Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Farið er frá Valbjarnarvöllum á leið vestur með Múlum. Þegar komið er upp hjá sumarbústöðum, sem þar eru á vinstri hönd, er Gufuá á hægri hönd. Eftir stuttan spöl með henni liggur jeppaslóð yfir hana til hægri handar. Þessi slóð er farin, og liggur hún nokkuð langt inn á Valbjarnarvallamúla og engrar leiðarlýsingar er þörf, meðan hennar nýtur. Ekki er mjög bratt þarna upp múlann og leiðin þess vegna ekki erfið hestum eða mönnum.
Brátt er komð að vatni á vinstri hönd, og heitir það Gufuárvatn, en úr því fellur smá á samnefnd suður Borgarhrepp. Eftir nokkurn spöl verður annað vatn á leið okkar til vinstri, sem Grunnavatn heitir. Spölkorn frá því þrýtur jeppaslóðina, og er þá farið niður allbratta brekku. Þar er Djúpadalstjörn á hægri hönd, en götur haldast greinilegar. Hér fer landið ört að halla undan fæti, og liggur leiðin um nokkuð há hæðaköst og mýrarsund. Eftir að landið tekur að lækka er stefnan tekin örlítið á vinstri hönd og komið að Gljúfurá hjá fljóti í henni, sem Topphólsfljót nefnist, með samnefndum hól sunnan þess. Farið er yfir ána vestan fljótsins.
Frá Topphólsfljóti er farið eftir mosavöxnum klapparásum. Þar eru engar götur greinilegar en stefnan tekin beint í norður með stefnu aðeins laust við vestanverðan Staðarhnjúk, sem hér er fram undan á hægri hönd. Brátt verður fyrir ferðafólki dalur, sem Seldalur nefnist, sá sami, sem nefndur er á Heiðarvegi. Farið er niður hann sunnanverðan, og er þá komið á götu, sem helst að miklu leyti það sem eftir er leiðar. Eftir að hafa farið Seldalinn nokkurn spöl sunnanverðan liggur leiðin yfir hann og upp úr honum vestanverðum. Þegar þarna er komið er Staðarhnjúkurinn á hægri hönd en Staðartungan á þá vinstri. Brátt sér í Beylárvelli og Langavatn.
Áður en stífla vegna vatnsmiðlunar kom til sögunnar, þar sem Langá fellur úr vatninu, var farið niður Klifið, sem svo nefnist, á vellina og riðið með fram vatninu eftir hörðm bökkum og malareyrum. Síðan hækkaði í vatninu vegna áðurnefndra framkvæmda, verður að fara utan í Staðarhnjúk að norðan eða til hægri eftir ýttri slóð, sem þó er alltaf að hrynja í, þar til komið er alllangt austur með Beylárvöllunum og á veg að Torfhvalastöðum.