Úr bókinni: Hestar í norðri iv : hrossabú og ræktendur í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Vestfjörðum ásamt nokkrum ræktendum í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum.
Sveinbjörn Eyjólfsson, Sigurður Haraldsson, Hjördís Gísladóttir og Gísli Pálsson tóku saman. Bókaútgáfan á Hofi, 1994.
Jörðin Beigaldi í Borgarhrepp hefur um all langt skeið verið tengd hestamennsku og hrossarækt. Kemur það til af því að þar hefur búið frá árið 1954 Árni Guðmundsson frá Álftártungu í Álftaneshreppi en hann hefur lengi staðið í fararbroddi borgfirskra hestamanna. Hann hefur verið mikilvirkur félagsmálamaður, stjórnað hrossaræktarsambandi og hestamannafélagi og verið farsæll hrossaræktandi. Árni býr enn á Beigalda en við búsforráðum hafa tekið Guðmundur sonur hans ásamt konu sinni Rögnu Sverrisdóttur úr Reykjavík. Bústofninn er að mestu hross en einnig fáeinar kindur til heimilis.
Hrossaræktin á Beigalda byggir á tveimur stofnhryssum. Önnur þeirra er Harpa 2976 frá Eskiholti, undan Þokka 232 frá Hamri og hryssu frá Kolstöðum í Dölum, sem var í framættir frá Geirshlíð í Dalasýslu. Hin hryssan er Gola 3976 frá Gullberstöðum, undan Kvisti 640 frá Hesti og Perlu 3043 frá Akranesi (Eyjólfs-Jörp).
Árni kaupir Hörpu árið 1949. Hún var að sögn Árna gott og eftirtektarvert reiðhross en ekki allra vegna þess hversu ör hún var. Hryssur undan henni í ræktuninni eru:
- Litla-Jörp 2977, undan Sokka frá Brennistöðum, skyldleikaræktuðum út af Þokka frá Hamri. Út af henni hafa komið ákaflega farsæl hross.
- Ljónslöpp 3193, undan Hrafni 402 frá Miðfossum, klárhryssa með miklu og góðu tölti. Út af henni hafa komið flest bestu hrossin á Beigalda. Hún var sýnd með afkvæmum á Kaldármelum 1980 og fékk 7,94 fyrir afkvæmi. Stígandi sonur hennar og Sörla 653 frá Sauðárkróki, fékk 9,5 fyrir tölt. Dætur hennar, Hátíð 4625, undan Blossa 800 og Ljónslöpp 80236007, undan Bæifæti 840 eru í ræktuninni og sú þriðja Gná 5907, undan Hrafni 802 var í ræktuninni en hún veiktist fyrir nokkrum árum af óþekktum sjúkdómi og drapst. Hryssa undan henni og Blakk 977 frá Reykjum, Gefn 86236001, er í ræktun.
- Harpa 4081, undan Svip frá Akureyri. Út af henni hefa komið ágæt hross, þar á meðal stóðhesturinn Þokki 845 frá Beigalda, undan Þokka 664 frá Bóndhól, mjög léttfær og góður reiðhesur og Elja 83236015, undan Elg 965 frá Hólum.
Golu kaupir Árni 1973. „Guðmundur á Gullberastöðum seldi mér þessa hryssu í kaffihléi á aðalfundi Hrossaræktarsambands Vesturlands. Þá hafði ég leitað eftir inngöngu í Skuggaræktarfélagið en átti enga hryssu nægjanlega hornfirskrar ættar samkvæmt gildandi reglum félagsins. Út af henni eru ágæt hross en nokkuð stórbrotin í lund. Ég missti hana allt of fljótt og sá eftir henni,“ segir Árni þegar hann er spurður um Golu. Hryssur undan Golu eru:
- Stjarna, tvístjörnótt, undan Þokka 845 frá Beigalda. Byrjað er að temja undan henni og lofa þau afkvæmi góðu.
- Skíma 84236536, undan Klaka 914 frá Gullberastöðum ekki sýnd.
Nú nýlega er komin í ræktun hryssa frá Bóndhól, Lofn 82236019, undan Hrafni 802 og Litlu-Jörp 3587 og eru góðar vonir bundnar við hana í framtíðinni.
Álitlegur hópur tryppa er nú í uppeldi á Beigalda. Þar má nefna afkvæmi Stíganda frá Sauðarkróki, Sokka frá Kolkuósi, Dags frá Kjarnholtum, Örvars frá Svignaskarði, Seims frá Víðivöllum, Hrafns frá Eskiholti, Mergs frá Skörðugili, Elgs frá Hólum, Trostants frá Kjartansstöðum, Gusti frá Sauðárkróki og Riddara frá Skörðugili. Í seinni tíð hafa þeir feðgar átt samstarf við Braga Andrésson á Sperðli og ætla að nota fola úr hans ræktun. Árin 1992 og 1993 notuðu þeir Ívan, fæddan 1990, faðir Piltur frá Sperðli, móðir Drottining frá Fróðholti og árin 1994 og 1995 verður notaður Flugar, fæddur 1992 undan Perlu 4889 frá Kaðalstöðum og Hrannari frá Sperðli, faðir Ljóri 1022 frá Kirkjubæ, móðir Fluga 3986 frá Ólafsvík.
Alla tíð hefur meira verið lagt upp úr gæðum hrossa en fjölda þeirra í ræktuninni á Beigalda. Því hefur stöðugt verið skorið úr það sem ekki hefur staðist kröfur eigenda. Markmiðið er að rækta þæg og góð hross, mjúk og hreingeng, þannig að allir vilji og geti riðið þeim. Skuggarækt er ekki lengur meginmarkmið án þess þó að henni hafi verið hafnað. Nú eru öll hrossin grunnskráð og búið hefur föst raðnúmer á bilinu 535-540. Nýja kynbótamatið er notað í ræktuninni en aðeins sem eitt hjálpartæki af mörgum. Öll hross eru tamin heima og Guðmundur hefur séð um að sýna þau. Sýningar hafa þó heldur orðið út undan í seinni tíð og frekar verið stefnt til útreiða á vit vangs og veðurs.