Áfangar

Árni tók saman lýsingar á 23 reiðleiðum í neðanverðri Mýrasýslu og birtust þær í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi sem gefin var út af Landssambandi hestamannfélaga árið 1994. Þessar lýsingar eru birtar hér undir Reiðleiðir á Mýrum og Reiðleiðir um Borgarfjörð. Hér fyrir neðan eru lokaorðin sem Árni skrifaði með þessum leiðarlýsingum.

,,Lengi helst í ætt þeiri, at menn váru sterkir ok vígamenn miklir, en sumir spakir at viti. Þat var sundrleitt mjök, því at í þeiri ætt hafa fæzk þeir menn, er fríðastir hafa verit á Íslandi, sem var Þorsteinn Egilsson ok Kjartan Óláfsson, systursonr Þorsteins, ok Hallr Guðmundsson svá ok Helga in fagra, dóttir Þorsteins, er þeir deildu um Gunnlaugr ormstunga ok Skáld-Hrafn; en fleiri váru Mýramenn manna ljótastir.“ (Egilssaga)

Þó þessi kafli úr Egils sögu sé lýsing á Mýramönnum á söguöld, á hún vel við um svipmót landsins á þessum slóðum. Í Mýrasýslu finnast staðir, sem gefa ekki eftir öðrum á landinu, hvað náttúrufegurð snertir. Þar munu líka finnast staðir, sem flestum ferðamönnum munu finnast ljótir, þó aldrei sé hægt að tala um land á þann hátt, heldur aðeins misjafnlega fallegt, því í ljótleikanum er alltaf hægt að finna fegurð, ef menn vilja sjá hana og leita að henni.

Þegar ég hef látið hugann reika um þær slóðir, sem ég hef lýst, hef ég haft í huganum fjölmargt samferðafólk. Þessu samferðafólki í hugarheimi mínum þakka ég samfylgdina. Enn fremur óska ég því fólki, sem á eftir að leggja leið sína um þessar götur, af heilum hug góðrar ferðar með einlægri ósk um að leiðarlýsing mín komi því ekki í ógöngur.

Þegar ég enda þessa þætti mína, er mér ofarlega í huga kvæði eftir Ármann Dalmannsson, sem hann nefndi á ,,Á norðurleið“. Ármann var fæddur í Fíflholtum í Hraunhreppi 12. september 1894. Hann starfaði mikið að félagsmálum í Borgarfirði, en flutti til Akureyrar árið 1925. Ég leyfi mér að ljúka þessum þáttum með því að taka mér í munn upphafs- og lokaerindi úr áðurnefndu kvæði hans:

Enn er góður hestahagi.
Hér skal á – í þessu dragi.
Hér er sjónarhæð að fá.
Þangað upp ég ætla að ganga,
útsýn fá um nes og tanga.
Út til Mýra vil ég sjá.

– – –

Kveð ég fjöll og fjörusanda,
flúðir, eyjar, sker og granda.
Kveð ég grænan gróðurreit.
Kveðjuorð frá Mýramanni
máttu flytja að hverjum ranni
,,þegar þú kemur þar í sveit“.