Málverk í Fjallhúsi Álfthreppinga

Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2012.

Árið 1930 eða þar um bil skildi Ásgeir Bjarnþórsson listmálari eftir málverk í „Fjallhúsi“ Álfthreppinga við Lambafell. Á þessum tíma var málvenja í Álftaneshreppi að kalla leitarmannahúsið Fjallhús. Málverkið hefur geymst þar síðan.

Fyrir nokkrum árum fékk ég þá hugmynd að gaman væri að láta gera við málverkið, ef það væri ekki orðið ónýtt.

Bárust þá böndin að Ólafi Inga Jónssyni forverði sem fékk strax mikinn áhuga á málinu.

Síðsumars árið 2010 fór hann ásamt mér og fleirum inn í Fjallhúsið til að meta hvort hægt væri að gera við myndina. Hann taldi að svo væri og tók hana með sér til viðgerðar.

Málverkið fyrir viðgerð. Ljósmyndari: Ólafur Ingi Jónsson

Í ágúst 2011 kom hann með málverkið og fór ásamt konu sinni Gróu Finnsdóttur og fáeinum meðlimum úr minni fjölskyldu í Fjallhúsið og kom því þar fyrir.

Málverkið er nú í rakaþéttum ramma, undir spegilfríu gleri og við hliðina á því í öðrum ramma er meðfylgjandi ágrip af sögu þess:

Sumar og vor og vetur,
var ég á leið til þín.
Hvort sem hún lá yfir Langavatnsdal
eða löndin suður við Rín.
Ásgeir Bjarnþórsson listmálari.

Ásgeir var fæddur á Grenjum í Álftaneshreppi 1. apríl 1899, dáinn 16. desember 1987. Flutti til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni árið 1909. Snemma hneigðist hugur hans til listsköpunar. Árið 1919 fór hann til útlanda til náms, var ytra á ýmsum listaháskólum uns hann kom alkomin heim árið 1932. Eftir heimkomuna gerðist hann umsvifamikill málari og eftir hann liggur allmikið safn ágætra málverka. Mörg viðfangsefni hans eru sótt á afrétt Mýramanna, við Langavatn og Norðurárdal.

Í nokkur ár um 1930 dvaldi Ásgeir nokkra daga snemma sumars í Fjallhúsi Álfthreppinga við veiðiskap og listsköpun. Eitt sumar var málverk þetta í Fjallhúsinu að dvöl hans lokinni og hefir geymst þar síðan. Nú hefir verkið hlotið endurnýjun lífdaga með viðgerð Ólafs Inga Jónssonar forvarðar og sérfræðings í málaralist og tengdasonar Álftártungufólks, þ.e. Elínar Guðmundsdóttur og Finns Einarssonar, án endurgjalds sem aldrei verður þakkað til fulls. Þótt málverk þetta verði aldrei talið meðal merkustu verka Ásgeirs Bjarnþórssonar á það skemmtilega sögu sem vert er að halda á lofti og vitnar um tryggð hans við bernskustöðvarnar eins og sum kvæða hans gera.

Ég er stoltur af því að eiga hlutdeild að viðgerð á þessu verki og sýna með því örlítinn þakklætisvott fyrir þær stundir sem ég hef átt á afrétti Álfthreppinga í sól og sumaryl eða hrakviðrum haustsins í félagsskap góðra vina og ágætra hesta.

Borgarnesi 12. ágúst 2011

Árni Guðmundsson frá Beigalda

Málverkið eftir forvörslu. Örnefni á málverki Ásgeirs: Myndin er máluð á grundinni fyrir framan Fjallhúsið. Næst til vinstri er hraunkamburinn sem Fjallhúsið stendur við. Efst til vinstri örlar í Grímsstaðamúla (Litursstaðahlíð), þá önnur Rauðkúlan og til hægri suðausturhlíð Lambafells. Ljósmyndari: Ólafur Ingi Jónsson.

:

Þegar málverkinu hafði verið komið fyrir settust ferðafélagarnir saman að veisluborði við Fjallhúsið. Upptalning: Lilja Árnadóttir, Árni Guðmundsson frá Beigalda, Árni Guðmundsson á Beigalda, Gróa Finnsdóttir, Ólafur Ingi Jónsson og Jón Bjarnason. Ljósmyndari: Ragna Sverrisdóttir.