Leið frá Torfhvalastöðum við Langavatn, um Langavatnsdal að Sópandaskarði

Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Kort fengið að láni úr bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna.

Rétt er að staldra svolítið við hjá leitarmannahúsi Borghreppinga, ,,Torfhvalastöðum“, sem stendur við brekku vestan Réttamúla og austan Langavatns. Áður stóð sæluhúsið niður við vatnið á sléttlendi, á milli hæðarbrúna að norðaustan og holts nokkurs að suðvestan. Í mikilli rigningartíð og vatnavöxtum haustið 1941 hækkaði svo mikið í vatninu að hnédjúpt varð í kofanum aðfaranótt mánudags í fyrstu leit. Þegar birti af degi, varð það fangaráð fjallmann að bera inn grjót og hækka þannig upp gólfið, þangað til upp úr stóð. Kaldsamt hefur verið þessa nótt í ausandi rigningu sem þá var. Næsta vor var sæluhúsið byggt upp og flutt á þann stað, sem það stendur nú á.

Við skulum aðeins huga að útsýni. Í norðvestri sést Langavatnsmúli vestan Langavatns rísa yfir hæðardrög sunnan þess. Þá sér í mynni Kvígindisdals til vesturs, sunnan hans Vatnshlíðin, Sandvatnsnesið og Lambafell. Þá tekur við Staðartungan og Staðarhnjúkur við suðurhorns Langavatns, en meðfram honum lá leið okkar áður.

Frá húsinu er riðið sem leið liggur eftir akfærum vegi, að minnsta kosti ef um fjórhjóladrifsbíla er að ræða, með Réttamúla á hægri hönd og Langavatn á hina vinstri. Langavatnsmúli er svo vestan vatnsins. Í seinni tíð, þegar ég hef farið þarna um, undrast ég yfir því, hvar hestafætur hafa getað fótað sig í hinni skriðurunnu hlíð hans, svo sem sagt er frá í lýsingu á leiðinni frá Hraundal, um Grenjadal að Sópandaskarði. Hér blasir við Langavatnsdalur fram undan, en um hann segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna:

,,Langavatnsdalur er harla fagurt hérað. Hann skerst upp í fjalllendi Vestri-Skarðshlíðar, er 3 mílna langur og liggur frá suðri til norðurs. Í honum sunnanverðum er Langavatn, mikið vatn og fiskisælt. Þar er mikill fjöldi álfta á sumrum á hólmum og töngum. Nú á tímum er Langavatnsdalur ágætis afréttur. Til forna var þarna kirkjusókn með fjölda bæja. Byggðin lagðist að sögn í eyði í plágu þeirri, sem geisaði á Íslandi 1402 – 1404 og kölluð er svarti dauði hér á landi, enda þótt hinn eiginlegi svarti dauði, sem geisaði í Evrópu 1349, kæmi ekki til Íslands. Það gegnir furðu, að svo fagurt hérað skyldi ekki byggjast á ný, þó að nágrannabændur kysu heldur að nota það sem ókeypis afrétt fyrir búsmala sinn. Þegar við fórum um Langavatnsdal sumarið 1754, sáum við hin fornu tún standa þar í fullum blóma, rétt eins og þau hefðu notið árlegrar umhirðu og áburðar. Bændurnir, sem bjuggu hér fyrrum, lifðu af sauðfjárrækt og silungsveiði og voru vel efnum búnir.  Árið 1255 var dóttir prestsins í Langavatnsdal talin einn auðugasti kvenkostur á öllu Vesturlandi, og biðlaði Þorgils skarði til hennar, en hann var af ætt Sturlunga og umboðsmaður Hákonar konungs.“

Við nyrðri enda Langavatns eykst torleiði fyrir bíla, en greiðfærar götur haldast að Borg á Langavatnsdal. Hið forna býli hefur staðið á hól, sem nú er allmosagróinn, en þó sést móta fyrir bæjarrústum þar, ef vel er að gáð. Svo sem segir í tilvitnun í Ferðabók Eggerts og Bjarna er talið að nokkur byggð hafi verið á Langavatnsdal fyrr á öldum. Nafngreinda hef ég heyrt, auk Borgar, Hafursstaði við mynni Hafradals og Vatnsenda við enda vatnsins. Nú munu rústir þessara bæja vera horfnar, en í æsku minni heyrði ég greinargóðan bónda, Harald Bjarnason á Álftanesi, telja sig vita um, hvar bæir þessir hefðu staðið. Munnmæli telja að á Borg hafi verið kirkjustaður, sem þjónað var frá Hítardal, og að prestur frá Hítardal hafi verið að fara til messugerðar að Borg á Langavatnsdal, þegar hann varð úti á Langavatnsmúlanum milli Þórarinsdals og Hafradals, þar sem heitir Gvendarskarð.

Sagan segir að byggð hafi lags af í hinum afskekkta fjalladal í svarta dauða. Nú hefur tíminn afmáð þau spor, sem stigin voru á þessum slóðum og mannanna verk að miklu leyti. En freistandi er að gefa ímyndunum lausan tauminn og leiða hugann að búsetu manna á þessum slóðum í hásumardýrð og vetrarhörkum.

Rétt er að standa á bæjarhólnum á Borg og virða fyrir sér það útsýni, sem bóndinn þar leit augum á morgnana, þegar hann brá blundi og leit til vesturs. Beint á móti er Hafradalsmynni í norðvestur, til vesturs er Langavatnsmúli, og sér vel til Gvendarskarðs, sem er raunar ofurlítill slakki í múlann, þá Langavatnið, því næst Réttarmúli. Í austur er Moldarmúli, þá kemur nokkur lægð í hann til suðausturs, sem Moldaskörð heita. Gil liggur úr Moldarmúlanum til Borgar, en þar er leið, sem alls ekki telst til torleiðis, til svonefndra Suðurdala á Borghreppingaafrétti, þeirra Hróbjargardals, Fossdals og Mjóadals, en reiðleiðir um þá dali fá umfjöllun í þessum þáttum af Skúla Kristjónssyni.

Vinstra megin við Moldskörð rís hátt fjall, sem Borgarhraunseggjar nefnist. Með fram þeim liggur fyrst Langavatnsdalur, síðan Víðidalur í norðurátt. Víðidalur í norðurátt. Víðidalur gengur inn af Langavatnsdal, og landfræðilega er ekki hægt að sjá annað en þetta sé sami dalurinn. Þar sem Langavatnsdalur endar, liggur brekka um þveran dal, en þar frá hækkar inn dalinn allmjög, sem að eftir þetta eru fossar í ánni. Þar ber hún heitið Víðidalsá, en á Langavatnsdalnum heitir hún Langavatnsdalsá. Brekka þessi heitir Tjaldbrekka, sem ber trúlega nafn sitt af því að þar munu fjallmenn hafa tjaldað áður en leitarmannaskálar komu til sögunnar. Vinstra megin Víðidals er Víðimúli. Til vinstri við Tjaldbrekku er Fossmúli, til hægri við hann sést Fossdalur, og fyrir botn hans gengur Tröllakirkja, sem er hæsta fjall á þessum slóðum. Suður af Tröllakirkju gengur hár fjallsrani milli Fossdals og Hafradals, sem endar á hárri gnípu, sem ávallt er kölluð Trumba. Suður af henni gengur hryggur, sem heitir Kattarhryggur, milli Langavatnsdals að austan og Hafradals að vestan.

Þegar haldið er frá Borg í norðurátt til Dala, er um þrjár leiðir að velja:

1

Farið er inn með hlíðinni sunnan dalsins með Borgarhraunseggjar á hægri hönd, þar til komið er að Tjaldbrekku, þá vestur með henni að Fossmúla, þá yfir Mjóadalsá upp nokkuð bratta brekku. Tekur þar við rudd slóð eftir ýtu. Þetta er hin versta leið með blautum keldum milli urðarbríka.

2

Farið er yfir Langavatnsdalsá beint á móti Hafradal og upp með henni að norðvestan. Hérna rennur áin í tveimur olnbogum, svo leiðin liggur hér á bletti í suðaustur í átt til suðurhlíða dalsins, uns hún beygir inn á hann. Þá er riðið meðfram ánni eftir eggsléttum bökkum hennar með Borgarhraunseggjar á hægri hönd en á hina víðáttumikið stararengi, sem Borgarengi kallast, þar til komið er að Tjaldbrekku, og loks eins og áður er lýst upp Fossmúlann. Þetta heitir að fara inn Víðidalstungu. Þó þetta sé í alla staði hin skemmtilegasta reiðleið og vart völ á annarri betri, eru það mjög fáir, sem fara þetta, og ættu ekki að gera nema kunnugir séu með í för vegna grafkeldna, sem liggja að ánni á báðar hendur, og þess vegna þarf að fara yfir hana sitt á hvað til að forðast keldurnar, en áin er örgrunn á þessum slóðum.

3

Farið er yfir Langavatnsdalsá á sama stað og áður, haldið þvert yfir dalinn, og er þá örstutt að hól, sem Rauðhóll nefnist. Þá er komið á götur greinilegar og allgóðar, og liggja aðrar til vinstri niður Álfthreppingaafrétt, sem annars staðar er lýst, en til hægri þær, sem nú skal lýsa. Áður fyrr lá gatan austan Rauðhóls, stórgrýtt og ill yfirferðar, en nú hefur verið ruddur vegur yfir hann vestanverðan, og er öllum ráðlegt að fara þá leið, þar sem gömlu göturnar eru varhugaverðar nema mjög varlega sé farið. Eftir að komið er fram hjá Rauðhól taka við glöggar götur, sem liggja um gróna bakka. Hér er ágætur reiðvegur með tækifærum á sprettum ef svo ber til. Á hægri hönd er Langavatnsdalur með Borgarengi, en þá til vinstri Sauðhamrar, síðan Fossdalur og þá Fossmúli. Þar liggur leiðin upp eftir sneiðingum. Þarna er nokkuð bratt og grýtt á köflum og kærkomin ástæða til að láta hestana stíga fetið eftir áður farnar greiðar götur. Þegar komið er fyrir Fossmúlaendann, er haldið skamman spöl inn með honum, með hann á vinstri hönd en Mjóadalsgil á þá hægri. Þegar komið er inn fyrir gljúfrið, er farið yfir ána, rétt ofan við þar sem hún fellur í gilið. Þarna er aðdjúpt nokkuð, og á þessu vaði féll í ána Skafti bóndi í Þverholtum skömmu eftir 1790 og drukknaði, sem frá er sagt annars staðar. Þó engin hætta sé á ferðum þarna á sumardegi, er allt annað svipmót á þessum stað í haustrigningum, og stundum þarna legið við slysum, þó sloppið hafi. Þegar komið er yfir Mjóadalsá, er komið í Dalasýslu og við tekur leiðsögn Dalamanna, en við skulum staðnæmast á Sópandaskarði, sem mjög oft kemur við landnámssögu og þó sérstaklega á Sturlungaöld. Þar höfum við Víðimúla á hægri hönd en Þrúðufell á hina vinstri. Og lýkur hér leiðsögn minni um Langavatnsdal. Sjá nr. 46, Sópandaskarð að Seljalandi.