Ljóð samið af Haraldi Haraldssyni og var flutt Árna á 80 ára afmæli hans.

Það er gott að eignast íslenskt vor
eftir langan dimman kaldan vetur
þá eru létt hjá litlum manni spor
sem langar til að gera flestum betur.
Svipur hreinn og frjálst er fasið hans
sem fer þar um á nýjum sauðskinnsskóm
snærishönk í hendi þessa manns
er helgur gripur, tákn um ríkidóm.
Víst þarf að læðast hljótt um holt og mó
og hafa gát á verki skaparans
þó lund sé ör þá kennir reynsla að ró
er ráð sem dugir best í kvikum dans.
Það virðist kyrrð í flestra hrossa hug
en hugsun líka enginn fyrir sér
lítið þarf svo fari allt á flug
frelsið skal ei selt til hvers sem er.
Þarna eru hin stoltu og styggu dýr
stutt frá litlum dreng með band í hendi
hann nálgast hægt sá brúni bara flýr
og boð til jarprar hryssu óðar sendi.
Sú jarpa tekur kipp og kumrar hátt
klárar gamlir rjúka og taka sprett
stóðið er til hlaupa frískt og frátt
að fanga slíka kólfa er ei létt.
Nú þykkna fer í huga hestamanns
sem hjálpa vildi pabba sínum og mömmu
sú jarpa fer með allt til ansvítans
sem ekki virtist bifast fyrir skömmu.
Hann fór af stað og fann að allt var breytt
flúin var hin innri sæluró
litlir fætur ganga ekki greitt
um gljúpan mýrarsvörð og mosató.
Elta varð þó allan tæki dag
þann ólma hóp sem hlaupinn var á brott
þolinmæði þrautsegja og lag
var þreyttum pilti veganesti gott.
Viti menn í vasanum finnst brauð
á vitleysunni stóðið þreytist brátt
úr hópnum til hans rennur hryssa rauð
og rekur til hans snoppu í frið og sátt.
Útlit breytist allt á samri stund
upp í hrossið bindur spottann sinn
hleypir sínum fáki um græna grund
glaður strákur alveg rígmontinn.
Nú er þreytan horfinn huga úr
hleypir piltur fyrir stóðið kalt
ekki lengur er á svipinn súr
sjáðu hvernig brosir lífið allt.
Heim með hrossin kemur kátur karl
koss að launum hlýtur pabba frá
mamma bíður brosandi með snarl
best af öllu er þó hrós að fá.
Æskusagan lýsir högum hans
sem heiðra viljum nú svo vel sem megi
lífshlaupið hins ljúfa eljumanns
er líkast mynd af þessum bernskudegi.