Leiðir um fjörur í Álftanes- og Hraunhreppum

Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Kort fengið að láni úr bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna.

Óvíða munu vera til betri reiðleiðir en með fram sjó í þessum tveimur sveitum. Þar skiptast á þéttur ægissandur, sem samt er mjúkur undir fót, og grasi grónar grundir.

Sökum þess að allar þessar leiðir fara undir sjó á háflæði, er ekki ástæða til að eyða löngu máli í þær, því undir öllum kringumstæðum þurfa ókunnir ferðamenn að fá til fylgdar staðkunnuga menn. Þó er rétt að benda á leið að Kóranesi og Straumfirði, þar sem einu sinni voru verslunarstaðir.

Þá skal beygja af Stykkishólmsvegi vestan Langár á veg þann, sem merktur er Álftaneshreppur, og fara fram hjá ýmsum bæjum í Álftaneshreppi sunnanverðum, uns komið er að Álftanesi, sem er eini kirkjustaðurinn á þessari leið. Þá tekur við fjöruleiðin, þar sem einungis er hægt að fara um fjöru, út frá Álftanesi að Kóranesi og ef til vill að Straumfirði. Þarna er mikill ævintýraheimur hestamanna til útreiða, sem enginn lætur sér detta í hug að fara nema í fylgd staðkunnugra manna.

Þá er einnig hægt að fara út af Stykkishólmsvegi við Arnarstapa á Mýrum á veg, sem merktur er Hraunhreppsvegur. Brátt er komið að vegamótum við Álftárbrú hjá Hrafnkelsstöðum. Farið er til hægri yfir brúna, þá haldið áfram, þar til komið er að Ökrum í Hraunhrepp, sem eru auðþekktir, því þar er kirkjustaður. Þaðan er er haldið nokkuð áfram, og þá beygt út af til vinstri og að Hítará. Það er eins með þessa leið að lengra verður ekki farið án kunnugs fylgdarmanns, því sæta þarf sjávarföllum yfir Hítará.

Þarna er líka hægt að fara ýmsa skemmtilega útúrkróka, svo sem til Hjörseyrar og um Hjörseyrarsand. Ef menn koma vestan Stykkishólmsveg eða ofan frá leið þeirri, sem nefnd er suður með Múlum, frá Staðarhrauni, þá er að fara út af Stykkishólmsvegi hjá Fíflholtum, þar sem merkt er, og síðan fram hjá býli á hægri hönd, Einholtum. Næsti bær, sem einnig er á hægri hönd, er Stóri-Kálfalækur. Þessi leið yfir Hítará fram hjá Hítarnesi er upphaf að hinni skemmtilegu reiðleið vestur Löngufjörur. Og tekur nú við leiðsögn Snæfellinga.

Að endingu skal tekið fram að um þessar fjörur á Mýrum eru ekki neinar sérstakar reiðleiðir, hvorki fornar né nýjar, nema þar sem kirkjuvegirnir gömlu eru. Verður því að fá leyfi viðkomandi ábúenda jarðanna, ef ferðast á þarna um, hvort heldur er í Kóranes, Straumfjörð, Hjörsey, Hjörseyrarsand, Akrasand og víðar. Þetta á sérstaklega við um varptímann, því æðarvarp þarna er dreift á stóru svæði, og getur valdið tjóni, ef um það er riðið.