Minningaleiftur frá liðinni tíð

Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar árið 2017.

Allt frá barnæsku hafa þeir atburðir, sem hér á eftir verður lýst, fylgt mér. Þættirnir eru í raun fimm talsins en í gegnum þá eru þræðir sem flétta þá saman. Það er tilvist og myndir af tryppi einu í Álftártungu í Álftaneshreppi, líf og örlög samferðafólks í næsta nágrenni Álftártungu, þar sem ég fæddist, ólst upp og var til heimilis til ársins 1948. Augljóslega koma foreldrar mínir einnig við sögu en hver kafli spinnst fram í þann næsta en í þeim síðasta verða óljós mörk raunheima og annarra heima.

 Litli-Jarpur og sviplegt fráfall ungs manns

Litli-Jarpur var fæddur vorið 1921. Hann var bleikjarpur að lit, með dökkt tagl og fax, lítill vexti, hnellinn og dugmikill, geðgóður og vinnufús. Hann var með notalegan reiðvilja, hreinn klárhestur með ágætu tölti, sérstaklega á yfirferð. Brokkið var mjúkt og allar hans hreyfingar svo mjúkar að litlu munaði á brokki hans og tölti. Eigandi Litla-Jarps var systir mín, Júlía Guðmundsdóttir f. 1921, sem fékk hann í vöggugjöf.

Júlía Guðmundsdóttir og Litli Jarpur árið 1936. Ljósmynd: Finnur Einarsson.
Júlía Guðmundsdóttir og Litli Jarpur árið 1936. Ljósmynd: Finnur Einarsson.

Hann var aðallega notaður til reiðar en ekki dráttar. En hann reyndist vel til þess að flytja heyband og til þess að sækja skóg til eldiviðar. Skilaði hann böggum sínum hvort heldur voru heybaggar eða hrísklyfjar ekki síður en þeir hestar sem töldust hafa meiri krafta í kögglum.

Heima í Álftártungu gekk hann ávallt undir nafninu Litli-Jarpur og svo mun verða gert í þessari grein en sumir nágrannar nefndu hann oft Fjalla-Jarp sem aldrei festist þó við hann.

Haustið 1922 þegar Litli-Jarpur var veturgamall vantaði hann af fjalli ásamt tveimur eða þremur tryppum frá Álftá, sem er næsti bær vestan við Álftártungu. Þau höfðu farið saman á fjall um vorið. Nokkur leit var gerð að þeim um haustið og framan af vetri þar til Álftártryppin fundust en ekki Litli-Jarpur. Allir töldu að tryppin hefðu haldið hópinn og því var slegið föstu að folinn frá Álfártungu hefði farist með einhverjum hætti um sumarið.

Vigdís Eyjólfsdóttir og Pétur Þorbergsson
Vigdís Eyjólfsdóttir og Pétur Þorbergsson í Syðri-Hraundal. Ljósmyndari ókunnur.

Það var í nóvember sem sú leit var gerð sem hér segir frá. Í hana fóru Pétur Þorbergsson (1892-1973) bóndi í Syðri-Hraundal og Jón Eyjólfsson (1903-1922) frá Álftárstekk. Hann var sonur hjónanna Halldóru Jónsdóttur (1878-1961)og Eyjólfs Erlendssonar (1864-1922) í Álftárstekk. Jón hafði ráðist til foreldra minna vorið 1922 en það vor lést Eyjólfur faðir hans og búskap lauk þá um vorið í Stekknum, eins og bærinn var oft nefndur. Flest börn þeirra hjóna voru uppkomin og farin að heiman en hinum yngri var komið fyrir á ýmsum bæjum í Hraunhreppnum. Pabbi ætlaði að fara í þessa leit ásamt Pétri. En Jón sótti mjög að fara í hana. Þegar pabbi lét undan þrábeiðni hans hlakkaði hann til eins og um skemmtiferð væri að ræða.

Þennan örlagaríka dag versnaði veður þegar á hann leið, gerði bleytuhríð og færð versnaði. Þá undir kvöld dró mátt úr Jóni og lést hann skömmu síðar. Þegar Pétur var þess fullviss að Jón væri allur komst hann við illan leik í Fjallhúsið. Þegar þangað kom gat hann hvorki kveikt ljós né hitað sér vatn í kaffi til hressingar en til þess hefði hann þurft að bræða snjó. Þá var það hans fangaráð að ganga um gólf og berja í sig hita, en löng hefur sú nótt verið Pétri og sýndi karlmennsku hans og þrautseigju. Við læknisskoðun á líkinu kom fram að banamein Jóns var hjartabilun.

Orsök þess að Pétur gat ekki kveikt ljós var að eldspýtur sem hann var með höfðu blotnað í vasa hans með þessum afleiðingum en engar eldspýtur voru í húsinu. Upp frá þessu og meðan ég fór í leitir hjá Álfthreppingum, síðast haustið 1947, var alltaf séð til þess að eldspýtur væru í blikkdós ásamt kaffi í annarri og tveir prímusar og steinolíulampi fullir af olíu og olía á tíu lítra brúsa, væru til staðar á áberandi stað í húsinu. Ekki veit ég hvort eða hvenær sú regla hefur verið afnumin.

Óvæntur samfundur í Bifröst við systur Jóns Eyjólfssonar

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar voru vinsælar svonefndar bændaferðir. Þá heimsótti bændafólk ókunn héruð og nutu gestrisni heimamanna í mat og gistingu.

Um 1960 kom bændafólk úr Holtum í Rangárvallasýslu í heimsókn um Borgarfjörð, Mýrar og Snæfellsnes. Þá var ég búinn að vera bóndi á Beigalda frá 1954 og orðinn formaður Búnaðarfélags Borgarhrepps. Því kom það í minn hlut ásamt fleirum að taka á móti þessu ferðafólki. Kvöldið áður en þessi hópur fór heim var honum haldið lokahóf í Bifröst í Norðurárdal. Þangað fór ég og kona mín Rúna. Eftir að máltíð lauk og fólk fór að blanda geði saman kom til mín kona nokkuð við aldur, kynnti sig og sagðist mega til að fá að faðma mig að sér í þakklætisskyni fyrir hvað faðir minn hefði verið góður og nærgætinn við mömmu sína þegar Jón bróðir hennar dó. Þar var komin alsystir Jóns Margrét Eyjólfsdóttir (1904-1996) frá Álftárstekk húsfreyja á Læk í Holtum en hún var farin að heiman þegar Jón dó. Ég stóð á fertugu þegar ég hitti Margréti í þetta eina sinn. Þá fyrst hugsaði ég út í og gerði mér grein fyrir hve þung og erfið þau spor hefðu verið fyrir pabba að tilkynna Halldóru lát sonar hennar.

Merk kona

Gróa Guðmundsdóttir
Gróa Guðmundsdóttir. Ljósmynd Sigfús Eymundsson. Þjóðminjasafn Íslands.

Nú kemur til sögunnar Bergur Teitsson (1877-1957). Bróðir hans hét Sturlaugur (1878-1945) og bjó hann á Hlíð í Hörðudal. Á síðustu æviárum Gróu Guðmundsdóttur (1846-1924), ömmu minnar í Álftártungu kom Bergur þangað. Hún fór til dyra og þekkti ekki komumann og spurði „hvað heitir maðurinn?“ svarið var „ég er bróðir Sturlaugs“. „Eitthvað mun þó maðurinn heita“ var svar Gróu. Trúlega hefur Bergur svarað henni á þennan hátt vegna þess að nokkur samskipti voru milli Álfthreppinga og Hörðdælinga vegna samgangs sauðfjár og hrossa á afréttinum og í réttaferðum þar sem bændur kynntust. Kannski hefur hann haldið að amma hafi heyrt um Sturlaug og talið að henni væri meira í mun að heyra um uppruna sinn en nafn.

Gróa var húnvetnsk að ætt og foreldrar hennar bjuggu á Mörk í Laxárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Hún réðst sem ung stúlka til prestshjónanna Gróu Erlendsdóttur (1822-1900), sem var móðursystir hennar og séra Bjarna Sigvaldasonar (1824-1883). Hann var kjörinn prestur að Lundi í Lundarreykjadal 1864 og fór hún þangað með þeim. Þar kynntist hún eiginmanni sínum Árna Jónssyni (1842-1893) frá Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal. Þau hófu búskap á Mófellsstöðum í Skorradal. Þaðan fluttu þau að Narfastöðum í Melasveit 1873. Árna mann sinn missti Gróa á vordögum 1893. Hún hélt búskap áfram með aðstoð Guðmundar (1873-1854) sonar síns og föður míns sem þá var á tvítugsaldri.

Árið 1899 flutti hún með þeim börnum sínum Guðmundi og Steinunni (1875-1945) að Álftá í Hraunhreppi og að Álftártungu í Álftaneshreppi 1900 þar sem sami ættleggurinn hefur búið síðan. Þau Árni og Gróa komu sér upp góðu og fágætu bókasafni sem sífellt var aukið við af góðum bókum. Þegar pabbi komst á fullorðinsár lagði hann bókasöfnuninni lið og ár frá ári bættust við bækur eftir því sem efni og ástæður leyfðu. Þegar þetta bókasafn brann í húsbrunanum í Álftártungu í september 1924 var það orðið mikið að vöxtum og gæðum.

Gróa amma var skarpgreind, bókhneigð, fjölfróð og mikið lesin, skapmikil og stjórnsöm svo að nálgaðist ráðríki, forn í háttum og tali.

Bókakostur var afar fátæklegur á flestum bæjum á þessum tíma. Því sótti fólk mikið í að fá bækur lánaðar í Álftártungu. Amma var afar greiðvikin að lána bækur, sérstaklega var hún ánægð að lána ungu fólki þessar gersemar sínar. Það var siður hennar þegar bókum var skilað að hlýða fólki yfir eða ræða um efni þeirra. Ef viðkomandi stóð sig illa á því prófi taldi hún að tilgangslaust væri að lána því fólki bækur sem ekki læsi þær. Ekki lét hún þetta samt bitna á neinum en þetta varð til þess að þegar bókum var skilað kom fólk betur undirbúið fyrir prófraunina.

Það sem ég skrifa hér um ömmu mína er haft eftir Níels Hallgrímssyni (1889-1981) á Grímsstöðum sem hafði mikið dálæti á ömmu og bar fyrir henni virðingu.

Björgun á þorra

Eftir þessa frásögn af ömmu minni, Gróu, kemur Bergur Teitsson aftur til sögunnar. Hann bjó með konu sinni á Flesjustöðum í Kolbeinsstaðahreppi þegar þau hjón urðu fyrir þeirri miklu sorg að tvö börn þeirra urðu úti 8. febrúar 1925 í Halaveðrinu svokallaða sem þá gekk yfir landið. Á seinni hluta fjórða áratugs síðustu aldar var Bergur kaupamaður eða vinnumaður á ýmsum bæjum í Álftaneshreppi en mun hafa dvalið í Reykjavík a.m.k. suma vetur. Þegar ég fór fyrst í leitir haustið 1937 var Bergur þar og tvö eða þrjú haust eftir það og var þá, að mér unglingnum fannst, orðinn gamall maður. Svo sem áður hefur komið fram bjó Sturlaugur bróðir hans í Hlíð í Hörðudal.

Snemma í janúar árið 1923 fór Bergur í heimsókn til bróður síns og fór fjallasýn sem svo var kallað, gekk inn Langavatnsdal og yfir Sópandaskarð en hafði lagt upp frá Grísatungu í Stafholtstungum. Þegar hann kom á Beilárvelli, allmikla velli, sem liggja í austur frá suðurenda Langavatns, gekk hann fram á jarpa tryppið frá Álftártungu sem vantaði af fjalli þá um haustið. Ekki tók hann á það ráð að snúa við að Grísatungu og segja fréttirnar enda ekki von því það hefði tafið hann um tvo og hálfan tíma og þar með gönguferð hans. Þá var fyrir nokkru kominn sími um Dali og Skógarströnd til Stykkishólms og Borgarness. Ekki var sent símskeyti að Álftártungu sem voru ígildi sms skilaboða samtíma okkar. Það þýðir að fólk hafi seint tileinkað sér hina nýju tækni símskeytasendinga. Mánuði síðar kom Bergur aftur suður og fór þá um Bröttubrekku. Kom hann við í Svignaskarði og sagði frá fundinum. Þá bjó þar Guðmundur Daníelsson (1873-1939) sem var fljóthuga atorkumaður sem ekki dró til morguns það sem hægt var að gera í dag. Hann tók þegar hnakk sinn og hest og reið vestur að Álftártungu að segja tíðindin. Þá munu þeir nafnar hafa gert áætlun um hvernig best væri staðið að björgun tryppisins. Ákveðið var að best mundi að koma því stystu leið til bæja sem var að Grísatungu eða Tandraseli og fá Árna Þorsteinsson (1889-1974) bónda í Tandraseli til hjálpar að bjarga tryppinu til byggða. Strax eftir þetta lagði pabbi leið sína að Tandraseli og kom þangað að kvöldi til og var Árni tilbúinn til hjálpar daginn eftir en um nóttina sem pabbi gisti þar, veiktist ung dóttir hjónanna svo mikið að ekki þótt vit í öðru en leita til læknis. Því gat Árni ekki farið með pabba inn á Beilárvelli en hest lánaði hann honum, traustan og rólegan sem hægt var treysta á að ekki færi of hratt yfir til að reka tryppið með til byggða.

Þegar pabbi kom á Beilárvelli sá hann strax Litla-Jarp sem var innikróaður á litlum uppnöguðum bletti milli svellalaga. Þegar folinn varð var hestanna, sem pabbi var með, hneggjaði hann lágt. Þess vegna taldi pabbi að ekki væri eins mikið af honum dregið og efni stóðu til. Þegar pabbi var rétt sloppinn yfir Beilá í seinna sinn ruddi hún sig og tókst honum með naumindum að bjarga hundi sínum, sem var nokkrum metrum á eftir, úr flóðinu. Pabbi taldi að Litli-Jarpur hefði verið í góðum mætti og dró þá ályktun af því að hann stökk nokkuð léttilega upp á ísskör við einhverja ána sem hann nefndi ekki hver var. Folinn var samt mjög magur, mjósleginn og svangur þegar hann fannst. Þegar heim kom tók Litli-Jarpur hressilega í græna tuggu sem pabbi gaf honum. Nú var sá vandi á höndum að gefa Litla-Jarpi nógu lítið af því besta sem til var af heyjum og smáauka við gjöfina í nokkra daga. Þetta tókst vel. Hálfum mánuði seinna var hann látinn út í fyrsta sinn og brá hann þá á leik. Þessi vetur var nokkuð hrakviðrasamur fyrir jól. Í janúar gerði afar góðan veðrakafla með þurrviðri en frostleysu. Þó var frost í jörðu sem gerði pabba mögulegt að fara beina leið frá Tandraseli. Um miðjan febrúar breyttist veðrið í rigningakafla. Eftir það hefði ekki verið hægt að bjarga Litla-Jarpi vegna vatnavaxta.

Þar sem pabbi sagði þessa ferðasögu aldrei heildstætt a.m.k. ekki svo ég heyrði vakna margar spurningar. Í fyrsta lagi hvernig kom hann folanum járnalausum yfir svellbunkann á Beilárvöllum og yfir ána á ís en jörðin var svellalaus að öðru leyti og aðrar ár á leiðinni íslausar? Beilá ruddi sig þegar hann var rétt kominn yfir hana en ár ryðja sig ekki nema í vatnavöxtum og Gljúfurá og Langá og ef til vill Urriðaá hefðu þá verið ófærar með öllu. Eins og alkunna er kemur það oft fyrir að lindár bræða af sér ísinn í litlum vatnavöxtum og mér dettur í hug að svo gæti hafa verið í þetta sinn og umferð yfir ána hafi flýtt fyrir að ísinn félli niður. Eins er hægt að ímynda sér að klakastífla hafi verið í Beilárgljúfri þaðan sem Beilá rennur úr og losnað einmitt á þessum tíma. Þriðja spurning sem vaknar er hvernig fór hann að eftir að hann fór frá Tandraseli sama dag? Rak hann reiðhest sinn ásamt tryppinu á undan sér? Eða tók hann tryppið í taum sem vel er hægt að hugsa sér því hross á þessum aldri eru fljót að læra að teymast.

Sesselja Þorvaldsdóttir og Guðmundur Árnason í Álftartungu með Magnús Halldórsson fósturson sinn árið 1934. Guðmundur er í reiðbuxum,jafnan kallaðar sportbuxur. Skálmar á sportbuxum voru þröngar neðan við hné og náðu niður á mjóalegginn. Hnéháum sokkunum var haldið uppi með fótaólum sem voru spenntar saman með spennu neðan við hnéð. Sokkastroff var brett yfir fótaólarnar. Ættu menn ekki fótaólar voru notuð einföld fótabönd sem hnýtt voru með sérstökum hnút. Sumir áttu skrautofin fótabönd. Ljósm. Óþekktur.

Svari nú hver fyrir sig hvernig hann mundi hafa farið að. En spurningu um aðferð pabba við þessar kringumstæður verður aldrei svarað. Þegar ég velti þessum spurningum fyrir mér verður mér ekki síður hugsað til mömmu, Sesselju Þorvaldsdóttur (1888-1955). Mikið hefur reynt á hennar þolgæði ekki síst vegna þess að hún var þá að því komin að eiga barn en einungis nokkrum dögum seinna kom í heiminn sá er hér segir frá. Jafnan er vanmetið hvað er á þá lagt sem heima sitja við aðstæður sem þessar og bíða eftir að ferðamenn komi til baka. Í þetta skipti sýndi mamma bæði hugprýði og yfirvegun fullviss þess að maður sinn stæðist þá raun að koma folanum til síns heima eftir að hann hafði verið týndur í nokkra mánuði og raunar talinn af. Jafnan eru bæði veraldleg og ekki síður tilfinningaleg verðmæti í tryppum og það hefur verið mikilvægt að ná gripnum heim eftir hrakningarnar.

Hjátrú og hindurvitni

Ýmsar sögusagnir mynduðust við dauða Jóns Eyjólfssonar. Sumt af eldra fólki trúði að sögur fólks í hjátrú liðinna kynslóða um móra og skottur, sem fylgja áttu mönnum í marga ættliði, væru sannar. Þetta eldra fólk taldi sig oft hafa orðið fyrir aðsókn nóttina áður en Pétur í Hraundal kom á viðkomandi bæ og taldi þar með víst að Jón fylgdi honum. Sumir töldu líka að þeir hefðu orðið varir við einhvern slæðing í námunda við Litla-Jarp. Ótrúlega lengi voru þessar sögur sagðar, jafnvel í marga tugi ára. Allar voru þær barðar niður af foreldrum mínum og ekki voru þær sagðar á bernskuheimili mínu. Þess vegna trúðum við systkinin ekki slíkum sögum enda af nýrri kynslóð sem ekki trúði á afturgöngur.

Tveimur atburðum langar mig þó að segja frá af þessu tilefni. Sá fyrri byrjar á veðurlýsingu. Í mikilli norðanátt leggur út Hítardal og stundum Hraundal mikinn kafaldsbakka, sem eftir vindátt liggur mis sunnarlega, ofast nær hann Fíflholtum en einstaka sinnum Álftá en aldrei að Álftártungu en mitt á milli þessara nágrannabæja. Það var snemma vetrar þegar veðri var svo háttað sem hér er lýst að kófmökkinn lagði miðja vegu milli Álftár og Álftártungu að úr eldhúsglugganum í Álftártungu sást til manns á göngu með kófbakkanum og stefndi hann í suð-vestur átt og hvarf í hríðarkófið nokkru neðar. Allir viðstaddir sáu hann og man ég þetta eins og gerst hafi í gær. Aldrei fréttist hver þarna var á ferð en talið víst að það hefði verið maður frá Álftá að huga að kindum.

Dísa stjúpamma mín, Þórdís Þórðardóttir (1872-1943)[1], var ekki í vafa um að þar hefði verið á ferð svipur Jóns Eyjólfssonar að vitja æskustöðvanna í Álftárstekk.

Þórdís Þórðardóttir. Ljósmynd: Finnur Einarsson.

Það olli mér, barninu, nokkrum heilabrotum hvar Jón hefði dvalið frá því hann dó og þar til hann birtist þarna í hríðarkófinu. Hafði ég aldrei orð á því við nokkurn mann og fékk því aldrei neinar útskýringar.

Hinn atburðurinn sem ég hafði ekki heyrt áður sagði Júlía systir mín (f. 1921) mér fyrir fáeinum árum þar sem ég heimsótti hana á heimili hennar, Eirhömrum í Mosfellsbæ þar sem hún dvelur nú. Halldóra Grímsdóttir (1857-1942) vinnukona á Grímsstöðum frá 1895 dó þar 16. september 1942 og var grafin þar í heimagrafreit. Þar hvíla einnig húsbændur hennar hjónin Sigríður Helgadóttir (1858-1958) frá Vogi og Hallgrímur Níelsson (1864-1958) bóndi og hreppsstjóri á Grímsstöðum og Ingibjörg (1853-1952) systir Sigríðar sem dvaldi á Grímsstöðum frá 1897. Júlía var fengin til hjálpar að Grímsstöðum við undirbúning erfisdrykkju Halldóru. Hún fór á Litla-Jarp og sleppti honum í túnið. Þegar fólk kom til kaffidrykkju um kl. 4 þennan dag hafði ein af konunum orð á því að hún hefði orðið fyrir aðsókn þá um nóttina. Hún hafði varla sleppt orðinu þegar einn heimilismanna sagði að hann væri ekki hissa á því. Hann hefði ekki séð betur en Fjalla-Jarpur í Álfártungu væri hér í túninu þegar við komum í kaffið.


[1] Í kirkjubókum er Þórdís sögð fædd árið 1870 eins og stendur í Borgfirskum æviskrám. Það er villa en Þórdís fæddist árið 1872.