Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Einhver skemmtilegasta reiðleið, sem völ er á, er sú, sem nú skal lýst. Farið er frá Staðarhrauni eftir vegi, sem liggur að Hítardal. Á hægri hönd er fyrst Múlaselsmúli með eyðibýlinu Múlaseli við múlaendann. Þá eru Helgastaðir. Á vinstri hönd er Fagraskógarfjall með hinu sérkennilega Grettisbæli. Fram undan er bærinn Hítardalur undir sérkennilegu móbergsfelli, sem Bæjarfell heitir. Fell þetta hét áður Húsafell og bærinn raunar líka. Ekki er vitað, hvenær nafnbreyting þessi í Hítardal hefur átt sér stað.
Í Hítardal bjó tröllkona, sem Hít hét, í Hundahelli, og ber dalurinn nafn hennar. Hún átti vingott við Bárð Snæfellsás, sem var eftir því sem sagan segir hálftröll. Skammt frá bænum Hítardal er hellir, sem Sönghellir heitir. Í Hítardal var kirkjustaður og prestsetur fram til 1875 og var talið með bestu brauðum landsins.
Þegar farið er úr Hítardalsrétt, sem er spölkorn vestan við túnið í Hítardal og leiðin liggur hjá, er farið eftir bílvegi, sem er mjög góður fyrir hestafætur þrátt fyrir að þarna er bílaumferð nokkur. Á þessari leið blasa við ferðafólki sömu jarðvegsmyndanir og á Bæjarfelli. Má þar nefna fram undan á hægri hönd Svörtutinda, til baka á þá vinstri Grettisbæli, en fram undan til vinstri Hróbjörg, Klifsand og Valfell. Fram undan er Hítarhólmur algróinn og grænn. Mjög gott er að stansa þar með hesta, því hér er góð girðing með nægum haga og rennandi, tærum uppsprettulindum. Ef menn ætla að hafa hér viðdvöl yfir nótt, þarf að tala við oddvita Borgarbyggðar og fá leyfi til þess.
Þegar í Hítarhólm er komið, erum við stödd á söguslóðum Bjarnar Hítdælakappa. Rétt innan við hlið á hestagirðingu sést greinilega móta fyrir rústum á lágum hól. Þar er talið að bær Bjarnar hafi staðið. Handan við Hítará í norðvestur eru Hvítingshjallar, sem nefndir eru eftir reiðhesti hans.
Bjarnar saga Hítdælakappa er ástar- og örlagasaga, þar sem Þórður Kolbeinsson í Hítarnesi fékk Oddnýjar eykyndils í Hjörsey með svikum, en hún var heitbundin Birni. Þar á Hvítingshjöllum sóttu menn Þórðar að Birni um haust, er hann var að manskera stóðhross og var fámennur hópur heima, þar sem húskarlar voru í réttum á Langavatnsdal. Þar sóttu þeir að honum sex og sex í hóp og vörnuðu honum flótta til Þórarinsdals, inn fyrir hjallana í átt að Vatnshlíð, og enn aðrir sex í fyrirsát til varnar flótta vestur í Klifsdal. Og segir sagan að piltur sá, sem með Birni var, hafi séð eigi færri en 4 og 20 menn. Eftir frækilega vörn með manskærin ein að vopni var Bjarnar veginn af Þórði í Hítarnesi. Þessi kafli úr sögu Bjarnar er rifjaður hér upp vegna þess að enn í dag eru þekktar þær leiðir, sem Þórðar menn óttuðust að Björn myndi flýja, og fá þær nánari lýsingar í þessum þáttum.
Hér á þessum slóðum var tekin upp að miklu leyti kvikmyndin ,,Útlaginn“, sem er hetjusaga Gísla Súrssonar, og nú í dag eru uppistandandi vestan Hvítár tveir bæir í sögualdarstíl, sem notaðar voru við þær myndatökur. Annar sést frá fjallhúsinu niður og suður undan Hvítingshjöllum, en hinn er nær vatninu og sést ekki nema farið sé þangað, sem Hítará fellur úr því.
Mjög fallegt er í Hólmi og vel þess virði að ganga á Hítarhólm, ef tími er til, njóta útsýnisins og huga að örnefnum. Innan Hólmsins er Hítarvatnið, en það sést ekki frá fjallhúsinu. Austan við það gengur Foxufell, snarbratt, í vatnið. Austan í því er Bjarnarhellir með fornum rúnaristum. Þá er grafheiðin og Þórarinsdalur, næst tindar sem Svörtutindar heita, þá er Bæjarfellið, sem Hítardalur stendur undir, síðan Fagraskógarfjall og Hróbjargastaðafjall, Hróbjörg og Klifsandur í vesturátt. Þá tekur við Vatnshlíðin inn með Hítarvatni að vestan, og loks er svo innan við vatnið Tjaldbrekka, gamalt býli, og upp af henni Svínbjúgur og þar austur af Bjúgshlíð. Þá eru í mjög stórum dráttum talin upp nokkur örnefni í hinum fagra og tilkomumikla fjallahring. Þau eru að sjálfsögðu miklu fleiri, sem of langt mál yrði upp að telja.
Í vestri milli Vatnshlíðar og Klifsands er hálendur dalur, sem Klifsdalur heitir. Ef fólki dytti í hug að halda vestur í Hnappadal, er alls ekki óhæg leið um hann en brött. Þá er farið vestur yfir Hítará upp Hvítingshjalla og stefnt upp í dalinn. Þar uppi er komið að girðingu, sem hlið er á. Þá sér í dal, sem Hellisdalur heitir, nokkuð til hægri handar fyrst í stað, og er þá stutt að bænum Hallkellsstaðahlíð í Kolbeinsstaðahreppi. Þessi leið ætti að fá nánari lýsingu hjá Snæfellingum, en hún er ekki slæm nema að hún er brött.
Nú er mál að halda á leið til Dala, Þá er farið aðeins niður með Hítará, yfir hana og upp með henni að vestanverðu. Þarna eru engar ákveðnar götur á smábletti, en þegar komið er aðeins inn fyrir þar, sem Hítará fellur úr vatninu, fram hjá bæjunum úr kvikmyndinni og áður er sagt frá, tekur við stutt en slæmt klif, þar sem hestar verða að fá að lesta sig eftir grýttri og tæpri götu. Fleiri klif ganga út í Hítarvatn á leiðinni inn með því, en þetta er það versta og heitir Stóraklif.
Þá liggur leiðin inn með vatninu, og er mjög háð vatnsstöðunni, hve fljótfarin hún er. Ef svo lágt er í vatninu að hægt er að ríða undir bökkunum, er þetta ágæt leið, en annars verður að fara uppi á vatnsbökkunum, en þeir eru sundurgrafnir af keldum. Þegar komið er svo að segja inn fyrir vatnið, taka við sléttar og góðar reiðgötur alla leið að Tjaldbrekku. Ef svo hátt er í vatninu að götur þessar eru á kafi, verður að ríða vestur að hlíðinni og inn með henni, þar til komið er að Tjaldbrekku, en þá er farið fram hjá öðru býli, sem heitir Bjúgskot. Áður en vatnsmiðlun kom í Hítará, þar sem hún fellur úr Hítarvatni, var þetta trygg og góð reiðleið og sú skemmtilegasta, sem völ var á, til Dala. En síðan hækkað var í vatninu vegna rennslisjöfnunar í Hítará hefur hún verið mjög háð vatnshæðinni. Samt sem áður er þetta góð og skemmtileg leið, með tilliti til þess að áfanginn með fram Hítarvatni er svo stuttur í hlutfalli við alla leiðina, enda er oft, sérstaklega þegar líður á sumar, orðið það lágt í vatninu að það telst ekki til farartálma. Frá Tjaldbrekku er haldið í norður með ánni, sem heitir Þröskuldardalsá. Þegar upp á Bjúginn er komið, er stutt í dal fram undan, sem nefnist Burstadalur og leiðsögn Dalamanna tekur við.