Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Farið er yfir Norðurá á Hábrekknavaði upp klif á móti Hestaþingseyrum, áfram götuslóða að beitarhúsarústum, sem þar eru, og þaðan í norðaustur, vestan og síðan norðan fjárhúsa frá Einifelli. Er þá komið á troðnar slóðir fram hjá felli, sem heitir Einifell, sem hér er á hægri hönd. Milli Einifells og Hallar er greið reiðleið, en á henni er ein girðing með góðu hliði. Hjá Höll er komið á veg og opnast þá ýmsar leiðir.
Í fyrsta lagi til hægri, þar sem leið liggur hjá Lindarhvoli og Arnbjargarlæk og fram Þverárhlíð. Í öðru lagi er frá Lindarhvoli auðfarin leið að Hjarðarholti. Í þriðja lagi er hægt að fara frá Höll til vinstri, fram hjá Veiðilæk og Svartagili. Áður en komið er að Glitstöðum liggur leiðin yfir brú á Norðurá fyrir þá, sem ætla vestur með Múlum eða hvert sem fara vill í vesturátt. Unnt er að fara áfram norðan Glitstaða til hægri á leið um Karlsdal að Höfða í Þverárhlíð.