Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2019


Langafi minn Sigurður Björnsson sem bar viðurnefnið Straumur fæddist 12. desember 1830 á Eyri í Flókadal. Þar bjuggu foreldrar hans Guðrún Sigurðardóttir og Björn Þorleifsson þar til hann lést 1835. Við lát hans var börnunum dreift til vandalausra á ýmsa bæi. Það urðu því örlög Sigurðar að alast upp á sveit. Dvaldi hann tíma og tíma á nokkrum bæjum í Borgarfirði og vestur á Mýrum. Loks réðist hann til vistar á Lambastöðum í Álftaneshreppi. Þar var myndarheimili og við blasti festa og öryggi í lífi Sigurðar. Þar skipuðust mál á þann veg að hann gerði heimasætunni Guðrúnu Bjarnadóttur, sveinbarn. Það mæltist illa fyrir hjá Bjarna bónda sem flæmdi vinnumanninn í burtu. Drengurinn fékk nafnið Þorvaldur eftir langafa sínum Sigurðssyni (1760-1843) en afkomendur þess fyrrnefnda eru umfjöllunarefni hér síðar. Óvíst er hvernig lífshlaup Sigurðar hefði orðið ef hann hefði náð að festa rætur á Lambastöðum. Eftir að hann fór þaðan var hann í vinnumennsku á nálægum bæjum en árið 1855 fór hann suður fyrir Hvítá, var um skeið fyrir austan Fjall og í Reykjavík. Hann kvæntist konu sinni Guðrúnu Einarsdóttur árið 1864. Tveimur árum síðar eru þau og sonurinn Þórður skráð á Hvítárósi. Hjónin voru í vinnu- og húsmennsku á nokkrum bæjum í Borgarfjarðarsýslu ýmist bæði á sama bæ eða sitt hvorum. Þau Guðrún eignuðust fimm börn á árunum 1862-1871 en aðeins tvö þeirra lifðu. Guðrún lést árið 1895. Ári síðar eignaðist Sigurður soninn Harald með Kristínu Þórðardóttur. Árið 1905 er Sigurður skráður til heimilis í Álftártungukoti hjá syni sínum Þorvaldi en stundaði meðan hann gat vinnumennsku á ýmsum bæjum. Síðustu æviár sín dvaldi Sigurður undir verndarvæng Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra á Hvanneyri þar hann lést árið 1927. Þá vantaði hann þrjú ár í að ná því að hafa lifað heila öld, sem á þeim tíma var óalgengt. Var það fyrirboði þess langlífis sem margir hans afkomenda hafa náð?
Frásagnir eru til af Sigurði Straum bæði í ræðu og riti. Nokrkar skýringar heyrði ég á viðurnefninu straumur. Á mínu æskuheimili var talað um að viðurnefnið væri fyrir mælsku hans og talanda og að hann hefði oft haft mörg orð um smávægileg atriði. Það einkennir marga afkomendur Sigurðar og Guðrúnar að þeir eiga til að hafa mörg orð um hlutina, sbr. frásögn af móður minni hér síðar þegar hún sagði ferðamanni til vegar. Önnur skýring var að hann hefði verið léttur á fæti og snar í snúningum. Sögð var saga af því þegar landshöfðingjafrúin veiktist um hávetur að þó tók hann að sér að fara vestur í Bjarnarhöfn þar sem líklega var Þorleifur Þorleifsson (1848-1888)1, þá talinn færasti hómópati landsins. Ferðin tók ótrúlega stuttan tíma og veltu menn fyrir sér hvaða leið hann hefði farið. Kvisaðist út að hann hefði farið Löngufjörur sem er ekki hættulaus leið. Aðspurður var hans svar: „maður verður að kunna á straumana“.
Svo mikið er víst að ævihlaup hans var ekki dans á rósum. Honum auðnaðist ekki að halda heimili með konu sinni en þau fluttust milli bæja sem vinnuhjú og urðu ekki alltaf samferða. Hann dvaldi á þéttbýlli stöðum eins og Reykjavík þar sem freistingar urðu á veginum. Í því umhverfi gat lífið orðið slarksamt. Ein frásögn sem lýsir erfiðum aðstæðum sem Sigurður kom sér í er þessi sem ég heyrði í vegavinnu sem ég stundaði í mörg sumur.
Í vegavinnuflokknum var Hallur Jónsson (1885-1964) kenndur við Hamra í Hraunhreppi.2 Hann var afar minnugur á ættir og tengsl milli manna. Að mati Halls voru á þeim tíma þrenns konar fangelsi í Reykjavík. Það var sjálft betrunarhúsið, tukthúsið og svartholið. Í Svartholinu var verstu þrjótum komið fyrir. Hann sagði sögu af fylleríi Sigurðar Straums í Reykjavík þegar keyrði um þverbak. Þurfti þá að kalla til „polítíið“ og sterkustu menn Reykjavíkur sem loks gátu komið honum í handjárn og stungið honum umsvifalaust í Svartholið. Nú veit ég ekki hvernig tukthúsmálum var háttað í Reykjavík á þessum tíma en svona áleit Hallur þau hafa verið og að Svartholið væri versti kosturinn.
Þegar Hallur áttaði sig á að í hópnum sem hlustaði var einn afkomenda Sigurðar hnykkti honum við eins og hann hefði talað af sér og bætti við með afsökunartóni í röddinni: „það fréttist reyndar seinna að í þetta sinn hefði dugað að koma honum fyrir í betrunarhúsinu“. Eftir þetta er sagt að Sigurður hefði ekki bragðað vín.
Grein Þorvaldar Sigurðssonar og Valgerðar Önnu Sigurðardóttur á ættartré Sigurðar Björnssonar Straums og Guðrúnar Bjarnadóttur er mikil og gróskusöm. Eftir rimmuna á Lambastöðum forðum sem leiddi til þess að Sigurður hraktist þaðan spáði hann því að það barn sem Guðrún Bjarnadóttir bæri undir belti mundi vaxa og dafna til farsældar og langlífis. Afkomendur þess yrðu vel menntuð og langlíf.
[1] Sjá www.gardur.is tekið af vef 14.2.2019
[2] Borgfirskar æviskrár IV, bls. 225