ær fjallsæknar í meira mæli en við þekkjum í dag. Því voru vorsmalamennskur í fjalllendinu langar og strangar og ekki nema fyrir harðfrískustu menn að stunda þær með nokkrum árangri.
Nokkrar frásögur heyrði ég föður minn segja af þessum vorsmalamennskum þar sem léttleiki og harðfylgni unga piltsins frá Hvítsstöðum voru rómaðar.
Seinna varð Sveinn vinsæll leitarstjóri Álfthreppinga í haustleitum, sem allir virtu og báru virðingu fyrir. Þann 4. júlí 1955 varð Sveinn bráðkvaddur í fjallrekstri sauðfjár. Inn við svonefnt Lambafell á Álfthreppingaafrétti steig hann sín síðustu spor.
Með honum í hinni örlagaríku ferð var unglingspiltur, Magnús Guðbjarnason í Straumfirði. Það hefur mikið reynt á hinn unga pilt að halda ró sinni og gera það eina rétta í hans stöðu að ríða sem mest hann mátti að Grenjum og sækja hjálp. Innan tilvitnunarmerkja er brot úr kafla sem ég skrifaði í Áfanga II sem eru leiðarlýsingar fyrir hestamenn um Mýrasýslu; ,,Sveinn var mikill unnandi fjalla og fjallferða enda fjallkóngur Álfthreppinga í mörg ár. Hann þekkti fjöllin á afréttinum í hásumardýrð og hausthretum. Það var því vel við hæfi, þegar nokkrir vinir úr hópi fjallleitarmanna tóku sig til og reistu honum minnisvarða á þeim stað, sem hann féll frá í fang þeirrar náttúru og fjalladýrðar, sem hann þekkti svo vel og unni mest og best”.
Hugleiðingar
Strax eftir hið sviplega fráfall fórum við nánir vinir Sveins úr fjallleitum að ræða um hvað við gætum gert til að halda minningu hans á lofti.
Eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að hlaða vörðu úr hraungrýti með áföstum og áletruðum koparskildi, helst nálægt þeim stað sem hinn sviplegi atburður gerðist. Ári seinna um mánaðarmótin júní og júli árið 1956 var þessu hrint í framkvæmd.
Þessir menn unnu við að hlaða vörðuna taldir í þeirri röð sem ég tel að þeir hafi komið að málinu, framgangi þess, undirbúning og framkvæmd:
Þiðrik Baldvinsson bóndi Grenjum,
Haukur Þorsteinsson bóndi Háhóli,
Geir Þorleifsson múrari Borgarnesi og
Árni Guðmundsson bóndi Beigalda.
Vera kann að það verði talið mér til fordildar að leggja metnað í að forða frá gleymsku hverjir stóðu að þessu verki þar sem ég var einn þeirra. En ég tel að upp geti komið spurningar um það en þá verði vitneskja um það glötuð.
Þetta verk er forgengilegt eins og önnur mannanna verk. Það er því verkefni komandi kynslóða að halda vörðunni við svo sem þurfa þykir á hverjum tíma.
Frásögn af framkvæmd verksins

Við Geir Þorleifsson lögðum af stað frá Beigalda um kl. 04:00 að nóttu að Grenjum. Þegar þangað kom voru Þiðrik og Haukur búnir að binda í bagga klyfjar á þrjá reiðingshesta sem var sandur og sement í réttum hlutföllum og fjórar borðfjalir tveggja metra langar sem notaðar voru sem réttskeiðar við hleðslu á vörðunni, og ýmis smá áhöld. Eftir gott morgunkaffi á Grenjum voru baggar látnir til klakks og lestin fetaði sig götuna á leið til Grenjadals og hefur horfið sjónum heimamanna við Heiðarvörðuna.
Minnisvarðanum var valin staður þar sem hinar gömlu götur úr Grenjadal og Hraundal mætast sunnan við rætur Lambafells, 400 metrum sunnan gangnamannahússins og 20 metrum austan graslautarinnar þar sem Sveinn laut að grasi.
Geir og Þiðrik voru hleðslumenn en við Haukur vorum í hlutverki handlangara, bárum að hraunhellur í hleðsluna, hrærðum steypuna og fleira. Nú kom sér vel að Geir tók með sér múrexi, því höggva þurfti vankanta af sumum hraunhellunum. Vatn í steypuna var sótt í hraungjótu miðja vegu til gangnamannahússins þar sem vatn aldrei þrýtur og var notað á þessum tíma í haustleitum.
Verkinu lauk um kl. 9:00 um kvöldið. Þá var gluggahlerinn frá leitarmannahúsinu, sem notaður var til að hræra steypuna á, þrifinn ásamt vatnsfötum og þessu skilað á sinn stað, afgangssandi steypt úr poka sem hefir horfið sjónum næst þegar vindar blésu, slatti af sementi í poka bundið við klyfberaboga, fjalirnar, skóflur og önnur smááhöld bundin á einn reiðingshestana.
Ógleymanleg heimferð

Við stigum á bak reiðhestum okkar og riðum suðaustur grýtta hraungötuna í átt til Grenjadals. Næturkyrrðin færðist yfir og allt varð hljótt, nema frá Sandvatni barst langdregið væl í himbrima sem getur tekið á sig margbreytilegar hljóðmyndir eftir veðri og bergmáli sem mörgum hefur skotið skelk í bringu. Enda er talið að himbrimasöngurinn líkist útburðarvæli sem þjóðsögur okkar segja frá í hjátrú liðinna alda. Einmana svanur sveif vængjum þöndum og stefndi í norðaustur í átt til Langavatns og sendi út í kvöldkyrrðina og fjallaauðnina angurværan ,,svanasöng á heiði” sem endurómaði í nálægum fellum.
Komið var að Grenjum laust eftir miðnætti. Heimilsfólk var gengið til náða, en húsmóðirin Ingibjörg Magnúsdóttir, eiginkona Þiðriks, var fljót á fætur þegar hún varð mannaferða vör og framreiddi á svipstundu gómsæta máltíð. Við vorum allir ungir og hraustir menn sem áttum gott með að gera matnum þau skil svo sem ætlast var til af húsbændunum.

Þarna skildu leiðir. Þiðrik komin heim, Haukur reið vestur með Grenjamúla á Grímsstaðaveg áleiðis að Háhóli. Ég tel víst að hann hafi riðið greitt, hann hefur ætíð átt röska og góða hesta, krafið þá um mikil afköst en launað þeim með góðri meðferð og hestamennsku. Við Geir riðum aftur á móti suður yfir Langá, fram hjá Valbjarnarvöllum, Litlu-Gröf og Galtarholti á leið að Beigalda.
Báðir vorum við vel ríðandi og gátum farið þessa leið á eins stuttum sögulegum tíma og hugsanlegt var. En okkur lá ekkert á. Við létum því hestana rölta hægaganginn því á vorin er gott að auka einni vökunótt við æviþátt sinn og njóta þeirra töfra sem íslensk náttleysa hefur upp á að bjóða meðan sólin leggur leið sína fyrir norðurpólinn.
Að lokum þetta: Þar sem þessi atburður er ekki færður á blað fyrr en í ágúst 2007, 51 ári eftir að verk þetta var unnið eru allar dagsetningar löngu fallnar úr minni. Tímasetningar eru samt enn í minni ásamt þeim hughrifum sem menn verða fyrir á svona ferðum.
