Erindi flutt á ættarmóti afkomenda Þorvalds Sigurðssonar og Valgerðar Önnu Sigurðardóttur í Lyngbrekku sumarið 1996 og birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2019.


Kæra frændfólk,
Ég átti því láni að fagna að kynnast móðursystkinum mínum allmikið, en ég er sonur Sesselju, sem var ein systkinanna frá Álftártungukoti. Auðvitað þekkti ég móðursystkini mín mismikið en þó á ég margar skemmtilegar bernsku- og æskuminningar um þau öll. Ég hef tekið mér það vandasama verk á hendur að rifja upp nokkrar minningar mínar um þau. Tímans vegna get ég fátt tínt til.

Guðrún Bjarndís (1881-1971), sem af okkur í Álftártungu gekk undir nafninu Gunna á Höfða eða Gunna á Ströndinni, kom mér fyrir sjónir sem stillt og prúð kona með góða frásagnareiginleika. Ég á margar minningar um þau hjón Guðrúnu og Þórarinn, enda voru þau dugleg að koma í heimsóknir og ætíð fylgdi þeim hressandi blær sem varpaði birtu á fábreytni daganna. Ég ætla að rifja upp eitt dæmi sem sýnir hve Gunna komst vel að orði og var góður viðmælandi. Þau Höfðahjón voru dugleg að heimsækja frændfólkið á Sleitubjarnarstöðum eftir því sem þá gerðist. Einhvern tíma á unglingsárum mínum fóru þau þangað í heimsókn. Á bakaleið komu þau við í Álftártungu og Sigga móðursystir mín með. Af meðfæddri fróðleiksfýsn hefur Siggu langað að vita hvort vín væri haft um hönd á heimili Sigurðar og innti Gunnu eftir. Ég held ég muni hið frábæra svar hennar orðrétt: „Engin merki sá þess að vín væri haft um hönd á heimili bróður okkar en hvort hann tekur hestaskál og velfarnaðarminni í smáum stíl, treysti ég mér ekki að segja um“. Mörgum árum seinna var mér sagt að Sigurður hafi verið bindindismaður svo sem systkinin öll.
Næstur í aldursröð er Sigurður Sólmundur (1884-1989). Honum kynntist ég ekki fyrr en hann var orðinn mjög fullorðinn. Minningin um hann er í mínum huga mjög fastmótuð og skýr. Ég minnist þess ekki að hann hafi komið nema einu sinni á æskustöðvarnar á Mýrum vestur eftir að hann flutti þaðan alfarinn. Ég tel víst að ég mundi muna eða hafa heyrt um ef svo hefði verið. Það var þegar ég var 14 ára eða sumarið 1937 sem þessi heimsókn átti sér stað, enda stendur hún mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, sérstaklega vegna þess að foreldrar mínir og þá sérstaklega móðir mín glöddust svo innilega yfir henni. Þennan atburð man ég svo vel að ég tel mig enn í dag geta rakið slóð systkinanna í stórum dráttum um túnið og heimahaganna. Löngu seinna man ég Sigurð frænda þar sem hann seldi ferðamönnum bensín fram yfir 100 ára aldur, spariklæddur með hálsbindi, teinréttur í baki og heimsborgaralegur í fasi.
Þá kemur röðin að móður minni Sesselju (1888-1955). Úr fjölmörgum minningabrotum valdi ég eina sem ég tel að lýsi henni vel. Ég var mjög ungur þegar þetta var. Svo bar til að undir rökkur á haustdegi, bar mann að garði sem bað um að sér yrði sagt til vegar að bænum Valshamri. Auðvitað var manninum boðið í bæinn, það var ávallt gert. Ekki þáði hann góðgerðir enda talið óráðlegt þar sem myrkrið var að detta á. Síðan hófst leiðarlýsing móður minnar með mörgum orðum og nákvæmum lýsingum á ýmsum kennileitum sem á leið mundu verða ef rétt væri farið. Síðan endaði hún með því að segja ef hann missti af þeirri lýsingu sem hún væri búin að gefa skyldi hann stefna á Hátinda í Hafnarfjalli sem hún benti honum á, þá mundi hann áreiðanlega sjá bæinn eftir klukkustundar gang, en hann þyrfti að hafa hraðann á því við myrkrið væri að tefla. Þegar ég rifja upp þessa 65-70 ára bernskuminningu hef ég á tilfinningunni að móðir mín hafi líkst Sigurði Straum afa sínum hvað frásagnarhæfileika snertir, kannski óþarflega mörg orð á stundum a.m.k. með hárnákvæmum frásögnum um það sem málið snerist um þá og þá.

Sigríður (1892-1973), sem aldrei var kölluð annað af okkur Álftártungusystkinum en Sigga frænka, var að mörgu leyti sérstök og eftirminnilegur persónuleiki. Henni kynntist ég mest og best af þeim systkinum og um hana á ég minningar allt frá bernskudögum mínum þar til hún féll frá 1973. Hún var virðuleg í fasi og framkomu og lagði áherslu á að fólk héldi virðingu sinni hvort heldur væri á gleði- eða sorgarstundu. Hún virtist á varðbergi í návist skemmtilegra og hvatvísra frænkna sinna um að þær yrðu sér ekki til skammar. Hún lagði mikla áherslu á klæðaburð sinn hvort heldur var hversdags eða spari og besta íslenska búninginn, sem var af dýrustu og bestu gerð, bar hún með mikilli virðingu. Kona mín Rúna og Sigga urðu miklar vinkonur þó aldursmunur þeirra væri 38 ár og báru mikla virðingu hvor fyrir annarri. Eftir að Sigga varð ekkja í annað sinn dvaldi hún um árabil á heimili aldraðra á Akranesi. Þau ár kom hún í heimsókn til okkar á Beigalda á hverju sumri og dvaldi hjá okkur í nokkra daga. Eitt sinn er hún kom stóðu heyannir yfir og allir unnu að heyskapnum en ekki þótti rétt að skilja gömlu konuna eina eftir í bænum og voru Sessý og Alda dætur okkar látnar vera hjá henni til skiptis til að láta vita út á tún ef eitthvað kæmi fyrir hana. Í þetta sinn var Alda hjá henni og tók Sigga að sér að sjá um kvöldmatinn eða segja Öldu, sem þá var smástelpa, til verka. Fyrir lá að elda grjónagraut og hita upp matarafgang frá hádegisverði. Nú var suðan látin koma upp á grautnum en frænku minni fannst þörf á að spara rafmagnið og eftir nokkra umhugsun spratt hún upp og segir við Öldu: „Nú fann ég ráð“, að þeim orðum sögðum tekur hún lokið af grautarpottinum, tók pottinn með matarafganginum og setti í staðinn. Þar með sauð hún grautinn og hitaði upp matarafganginn á sömu rafmagnshellunni. Svona var Sigga sparsöm, hagsýn og nýtin sem margir mættu læra af.


Nafnkunnastur þeirra systkina var Friðrik (1896-1983). Fjölhæfar gáfur og mikill áhugi á þeim viðfangsefnum sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann að sérstökum persónuleika sem ekki gleymist. Kunnastur er hann fyrir störf sín að samgöngumálum almennt, en þó sérstaklega milli Reykjavíkur og Borgarnes. Minnisstæður þeim, sem komu á afgreiðslu Akraborgar og sáu hann gera allt í senn, skrifa fylgibréf, tala í símann og kinka kolli eða hrista höfuðið til samþykktar eða synjunar fyrirspurnum úr afgreiðslusal.
Bernskumínningar mínar um Friðrik eru fyrst og fremst tengdar söng þegar hann kom í hópi félaga sinna úr kirkjukór Borgarness til aðstoðar við söng í Álftártungukirkju. Mér fannst þessi frændi minn syngja svo vel að ég tel mig ennþá heyra óminn af söngrödd hans. Annað minnisstætt í framkomu Friðriks var það að mér fannst hann alltaf vera að flýta sér. Áhugi hans leyfði honum ekki að doka við, sitja og masa. Þó fullyrði ég að þessi asi sem á honum var, var ekkert skyldur þeirri streitu sem einkennir marga í dag, heldur var þarna að verki hrein og tær uppspretta orku, áhuga og hugsjóna.
Yngstur systkinanna var Jónas (1899-1974). Ég á bernskuminningu um hann sem er mér afar kær. Ég hef verið níu eða tíu ára þegar Jónas var í kaupavinnu hjá foreldrum mínum. Þá var ég búin að læra mannganginn í skák og var sólginn í að tefla þrátt fyrir marga tapleiki. Mér finnst enn í dag að Jónas hafi haft gaman af að tefla við mig. Eitt kvöld sátum við að tafli og fannst mér að ég væri maður með mönnum. Auðvitað mátaði Jónas mig því að sjálfsögðu gat hann það þegar hann ætlaði. Í þetta sinn mátaði hann mig með riddara. Þá spyr hann mig hvort ég viti hvað það heiti að vera mát með riddara, nei ekki vissi ég það. „Það heitir að vera riddarapiss, mjög svo háðuglegt mát“. Ekki hafði hann fyrr lokið setningunni en ég í bræði minni tók kassann utan af taflmönnunum og henti í höfuðið á honum.

Þegar Jónas kom í kaupavinnuna var hann með veiðistöng og veiðihjól sem mér þótti mikið til koma. Þegar hann fór og kvaddi mig sagði hann: „Af því að þú hefur alltaf verið góður drengur í sumar máttu eiga veiðistöngina mína og hjólið“. Ég flaug upp um hálsinn á Jónasi af óstjórnlegri hrifningu og þakkaði fyrir. Það olli mér miklum heilabrotum í nokkurn tíma á eftir að Jónas taldi mig hafa verið góðan dreng, skyldi hann hafa gleymt þegar ég henti taflkassanum í hausinn á honum, þá hafði ég verið vondur strákur.
Nú langar mig að fara nokkrum orðum um það sem var líkt með þessum systkinahópi. Þar er fyrst til að taka hve lík þau voru í sjón og enn í dag má greina þennan sterka svip á afkomendum þeirra. Fas og framkoma öll ákveðin, samt kurteis og prúðmannleg.
Öll höfðu þau mikinn áhuga á skólamálum og varð reyndar ævistarf Sigurðar og Jónasar en Friðrik sinnti kennslustörfum um nokkur ár og margir kennarar og skólamenn finnast í afkomendahópnum. Reglusemi, þar með talin bindindissemi, var þeim öllum í blóð borin. Það var samt svo að Siggu þótti ákaflega gaman að þiggja tár af víni. Hún lyftist upp þegar henni var boðinn sopi og sagði þá: „hafðu það lítið svo sem svarar í einu teskeiðarblaði“.
Félagsmálaáhugi þeirra á ýmsum sviðum var mikill, enda urðu bræðurnir allir umfangsmiklir félagsmálamenn en þá þekktist ekki að konur tækju þátt í félagsmálum. Þá má nefna tónlistaráhuga, öll voru þau söngvin og minnist ég allra þeirra raulandi lag fyrir munni sér og í afkomendahópnum er mikið af söngfólki sem tekur þátt í kórstarfi og öðru því sem lýtur að söng og hljóðfæraleik. Öll báru þau sterk einkenni mannkærleika sem birtist í velvild og greiðvirkni í garð samferðafólksins. Síðast en ekki síst má nefna þann sameiginlega eiginleika, sem að öllum líkindum er arfur frá Sigurði Straumi afa þeirra, en það var frásagnargáfa og hnittin tilsvör sem hittu beint í mark en særðu engan.

Kæra frændfólk, ég vona að ég tali fyrir munn okkar allra þegar ég lýsi stolti mínu yfir því að vera afkomandi fólks sem fæddist í mikilli fátækt og braust til bjargálna strax og örlaði fyrir nýjum degi í efnahagslífi þjóðarinnar. Afkomandi fólks sem fæddist ekki með silfurskeið í munni, en með dugnaði sínum og fórnfýsi aflaði sér menntunar til að miðla öðrum með þá silfurskeið þekkingar í hendi sem það sjálft smíðaði og veitti öðrum með. Þegar ég lýk þessum hugleiðingum um móðursystkini mín koma mér í huga ljóðlínur borgfirska skáldbóndans Guðmundar Böðvarssonar á Kirkjubóli. Ég leyfi mér og finnst viðeigandi að ljúka þessu með þeim.
Grimmur heimur hlær og lokkar
heiðafeiminn álf.
En hver mun geyma arfinn okkar
ef við gleymum sjálf.