Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2013.
Sú grein sem hér birtist lesendum Borgfirðingabókar varð til eftir skemmtilega dagsferð, sem frá er sagt í Borgfirðingabók 2012 á bls. 173. Hún er saga af ferð sem varð til þess að minningar og tilvik frá liðnum tíma rifjuðust upp og verður það efni fléttað inn eftir því sem aðstæður leyfa. Innskot um atburði og örlög bændanna á Grenjadal á 17. öld lenda með frásögn af ferð sem farin var á framdrifnum jeppabifreiðum nútímans þegar málverkið góða var flutt á sinn stað í Fjallhúsi Álfthreppinga við Lambafell.
Nú ætla ég að segja ferðasöguna alla þegar málverk Ásgeirs Bjarnþórssonar var flutt þangað að lokinni afar vel heppnaðri viðgerð Ólafs Inga Jónssonar. Það var í ágúst 2011, sem lagt var af stað frá Beigalda. Farið var á tveimur jeppum. Í öðrum voru Árni Guðmundsson yngri og foreldrar hans Ragna Sverrisdóttir og Guðmundur Árnason Beigalda en í hinum Jón Bjarnason og kona hans Lilja Árnadóttir, hjónin Gróa Finnsdóttir og Ólafur Ingi Jónsson, sem var höfðingi ferðarinnar og Árni Guðmundsson eldri frá Beigalda. Leiðin lá um Grímsstaðaveg upp með Urriðaá í Álftaneshreppi að vestan, fram hjá Valshamri vestan hennar og Háhóli að austan. Báðir bæirnir á hægri hönd. Nokkrum spöl ofar fram hjá eyðibýlinu Árbæ á hægri hönd, austan ár. Alltaf er fallegt að ferðast upp Grímsstaðaásana, Árása, Breiðás og Langás meðan vegur lá um þá. Nú liggur vegurinn vestan við tvo þeirra síðarnefndu.

Á meðan ég átti heima í Álftaneshreppi til 1948 var fjölfarnara um Hraundal en Grenjadal þótt sumir færu alltaf þar þegar riðið var til fjalls. Við systkinin í Álftártungu lögðum leið okkar alltaf um Hraundal enda lifðum við þar margar skemmtilegar stundir í hópi vina okkar. Hann var leikvangur æsku minnar og er mér kærari en önnur landssvæði. Ótrúlega lengi fannst mér að ég væri ekki búinn að vinna öll vor- eða sumarverk fyrr en ég var búinn að leggja leið mína um Hraundal. Nú skyldi aftur á móti haldið inn Grenjadal enda fyrir allmörgum árum lögð akfær slóð um hann.
Fyrir nokkrum árum kom ég í nýlega byggt veiðihús við Langá í Jarðlangsstaðalandi. Þar sá ég á korti að veiðistaðir í Langá inn á Grenjadal voru sagðir ,,inn á fjalli“. Ég varð undrandi á þessu því þetta hafði ég aldrei heyrt. Á Grenjum og í Álftaneshreppi var alltaf sagt inn á Grenjadal þegar einhverjir hlutir gerðust þar, t.d. smala, sækja hesta eða kýr, tína ber, slá eða heyja Fyrnungsbrekkur sem þar eru og fleira.
Ég veiddi laxinn í Langá inn á Grenjadal mundi hinn sjálfmenntaði íslenskumaður Baldvin á Grenjum hafa sagt, alls ekki inn á fjalli eins og nú er orðin venja. Þetta brot á margra alda málvenju í Álftaneshreppi um veiðar á Grenjadal skrifast að öllu leyti á heimamenn því ekki er hægt að ætlast til að menn ,,að sunnan“ hafi vitað um hver hún var þegar veiðar þar voru skipulagðar og laxveiðistöðum gefið nafn og númer.
Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma þessum athugasemdum á framfæri þó e.t.v. séu þær á röngum stað.
Samkvæmt örnefnalýsingu fyrir Grenja eftir leiðsögn Þiðriks og Magnúsar Baldvinssona frá Grenjum, skráðri af Ara Gíslasyni, er sagt að hálsinn sem farið er yfir þegar farið er frá Grenjum heiti Heiði. Þegar upp á hann er komið er farið fram hjá þremur vörðum, ein er nálægt veginum, hinar tvær eru við gömlu götuna. Sú sem er nær Grenjum heitir Heiðarvarða, en þar sást fyrst til ferðamanna frá Grenjum sem komu ofan af Grenjadal. Innri varðan heitir Jósavarða. Hún var hlaðin fyrir næstsíðustu aldamót af Jósafat Sigurðssyni, sem þá var vinnumaður á Grenjum.[1] Heiðarvarðan er trúlega eldri. Nokkur halli er niður í Slakka sem er inn af Heiðinni. Senn liggur vegurinn að ánni þar sem hún rennur í tveimur kvíslum þar heitir Koteyri og Koteyrarvað. Þar var í vatnavöxtum talið að væri þrautavað á Langá með fé úr Klaufhamarsrétt og seinna úr Þinghólsrétt. Svo er nú varla í dag því syðri kvíslin hefur grafið sig niður og hún dýpkað og vatnsmagnið í henni aukist á kostnað vestari kvíslarinnar. Brátt er komið að gili sem heitir Kotgil[2] en kallað Neðrakotgil í daglegu tali. Innan þess eru rústir af gömlu býli. Þar heitir Neðrakot sem sjálfsagt er ábýlið Grenjadalur eða Grenjakot. Þar bjó á 17. öld Þorbjörn Sveinsson sá ,,óráðvandi og illa kynti drengur“, sem dæmdur var til að víkja úr Grenjadal vegna sauðaþjófnaðar. Seinna fundust á honum þrjú kver og skinnlengja og í þeim undarlegir galdrastafir. Þótt hann játaði að nota þá til að vita hver frá sér stæli og til að spekja fé var hann þrátt fyrir það dæmdur fyrir galdrakukl og brenndur á Þingvöllum 4. júlí 1677.[3]
Sigurður Jónsson hét síðasti ábúandi Grenjadals. Talið er að hann hafi byrjað þar búskap 1682. Hann lenti í útistöðum við kirkjunnar menn. Þegar hann hafði ekki komið til kirkju eða gengið að Guðs borði í hálft annað ár sáu prófastur og sóknarprestur hans í Stafholti ástæðu til umvöndunar við hann. Þegar meira en ár var liðið frá áminningu prests iðraðist sá brotlegi ávirðingar sinnar og óskaði eftir aflausn og mega ganga að Guðs borði. Þá minntist prestur tilskipunar frá 1650 að sýslumönnum bæri skylda til að þeir ,,óguðlegu foraktarar“ skyldu hljóta þá meðferð sem veraldlega stéttin gerði þeim. Því fór aflausn Sigurðar fram í Stafholtskirkju á þriðja degi jóla þar sem hann játaði óguðlegt framferði sitt í nokkrum liðum. Þá lofaði sýslumaður Jón yngri Sigurðsson í Einarsnesi að málið skyldi tekið upp á Smiðjuhólsþingi um næstu sumarmál, en Sigurður lést áður en til þess kom úr ófeiti eins og segir í heimildum sem ég hef ekki aflað mér.[4]

Við erum stödd á bæjarhólnum í Neðrakoti þegar þessar hugleiðingar um síðustu ábúendur þar fara fram, innan um tættur og veggjabrot, sem þar eru á ótrúlega víðfeðmu svæði a.m.k. með tilliti til þess að þar lifði fólk við hungurmörk. Ein rústin sker sig úr vegna þess hve óvenjuleg hún er í lögun, bæði löng og mjó og því umhugsunarefni til hvaða nota hún var. Þar hefur til skamms tíma sést móta fyrir túngarði.

Eftir stuttan spöl er komið að gili sem heitir Þvergil[5] en í daglegu tali kallað Innrakotgil. Innan við það voru rústir og veggjabrot af mannvistarleifum. Þar heitir Innrakot. Engar heimildir eru til um mannlíf þarna en svo óhönduglega hefur tekist til þegar ruddur var vegur fyrir akfærri slóð inn dalinn, að hún var lögð um þessar rústir og eyðilagði þær með öllu. Rústir þessar stóðu í nokkurri brekku en þegar upp á hábrún hennar er komið er stæðileg rúst sem bjargast hefur að því að séð verður fyrir tilviljun. Ef rannsökuð yrði mundi það gamla mannvirki geta sagt um a.m.k. hvað þar fór fram.
Nú skal fara fljótt yfir sögu og staðnæmst þar sem ferðamenn hafa norðari Rauðukúluna á vinstri hönd en rétt áður en að henni er komið sést móta fyrir veglagningu á hægri hönd. Þar sést til Skarðsheiðarvegar vestri. Sjáanlegar vegabætur eru víðar á þessum vegi. Þá vaknar upp sú spurning, hvort hann hafi notið fjárhagsstuðnings úr Landssjóði eins og ýmsir fjallvegir um 1880.[6] Þegar framhjá Rauðukúlu er komið er stefnt á vörðu sem er minnisvarði um Svein I. Sveinsson á Sveinsstöðum nálægt þar sem götur úr Hraundal og Grenjadal mætast. Honum er lýst í Borgfirðingabók 2009 á bls. 27 og verður það ekki endurtekið hér.
Þegar við höfðum lokið erindum okkar í Fjallhúsinu, sem getið er um í upphafi þessarar frásagnar og verður ekki endurtekið hér heldur vísað til þess sem þar er sagt, kom í ljós að Beigaldafólkið hafði hugsað sér að fara inn Langavatnsmúla og svo í Fjallhús Borghreppinga. Allir í hinum jeppanum voru tilbúnir að fara með í það ferðalag.
Brátt var Lambafell að baki og fram undan Vatnshlíð á vinstri hönd en Sandvatnsnes á þá hægri. Þarna inn með Vatnshlíðinni var áður greið og grjótlaus melgata, þar sem hægt var að spretta úr spori og þeir sem áttu vekringa gátu jafnvel tekið þá til kosta. Nú er þar grýtt vegarslóð sem stendur alls ekki undir því að teljast greið reiðleið.
Ég hef skoðun á því hversu fjölmargar leiðir sem gáfu tilefni til sprettfæris eru orðnar svo ógreiðfærar sem raun ber vitni. Mörg undanfarin þurrkasumur valda því að meira af fíngerðu efni rýkur í burt við umferð. Svo bætist við að ferðahópar með hesta eru fleiri en áður, fjölmennari og með fleiri hesta á mann en einu sinni var. Svo er umferð ökutækja að aukast um akfæra vegaslóða. Þar sem ég tel að minning mín um góðar reiðleiðir séu ekki æskudraumar gamals manns læt ég þetta álit í ljós.
Í hrauninu innst í Sandvatnsnesi er á hraunbarði ævaforn rétt sem engar sögur fara af hvenær notuð var. Í Borgfirðingabók 2008 bls. 65 fjalla ég lítillega um hana og læt duga að vísa til þess sem þar er sagt.
Þegar komið er framhjá svonefndu Vatnshlíðarhorni opnast breiður en frekar stuttur dalur, Kvígindisdalur. Í fundargerðabók Álftaneshrepps á fyrstu áratugum síðustu aldar kemur þessi dalur við sögu vegna tófugrenja sem þar voru og vinnslu á þeim. Í hreppsfundagerðum á þessum árum er hann nefndur Kvígildisdalur og í einni frá 1925 Kúgildisdalur.[7] Þetta minnir á að í æsku minni var hann alltaf kallaður Kvígildisdalur og sama segir fólk á mínum aldri sem þar ólst upp á þeim árum. Ég var um það bil 12 ára þegar ég heyrði fyrst Kvígindisdalur og get nefnt þar dæmi um. Í máldaga Stefáns biskups Jónssonar frá 1491-1518 segir að Akrakirkja haldi öllum sínum eignum frá 1258 þar með talinn Kvígindisdalur allur með Sandnesi sem trúlega er það sem nú heitir Sandvatnsnes. Ef til vill hefir þessi eign verið metin í kvígildum eða kúgildum, sem var verðskrá þeirra tíma.[8]
Múlaá rennur meðfram Langavatnsmúla að vestan. Þegar komið var að henni var hún svo vatnslaus að ekki sást í vatnspoll á milli malareyra. Ragna tengdadóttir mín fór óðara að leita að slípuðum steinum í árfarveginum, aðrir gáðu til berja en ég aftur á móti hugsaði til haustsins 1939. Þá var hér ólíkt um að litast vegna vatnavaxta. Ég var einn þeirra sem völdust til að fara í réttir í Hörðudal í það sinn. Þá var réttað í Vífilsdal sama dag og smalað var vegna tilmæla frá mæðiveikinefnd um að fé sitt úr hvoru héraðinu stæði sem styst saman. Um það leyti sem réttastörfum lauk rétt fyrir myrkur um kvöldið gekk á með mikla rigningu, sem stóð með litlum hléum í meira en sólarhring og með meiri vatnavöxtum en eldri menn mundu eftir. Daginn eftir þegar við komum að Mjóadalsá sunnan Sópandaskarðs var hún óreið með öllu hvað þá með fé. Því var farið til vinstri yfir svonefnt Hrútagil þó vatnsmikið væri og niður með Mjóadalsárgljúfrinu að austan. Til þess að þurfa ekki að sundleggja féð nema einu sinni var farið yfir Mjóadalsá niðri á Langavatnsdal eftir að Fossdalsá hafði sameinast henni. Niður náði féð í Hafradalsá þar sem hún breiddi meira úr sér þá en nú. Þegar við höfðum komið fénu yfir einstigið sem þá var farið utan í Langavatnsmúlanum og komið að Múlaá var hún ófær fyrir hross hvað þá fé. Þá rákum við féð inn með henni alla leið í botn Kvígindisdals. Í myrkri var skilið við féð í Sandvatnsnesi en við riðum í Fjallhúsið til gistingar. Auk mín voru í þessari réttarferð foringi okkar Axel Hallgrímsson Grímsstöðum (1895-1992) og Gunnar Sigurðsson Leirulækjarseli )1915-2005). Þetta er sagt til að sýna hvað réttaferðir gátu verið erfiðar og ólíkar því sem nú er.

Á meðan bílarnir klifruðu upp brattar brekkur Langavatnsmúlans var nógur tími til hugleiðinga. Einhvers staðar á þessu svæði lágu harðsporar eftir 14 ára dreng í þriðju leit seint í október 1937. Þá forfallaðist maður sem faðir minn var búinn að fá í leitina á síðustu stundu en heilsa föður míns leyfði ekki að hann færi. Ekki kom til greina að láta manninn vanta. Þennan dag gerði krapahríð á vestan, sem breyttist í frost þegar á daginn leið með löngum dimmum éljum en þó birti til á milli. Við náðum að Grímsstöðum um 11 leytið um kvöldið þremur til fjórum klukkustundum seinna en eðlilegt var. Þá var farið að undrast um okkur og fólk óttaðist að heljargreipar íslenskrar verðráttu hefðu orðið okkur ofviða. Þeir sem lentu í þessum erfiðleikum voru Þórður Jónsson Hvítsstöðum, síðar bóndi í Krossnesi, Þiðrik Baldvinsson Grenjum, Helgi Pálmason 16 ára vinnupiltur á Grímsstöðum og Árni Guðmundsson 14 ára Álftártungu. Hér liggja líka smalaslóðir tvítugs æskumanns með svo mikið óraunhæft sjálfstraust að hann taldi sig geta sigrast á hvaða fjallafé sem væri í snarbröttum hlíðum fjalldala á afrétti Álfthreppinga. Senn hallar niður í Langavatnsdal. Þar sem ég bar enga ábyrgð á stjórn ökutækisins gafst enn eitt tækifæri til að dáðst að fegurð hans og tign. Þá kom í hugann vísa, sem ég hafði lært mörgum áratugum áður:
,,Enn um þetta óskaland
ótal perlur skína
Hitti ég fyrir sunnan sand
sumardrauma mína.“
eftir Ásgrím Kristinsson Ásbrekku Vatnsdal, sem hann orti þegar Vatnsdælir hittu borgfirska vini sína í Fljótsdrögum í göngum.
Þá er komið niður á svonefndar Hafradalseyrar sem Hafradalsáin rann um og kemur úr Hafradal, sem skilur Langavatnsmúlann frá Oktrumbu og Oki sem ég kýs að nefna svo en það er hálendur hryggur milli Hafradals og Fossdals.[9] Þarna er öðru vísi umhorfs en áður var þegar ég var unglingur. Þá rann Hafradalsáin til suðvesturs um Hafradalseyrar. Einhvern tíma á seinni árum hefur hún hlaðið undir sig grjóti og möl og runnið úr farvegi sínum og rennur nú í norð-norðaustur í stefnu allt að því á Rauðhól til að byrja með, með þeim afleiðingum að nú brýtur hún úr þykkum jarðvegi með sýnilega alvarlegum afleiðingum til lengri tíma litið. Hér var stigið úr bílum og Guðmundur sem er kunnugri en ég á þessum slóðum a.m.k. við sunnan verðan dalinn sagði frá örnefnum.
En ég rifjaði upp í huganum minningu sem er mér afar kær og langar til að segja frá og byrja á stuttum formála. Geir Þorleifsson múrari (1921-1984) í Borgarnesi ólst að miklu leyti upp á Álftanesi. Frá fermingaraldri vorum við saman í leitum og sem fulltíða menn saman í nokkur sumur í vegavinnu. Við tengdumst snemma vináttuböndum vegna sameiginlegs áhugamáls okkar, hestamennskunnar. Í vegavinnu vorum við oft með tvo til þrjá fola í tamningu hvor okkar sem við höfðum samvinnu við að frumtemja og unnum að því á kvöldin og stundum fram á nætur. Þá fór mikill tími í að spekja stygga fola í víðáttunni því ekkert var tamningagerðið til að styðjast við og reiðhöllin himinhvolfið sjálft.

Þegar ég kom að Beigalda árið 1954 var Geir búinn að vera um tíma múrari í Borgarnesi. Þá tókum við upp á því í nokkur ár að fara í sólarhrings hestaferð ,,undir loftsins þök“[10] á hverju sumri um mánaðarmótin júní og júlí eða fyrir slátt. Ávallt var lagt af stað undir kvöld. Ekkert var sofið þann sólarhringinn heldur notið vangs og veðurs. Oftast var riðið til fjalla Langavatnsdals, Hraundals eða Grenjadals en stundum riðið á Álftanesfjörur og þá alltaf út í Kóranes, engu skipti þó farið væri ár eftir ár á sama staðinn. Í einni slíkri ferð var farið inn á Langavatnsdal. Þegar við riðum inn með Langavatni að sunnan í það skipti var lognið svo mikið að spegilmynd Langavatnsmúlans í vatninu var jafnskýr þeirri sem upp úr stóð. Þegar við vorum komnir langleiðina inn með vatninu tylltu fyrstu sólargeislar hins komandi dags sér á efstu tinda umhverfis Langavatnsdal en undir geisladýrðinni stóð dalurinn í bláleitri rökkurmóðu langdegisins. Þá varð Geir að orði eitthvað á þá leið að nú væri eins og Langavatnsdalurinn opni og breiði út faðminn á móti okkur og taki okkur í fangið. Kannski hefur Geir, þegar hann sagði þessi orð, verið undir áhrifum frá Bláfjallageimnum hans Steingríms Thorsteinssonar þegar hann bað um að verða tekinn í faðm hans ,,um sumarkvöld við Álftavatnið bjarta“. Svona hughrifum verða menn aðeins fyrir þegar ,,ég skal vaka í nótt meðan svanirnir sofa, meðan sólgeislar fela sig bláfjöllin við“ (Jónas Tryggvason frá Finnstungu).
Í fáeinar mínútur stóð þessi undurfagra sýn yfir. Því sólin hækkar fljótt á lofti um Jónsmessuleytið.
Þó sagnir hermi að byggð hafi verið á Langavatnsdal fyrir mörgum öldum eru til efasemdarmenn um að svo hafi verið samfellt í langan tíma. Engin forsenda er til að leggja dóm á það nú. En vissa er fyrir því að þar hóf búskap Sæmundur Pálsson 1811 með hörmulegum afleiðingum. Um þetta má sjá í Íslensku mannlífi bls. 166-198 eftir Jón Helgason. [11]
Þá er Langavatnsdalur kvaddur og haldið niður með vatninu. Þegar komið er langleiðina niður með því beygir gatan til vinstri niður stutta en allbratta brekku. Þá er komið í Barónsvík þar sem baróninn á Hvítárvöllum ætlaði að hafa vetursetu en gafst upp í fyrstu hausthretum en Borghreppingar fengu skálann sem hann byggði og varð hann þeirra fyrsta leitarmannaskýli.[12] Yfir lágan háls er farið, þá er komið í vík sem heitir Galtarholtsvík ,,upp af henni var kofi er sauðamaður frá Galtarholti hélt til í meðan múlinn var notaður frá Galtarholti“[13]. (orðrétt úr örnefnaskráningu afréttar Borghreppinga). Hér mun átt við Réttarmúlann. Upp af Galtarholtsvíkinni við Réttarmúlaendann er Fjallhús Borghreppinga, Torfhvalastaðir. Þó nafnið sé tekið úr Landnámu finnst mér það svo ljótt að ég verð að magna með mér kjark til að nefna það eða skrifa. Og ég sem hélt að til væru falleg orð yfir allt sem er hugsað á íslensku. Þegar komið er fram á brekkubrúnina þar sem Beilárvellir blasa við, sjást ef litið er vel til hægri steyptar leifar af leitahúsi sem notað var áður en það sem núna er notað kom til sögunnar. Gamla húsið stóð á granda eða eiði við vatnið og framundan því er svonefndur Safntangi. Haustið 1941 urðu meiri vatnavextir en 1939 því 1941 flæddi vatn inn í Fjallhúsið. Aldrei hafði gerst áður að svo hátt yrði í vatninu. Þá tóku fjallmenn á það ráð að bera grjót inn í húsið þar til upp úr stóð, rifu svo upp mosa eða annan jarðveg og skýldu með því grjótið. Mér er í minni þegar við Álfthreppingar komum í einstigið í Langavatnsmúlanum þennan mánudagsmorgun var Fjallhús Borghreppinga eins og fugl á sundi á vatninu.
Í janúar 1923 fannst á Beilárvöllum af tilviljun tveggja vetra foli sem föður minn vantaði af fjalli haustið 1922 innikróaður á litlum bletti vegna svellalaga. Verðugt væri að skrá þá erfiðleika, sem á vegi föður mín urðu þegar hann sótti folann. En þar er erfitt um vik vegna þess hve fáorður hann var um þessa ferð. Hversdagshetjur íslenskrar alþýðu hafa verið fáorðar um afrek sín.
Senn verður Staðarhnjúkur á hægri hönd og Beilárheiði á þá vinstri á leið ferðafólks, þá Brúnavatn á þá vinstri. Eitthvert barna okkar spurði hvort þetta væri baðkarið hennar Grýlu og töldum við að svo gæti verið. Enda var það nafn notað um tíma af æskufólkinu á Beigalda.
Þegar við vorum komin niður úr mestu höllunum niður undir Gljúfurá er farið fram hjá Grísatungu, sem fór í eyði 1937.[14] Þegar komið er yfir Gljúfurá er á vinstri hönd lengra Þinghólsrétt en nær Þinghóll. Ég sleppi hugleiðingum mínum um þingstaðinn, sem er friðlýst svæði. Það er efni í annan þátt. Brátt er Tandrasel, sem fór í eyði 1944, á hægri hönd. Þar bjó Jón hreppstjóri Sigurðsson (1842-1860), annar þjóðfundarmanna Mýramanna 1851 og þingmaður þeirra 1853-1861.[15]
Skýrar niðurgrafnar heimreiðartraðir voru að þessum bæjum, sérstaklega að Grísatungu en hún er nú nálægt því að hverfa vegna gróðurs og ífoks. Í Tandraseli er hún lítið breytt í mörg ár.
Hér endar frásögn mín af stuttu ferðalagi með skemmtilegum ferðafélögum og eftir stendur minning, sem ekki gleymist.
[1] Grenjar. Ari Gíslason, Grenjar Örnefnaskrá skráð samkvæmt upplýsingum frá Baldvin Jónssyni, Magnúsi og Þiðrik Baldvinssona frá Grenjum.
[2] Sama heimild.
[3] Borgfirzkar æviskrár XII, bls. 190 og Öldin sautjánda, Reykjavík, bls. 177.
[4] Borgfirzkar æviskrár, bls. 161 og Jón Helgason, Jón Halldórsson prófastur í Hítardal, 1939, bls. 72 – 75.
[5] Örnefnaskrá fyrir Grenja.
[6] Öldin sem leið 1861-1900, bls. 169.
[7] Fundargerðabók Álftaneshrepps frá 1912- 1930, bls. 261 og víðar. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
[8] Kirkjur Íslands, 14. bindi, bls. 10.
[9] Mýra- og Borgarfjarðarsýslur : Sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873, útg. 2005, bls 60.
[10] Einar Benediktsson, Ljóðasafn II, bls. 104.
[11] Borgfirzkar æviskrár XI, bls. 301.
[12] Borghreppingaafréttur, örnefnaskrá. Skráð af Ara Gíslasyni samkvæmt upplýsingum frá Kristbirni Kristjánssyni Eskiholti.
[13] Borghreppingaafréttur, örnefnaskrá. Skráð af Ara Gíslasyni og Mýra- og Borgarfjarðarsýslur : Sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873, útg. 2005, bls. 68.
[14] Byggðir Borgarfjarðar IV.bindi, bls. 208.
[15] Byggðir Borgarfjarðar IV.bindi, bls. 248 og Borgfirzkar æviskrár VI, bls. 230.