
Við andlát vinar míns Jóns Helga Einarssonar, Jonna, leitar hugurinn til liðinna ára og staðnæmist við árið 1939. Þá er Jonni á fyrsta ári og einn af okkur í vinnuflokknum hjá föður hans sem var vegavinnuverksstjóri og móðir hans matráðskona. Þetta voru fyrstu kynni mín af Jonna. Þetta sumar kallaði hann mig Anda og stundum fetaði mamma hans í spor litla drengsins síns og kallaði mig því nafni. Sumarið 1948 var mitt síðasta vegavinnusumar eftir tólf sumur hjá Ágústi föður Jonna. Þá myndaðist vík milli vina og samband mitt við Jonna og fjölskyldu hans rofnaði að nokkru leyti. En aldrei slitnaði vinátta mín við foreldra hans. Á þessum árum mótaðist Jonni í fulltíða mann og hneigðist hugur hans til hesta og varð hann hestamaður góður svo sem verið hafði faðir hans. Á þeim vettvangi kynntist ég Jonna á ný. Á þeim árum felldu þau hugi saman Jonni og Lilla, yngri systir Rúnu konu minnar. Eftir að þau giftust myndaðist á ný vinátta, sem aldrei bar skugga á. Þegar Rúna kona mín féll frá árið 1983 mynduðust sérstök tengsl milli barna minna og þeirra hjóna. Sérstaklega við yngstu dóttur okkar Steinunni Þórdísi, sem var fjórtán ára þegar móðir hennar dó. Stundum finnst mér eins og henni finnist þau hjón vera sem aðrir foreldrar sínir. En það er sérstök tilfinning sem grípur huga gamals manns sem stendur yfir moldum náins vinar sem er mörgum árum yngri og hefur þekkt frá barnsárum. Svona er lífið og þeim örlögum verður maður að sæta og bera virðingu fyrir.
Jonni kvaddi þennan heim á þeim tíma ársins þegar bændur ríða til fjalls og afréttir smalaðir. Jonni fór alltaf í réttir á haustin meðan hann stundaði hestamennsku, Hítardalsrétt og daginn eftir Hraundalsrétt, sem síðar varð Grímsstaðarétt. Ég trúi því að andi Jonna „svífi þar yfir vötnum“ þessa dagana
Árni Guðmundsson frá Beigalda