Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Leiðin um Grjótháls er forn og sennilega fjölfarin frá upphafi vega. Allar samgöngur ,,að sunnan“ og norður í land voru um Grjótháls nema Arnarvatnsheiði eða Tvídægra væru farnar. Nú er kominn bílvegur um Grjótháls og þess vegna ekki þörf á að segja til vegar yfir hann, en ástæðulaust er að forðast veginn. Hálsinn er enn ekki svo fjölfarinn bílum að vegurinn sé mjög harður undir fót fyrir hesta. Þetta er sjálfsögð leið fyrir hestamenn, sem koma að sunnan og ætla til dæmis Sanddal til Dala eða norður yfir Holtavörðuheiði.