Jólahugleiðingar

Birt í Öglublaðinu, 21. árg. 2012

Ég ætla að hefja þessa örstuttu jólafrásögn mína með því að segja frá tveimur eftirminnilegum jólaminningum frá bernskuárum mínum. Sú fyrri er frá jólunum 1926 þegar ég átti tvo mánuði í að ná 4 ára aldri.

Þá voru komin til foreldra minna Þorvaldur faðir móður minnar og seinni kona hans Þórdís sem voru undir verndarvæng þeirra til æviloka. Einnig voru það ár á heimilinu Sigríður systir mömmu og fyrri maður hennar Sveinn Torfason. Sveinn var afar barngóður og nutum við systkinin þess í ríkum mæli. Þá var hjá foreldrum mínum systurdóttir mömmu, Anna Þórarinsdóttir 14 ára. Hún var kát og skemmtileg og gat komið fólki til að gera ýmislegt sem aðrir gátu ekki vegna skemmtilegrar framkomu sinnar.

Þá er að segja frá því að sú hjátrú var algeng á þessum tíma að ekki mætti spila á aðfangadagskvöld af þeirri hættu sem skapaðist ef tveir tígulkóngar kæmu í spilin því þá myndi bærinn sökkva í jörð með öllu sem í honum var. Þetta aðfangadagskvöld var allt fólkið í húsinu samankomið í stofunni hjá foreldrum mínum. Eftir að faðir minn var búinn að lesa húslestur, söng jólasálmanna lokið og fólkið hafði skipst á jólagjöfum sem voru vettlingar, sokkar, eða annað úr heimagerðu efni og í pakka okkar systkinanna spil og eitt kerti að auki, gat Anna Þórarinsdóttir komið því svo fyrir að þeir sem áhuga höfðu færu að spila enda sumir veikir á svellinu í því efni. Tvenn spil komu á heimilið með samskonar baki. Eftir nokkurn spilatíma laumaði Anna samskonar tígulkóng í spilin sem notuð voru. Þegar upp komst barði Sveinn þéttingsfast í borðið og sagði: „nú er nóg komið, hér verður ekki spilað meira í kvöld“. Þeir hjátrúarfyllstu jöfnuðu sig fljótt á þessari uppákomu og tóku jólagleði sína á ný.

Hin jólaminningin sem ég ætla að segja frá er tveim til þrem árum yngri. Á bernskuárum mínum var það venja milli nágrannabæjanna Álftár, Álftártungu og Álftártungukots að fólk kæmi saman til jólaboðs um hver jól til skiptis á þessum bæjum. Ýmislegt var til gamans gert og var spilamennska uppistaða hjá sumum en aðrir spjölluðu saman. Á heimili foreldra minna hófst kvöldið ávallt með húslestri og söng jólasálma. Á þessum árum bjó í Álfártungukoti Guðmundur Þórðarson. Eitt sinn þegar jólaboðið var í Álftártungu og átti að fara að lesa húslesturinn spurði faðir minn nafna sinn hvort hann vildi ekki „lesa“ í það sinn. Guðmundur í Álftártungukoti sagði sjálfsagt að gera það en hann væri ekki viss um hvort hann gæti lesið með nógu mikilli andakt.

Mín bernskujól eru svo gjörólík þeim jólum sem börn nútímans lifa að ekki er hægt að ætlast til þess að þau skilji breytingarnar. Margt kemur til og skulu nú nefnd nokkur dæmi. Í fyrsta lagi: vegna óheppilegs eldiviðar sem var mór og hrís þar sem skóglendi var, þurfti að gera húsnæðið hreint tvisvar á ári a.m.k. eldhús og borðstofu. Hreingera veggi og loft var ófrávíkjandi undirbúningu jólanna, var það þrotlaust erfiði þeirra sem í stóðu. Í öðru lagi væri ástæða til að nefna þær stórstígu breytingar á hátíðamat þjóðarinnar á jólum fyrr og nú. Ég tel að að yrði svo langt mál að skrifa um að það væri efni í langa grein. Enda var fábreytni mikil á þeim tíma þegar geymslutæknin var bara salt eða súr og herðing á fiskmeti. Í þriðja lagi skal nefna að þá var notuð heimagerð eftirlíking af jólatrjám sem skreytt voru með lyngi sem helst grænt allan veturinn sem er m.a. sortulyng og einiberjalyng. Það vakti sérstaka hrifningu þegar náðist í sortulyng með berjum á en þau eru rauð og við það varð fegurð jólatrésins meiri í okkar augum. Eitt sinn áður en búið var að ná í lyng á jólatréð gerði snjó rétt fyrir jólin, ég hafði áhyggjur af að ekki væri hægt að afla þess og fannst mér faðir minn sinna þessu mikilvæga máli af miklu tómlæti. Auðvitað vissi hann að lyng var að finna undir snjónum. Þetta dæmi sýnir áhyggjur barnssálarinnar sem fullorðna fólkið veit ekki alltaf um. Á unglingsárum mínum kom svo gervi jólatré sem entist í mörg jól. Að lokum langar mig að segja frá einu sem gert var til tilbreytingar á mínum bernskuárum. Þá var fleira fólk á bæjum en síðar varð og samgangur þeirra á milli þeirra meiri þar til sími kom til sögunnar. Þá voru nöfn þeirra allra sem komu á bæinn á jólaföstunni skrifuð á miða og hann látinn í dós, konunöfn í eina og karlmannsnöfn í aðra. Einhvern tíma um jólin var dregið úr dósunum, konur úr karlanöfnunum og öfugt. Oft var gert gaman úr þessu, sérstaklega ef ung og hugguleg stúlka dró sér óaðlaðandi mann. Frá mörgu fleiru er hægt að segja um ólíka aðstöðu til jólahalds fyrr og nú þó innihald hátíðahaldsins sé það sama.

Áður í þessari frásögn sagði ég að nútímabarni myndi ekki þykja  mikið til þeirra jóla koma sem börn á mínum aldri upplifðu. Samt má þó mikið vera ef börnum nútímans finnst meira til þeirrar ljósadýrðar sem nú tíðkast koma en mér með jólaljósið á litla jólakertinu mínu í daufu ljósi þátímans og lét barnshugann reika til þeirra atburða sem gerðust á helgri jólanótt og faðir minn hafði lesið um í húslestrinum fyrr um kvöldið.

Árni Guðmundsson frá Beigalda.