Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Farið er fá Hraundalsrétt upp með gili, sem fellur á milli Grímsstaðamúla og Bæjarfjalls, en svo heitir fellið, sem bærinn Syðri-Hraundalur stendur undir. Þegar komið er upp mesta braattann, en hann er nokkur þarna, er beygt til vinstri á allgreinilegar götur, sem liggja inn Bæjarfjallið.
Í æsku minni voru þessar götur skýrari og greiðfærari en nú, meðan Hraundalsbóndi heyjaði og flutti á mörgum hestum hey innan af Hraundal, þar sem hestafætur ruddu götuna, þannig að til bóta varð ár frá ári. Einnig dofnuðu göturnar, þegar fjárrekstrar féllu niður bæði til fjalls og af. Og þegar bílfær vegur var lagður inn Grenjadal, fækkaði ferðum hestamanna um Hraundal, þó að sá, sem þetta ritar, láti ekkert tækifæri ónotað til að ferðast um þetta óskaland æsku sinnar, sem Hraundalur er.
Haldið er áfram inn Bæjarfjallið, uns komið er niður af því að norðan. Er þá komið að hraunjaðri, sem áin Veitá rennur með fram, en það er sama áin og rennur hjá Hraundalsrétt. Þar er beygt út af ógreinilegri götunni, sem heldur svo áfram inn svonefnda Litursstaðahlíð. Þar er að vísu leið, sem heitir að fara Innrivallastíg, en ekki þykir ástæða til að lýsa henni, enda sjaldan eða aldrei farin. Þegar komið er út af fyrrgreindri götu, er farið á milli hraunbríka eftir djúpum moldargötum. Þetta heitir að fara á Neðrivallastíg yfir að hlíðinni vestan dalsins, sem á þessu svæði í Svarfhólsmúlanum heitir Selfjall.
Önnur leið frá Hraundalsrétt er sú, sem nú skal lýst og heldur er mælt með. Farið er vestur hraunið í átt að Kaldármelum, uns komið er að Ytri-Hraundal. Þá er beygt fyrir sunnan tún, þar til komið er á götuslóða, sem liggur inn Hraundalinn. Mikil náttúrufegurð blasið við augum, þegar hér er komið, þar sem gatan liggur um land skógi eða kjarri vaxið. Brátt er komið að lítilli skógartjörn. Þar er sjálfsagt að stansa, láta hestana taka niður, njóta fegurðarinnar með hraunflæði suður og vestur undan á aðra hönd en Selfjallið og Selhyrnuna á hina. Þarna er veðursæld mikil og það eina, sem angrað getur ferðafólkið, er mýbit, sem er töluvert á þessum slóðum.
Þegar skammt hefur verið farið, sameinast göturnar, þessi og þær, sem liggja frá Hraundal um Bæjarfjall. Áfram er haldið milli hrauns og hlíða með Hraundalshraun á hægri hönd, en hlíð Svarfhólsmúla á hina vinstri. Innan stundar reiðar liggur gata upp klapparháls, sem Rauðhálsar nefnist og myndaður er úr gosefnum. Austur af honum eru Rauðukúlur fyrir botni Hraundals. Allt eru þetta fornar eldstöðvar, sem hið víðáttumikla hraun hefur runnið úr. Þegar komið er norður yfir Rauðhálsa, er komið í allvíðáttumikinn dal, Slýdali, sem ávallt er nefndur í fleirtölu. Þó er ekki gott að átta sig á að hér sé um fleiri en einn dal að ræða, eins og þarna er umhorfs í dag. Undir Rauðhálsunum, sem líka eru ávallt nefndir í fleirtölu, er Slýdalstjörn, nokkuð stór miðað við að bera tjarnarheiti. Þarna eru ávallt svanahjón á sundi, sem setja vissan hugblæ á stað og umhverfi. Slýdalir ná alla leið að Lambafelli, sem lokar dölunum, myndað úr gosefnum, en rís einstakt og bratt upp af jafnsléttu. Þegar komið er að fellinu, liggja greiðar götur meðfram því til suðurs og svo til austurs og norðurs eða um helming leiðarinnar í kringum það, uns komið er að leitarmannahúsi Álfthreppinga við Lambafell.
Nokkru áður en komið er í fjallhúsið er farið fram hjá vegamótum, þar sem leiðirnar um Hraundal og Grenjadal mætast, en þar hjá er minnismerki, hlaðið úr hraungrjóti með áletruðum koparskildi, reist til minningar um Svein Sveinsson frá Hvítsstöðum, sem seinna var kenndur við Álftanes. Hann reisti á seinustu árum ævi sinnar nýbýlið Sveinsstaði í Álftaneshreppi. En á þessum stað varð Sveinn bráðkvaddur við fjárrekstur til fjalls vorið 1955. Hann var mikill unnandi fjalla og fjallferða enda fjallkóngur Álfthreppinga í mörg ár. Hann þekkti fjöllin á afréttinum í hásumardýrð og hausthretum. Það var því vel við hæfi, þegar nokkrir vinir hans úr hópi fjallleitarmanna tóku sig til og reistu honum minnisvarða á þeim stað, sem hann féll frá í fang þeirrar náttúru og fjalladýrðar, sem hann þekkti svo vel og unni mest og best.
Leiðin frá Grenjum að leitarmannahúsi er auðfarin, þar sem nú hefur verið rudd greiðleið bílaslóð um Grenjadal. Farið er frá Grenjum inn dalinn. Þar sem síðast sést til bæjar og ferðamenn koma fyrst í sjónmál frá Grenjum séð, heitir Heiðarvarða. Þar eða nokkru neðar er hlið á heiðargirðingu. Þar frá er farið niður nokkurn halla og komið í lítið dalverpi, sem Slakki nefnist, með Langá á hægri hönd og Grenjamúla til vinstri. Þegar komið er að þeim stað, þar sem vegurinn liggur næst ánni, er vað, sem heitir Koteyrarvað. Talið er að það vað verði síðast óreitt, þá flóð er í ánni, og þarna hafa réttamenn, sem komu úr Svignaskarðsrétt, orðið að leita vaðs með réttafé, þegar annars staðar reyndist ófært.
Ástæða er til að ráðleggja mönnum, sem koma sunnan að og ætla inn Grenjadal, að fara ekki yfir Langá á Sveðjuvaði, sem annars staðar er lýst, heldur fara inn með ánni að sunnan eftir tæplega akfærum slóðum, uns komið er að Koteyrarvaði. Þar enda slóðirnar og riðið er yfir ána á veg um Grenjadal. Nokkru innar eru tvö gil, sem nefnast Neðra- og Innra-Koteyrargil, en þar voru býli tvö, sem nefndust Kot. Ekki er lengur vitað um búsetu á þessum jörðum. Eftir skamma reið er farið fram hjá Heiðarsundum á hægri hlið og Rauðukúlum á vinstri hönd, þeim hinum sömu og lýst var í leiðarlýsingu um Hraundal.
Þegar komið er í leitarmannahús Álfthreppinga, er rétt að stansa um stund og virða fyrir sér útsýnið þrátt fyrir að erfitt sé að stoppa með hesta. Ef menn ætla að hafa næturdvöl þar, þarf að fá leyfi hja oddvita Álftaneshrepps. Þarna er allgóð rétt frá náttúrunnar hendi, sem er hraunsprunga milli tveggja klettabríka, og er hlaðið grjóti í báða enda. Þarna er ekki rúm fyrir marga hesta og haflaust en gott skjól. Hvar sem er í kring er hægt að æja í mjög góðum hestahögum. Í vestri gnæfir Lambafellið, sem byrgir allt útsýni til þeirrar áttar. Sunnan þess eða á vinstri hönd er Grímsstaðamúli. Þá er láglent eiði, þar sem Gljúfurá rennur í suðaustur og er í raun kvísl úr Langá. Norðan hennar er Staðartunga. Langá fellur svo úr Langavatni við norðurhorn Staðartungu og niður með henni að vestan. Vestan við Langána er flatlendi allvíðáttumikið, sem Sandvatnsnes heitir og liggur að Vatnshlíð, sem er hér í norður. Sandvatn nefnist vatn, sem er affall úr Langá. Í norður frá Sandvatnsnesi er Langavatnsmúli, og loks í norðnorðvestur er svo mest áberandi tindur frá þessum stað að sjá, sem Gjafi heitir.
Þegar ég var í fjárleitum á afrétti Álfthreppinga á árunum 1937 – 1950 sögðu eldri menn ýmiss konar sögur á kvöldin. Oftast voru þetta frásagnir af atburðum, sem gerst höfðu í leitum, og þá undantekningarlaust um svaðilfarir og erfiðleika, en einnig voru sagðar drauga- og fyrirburðasögur. Á síðari hluta átjándu aldar bjó í Þverholtum i Álftaneshreppi bóndi sá, er Skafti hét. Hann er sagður hafa verið mikill fyrir sér og svolamenni, einkum er hann var drukkinn. Í réttaferð í Dali í kringum 1790 drukknaði þessi bóndi í Mjóadalsgili. Talið var að hann lægi ekki kyrr, en gengi aftur og gerði leitarmönnum ýmsar skráveifur, sem ekki voru af betra taginu. Margar afturgöngu- og draugasögur voru sagðar af Skafta af eldri mönnum á þessum árum, þótt meira en ein og hálf öld hafi verið liðin frá þessum slysförum.
Til vitnis um það, hvað trú á drauga og ýmis hindurvitni var rík í hugum Íslendinga fram á okkar daga, skal nú saga sögð, sem hér fer á eftir. Sá háttur er hafður á í leitum Álfthreppinga að reka í nátthaga eða rétt það fé, sem smalast dag hvern, en ekki láta það renna áfram, og byrja svo göngu vel fyrir innan það næsta dag svo sem víða mun gert. Orsök þessarar tilhögunar er sú að hið mikla hraunlendi, sem liggur út úr Hraundal, er innan fjallgirðingar og mikil hætta á að féð renni í hraunið að nóttunni. En þar sem hraunið er vel gróið með kjarri og grasbollum, er erfitt að ná því þaðan. Eitt sinn er komið var úr göngu laumast einn leitarmanna heim í kofann án þess að hjálpa til við reksturinn. Eftir að hafa gengið frá safninu í nátthaga dettur okkur gárungum í hug að glettast við mann þennan og hefna þess að hann hjálpaði ekki til að koma fénu í aðhald. Við hinir léttari hlupum því á undan hinum ráðsettari mönnum að þeirri hlið hússins, sem gluggalaus var. Einn okkar tekur steinvölu í hönd sér, hleypur svo fram og aftur með húshliðinni og strýkur steininum við bárujárnklæðningu þess. Nú var ætlun okkar með þessu uppátæki að hræða manninn og láta hann hlaupa upp með fáti og írafári. Okkur urðu nokkur vonbrigði að ekkert gerist í þá átt. En þegar við litum inn, brá okkur í brún og fannst leikurinn hafa gengið nokkuð langt, því þarna sat maðurinn náfölur og stjarfur af hræðslu með hálfopinn munn og ótugginn kjötbita milli tannanna, hlustandi og skimandi í allar áttir og mátti sig hvergi hræra. Eftir nokkra stund áttaði hann sig og sagði: ,,Voruð þetta þið strákar, ég hélt að Skafti væri kominn.“
Nú er haldið af stað eftir greiðfærri reiðleið um akfæran veg, sem mjög lítið er farinn á bílum og er þess vegna mjúkur og góður fyrir hestafætur. Á hægri hönd er Sandvatnið með grasi vöxnum tanga, þar sem safnið var stundum geymt, sérstaklega þegar hátt var í vatninu. Á vinstri hönd er Vatnshlíðin. Þegar lengra er komið, er Sandvatnsnes á hægri hönd. Þegar komið er þar, sem Vatnshlíðin endar, heitir Vatnshlíðarhorn til vinstri, en á þá hægri er hraunlendi nokkurt alla leið að Langá, þar sem hún fellur úr Langavatni að Langavatnsmúla. Í þeim hraunkanti, sem snýr að Sandvatnsnesi, sést móta fyrir ævafornum veggjahleðslum, og margt bendir á að þarna hafi verið víðáttumiklar fjárréttir. Mér vitanlega hafa veggjabrot þessi aldrei verið rannsökuð og engar munnmælasögur hef ég heyrt um þær. Óneitanlega er freistandi að leiða getum að tilgangi og tilurð þessara rétta. Voru þetta réttir, sem voru notaðir við aðrekstur fjár á vorin til rúnings, eða eru þarna komnar Hraundalsréttir hinar fornu? Þangað var fé smalað af miklu stærra svæði en nú er og rekið austur um Skarðsheiðarveg nyðri norður um Langavatnsdal til Dala og vestur um Kvígindisdal og Þórarinsdal eða niður Hraundal. Það styður þá skoðun að í Bjarnar sögu Hítdælakappa er sagt að húskarlar Bjarnar hafi verið farnir til rétta á Langavatnsdal og hann því fáliðaður heima, þá er Þórður í Hítarnesi gerði aðför að honum og varð honum að bana. Fallið er í gleymsku, hver tilgangurinn hefur verið með þessum réttum og ef til vill erfitt að grafa hann upp.
Þegar kemur fyrir Vatnshlíðarhornið, opnast stuttur en allvíðáttumikill dalur, Kvígindisdalur. Leiðin liggur þvert yfir hann yfir Múlaá, sem rennur meðfram Langavatnsmúlanum, upp hann eftir vegi, sem fær er bílum með drifi á öllum hjólum. Í suðurhorni múlans eru svonefndar Múlabrekkur, þrjár grasi grónar brekkur, hver inn af annarri. Áður en hinn bílfæri vegur var ruddur lá leiðin inn á Langavatnsdal um Múlabrekkur, síðan eftir mjög tæpri einstigisgötu í skriðurunninni hlíð, nokkuð hátt uppi með hyldjúpt Langavatnið undir.
Fyrir mitt minni gerðist saga sú, sem nú skal sögð: Faðir minn, Guðmundur í Álftártungu var um margra ára skeið skilamaður í seinni réttum í Dölum. Haust eftir fádæma óþurrkasumar hittist svo á að þurrkdagur var, þegar ríða skyldi til Dalarétta. Átti hann allmikið af ófrágengnu heyi. Auðvitað kom ekki til greina að hlaupa frá því. Hann gekk frá heyinu og tyrfði tóftina, því þá fengust ekki og þekktust heldur ekki yfirbreiðslur úr hessíanstriga, sem mörgum árum síðar urðu algengar. Síðan leggur hann af stað, þegar degi er allmjög tekið að halla, einn með hesti og hundi, en útlit fyrir óveður með kvöldinu. Þegar faðir minn kom í Múlabrekkurnar í þetta sinn, datt á náttmyrkrið eins og það svartast getur orðið í októbermánuði, og um leið gekk á fádæma úrhellisrigning með suðaustan stórviðri. Máttur mannsins má sín lítils við slíkar aðstæður frá veðurguðanna hendi, sérstaklega með tilliti til þess torleiðis, sem þá var utan í Langavatnsmúlanum. Þegar svo ber til, er það hesturinn, sem traustið beinist að og sem oftast nær hefur bjargað mönnum til bæja þrátt fyrir myrkur, vegleysur og óbrúaðar ár í misjöfnum veðrum. Nú mun þessi gata með öllu eydd og hefur sjálfsagt skriðurunnið nokkuð fljótt eftir að hætt var að fara hana, og sér enginn eftir.
Þá má minnast þess að um 1920 voru tveir menn í eftirleit á þessum slóðum. Þegar halla tók degi, skall á þá félaga stórhríð. Þarna í Múlabrekkunum þraut annan manninn gönguna í ófærð og hríð, unglingspilt um tvítugt, og lagðist hann þar til hinstu hvíldar. Hinum manninum, Pétri Þorbergssyni í Syðra-Hraundal, tókst með miklu harðfylgi að ná leitarmannakofanum. Þar sem hann gat ekki kveikt ljós eða hitað sér hressingu vegna þess að eldspýtur höfðu blotnað í vasa hans, varð hann að ganga um gólf alla nóttina til þess að halda á sér hita, uns dagur rann og hríðinni slotaði. Löng hefur sú þrautaganga verið með öskrandi stórhríðardyninn í eyrum.
Vel má það fólk, sem ferðast um afrétti Íslands á sólbjörtum góðviðrisdögum í glaðværum hópi vina, hugsa til þess að öræfin sýna stundum á sér aðra hlið. Þá verður baráttan við náttúruöflin hörð og vægðarlaus, þar sem flestir bera sem betur fer sigur úr býtum.
Eftir þennan útúrdúr er haldið upp Langavatnsmúlann. Þegar komið er inn á hann miðjan, hallar nokkuð til austurs eða í sömu átt og haldið er. Nú sjáum við ofan í Langavatnsdalinn til hægri, en til vinstri er há Langavatnsmúlinn. Fram undan er þverdalurinn Hafradalur, sem skerst nokkuð á ská til norðnorðvesturs úr Langavatnsdal. Handan Hafrafells er allhátt fell, sem ávallt er kallað Trumba og stundum Oktrumba. Suður af þessu felli gengur hryggur, Kattarhryggur, að mótum Langavatnsdals og Hafradals, en inn af Trumbunni hálendishryggur, sem endar fyrir botni Hafradals á Tröllakirkju. Þegar komið er niður af múlanum, er komið niður á flatlendi Langavatnsdals, þar sem heitir Hafradalseyrar. Yfir Hafradalsá áfram með Kattarhrygg og Oktrumbu a vinstri hlið, uns komið er að Rauðhól. En þar sameinast leiðirnar úr Álftaneshreppi, sem nú hefur verið lýst, og úr Borgarhreppi. Áframhaldið fylgir þeirri leiðarlýsingu.