Lilja Finnsdóttir – minning

Lilja Finnsdóttir

Lækkar lífdaga sól,
löng er orðin mín ferð.
Fauk í faranda skjól
fegin hvíldinni verð.
Guð minn, gefðu þinn frið,
gleddu‘ og blessaðu þá,
sem að lögðu mér lið.
Ljósið kveiktu mér hjá.
              (Herdís Andrésdóttir)

Engan þarf að undra þótt í huga komi fallegt vers eða góð vísa við andlátsfrétt ljóðelskrar konu, ennfremur fyllist hugur minn þá tregablöndun fögnuði og friði. Eins er ég fullviss að ríkt hefir mikil gleði handan móðunnar miklu þegar Lilja frá Saurum gekk inn í fögnuð herra síns. Lilja fæddist á Arnbjargarlæk í Þverárhlíð og þar ólst hún upp þegar foreldrum hennar auðnaðist ekki að halda saman heimili vegna fátæktar. Faðir hennar, Finnur, var fallinn frá áður en ég kynntist þessu fólki, en Guðbjörgu móður hennar kynntist ég allvel, en hún var sú kvenhetja og persónuleiki sem aldrei gleymist.

Það var gæfa Lilju að alast upp hjá góðu fólki við allsnægtir eftir því sem þá gerðist enda slitnuðu aldrei þær rætur, sem hún ung festi á æskuslóðunum svo og við fósturforeldrana þau Guðrúnu Guðmundsdóttur og Þorstein Davíðsson og afkomendur þeirra. Og við Arnbjargarlækjarfólk var hún æ síðan bundin sterkum vináttu- og kærleiksböndum.

Hún giftist Andrési Guðmundssyni frá Ferjubakka 22. maí 1925 og hófu þau búskap á Kirkjuferju í Ölfusi þar sem þau voru skamma hríð. Þá fóru þau að Ferjubakka þar sem þau voru til ársins 1930 þegar þau festu kaup á Saurum í Hraunhreppi. Þar bjuggu þau fram til 1970 er þau fluttu í Borgarnes. Lilja og Andrés urðu aldrei rík af þeim veraldarauði sem allir sækjast eftir en rithöfundar minningargreina kinoka sér við að tala um að leiðarlokum samferðamanna sinna. Aftur á móti voru þau vellrík af þeim auði sem mölur og ryð fá ei grandað, og af því ríkidæmi miðluðu þau til afkomenda sinna og samferðafólks af miklu örlæti.

Ég var ungur drengur að alast upp í Álftártungu þegar Lilja og Andrés fluttu að Saurum og þá voru fjögur börn þeirra fædd. Ég á góðar bernskuminningar frá þeim tíma, þegar hjónin komu til kirkjunnar ríðandi á góðum hestum með barnahópinn, húsbóndinn glaðbeittur og ákveðinn í fasi með sjálfstæðar skoðanir sem engum datt í hug að hafa áhrif á. Húsmóðirin ákveðin en hugljúf og hlý með skemmtileg tilsvör og góðar vísur á takteinum sem hún kryddaði frásögn sína gjarnan með. Börnin vel upp alin en þó eins og vera ber gáskafull og ærslagjörn. Seinna tvinnuðust þessari góðu fjölskyldu örlagaþræðir mínir sem aldrei slitna.

Lilja fékk í vöggugjöf miklar gáfur og meðfædda hæfileika sem efldust og þroskuðust í huga heilbrigðrar konu og entust til síðustu stundar. Hinir meðfæddu listrænu hæfileikar komu betur í ljós þegar líða tók á ævina og búumsýsla og uppeldi barna var að baki. Þá kom í ljós hve næmt auga hún hafði til listsköpunar og sá völundur sem hún var í höndunum, hvort sem um var að ræða útsaum, prjónles ýmiss konar eða hina víðfrægu hekluðu dúka smáa og stóra sem prýða heimili margra vina hennar og vitna um óvenjulegan hagleik. Sama var upp á teningnum ef tekinn var pensill í hönd og málaðar rósir og annað útflúr á skálar eða könnur og útkoman varð fágætir listmundir.

Einn þáttur í fasi Lilju sem gerir hana ógleymanlega er hversu orðhög hún var. Tilsvör hennar voru hnitmiðuð og sögð á svo góðu máli að margur sem stundar þá atvinnu að miðla til annarra töluðu eða rituðu máli hefði getað borið virðingu fyrir tungutaki hennar. Þá var Lilja þvílíkur vísnasjór og ótrúleg uppspretta tækifærisvísna og gat sagt til um tilurð þeirra. Því miður hefur mörg vísan glatast við fráfall hennar. Alltaf bar Lilja á móti því að hún væri hagmælt og ætla ég ekki að gera henni þann grikk að láta í ljósi grunsemdir mínar í því efni.

Þá var hestamennskan einn þáttur í listrænu eðli Lilju. Hún hafði næmt og gott auga fyrir góðum hestum og fallegum enda voru þeir hestar sem notaðir voru til búsnytja á Saurum betri en almennt gerðist. Húsfreyjan á Saurum var því alltaf vel ríðandi, enda kom Andrési eiginmanni hennar ekki annað í hug en setja það besta af hestakosti heimilisins undir hnakkinn hennar.

Aldrei festi Lilja að öllu leyti yndi á Saurum enda ólíkum aðstæðum saman að jafna milli Þverárhlíðar og Mýra, þótt innan sömu sýslu séu og gott dæmi um andstæður í íslensku umhverfi. Oft mun hugurinn hafa leitað á bernsku- og æskuslóðirnar, og þegar boðið var í ökuferð á björtu vorkvöldi eða sunnudegi var þakklæti innilegast þegar var farið var á vit æskuslóðanna, og þangað fannst henni að hún þyrfti að koma a.m.k. einu sinni á ári.

Ef til vill hefur hún alltaf saknað þeirra stunda æsku sinnar þegar tími gafst til að setjast í blómskrýdda brekku í dalaskjóli og hlusta hugfangin á hina undurfögru, síbreytilegu og margrödduðu hljómkviðu vorsins við undirleik hjalandi lækja og streymandi linda. Kannski hefur það, áamt því að verða vitni að andstæðum vetrarins mótað huga hinnar tilfinningaríku og listhneigðu sálar, þegar listsköpun náttúrunnar teiknaði frostrósir á glugga, og þá ægifögru sýn, sem fyrir augu bar, þegar lítil stúlka andaði hélu á rúðu og úti fyrir geisaði iðulaus stórhríð eða önnur fegurð hins íslenska vetrarríkis.

Á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi dvaldi Lilja síðasta æviþáttinn að mestu leyti rúmföst við góða umönnun starfsfólksins þar sem seint verður þökkuð eða metin til fulls. Við þau áfangaskil sem urðu á ævi hennar þegar dvöl hófst þar var hún í raun og veru tilbúin til hinnar hinstu ferðar en henni auðnaðist þó enn um stund þegar af bráði að miðla til samferðafólks og skyldmenna góðri stöku eða fyndnum tilsvörum.

Ég er stoltur af tengdamóður inni, Lilju Finnsdóttur frá Saurum, og í mínum huga er fæðingardagur hennar, 17. september, einn af merkisdögum ársins og sú stund heilög þegar hún var í heiminn borin.

Árni Guðmundsson frá Beigalda

Lilja Finnsdóttir