Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Ein er sú reiðleið, sem rétt er að minnast á í þessum þáttum, en það er leiðin frá Kvíum í Þverárhlíð að Fiskivatnsrétt.
Réttin stendur í svonefndum Fiskivatnstanga við vestanvert vatnið, sunnan undir háum kletti. Þar hefur henni verið valinn staður með hliðsjón af staðháttum og umhverfið notað bæði til aðrekstraraðhalds og sundurdráttar.
Fiskivatnsrétt var fimmtudaginn í 20. viku sumars. Ekki er vitað með vissu, hvenær hún var notuð fyrst, ef til vill um 1678, en réttað var í henni síðast 1848 eða 1849, og hafði hún verið notuð svo öruggt sé í 170 – 180 ár. Þá var hún flutt á svonefndar Háfseyrar eða Hálseyrar í Kvíalandi og svo 1911 á þann stað, sem hún stendur nú á, og heitir Þverárrétt.
Það gerir Fiskivatnsrétt merkilega í hugum Borgfirðinga og Mýramann að enn þá tala gamlir menn um að veðurfar haustsins fari eftir veðri á Fiskivatnsréttardegi, fimmtudaginn í 20. viku sumars. Sökum þess hve lífsseig sú trú er, þykir rétt að láta ekki hjá líða að lýsa reiðleið þangað, ef einhverja ferðamenn langaði til að skyggnast í heim löngu genginna kynslóða og sjá þá aðstöðu, sem menn urðu að láta sér nægja á liðnum öldum við sundurdrátt í réttum. Enn sést móta fyrir réttarveggjum og eins grjótgarði hlöðnum yfir þveran tanga til vörslu safnsins.
Frá Hermundarstöðum, eyðibýli fyrir framan Kvíar, er farið eftir bílfærum vegi, sem lagður var til að aka fé til afréttar á vorin. Þegar komið er að læk, sem Fiskilækur nefnist, fyrsta læknum frá Hermundarstöðum talið, er beygt út af hinni bílfæru leið til vinstri, upp svonefndan Stekkjarás sunnan Stekkjartjarnar. Farið er eftir honum í norðurátt að Tröllaskarði. Þegar komið er í gegnum það, er beygt til vinstri á svokallaðan Sand. Þaðan er bein lína í Fiskivatnsenda og er farið fyrir vestan vatnið.
Meðan réttað var í Fiskivatnsrétt, lágu fjárrekstrarslóðir þaðan að Króki í Norðurárdal. Nú munu þær orðnar óskýrar eða kannski afmáðar með öllu og gegnum hliðlausa girðingu að fara. Væri verðugt verkefni hestamanna í samráði við landeigendur að setja hlið á þessar girðingar, svo að þeir, sem vilja skoða sig um í Fiskivatnsrétt, geti haldið áfram að Króki, og síðan sem verkast vill inn Sanddal til Dala, í stað þess að halda til baka sömu leið.
Skráð samkvæmt lýsingu Ásmundar Eysteinssonar á Högnastöðum.