Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Þegar komið er að sunnan yfir Grjótháls eða Karlsdal, verður að fara veginn upp sunnanverðan Norðurárdal, yfir Norðurá á brú hjá Króki og á Norðurlandsveg. Hann er farinn til vinstri. Þegar komið er yfir Sanddalsá, er beygt út af til hægri að Sanddalstungu. Þaðan er farið til vinstri handar. Skammt frá túni í Sanddalstungu er gil. Bæjargil, þar sem Sanddalsá rennur úr vestri.
Síðan renna í ána smágil, sem Lambhagagil nefnast en eru ekki merkt á korti. Þegar áin tekur stefnubreytingu til norðnorðvesturs, rennur í hana allvatnsmikið gil, Smiðjugil, sem rennur í djúpu gljúfragili úr Selveitu. Þegar haldið er áfram á vinstri hönd, tekur við Draugagil, sem kemur úr klettagjúfri, síðan Stapagil og Ormstaðagil til hægri. Þarna er á hægri hönd Smiðjumúli. Gamlir máldagar herma að þar hafi Reykholtskirkja átt skógarítak og haft kolagerð, meðan land var skógi vaxið milli fjalls og fjöru.
Næst er á hægri hönd Djúpidalur, en nokkru innar á vinstri hönd Víðagil og þar næst Þrengslagil. Aðeins innar er foss í Sanddalsá, sem Þrengslafoss nefnist. Á vinstri hönd er sandur sá, sem Sanddalur dregur nafn sitt af, og eru þar uppi auðnir og sandar. Síðan tekur við á vinstri hönd Urðarmúli, gjörsamlega gróðurlaus. Að austan eða á hægri hönd eru tvö gil, sem Neðra- og Innra-Hádegisgil heita. Á milli þeirra er Ormastaðamúli og norður Hádegisfjall, sem teygir bungu sína fyrir botn áðurnefndra gilja úr austurátt alla leið að Gestsstaðabungu. Þá er Mógil á vinstri hönd, gljúfragil ófagurt ásýndum. Þá taka við Grásteinseyrar. Á hægri hönd Grásteinsgil úr Hádegisfjalli.
Brátt er komið að ármótum Sanddalsár úr norðri en Heydalsár úr vestri, en leiðin til Dala um Reykjadal liggur með henni. Að norðanverðu á hægri hönd er hár og strýtulagaður múli, sem Sauðfellingamúli heitir. Vestan merkja milli Dalasýslu og Mýrasýslu er fell á hægri hönd, Tröllakirkja, sjaldnar nefnt Kirkjufell, og tekur nú við leiðsögn Dalamanna eftir Reykjadal að Fellsenda.
Við ármót Sanddalsár og Heydalsár eru á sléttri grund upp undir brekkumótum Sauðfellingamúla rústir af seli frá Sauðafelli í Miðdölum, og má ætla að ýmis örnefni á þessum slóðum séu einmitt eftir veru manna þar, að minnsta kosti þau, sem kennd eru við eyktamörk og einnig Heydalur. Frá þessum ármótum er allgreiðfær leið í Haukadal. Er þá farið til hægri frá þeim í norður, upp með Sanddalsá, með Sauðfellingamúla á vinstri hönd. Þegar nokkru norðar er komið, er á hægri hönd strýtumyndað fell, sem Sáta nefnist, og er þá komið að dalverpi, sem Sátudalur nefnist og er það allgreiðfær leið til Haukadals um Villingadal. Þessi leið frá Sanddalstungu með fram Sanddalsá er öll betri og greiðfærari norðvestan ár, og ættu allir, sem hana velja, að fara þeim megin árinnar.
Skúli Þórarinsson á Hafþórs sagði til vegar.