Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Óvíða í Mýrarsýslu eru jafngóðar reiðleiðir og um Stafholtstungur, með fram ánum, sem skipta hinni grösugu sveit í þrjár tungur. Þær eru í daglegu tali kallaðar Ystatunga, Miðtunga og Syðstatunga. Þar skiptast á grasi grónir bakkar og malareyrar, sem eru hinar ákjósanlegustu reiðleiðir. Það spillir ekki að víða þarf að fara yfir árnar, sem ávallt hefur góð áhrif á menn og hesta, ekki síst í sumarhitum.
Þegar hugsað er til ferðar um þessa góðu reiðvegi, koma ósjálfrátt upp í hugann gullfallegar vísur Páls á Hjálmsstöðum, sem hann orti eftir náttlanga leit að strokuhestum um Borgarfjörð. Um morguninn, þegar sólin glitraði á gullna daggardropa í vorkyrrðinni og hann hélt heimleiðis austur Uxahryggi, varð honum að orði:
Ber mig yfir Borgarfjörð
beisladrekinn knái.
Glitrar dögg við gróinn svörð,
gull er í hverju strái.
Hér er jökla- og hamraþil,
hálsar og dalir grænir.
Niðrí bláum bergvatnshyl
byltast laxar vænir.
Gróskumáttur gróandans
gagnsemd eykur hjarðar.
Fyllir augu ferðamanns
fegurð Borgarfjarðar.
Ein af þessum ákjósanlegu leiðum er frá Steinum eða Hjarðarholti að veiðihúsi við Þverá, sem nú skal sagt til vegar um.
Við brú á Þverá á vegi númer 50, Borgarfjarðabraut, er farið út af til norðurs upp með ánni, með fram svonefndum Hólmum, með ána á vinstri hönd og ógirtar engjar frá Steinum á hina hægri. Þarna sem annars staðar á þessari leið eru bílaslóðir veiðimanna með fram Þverá, svo þar er ekki eins vandritað og ætla mætti.
Þegar Steinaengjum sleppir, er komið að hólma í ánni og farið yfir álinn austan hans og eftir honum um svonefndar Eyrar. Þegar komið er nyrst í hólmann, er farið yfir vesturálinn of spölkorn vestan ár fram hjá fengsælum veiðistað, sem Steinahylur nefnist. Norðan hans tekur áin stefnubreytingu og rennur úr norðvestri. Þá er hún riðin á ný og komið á svonefndan Flata. Eftir stuttan spöl er enn á ný riðið vestur yfir ána á Steinsvaði.
Þeim megin árinnar er komið að veiðivegi, sem liggur frá Þverárhlíðarvegi nokkuð norðan Hjarðarholts. Eftir þeim vegi mundi leið þeirra liggja, sem kæmu vestan með Múlum, hvort heldur yfir Norðurárbrú hjá Glitstöðum eða yfir Norðurá á Hábrekknavaði, fram hjá Einifelli, Höll og Lindarhvoli að umræddum veiðivegamótum norðan Hjarðarholts.
Eftir stuttan spöl með fram Þverá að vestan er komið að hliði. Síðan er farið eftir eyrum í Arnbjargarlækjarlandi. Arnbjargarlækur er fram undan á vinstri hönd, en áin á þá hægri. Austan við hana, skömmu eftir að komið er gegnum áðurnefnt hlið, sjást fyrst Háás, síðan Götuás, þar norðaustur af Selásar og norður frá þeim, allt til árinnar. Leynifitjarflói.
Enn er haldið með ánni að vestan, en riðið austur yfir á, áður en komið er að hyl, sem Gellir heitir, og er merktur veiðistaður innst á eyrinni. Þegar komið er spölkorn eftir malareyri, er farið upp melkast, og þá er komið að grasbakka, sem Neðraskeið nefnist. Sjálfsagt dregur hann nafn sitt af góðu sprettfæri.
Áður en komið er að girðingu er aftur farið vestur yfir ál í ánni og eftir malareyri. Innst á eyrinni er farið austur yfir enn á ný. Er þá stutt eftir að girðingu með hliði. Þar er Þórunnarhylur og Þórunnarholt vestan ár. Þá er komið að Fremraskeiði og túni á Gilsbakka. Farið er með því á hægri hönd en með ána á þá vinstri. Þegar komið er að laug við ána, við austanvert túnið nálægt bæ á Guðnabakka, er farið vestur yfir ána. Þá er stutt leið að brú yfir Þverá á alfaravegi um Þverárhlíð. Við veginn er enn eitt hlið, sem fara þarf í gegnum.
Þegar á veginn er komið, geta menn valið um tvo kosti. Hinn lakari er sá að fara veginn suður Kleifar á afleggjara að Sleggjulæk og Ásbjarnarstöðum og á veg um Kjarradal, rétt við heimreiðarhliðið að Ásbjarnarstöðum. Betri kostur er að halda yfir veginn í gegnum girðingarhlið austur yfir ána, neðan við svonefndan Kirkjustreng, fram hjá gömlu brúnni austan ár, inn eyrarnar þar til komið er að gljúfri því, sem árin fellur um og veiðihúsin standa við, þar til hægri og á veg, sem liggur inn Kjarradal frá Ásbjarnarstöðum.
Enn fremur er hægt að fara upp hæðarkast, sem veiðihúsin standa á, gegnum hlið hjá þeim á veg að Örnólfsdal. Þá liggur leiðin inn Örnólfsstaðaskóg, sem er mjög fögur leið fram hjá bænum Örnólfsdal, eftir bílfærum vegi inn með ánni að vestanverðu, þar til komið er að heiðargirðingu. Skammt fyrir innan hana er vað á ánni, sem Heyvað nefnist. Þar er riðið yfir ána og austan hennar á veginn, sem liggur frá Ásbjarnarstöðum. Þá er stutt yfir í veiðihús austan ár, en áður stóð veiðihúsið við svonefndan Víghól vestan árinnar. Síðan liggur vegurinn inn með Kjarará eftir greinilegum slóðum allt að Gilsbakkaseli, og er því svæði lýst á öðrum stað.
Ef menn hugsa aftur á móti ekki til ferðar inn Kjarradal, er farið frá veiðihúsunum til vinstri eftir vegi að Örnólfsdal. Er þá skammt í Þverárrétt, og þaðan er farið um Grjótháls, hjá Karlsbrekku niður Þverárhlíð eða hvert sem fara vill í þá átt um áður nefndar reiðleiðir.
Jóhann Oddsson og Ásbjörn Sigurgeirsson sögðu til vegar.
Þegar ferðamenn koma sunnan úr Borgarfjarðarsýslu yfir brú á Hvítá hjá Kljáfossi, er í byrjun fárra kosta völ með reiðleiðir nema þjóðveginn. Ef menn ætla fram Hvítársíðu, eru allar gamlar götur aflagðar vegna vegarins, en víða er þó hægt að ríða utan hans. ,,En þegar taka holtin við og heiðar“ inn af hinni sumarfögru og gróðursælu sveit taka við leiðarlýsingar þeirra Þorsteins Þorsteinssonar frá Húsafelli og Magnúsar Sigurðssonar bónda á Gilsbakka.
Ef við höldum svo þjóðveginn fram hjá vegamótum, fram Hvítársíðu og norður Þverárhlíð, á við leiðarlýsing fram Kjarradal, yfir hálsana, um Grjótháls og Karlsdal, frá Svartagili að Arnbjargarlæk og frá Kvíum að Fiskivatnsrétt. Er þá komið í Norðurárdal. Þar er skráð leiðarlýsing um Sanddal og Reykjadal í Dali, frá Fornahvammi að Gestsstöðum og um hina eiginlegu Bröttubrekku til Dala.