Nótt frá Kröggólfsstöðum

Líklegt er að þessi grein hafi birst í Eiðfaxa en það er ekki vitað með vissu.

Um Nótt 3723 frá Kröggólfsstöðum og móðerni hennar vil ég taka fram að ég er ekki dómbær á það hver móðir hennar var, til þess skortir mig samtíma kunnugleika en mig langar að draga fram í dagsljósið ýmislegt um það efni. Er þá til að taka að þegar Nótt 3723 var sýnd með afkvæmum sínum til heiðursverðlauna á landsmóti hestamanna sem haldið var á Hellu 1994 hélt Sigurborg ekkja Páls Sigurðssonar því fram að hún væri ekki undan Öldu 3244 (Reykja-Brúnku) heldur undan brúnni hryssu sem hún taldi að hefði komið ofan af Kjalarnesi að Kröggólfsstöðum.

Fyrir tveimur eða þremur árum skrifaði Haraldur Jónasson grein í Eiðfaxa þar sem hann færði rök að því hvaða hryssa þetta hefði verið. Ég þekki Harald það vel að hann mun aldrei láta hafa eftir sér annað en það sem satt er og rétt. Eftir grein Haraldar fór ég að rifja upp 34 ára gamalt atvik. Haustið 1965 fórum við þrír Faxafélagar á þing Landssambands hestamanna sem þá var haldið á Hvolsvelli. Þessir menn voru Símon Teitsson, Sigursteinn Þórðarson og ég. Vegna kunnugleika þessara félaga minna og vinskapar Páls og Sigursteins fórum við kvöldið fyrir þingið og gistum á Kröggólfsstöðum. Þar var okkur tekið með mikilli gestrisni af Sigurborgu konu Páls, en Páll kom heim úr hestaflutningum stundarkorni síðar og var þá með á bíl sínum Hörð 591. Þá um kvöldið á góðri stund sagði Páll okkur frá hryssueign sinni og tilnefndi m.a. Öldu 3244 (Reykja-Brúnku) og Kolbrúnu 3059 (Grímarstaða-Brúnku) svo og brúna hryssu sem komið hefði ofan af Kjalarnesi og mundi vera ættuð ofan af Mýrum og þessum hryssum hefði verið haldið þá um vorið undir Hörð 591. Ekki datt mér í hug að sú hryssa sem um var talað væri hin skemmtilega hryssa sem ég tamdi 1948 eða 17 árum fyrr. Um þessa brúnu hryssu er það að segja: Hún var ætíð í eigu Sigríðar Jónasdóttur (systur Haraldar sem áður er getið) og vegna þess að Sigríður var alltaf kölluð Sirrý gekk hryssan undir nafninu Sirrýjar-Brúnka. Hún var alhliða ganghryssa þó hrein á tölti, alls ekki skeiðlaginn í hreyfingu, all vel vökur sem lítið reyndi á við þau árskynni sem ég hafði af henni, brokkið mjög mjúkt og ætíð tiltækt og aldrei notaði hún annan gang undir sjálfri sér. Fótaburðurinn í meðallagi en þætti sennilega ekki hágeng nú svo var einnig um reisingu. En það var ágætur vilji, mikið gangrými og frábært geðslag sem gerði þessa hryssu ógleymanlega.

Haraldur Bjarnason bóndi á Álftanesi var afi þeirra systkina, Sirrýjar og Haraldar, og þar voru þau í sveit sem börn og unglingar og þess vegna komst þetta brúna mertryppi, kannski á folaldsári í eigu Sigríðar. Sirrýjar Brúnka var undan Móra 123 frá Kjalardal (Sjá Ættbók og sögu G.G. 1. Bindi). Af kynnum mínum af afkvæmum og afkomendum Móra gæti ég sagt sögur sem a.m.k. ég hefði gaman af en þá var ég að stíga mín fyrstu spor í tamningu. Þó Gunnar Bjarnason telji að Móri hafi verið eitt ár leigður Hrossaræktarfélagi Álftaneshrepps þá var það í tvö skipti með eins árs milli bili og var Sirrýjar Brúnka af yngri árganginum f. 1940.

Á seinnihluta búskapar Haraldar Bjarnasonar á Álftanesi tamdi ég fjölmörg hross þaðan  og gæti margt um þau sagt en rúmsins vegna læt ég staðar numið en get ekki staðist þá freistingu að segja frá því að Álftaneshross entust vel, urðu gömul að því er virtist í fullu fjöri og svo var reyndar líka um afkomendur Móra frá Kjalardal eins og mörg dæmi sanna.