Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Þeir, sem leggja leið sína norðan yfir Holtavörðuheiði og ætla vestur í Dali um Sanddal og Reykjadal, geta stytt leið sína um allt að helming með því að fara gömlu póstleiðina milli Fornahvamms og Gestsstaða. Þá er farið yfir Hvassá hjá gömlu brúnni vestan Fornahvamms og upp með læk, sem nefnist Leiðarlækur. Hann dregur vafalaust nafn sitt af leiðinni, sem nú skal lýsa.
Farið er í sveiga, fyrst í norðvestur, síðan til vesturs og loks suðvesturs. Nokkru norðar á hægri hönd er vatn, sem Seltjörn nefnist. Strax á brúninni ofan við Fornahvamm eru vörður, sem haldast alla leið að Gestsstöðum, en það er eyðibýli í Sanddal. Vegna þessara varða, sem sjá má á milli, má ætla að þetta hafi verið fjölfarin leið, enda er hún allgreiðfær. Varðan, sem næst er Gestsstöðum, heitir Strókavarða. Frá Gestsstöðum er örstutt að Sanddalstungu og á þá leið, sem áður er lýst. Leið þessi er merkt á landsfjórðungakortunum. Þarna er víðsýnt og mjög fallegt í góðu skyggni á sumardegi.
Skúli Þórarinsson á Hafþórsstöðum sagði til vegar.