Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Farið er frá Hítarhólmi eftir leið, sem annarsstaðar er lýst, að Tjaldbrekku. Þegar þangað er komið, er farið suðaustur með Bjúgshlíð á vinstri hönd, en til hægri er flatlendi grasi gróið, það sama og farið er eftir þá komið er úr Þórarinsdal um Dýjadal og Suðurárdal. Fram undan er býsna hár hnjúkur, sem Lambahnjúkur heitir, 791 metri á hæð.
Þegar komið er að rótum hans, er farið yfir á, sem nefnist Austurdalsá, og beygt til vinstri með Lambahnjúk á hægri hönd. Allbratt er þarna upp en þó hægt að sitja á hraustum hestum. Ekki er þetta langur bratti, því fljótlega er komið á flatan háls, ekki breiðan, og sést þá í Mjóadal. Þar eru allgóðar götur ruddar af fjárrennsli að mestu, því fáir hestamenn leggja leið sína um þessar slóðir. Mikil fegurð blasir við, þegar komið er upp á hálsinn.
Ef til baka er litið, er Hítarvatn með hinni svipmiklu og fögru Vatnshlíð. Út frá vestari enda hennar er Klifsdalur og Klifssandur, Hróbjargastaðafjall, og einnig sést til innstu hnjúka Kolbensstaðafjalls og Fagraskógarfjalls. Við enda Hítarvatnsins er svo hinn algræni Hítarhólmur, sem frá þessu sjónarhorni er þó ekki eins fagurgrænn og úr suðri séð. Síðan kemur Grafheiðin með Foxufelli (419 metrar), sem gengur snarbratt í vatnið. Bak við Grafheiðina blasa svo við Grafheiðartindar en til vinstri við hana gnæfir Smérhnjúkur (907 metrar).
Þegar yfir hálsinn er komið, tekur dalurinn stefnubreytingu og nú er stefnan í suðaustur með Lambahnjúk til hægri og Þrúðukinnar í Dalasýslu til vinstri. Brátt er á hægri hönd hæsta fjall á þessum slóðum. Tröllakirkja (941 metri). Þar er farið yfir smá háls, sem ferðamenn verða tæplega varir við nema af því að þá fer vötnum að halla suðaustur. Mjóidalur er þarna grýttur og þröngur til að byrja með, en þó liggja um hann götutroðningar. Þegar í Mjóadal kemur, höfum við Fossmúla á hægri hönd en Þrúðufelli (751 metri) á vinstri. Mjóidalur er 321 metra hæð yfir sjó. Þegar honum lýkur, er komið á leiðina frá Svignaskarði til Sópandaskarðs.