Sett á blað í september 1994, ekki vitað hvort hefur birst.

Ég tók að mér með jákvæðum huga það verkefni, þegar formaður Hrossaræktarsambands Vesturlands (Hrs. V.), Bjarni Marinósson bóndi á Skáney, fór þess á leit við mig að ég tæki saman atriði úr ævi stóðhestsins Ófeigs 818 frá Hvanneyri í sambandi við þegar hann var felldur, 26 vetra gamall, mánudaginn 5. september 1994 og var heygður á Báreksstöðum við hliðina á Sikil, sem var einnig gæðingur undan Skeifu 2799 og var ekki síðri en Ófeigur. Ófeigur hefur því stígið sín fyrstu og síðustu spor á Hvanneyri og nágrenni.
Ófeigur var fæddur þeim hjónum Sigurborgu Jónsdóttur og Ólafi heitnum Guðmundssyni, forstöðumanni Bútæknideildar á Hvanneyri, sem þá voru búsett á Hófatúni, sem er eitt húsið á Hvanneyrartorfunni. Þá lá fyrst fyrir að tala við Sigurborgu og fá hjá henni upplýsingar um aðdraganda þess að Ófeigur varð til. Sigurborgu segist svo frá að þegar það var afráðið að Hrafn 583 frá Árnanesi kæmi í Borgarfjörð 1967, þá hafi Þorkell Bjarnason hrossaræktarráðunautur hvatt þau hjón til þess að leiða Skeifu 2799 til Hrafns og telur hún að óvíst hefði orðið um það, hefðu ekki komið til ráðleggingar og hvatning úr þeirri átt. Einar Gíslason, þá bústjóri á Hesti, hafði umsjón með Hrafni 583 í þessa sinn. Leyfi var fengið að setja Skeifu í girðinguna til Hrafns og Sigurborg fór með hryssuna og lætur hana í girðinguna til hans. Hrafn lét ófriðlega og sinnti ekkert þeim hryssum sem fyrir voru í girðingunni, en athygli hans beindist öll að hinni nýkomnu hryssu. Það hefur verið afrek, undir þessum kringumstæðum, að koma hryssunni til hestsins fyrir eina manneskju. Eftir þetta segist Sigurborg fara heim að Hesti sigri hrósandi, en þá varð Einar bústjóri þungur á brún vegna þess að ekki var búið að skipta hryssum hjá Hrafni en Skeifa átti að fara í nýtt gengi með hestinum. Um þetta vissi Sigurborg ekki. Þá naut Sigurborg þess hve mikill gæðingur Skeifa var, því þess vegna sagði Einar að þetta yrði fyrirgefið, enda Einar þekktur fyrir að kunna að meta góð hross og kannski hefur hann fengið tilfinningu fyrir því að þarna var að hefjast merkur kafli í íslenskri hrossarækt.
Samvera þeirra Skeifu 2799 og Hrafns 583 bar þann ávöxt að sumarið eftir eða 1968 fæddist brjúnstjörnótt hestfolald, sem hafði alla tilburði í þá átt að verða gæðingur. Segir Sigurborgð, að meðal annarra, hafi Gunnar Bjarnason, sem þá var kennari við Bændaskólann á Hvanneyri, séð folaldið oftar en einu sinni og alltaf dáðst að hreyfingum þess og látið í ljós þá skoðun, að þarna væri fætt mikið stóðhestsefni, sem ekki mætti undir neinum kringumstæðum gelda. Sumarið 1969, eða þegar sá brúnstjörnótti var veturgamall, slasaðist hann illa. Þá um sumarið var folinn í haga með reiðhestum fjölskyldunnar. Eitt sinn þegar fjölskyldan hafði rekið heim hrossin og var að leggja af stað í útreiðatúr, gerði folinn ungi tilraun til að stökkva yfir girðinguna á eftir reiðfólkinu, með þeim afleiðingum að hann náði sér yfir hana að framan, en festi afturfætur í girðingarnetinu, skall niður og lá fastur í girðingunni á afturfótunum. Þá var á Hvanneyri ágætur dýralæknir, Oddur Rúnar Hjartarson, og var hann að sjálfsögðu tilkvaddur. Hann kom og skoðaði folann, en taldi að ekkert væri hægt að gera, en ráðfærði sig þó símleiðis við aðra dýralækna og lýsti þessu fyrir þeim. Það var sameiginlegt álit þeirra að ekkert væri hægt að gera. Við slysið hafði annað mjaðmarhornið fallið niður og inn og alla ævi bar hann þess merki. Þegar sýnt varð að hann mundi skríða saman eftir slysið, hlaut hann nafnið Ófeigur.
Næst var að tala við Guðmund Pétursson frá Gullberastöðum og Einar Gíslason bónda á Skörðugili, en Sigurborg sagði mér að sá síðarnefndi hefði ætíð verið sinn góði nágranni og ráðgjafi í hestamennskunni meðan hann var bústjóri á Hesti, en Guðmundur ráðunautur Hrs. V. Þeir töldu báðir að sá maður, sem best mundi muna um aðdraganda kaupanna á Ófeigi og hefði verið aðaláhugamaður þess að kaupa folann, af þeim mönnum sem þá voru í stjórn sambandsins, væri Leifur Kr. Jóhannesson þáverandi ráðunautur í Stykkishólmi. Í ánægjulegu samtalið við Leif Kr. Jóhannesson sagðist hann mundi skrifa mér og lýsa atburðarásinni vegna kaupa á Ófeigi. Þau sagðist hann muna eins og þau hefðu gerst í gær. Ég hefi fengið leyfi til að taka upp orðrétt tvo kafla úr ágætu bréfi Leifs og er sá fyrri svohljóðandi:
Hrafn 583 frá Árnanesi var til afnota í Borgarfirði um 2ja eða 3ja ára skeið. Undir Hrafn voru leiddar hryssur víða úr Borgarfirði. Áhugi var fyrir hestinum m.a. af því að hann var af hinum þekkta Árnanesstofni. Hann var góður reiðhestur með ágætan vilja, en lítið skeið, sem varla var til mikils gagns. Ég kom einu sinni á bak honum hjá Einari í norðan kuldastormi. Virtist mér hann dálítið viðkæmur í storminum, en skemmtilegur reiðhestur, með góða reisingu og framgöngu. Við, sem þá vorum í stjórn Hrs. V. (Símon heitinn Teitsson, Marinó heitinn Jakobsson, Leifur Kr. Jóhannesson og ráðurnautur sambandsins Guðmundur Pétursson) höfðum mikinn áhuga á að ná stóðhestsefni undan Hrafni eftir veru hans í Borgarfirði. Eins og venja var fór stjórn sambandsins og ráðunautur um sambandssvæðið á hverju vori til athugunar á ungfolum. Vorið 1970, að ég held síðast í apríl, vorum við í einni slíkri yfirferð og skoðuðum meðal annars nokkra Hrafnssyni, en enginn freistaði okkar sérstaklega og vorum við vondaufir að tækist að finna stóðhestsefni undan honum. Við enduðum ferðina á Hvanneyri hjá Sigurborgu og Ólafi, sem þá áttu brúnstjörnóttan fola (2ja vetra um vorið) undan hinni þekktu hryssu Skeifu 2799. Það var síðasta vonin að við fyndum gripinn.
Við komum að Hvanneyri í norðaustan nepjuveðri og fórum í hesthúsið (Hófatún) hjá þeim hjónum en því miður urðum við fyrir miklum vonbrigðum með Skeifusoninn. Hann var ekki ásjálegur, hafði orðið fyrir slysi sumarið áður og þá brotnaði á honum annað mjaðmarhornið og var mjög innfallinn á grindinni þeim megin. Við töldum víst að hann yrði aldrei taminn svo illa var hann farinn og ekki öruggt að hann gæti gagnast hryssu. Okkur leist ekki betur en svo á folann, að við kvöddum Sigurborgu og Ólaf og settumst út í bíl til að aka af stað. Ég var í raun mjög ósáttur þegar ég fór (við sjálfan mig) og snýst hugur, fer út úr bílnum og geng aftur til hjónanna og spyr þau að því hvaða verð þau setji á folann og hvort það komi til greina að kaupa á tvenns konar verði þ.e. ef hann reyndist að gagni þá væri verðið hærra. Þau settu á hann 20 þús. krónur ef hann gagnaðist hryssum en ella ekki nema 12 þús. kr. Félagar mínir féllust fúslega á þessa niðurstöðu og við keyptum folann og ákváðum að setja hann strax um vorið í hryssur í Lundareykjadal og fá með því úrskorið hvort hann væri frjór. Um haustið lá það ljóst fyrir að hryssurnar hefðu fyljast og þar með ljóst að Ófeigur var orðinn einn af stóðhestum Hrossaræktarsambandsins.
Ófeigur bar ekki á þessum tíma neitt heillandi yfirbragð. Það vantaði á hann prúðleika, sem hann fékk síðar í uppvextinum, en hann var stórættaður og það vissu allir enda móðir hans ein af bestu hryssum landsins á þeim tíma.
Ég virði það alltaf við Sigurborgu og Ólaf að þau skyldu vera svo fús að selja okkur hestinn og það fyrir sanngjarnt verð. Hann átti svo siðar og á eftir að marka djúp spor í hrossarækt á Vesturlandi. Eg spái því að nafn hans muni á næstu áratugum koma oft fyrir í hrossaræktinni. Þegar Ófeigur var 3ja vetra bað engin deild um hann til notkunar og fór það þannig að ég tók hann í girðingu í Hólsland og voru að mig minnir 14 hryssur hjá honum. Síðan gerast þau gleðitíðindi þegar hann var settur til prufu á tamningastöð sambandsins á Hvítárbakka að í ljós kom að hann var fær í tamningu. Þá fór hann að vekja athygli og umtal. Eftir það varð hann eftirsóttur í deildir sambandsins.
Orðrétt tilvitnun úr bréfi Leifs Kr. Jóhannessonar lýkur.
Veturinn 1971-1972 eða þegar Ófeigur er á 4ða vetri er hann látinn á tamningastöð Hrs. V. sem starfrækt var á Hvítárbakka. Þá voru þar tamningamenn Reynir Aðalsteinsson, bóndi á Sigmundarstöðum og Bjarni Marinósson, bóndi á Skáney. Það kemur fram í áður tilvitnuðu bréfi Leifs Kr. Jóhannessonar að það hafi verið með nokkurri eftirvæntingu hvort hægt væri að temja hestinn vegna þess slyss sem hann varð fyrir þegar hann var á öðrum vetri. Strax kom í ljós að hann var fær um að taka tamningu þrátt fyrir slysið. Það kom í hlut Bjarna Marinóssonar að temja hann. Í lok tamningatímans snemma um vorið hvarf Bjarni frá störfum á tamningastöðinni vegna anna heima fyrir en við tekur Bragi Andrésson frá Saurum, bóndi á Sperðli í Vestur-Landeyjum. Næsta vetur 1972-1973 er Bragi starfsmaður stöðvarinnar og heldur áfram tamningu á Ófeigi og þá þótti sýnt að á ferðinni var óvenjulegt reiðhestsefni, þó ekki sé meira sagt. Veturinn 1973-1974 var Ófeigur enn á tamningastöðinni á Hvítárbakka og þjálfari hans var sem fyrr Bragi Andrésson. Þennan vetur varð Ófeigur fjölhæfur listagæðingur og í fremstu röð graðhesta, hvað gæðingskostum viðkemur. Vorið 1974 var hann sýndur á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum, þar sem hann varð 2. í röð sýndra graðhesta 6 v. og eldri. Þar fékk hann einkunnirnar: Fyrir byggingu 8.30, fyrir hæfileika 8.80, meðaltal 8.55 sem var aðeins lægri einkunn á fyrsta hesti í þeim flokki, Hrafni 802 frá Holtsmúla sem fékk meðaltalseinkunn 8.56. Eftir þann góða árangur Ófeigs 818 árið 1974 var hann eftirsóttari en nokkru sinni áður. Þrátt fyrir nokkra tregðu á aðalfundum Hrossaræktarsambandsins að lána Ófeig til annarra landshluta, ákvað þáverandi stjórn sambandsins að leigja hestinn til Hornfirðinga eftir seinna fengitímabil sumarið 1976 til 10. júní 1977 og fóðra hann um veturinn og fá í staðinn Hrafn 583 frá Árnanesi. Einhvers misskilnings hefur gætt með leigutímann vorið 1977, því Hornfirðingar héldu því frm að þeir hefðu haft loforð fyrir að nota hestinn einning fyrra fengitímabil það vor. Þarna stóð staðhæfing gegn staðhæfingu og urðu um þetta allveruleg átök milli forsvarsmanna Hornfirðinga Guðmundar Jónssonar og mín, sem þá var orðinn formaður Hrs. V. Þrátt fyrir þetta var Ófeig skilað á réttum tíma enda er fyrrgreindur skiladagur skráður í bækur Hrossaræktarsambandsins. Þennan tiltekna dag komu svo Hornfirðingar með hestinn að Svínafelli í Öræfum og daginn eftir var þangað kominn til að sækja hann, Guðmundur Pétursson bóndi og ráðunautur á Gullberastöðum. Eftir þessa fyrstu ferð Ófeigs af sambandssvæðinu jókst enn andstaða gegn því að lána hann til annarra héraða.


Veturinn 1976-1977 var Ófeigur afkvæmaprófaður eftir þeim reglum sem þá giltu um það efni. Fór tamning tryppanna fram á tamningastöð Hrs. V., sem þá var komin að Tungulæk í Borgarhreppi. Orðrétt úr aðalfundagerð 23. Apríl 1977: „Afkvæmi Ófeigs hlutu fyrir byggingu 7.63, fyrir hæfileika 7.45, meðaltal 7.55 og taldi ræðumaður (þ.e. Þorkell Bjarnason, innsk. höf.) tryppin mjög hæfileikagóð og þessi hópur í fremstu röð afkvæmaprófaðra hrossa. Meðalstærð á band 139.6 cm og meðalaldur 4.8 ár“. Veturinn 1977-1978 var unnið að því að sýna Ófeig til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi á landsmóti á Skógarhólum þá um vorið. Það urðu okkur, sem að þessu unnu, allmikil vonbrigði að hann náði naumlega 1. verðlaunum fyrir afkvæmi eftir forskoðun og töldu því ráðunautar það óráðlegt að sýna hann í það sinn, því þótt hann næði aðeins 1. verðlauna lágmörkunum eftir forskoðun gæti allt gerst þegar endurdæmt yrði á mótinu, sérstaklega með tilliti til hins lága aldurs afkvæmanna. Enda fannst okkur eftir á að hyggja, það hafa verið fullmikil bjartsýni, þar sem meðalaldur hrossanna var árið áður 4.8 en ekkert bættist við úr elsta árganginum umfram það, sem var í afkvæmaprófun árið áður.

Veturinn 1979-1980 var unnið að því að sýna Ófeig 818 með afkvæmum á næsta fjórðungsmóti á Vesturlandi þá um vorið. Er skemmst frá því að segja að mjög góð sýning varð á honum og afkvæmum hans í þetta sinn og fékk hann þessar einkunnir fyrir afkvæmin: fyrir byggingu 7.86, fyrir hæfileika 8.28, meðaltal 8.07. Á þessu móti voru hross undan honum í fremstu röð í mörgum greinum og nutu verðskuldaðrar athygli mótsgesta. Eins og fram hefur komið var á þessum tíma mikil andstaða í því efni að lána Ófeig til annarra landshluta, bæði innan stjórnar og utan. Á stjórnarfundi 19.9 1981 var stjórnin ekki sammála um hvað gera ætti með útlán á Ófeigi, en eftirspurn á honum var svo mikil að eitthvað varð að gera í málinu. Þess vegna var ákveðið að halda formannafund til að ræða og taka ákvörðun í þessu máli ásamt öðrum málum, sem tvímælis orkuðu og upp komu síðan síðasti aðalfundur var haldinn þ.á.m. stóðhestakaup. Samkvæmt þessu var þann 15. nóvember 1981 haldinn fundur í Hrs. V. með deildarformönnum innan sambandsins og fleiri áhugamönnum, sem sátu þennan fund. Einnig sat fundinn Þorkell Bjarnason hrossaræktarráðunautur. Orðrétt úr bókun fundarins: „Þetta var rætt fram og aftur og eftir allmiklar gagnlegar umræður var samþykkt að leigja stóðhestinn Ófeig 818 til annarra sambanda með því skilyrði að hann verði ávallt notaður að hluta til heima í héraði árlega og einnig að í staðinn komi hestur sem ætla mætti að stæði Ófeigi 818 ekki að baki að kynbótagildi.“ Eftir þetta var Ófeigur leigður til annarra sambanda, fyrst vorið 1982. Mun hann hafa heimsótt flest ef ekki öll héruð landsins eftir það og sum oftar en einu sinni.

Veturinn 1981-1982 er enn unnið að því að koma á sýningu á afkvæmum Ófeigs 818 á landsmóti það vor. Bjartsýni ríkti á að það tækist að koma honum í flokk heiðursverðlaunahesta fyrir afkvæmi. Því miður tókst ekki að ná því takmarki, en aftur á móti var sú ákvörðun tekin að sýna hann til 1. verðlauna og fékkst mjög góð sýning á afkvæmum hans með einkunnirnar: bygging 7.90, hæfileikar 8.34, meðaltal 8.12. Ákveðið var að hugsa ekki um að koma Ófeigi 818 í hóp heiðursverðlaunahesta á fjórðungsmóti 1984 á Kaldármelum, heldur biða með það til næsta landsmóts. Með hliðsjón af þeim árangri, sem hann náði í þessu efni á landsmóti 1986, hefði hann alveg eins náð því takmarki 1984. Þess vegna má segja, eftir á að hyggja, hafi það verið misráðið að sýna hann ekki 1984, með tilliti til þess að það er talið rýra gildi afkvæmadómsins 1986 hvað hesturinn var orðinn fullorðinn, en hefði því takmarki verið náð tveim árum áður hefði hann staðið svo að segja jafnfætis öðrum hestum, sem þessum verðlaunum hafa náð, hvað aldur áhrærir.
Það var ánægjulegt starf að vinna að undirbúningi á sýningu á afkvæmum Ófeigs veturinn 1985-1986. Allir eigendur þeirra afkvæma, sem til greina komu að byggja dóminn á, voru boðnir og búnir að ljá málinu þann stuðning, sem þurfti til að koma því í farsæla höfn
Á landsmóti á Gaddstaðaflötum 1986 náði Ófeigur 818 því takmarki að verða í hópi heiðursverðlaunahesta fyrir afkvæmi. Stóð hann þar fyrstur í röð með þessar einkunnir afkvæmanna: fyrir byggingu 7.94, fyrir hæfileika 8.37, meðaltal 8.16.
Í hugleiðingum um landsmótið á Gaddstaðaflötum, sem birtist í Hrossaræktinni 1986 skrifar Þorkell Bjarnason hrossaræktarráðunautur þetta: „Ófeigur 818 gefur sterka byggingu að öllu leyti en ekki fínlega, og því má hampa, hve afkvæmin bera sig fallega, hátt og halda höfði vel. Það er mikill kostur, auk fjölhæfni í gangi, rými, fótaburði, vilja, sem er oft sá harðfylgnasti, sem finnst, en mætti vera mýkri sem og lundarfarið.“ Það skal tekið fram að þessi tilvitnuðu orð eru ekki tekin úr umsögn dómnefndar.
Þegar þessum áfangasigri í ævi kynbótahestsins Ófeigs 818 var náð, má segja að komið sé að kaflaskiptum í sigurgöngu hans. Samt hélt hann áfram að vera eftirsóttur á landsmælikvarða og ennþá fór hann til annarra landshluta þótt tvítugs aldrinum væri náð. Þegar ég hugsa um notkun Ófeig 818 þá finnst mér að hann muni hafa goldið þess hvað við Vestlendingar vorum tregir á að lána hann til notkunar í önnur héruð og vorum eigingjarnir á notkun hans. Hann fór ekki út fyrir sambandssvæðið að neinu ráði fyrr en 1982 og þá var hesturinn orðinn 14 vetra, enda byggir heiðursverðlaunadómur hans eingöngu á afkvæmum af Vesturlandi að tveimur hrossum undanskildum, en þau urðu til í fyrstu ferð Ófeigs til annarra héraða eða þegar hann fór til Hornafjarðar 1976-1977. Þau hross eru Flosi 966 frá Brunnum fæddur 1977, sem var 3. í röð afkvæma Ófeigs og með næsthæstu hæfileikaeinkunn stóðhesta 6 v. og eldri á mótinu, 8.56 og Hrefna 5297 frá Höfn fædd 1978, sem var fjórða í röð afkvæma Ófeigs og með hæstu hæfileikaeinkunn allra hryssna á mótinu eða 8.53. Það er því engin goðgá að álíta það að Ófeigur 818 hefði notið þess ef hann hefði farið fyrr út á almennan markað, ef svo má að orði komast, þar sem úr fyrsta árgangi hans í öðrum héruðum komu hross sem standa svo ofarlega í afkvæmadómi hans. Þar sem Ófeigur var ekki leigður til annarra héraða að ráði fyrr en 1982 var að sjálfsögðu ekki um það að ræða að nota önnur en tvö áðurnefnd afkvæmi utan Vesturlands árið 1986.
Vorið 1986 þegar það kom í ljós að Ófeigur 818 hafði náð heiðursverðlaunamarkinu ákvað stjórn Hrs. V. vegna ábendingar frá Reyni Aðalsteinssyni Sigmundarstöðum, að heiðra framleiðanda hestsins, Sigurborgu Jónsdóttur, á einhvern hátt við verðlaunaafhendingu, jafnt þó að hann yrði ekki fyrstur í röð, til dæmis með því að færa henni blómvönd við tækifæri. Ég minnist þess sem eins hrifnæmasta atviks á ævi minni, þegar Sigurborg var hvödd að dómpalli og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að afhenda henni, fyrir hönd Hrs. V., fagran blómvönd í þakklætisskyni fyrir að hafa lagt svo þungan hlut á vogarskál hrossaræktar á Vesturlandi og þeim áfangasigri, sem verið var að fagna. Ætla má eftir viðbrögðum fjölmiðla að þeim hafi ekki fundist eins mikið til þessa atviks koma og mér, því enginn að 1 eða 2 undanskildum sagði frá þessu í fréttum af mótinu.
Orðrétt úr bréfi Leifs Kr. Jóhannessonar: „Það er eitt athyglisvert við Ófeig 818 sem kynbótahest, en það er hversu erfiðlega hefur gengið að fá undan honum kynbótahesta að kröfum tímans, en aftur á móti eru undan honum nokkrar af bestu hryssum landsins. Hver ástæðan er fyrir þessu er erfitt að geta sér til um, en þetta er þó þekkt úr búfjárræktinni, t.d. sauðfjárrækt. Sumir hrútar gefa mikið af hrútsefnum en aðrir jafngóðir mjög lítið. Verkefni fyrir vísindamenn að kanna?“
Ég var svo heppinn að fóðra Ófeig 818 í tvo eða þrjá vetur. Ég kynntist honum og persónuleika hans vel. Ég naut þess ávallt í ríkum mæli að stíga honum á bak að kvöldi eftir erilsaman dag, sem oft kom fyrir vegna vinnu minnar í Borgarnesi. Ég er ekki maður til, og ætla mér heldur ekki þá dul, að lýsa gæðingskostum hans, enda eru þeir skráðir á spjöld hrossaræktar í landinu vegna umsagna dómnefnda, sem dæmt hafa hestinn, bæði sem einstakling og reiðhestaföður. Þegar ég enda þessa samantekt mína um Ófeig 818 stendur efst í huga áðurnefnd kynni mín af honum sjálfum og þá kemur í huga síðasta vísan úr „Faxarímu“, sem er í ljóðbálki Jóns Magnússonar skálds um Björn á Reyðarfell:
Tókstu nú í tauma sjálfur.
Tökin aldrei fipast þjer.
Inn í glæstar gleðiálfur
gott er enn að lyfta sjer.