Hrossarækt í Borgarfirði

Eftirfarandi texti var skrifaður fyrir ritröðina Byggðir Borgarfjarðar. Birtist þar mikið styttur og breyttur í óþökk Árna.

Af ástæðum sem ekki er erfitt að geta sér til um hefir hesturinn jafnan síðan hann var taminn og tekinn í þjónustu mannsins fyrir um sex þúsund árum örvað ímyndunarafl hans og hugarflug. Frægastir slíkra hesta voru hinn vængjaði Pegasus í grískri goðafræði og Sleipnir i norrænni.

Fullyrða má að áhugi Íslendinga á hrossarækt hafi hafist langt á undan ræktun á öðrum búfjártegundum. Í fornsögum má finna ýmsar frásagnir af kynbótum hrossa þó ekki sé getið um kynbætur á öðrum búfénaði, og voru þá valin saman samlit hross, nokkrar hryssur og einn graðhestur. Þessir hrossahópar sem ætla má að hafi verið upphaf að síðari tíma kynbótum voru oft á tíðum hafðir til gjafa enda voru menn á landnáms- og söguöld vanir að leysa hvorn annan út með gjöfum.

Í Gunnlaugssögu ormstungu er sagt frá er þeir Þorsteinn Egilsson á Borg og Gunnlaugur ormstunga riðu til hrossa upp í Langavatnsdal. „Nú ríða þeir tveir saman þar til er þeir koma til selja Þorsteins, er heita á Þorgilsstöðum ok voru þar stóðhross, er Þorsteinn átti, fjögur saman og voru rauð að lit. Hestur var allvænlegur og lítt reyndur. Þorsteinn bauð að gefa Gunnlaugi hrossin en hann kveðst eigi hrossa þurfa, er hann ætlaði af landi. Og þá riðu þeir til annarra stóðhrossa. Var þar hestur grár með fjórum merum og var sá bestur í Borgarfirði og bauð Þorsteinn að gefa þann Gunnlaugi. Hann svarar: „ Eigi vil ég þessi heldur en hin, eða því býður þú mér eigi það er ég vil þiggja“ og átti þá við dóttur Þorsteins, Helgu ina fögru.

Í Bjarnarsögu Hítdælakappa segir þegar Þórður í Hítarnesi sótti að Birni til að vega hann þá hafði Björn gengið eftir götu þeirri er liggur til Hvítingshjalla til stóðhrossa er Björn hafði áður gefið Þorsteini Kuggasyni í Ljárskógum, og fór Björn oft að sjá þau, af Hvítingi hinum eldra var Hvítingshjalli kallaður.

Þó þessi dæmi séu tekin er samskonar dæmi að finna mjög víða í Íslendingasögum og þá ekki síður í sögum Borgfirðinga en annarra.

Þótt í fornritum sé víða minnst á nokkurs konar hrossarækt eru heimildir fáorðar um þetta efni frá því um 1300 fram á átjándu öld. Á 16. og 17. öld þegar m.a. fiskveiðar jukust og ferðalög um landið svo sem skreiðarferðir, ferðir vermanna og kaupafólks landfjórðunga á milli fjölgaði hrossum nokkuð. En í móðuharðindunum fækkaði hrossum svo að í lok þeirra var talið að stærð íslenska hrossastofnsins hafi verið innan við 9000 hross. Vafalaust hafa hrossin liðið vegna skorts og skyldleikaræktar á þessum tíma og úrkynjast og minnkað af þeim sökum en komist fyrst úr öldudal hnignunarinnar eftir síðustu aldamót.

Elsta skráða áminning varðandi hrossarækt var ritgerð Ólafs Stephensens í Félagsritum árið 1788. Þar voru gefnar upp réttar aðferðir við hrossarækt að þeirra tíma hætti og gefnar lýsingar á velbyggðum hrossum og hvetur þar mest til ræktunar reiðhesta.

Árið 1825 skrifar sonur hans Magnús Stephensen um hrossarækt og mælti með ströngu vali á graðhestum og stóðmerum. Fyrstu lög um kynbætur hrossa voru samþykkt á Alþingi árið 1891. Þau héruð sem nýttu sér þessi lög fljótlega eftir samþykkt þeirra voru Austur-Skaftfellingar, Austur-Húnvetningar og Skagfirðingar fyrir aldamótin 1900 en fljótlega komu önnur héruð í kjölfarið.

Þó þessi grein sé fyrst og fremst ætlað að varpi ljósi á félagslega uppbyggingu hrossaræktar í Borgarfirði er samt ekki hjá því komist að nefna nafn eins hrossaræktarmanns sem stundaði hrossarækt af miklum dugnaði og samkvæmt heimildum bæði skráðum og óskráðum náði mjög langt í þessari grein búfjárræktar en það er nafn Gests á Varmalæk.

Gestur var Skagfirðingur að ætt. Hann var fæddur á Heiði í Sléttuhlíð í Skagafjarðarsýslu árið 1801. Hann ólst upp að Staðarbakka í Miðfirði hjá móðurbróður sínum séra Agli Jónssyni. Giftist ungur prófastsdóttur, Helgu Halldórsdóttur frá Melstað. Þau hófu búskap að Norðurfitjum í Miðfirði en fyrstu tólf búskaparár sín bjuggu þau á tveimur öðrum jörðum norður þar, Bálkastöðum í Hrútafirði og Húki í Miðfirði. Árið 1834 fluttu þau að Innra-Hólmi og 1836 að Varmalæk, bjuggu þar 24 ár en 1860 fluttu þau að Innra-Hólmi aftur og bjuggu þar til dauðadags. Gestur lést 1865 nokkrum árum áður en Helga sem bjó þar ekkja til 1869 þar til hún lést tæplega 70 ára að aldri.

Það var á Varmalæk sem Gestur stígur sín bestu spor í hrossarækt og við þann stað er hans að minnast í hugum okkar eldri Borgfirðinga og Mýramanna sem heyrðu frásögur af honum af munni eldra fólks á æskuárum okkar. Talið er með nokkurri vissu að hross Gests hafi borist víða um land svo og um nágrennið og víðar um héraðið. Samkvæmt frásögnum hefur gæðingskostum þeirra verið frábrugðið og sú ættarfylgja erfst frá þeim ótrúlega lengi. Þau voru flest skjótt að lit og voru litareinkennin sterk ættarfylgja. Hvít hross voru ennfremur til í þessum hrossastofni. Síðan breytist liturinn að einhverju leyti í móálótt og móbrúnt. Svo sem var Móri 123 frá Kjalardal en talið er víst að hann hafi verið út af hrossastofni Gests í ættir fram enda dreifðust hross þessi víða um sveitirnar sunnan Skarðsheiðar við fráfall þeirra hjóna.

Ari Guðmundsson frá Skálpastöðum ritaði merka grein í bókina Fákur sem eru þættir um hesta, menn og kappreiðar sem Hestamannafélagið Fákur gaf út í tilefni af aldarfjórðungs afmæli sínu árið 1949. Í þá grein sæki ég það sem ég hef sett hér á blað um Gest á Varmalæk. Eina málsgrein leyfi ég mér að birta orðrétta úr ágætri grein Ara: „Talið er að Gestur hafi verið reiðmaður mikill og átt afbragðsgóða reiðhesta og stundað mikið reiðmennsku. Sagt er að hann hafi jafnan haft eitthvað af folum sínum heima við og riðið með gestum sínum á leið. Hvort hér hefir verið um íslenska gestrisni að ræða eða viðskiptahagsmuni stórframleiðandans, er ekki gott að segja en trúlegt þætti mér að hvort tveggja hafi verið.“ Í grein Ara er bent á hvernig hross frá Gesti dreifðust um landið með þessum hætti enda Varmlækur í þjóðleið. Áðurnefnd grein Ara byggir á heimildum sannorðra manna í nágreinni Varmalækjar sem fæddir voru um það leyti sem Gestur féll frá eða nokkru seinna og voru þeim í bernskuminni hross af þessu kyni. Uppruni þessa hrossakyns Gests er talið úr Húnavatnssýslu og trúlega einnig úr Skagafirði. Þegar við hugsum um þennan þátt í hrossaræktarsögu í Borgarfirði hlýtur sú spurning að vakna hvort áhugi Gests á Varmalæk á hrossarækt hafi ekki eflst og dafnað með ritgerðum þeirra feðga Ólafs og Magnúsar Stephensens sem áður er getið.

Upp úr síðustu aldamótum hóf Búnaðarfélag Íslands skipulegar aðgerðir í búfjárrækt að frumkvæði fyrsta ráðunautarins Guðjóns Guðmundssonar á Ljúfustöðum í Strandasýslu. Hann starfaði stutt en við tók Sigurður Sigurðsson. Þessir menn beittu sér fyrir stofnun hrossaræktarfélaga í sveitum, stóðu fyrir sýningum og völdu kynbótahross.

Á stofnfundi Búnaðarsambands Borgarfjarðar 2. dag júnímánaðar 1910 voru lög fyrir búnaðarsambandið rædd og samþykkt en þriðja grein þeirra er svohljóðandi: „Inngöngu geta fengið búnarfélög öll á sambandssvæðinu er fullnægja skilyrðum fyrir landssjóðsstyrk og kynbótafélög. Búnaðarfélögin greiði árlega í sjóð félagsins 1 krónu fyrir hvern félaga sinn. Nautgripafélög greiði 10 aura í árstillag fyrir kú hverja, sem tekin er á skýrslu þeirra er styrk nýtur. Hrossaræktarfélög greiði 20 aura fyrir hryssu hverja og sauðfjárbú 5 kr. Gjalddagi er á aðalfundi ár hvert. Reikningsár er almanaksárið.“ Á sama fundi er svohljóðandi bókun: „Hið nústofnaða B.S.B. hefur nú þegar í hyggju að koma í framkvæmd ýmsum nauðsynlegum fyrirtækjum, svo sem samgirðingum stórfeldum, í einstökum sveitum, girðingum fyrir graðhesta og griðunga“. 31. janúar 2012 var aukaaðalfundur B.S.B. haldinn á Hvítárvöllum, þá var samþykkt í fyrsta sinn ályktun um hrossaræktarmál svohljóðandi: „Ályktað að fundurinn skoraði á sýslunefndir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu að taka væntanlegu tilboði Búnaðafélags Íslands viðvíkjandi héraðssýningu á folum (graðhestum) á komandi vori“. Á aðalfundi á Hvítárvöllum 21. apríl 1913 var gerð svohljóðandi bókun: „8. Rætt um samgirðinga samþykktir og girðingar fyrir kynbótafélög og tillaga samþykkt um að kosin væri nefnd til að athuga hvort mögulegt væri að koma kynbótatilraunum á hrossum í betra horf á sambandssvæðinu.“ Í nefnd til að koma fram með tillögur þessu viðvíkjandi voru kosnir: Jón í Deildartungu með 20 atkv., Brynjólfur í Hlöðutúni með 8 atkv. og Andrés á Gilsbakka með 7 atkvæðum.

Á aðalfundi B.S.B. á Hvítárbakka 31. mars 1915 var samþykkt svofelld bókun: „5. Kynbætur hrossa. Lesið upp frumvarp til samþykktar um kynbætur hrossa í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Var það síðan athugað nánar og gjörðar á því lítilsháttar breytingar og að því búnu samþykkt í einu hljóði“.

Í skýrslu um framkvæmdir á árinu 1916 er bókað: „Á fundi forstöðunefndarinnar í janúar 1915 að Arnarholti var ákveðið að gjöra rækilega tilraun til að koma hrossakynbótunum í framkvæmd. Til þess að greiða fyrir þessu var afráðið að boða til fundar í öllum búnaðarfélögum á sambandssvæðinu til að ræða málið og fá félögin til að bindast samtökum um framkvæmd kynbótastarfseminnar. Fyrir fundi þessa sem haldnir voru í mars s.l. var lagt frumvarp til samþykktar um kynbætur hesta í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Fékk frumvarp þetta víðast hvar mjög góðar undirtektir og var samþykkt í hreppum öllum  í sýslunum báðum. Á fundunum öllum var einhver af forstöðunefndarmönnum sambandsins eða þá ársmaður sambandsins þáverandi (Sverrir Gíslason).“ Þá var málið sent til umræðu og ákvörðunar sýslunefndanna en þær höfðu um málið að segja samkvæmt búfjárræktarlögum eins og þau voru þá. Sýslunefnd Mýrasýslu samþykkti frumvarpið með litlum breytingum en sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu lagði til að málinu yrði frestað vegna ónógs undirbúnings enda erfitt um vik til framkvæmda þar sem t.d. girðingaefni var mjög dýrt eða þá ófáanlegt með öllu á þeim tíma heimstyrjaldar. Bókað var þótt málinu hafi verið frestað um sinn, blandast engum hugur um að bæta þurfi íslenska hrossakynið, bæði vegna innanlandsnota og ekki síður erlenda markaðarins.

Í starfsskýrslu sambandsstjórnar 1917 er sagt frá því að skrifað hafi verið til sýslunefnda beggja sýslna um að herða á eftirliti með lausagöngu ógeltra hesta. Sambandsstjórnin sá sér ekki fært að framkvæma neitt í hrossakynbótamálum af sömu ástæðu og getið er um í starfsskýrslunni árið áður.

Samkvæmt beiðni sambandsstjórnarinnar til B.Í. um styrk til hrossasýningar kom jákvætt svar til sýslumanns um fjárupphæð í þessu skyni frá B.Í. að því tilskyldu að jafnhá upphæð komi frá sýslusjóðunum. Samkvæmt starfsskýrslu stjórnar 1918 hefir henni orðið nokkuð ágengt í búfjárræktarmálum það árið þó henni finnist hægt ganga í hrossaræktarmálum orðrétt úr starfsskýrslu: „Nú er ákveðið að stjórn sambandsins ásamt kjörnum mönnum úr báðum sýslunefndunum haldi fund með sér til þess að ganga frá reglugjörðunum undir fullnaðarsamþykkt. Sambandinu er það ljóst að þetta mál er þannig í garðinn búið að sterkum tökum þarf á því að taka ef árangur á að verða svo sem ætlast er til og mun það styrkja sýslunefndirnar eftir því sem það sér sér fært að vinna að því máli“.

Á aðalfundi í Svignaskarði 4. apríl 1919 var bókað svohljóðandi: „3. Hrossasölumálið: Formaður rakti þörf þess að hrossasala væri starfrækt með samvinnu fyrirkomulagi. Tillaga kom fram: „Aðalfundur Búnaðarsambands Borgarfjarðar leyfir sér að vekja athygli Sf.sl. á því áliti sínu að hin mesta þörf sé á því að félagið taki hrossasölumálið á sínar hendur og hefjist framkvæmdir á því máli nú þegar á þessu ári.“ Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.“

Ekkert er bókað um hrossaræktarmál í bókum sambandsins frá 1919 þar til í aðalfundargerð í Svignaskarði 6. apríl 1926. Páll Þorsteinsson á Steindórsstöðum er málshefjandi hrossaræktarmála, fundarnefnd er kosin til umfjöllunar málsins á fundinum. Í hana vou kosnir Ari Guðmundsson Skálpastöðum, Steingrímur Steinþórsson Hvanneyri, Páll Þorsteinsson Steindórsstöðum, Brynjólfur Guðbrandsson Hlöðutúni og Þorsteinn Þorsteinsson Húsafelli. Hin kjörna nefnd lagði fyrir fundinn svohljóðandi tillögu: „Hér á fundinum verði kosin 5 manna nefnd. Hún kynni sér gerðir Alþingis í hrossakynbótamálum og semji reglugerð á þeim grundvelli, sem það hefur lagt. Nefndin hafi lokið störfum sínum svo snemma, að búið verði að ræða málið í öllum hreppum héraðsins fyrir næsta aðalfund enda sjái nefndin um að reglugerðin verði send í tæka tíð í hreppana til umsagnar.“ Samþykkt samhljóða. Í nefndina voru kosnir Páll á Steindórsstöðum, Andrés í Síðumúla, Ari á Skálpastöðum, Steingrímur á Hvanneyri og Jón í Deildartungu.

Ekkert bókað um hrossaræktarmál í bókum sambandsins frá 1926 fyrr en í starfsskýrslu 1932. Þrátt fyrir það má fullvíst telja að hrossaræktarnefndin frá 1926 hafi starfað vel því hrossaræktarfélögin sem störfuðu í hreppum héraðsins voru stofnuð á árunum milli 1927 og 1931 að einu undanskildu í Reykholtsdal 1924 en þau voru:

Hrossaræktarfélag Reykholtsdalshrepps stofnað 1924,
Hrossaræktarfélag Hvalfjarðarstrandarhrepps stofnað 1927,
Hrossaræktarfélag Hraunhrepps stofnað 1927,
Hrossaræktarfélag Skilmannahrepps stofnað 1927,
Hrossaræktarfélag Hvítársíðuhrepps stofnað 1927,
Hrossaræktarfélag Stafholtstungnahrepps stofnað 1927,
Hrossaræktarfélag Leirár- og Melasveitar stofnað 1927,
Hrossaræktarfélag Álftaneshrepps stofnað 1928,
Hrossaræktarfélag Lundarreykjadalshrepps stofnað 1928,
Hrossaræktarfélag Andakílshrepps stofnað 1928,
Hrossaræktarfélag Hálsasveitar stofnað 1928,
Hrossaræktarfélag Borgarhrepps stofnað 1929,
Hrossaræktarfélag Norðurárdalshrepps stofnað 1929,
Hrossaræktarfélag Þverárhlíðarhrepps stofnað 1931.

Í starfsskýrslu frá 1932 var sagt frá hrossasýningum og hvernig framlög til verðlauna voru fjármögnuð á móti framlagi B.Í. Getið um nauðsyn sýninga til að auka áhuga manna á hrossarækt.

Næst var bókað um hrossaræktarmál á aðalfundi 2. apríl 1942 að Hvanneyri. Þar voru ákveðnir staðir fyrir sveitasýningar þá um vorið og að þeim loknum ákveðin hin fyrsta héraðssýning í Borgarfirði.

Nefndarálit um þetta mál sem samþykkt var á fundinum er nokkuð langt. Þar var stjórn sambandsins falið að útvega stað fyrir sýninguna og bent á bakka meðfram Hvítá hjá Ferjukoti. Kosin var sýningarstjórn Ari Guðmundsson. Gestur Kristjánsson og Þorgils Guðmundsson og dómnefndarmenn voru á þessari sýningu auk Gunnars Bjarnasonar, Runólfur Sveinsson skólastjóri Hvanneyri og Þórður Kristjánsson Hreðavatni. Stjórninni er ennfremur falið að leita fyrir sér um stað fyrir sameiginlega girðingu á sambandssvæðinu til geymslu á fallegustu og best kynjuðu graðfolunum 2ja til 3ja vetra. Í nefnd til að sjá um þetta voru kosnir Runólfur Sveinsson Hvanneyri, Sigurður Snorrason Gilsbakka og Sigurður Sigurðsson Lambhaga.

Í starfsskýrslu 1942 kemur fram að samið hafi verið við Hestamannafélagið Faxa um að halda héraðssýninguna í sambandi við kappreiðar félagsins og bæri sambandið 1/3 af sameiginlegum kostnaði og arði auk þess sem sambandið bar nokkurn sérkostnað vegna búnaðar og sýningastjóra og kostnaðar gripanna. Ennfremur segir að Ari Guðmundsson hafi borið hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd  sýningarinnar. Tekjur af sýningunni að frádregnum kostnaði urðu kr. 166,32 en kostnaður sambandsins varð alls 386,88 sem væntanlega endirgreiðist af sýslunum.

Veturinn 1941-1942 gerðist það í málefnum hrossaræktarinnar að búfjárræktarlögum var breytt. Þá komu í lögin ákvæði um héraðssýningar, þar sem verðlaun skyldu greidd úr ríkissjóði. Þá voru búnaðarsamböndin fyrst gerð að aðilum að sýningunum, en áður höfðu það verið sýslunefndir, sem skipuðu dómnefndarmenn og lögðu fram verðlauanfé á móti ríkissjóði. Telja má fullvíst að þessi fyrsta héraðssýning hafi verið upphaf að stöðugri framför í borgfirskri hrossarækt, og vel var að henni staðið og hrossin sem þar stóðu efst skildu eftir sig spor í hrossaræktinni sem til heilla stefndu.

Ef til vill hefir það eflt áhuga manna að þá voru veittir silfurbikarar í fyrsta sinn, annar gefinn af þingmönnum héraðsins þeim Bjarna Ásgeirssyni þingmanni Mýramanna og Pétri Ottesen þingmanni Borgfirðinga fyrir besta kynbótahestinn. Hinn af K.B.B fyrir bestu hryssuna. Bikararnir báðir voru farandgripir sem núna eru geymdir á Byggðasafni Borgfirðinga í Borgarnesi og ekki notaðir til verðlaunaveitinga síðan 1980.

Á aðalfundi B.S.B. 27. apríl 1945 var samþykkt tillaga frá starfsmálanefnd sem var fundanefnd. Tillagan var í 4 liðum og var 4. liðurinn um sýningarhald hrossa svohljóðandi: „4. fundurinn felur stjórn B.S.B. að annast sinn hlut í hérðassýningu á hrossum í héraðinu á komandi vori og geri nauðsynlegar ráðstafanir í því efni og leiti samvinnu við Hestamannafélagið „Faxa“ eins og var á síðustu sýningu. Samþykkt samhljóða.“

Á stjórnarfundi 17. maí 1945 voru kosnir í sýningarstjórn Ari Guðmundsson formaður, Þórður Kristjánsson Hreðavatni og Bogi Þórðarson Borgarnesi.

Á aðalfundi í Borgarnesi 28. apríl 1946 var rædd tillaga vegna umsóknar frá Hestamannafélaginu Faxa um styrk til kaupa á stóðhesti. Svohljóðandi tillaga var samþykkt einróma: „Aðalfundur B.S.B. ákveður að styrkja hestamannafélagið Faxa með 1000.- kr. til kaupa á stóðhestinum Skugga frá Bjarnarnesi ættbók 201“. Þá var í aðalfundargerð 1947 bókað um þátt Borgfirðinga í landbúnaðarsýningu þá um sumarið þar sem stóðhestur hestamannafélagsins Faxa, Skuggi 201, stóð efstur í sýningu kynbótahesta.

Eins og áður sagði var fyrsta hrossaræktarfélagið stofnað í Borgarfirði 1924 og á árunum 1924-1931 voru stofnuð 14 félög þar sem félagssvæði hvers félags var aðeins einn hreppur. Flest þessi félög störfuðu með einum hesti í senn og sum með sama hestinum í mörg ár, jafnvel stundum í 10-12 ár. Við svo litla tilfærslu á graðhestum myndaðist víða mikil staðfesta í hrossastofni viðkomandi sveita. Eftirfarandi frásögn langar mig til að láta fljóta með sem gefur góða hugmynd um efni. Í fæðingar- og heimasveit minni, Álftaneshreppi, var notaður stóðhesturinn Víðir 120 frá Þorkelshóli í Húnavatnssýslu frá 1929 til 1943. Víðir gaf þungbyggð og sterk dráttar- og vinnuhross, en reiðhestakosti höfðu þau ekki. Um 1942 þegar Víðir var búinn að móta hrossin í Álftaneshreppi í 10-12 ár efndi Ungmennafélagið Egill Skallagrímsson í Álftaneshreppi til skemmtiferðar á hestum fram Skorrradal yfir Englandsháls milli Efsta-Bæjar í Skorradal og Englands í Lundarreykjadal og út Lundarreykjadal. Við höfðum aflað okkur leyfis til að gista í hlöðunni á Háafelli í Skorradal með leyfi fyrir hrossin í girðingarhólfi við túnið. Þegar við vorum nýgengin il náða og allt að verða hljótt eftir glaðværan dag, snaraðist inn í hlöðuna Magnús Sigurðsson í Arnþórsholti, sem var í hópi bestu hestamanna í Borgarfirði um þær mundir, bað um leyfi að sofa í hlöðunni hjá okkur sem var auðsótt mál. En þegar hann hafði kastað á okkur kveðju, sagðist hann ekki þurfa að spyrja um hvaðan úr sveit við værum. Það sagðist hann hafa séð á hrossunum sem voru í girðingahóflinu. Mörg þeirra hlyti að vera afkomendur Víðis frá Þorkelshóli.

Um 1945 eða kannski nokkru fyrr þegar áhugi í sveitum fyrir hrossarækt minnkaði stórlega lagðist niður starfsemi sumra hrossaræktarfélaganna eða a.m.k. lamaðist mikið. Þó héldu sum þeirra áfram starfsemi sinni og urðu deildir í Hrossaræktarsambandinu þegar það var stofnað svo sem síðar verður vikið að.

Á fyrri hluta þessarar aldar voru gerðar merkar breytingar á lögum um hrossarækt og án efa það merkast þegar Búnaðarþing 1925 tók upp það nýmæli að bjóða þeim sem eiga fullorðins stóðhesta að hafa sýningar á afkvæmum þeirra og greiða verðlaun í því skyni og þurftu að fylgja hestinum a.m.k. 20 afkvæmi hans 3 v. og eldri og 10 afkvæmi 1-2 v. og mæður þeirra allra með þeim. Eftir aldamótin 1900 koma fram raddir um að rækta tvö hestakyn í landinu og var Guðjón Guðmundsson tals- og upphafsmaður þeirrar stefnu.

Theodór Arnbjörnsson var ráðunautur í hrossarækt 1920-1939, og raunar fyrsti hrossaræktaráðunauturinn sem ekki var með annað ráðunautsstarf samhliða, fylgdi þeirri stefnu að rækta aðeins reiðhestakyn í landinu.

Þegar Gunnar Bjarnason varð ráðunautur í hrossarækt 1940 setti hann fram þá stefnu að rækta tvö hrossakyn. Hestavéltækni í landbúnaði var þá að ryðja sér til rúms, hafði raunar gert það frá því um aldamót þegar jarðvinnsla með hestaverkfærum var unnin á vegum B.S.B. í nokkuð stórum stíl svo sem sjá má í fundargerðum Búnaðarsambandsins frá þeim tíma en skortur góðra og þungra dráttarhesta stóð henni fyrir þrifum.

Saga dráttarhesta á Íslandi er stutt og sannleikurinn mun sá að ótrúlega margir smábændur a.m.k. munu hafa hlaupið yfir þann þátt landbúnaðarsögunnar, sem viðkom jarðvinnslu og heyskap, því fljótlega eftir 1945 heldur ný tæknibylting í vélvæðingu landbúnaðarins innreið sína og þörfin fyrir þunga og sterkbyggða hesta er ekki lengur fyrir hendi.

Þegar hér var komið sögu þurfti að breyta um ræktunarstefnu hvað viðkom hinum þungbyggðu hestum enda hefur ræktunarstefna Búnaðarfélags Íslands frá 1952 verið sú að rækta velskapaða, létta, geðgóða og viljuga hesta til reiðar og léttari vinnu.

Við þær aðstæður voru hrossaræktarsamböndin stofnuð. Á aðalfundi B.S.B. föstudaginn 15. maí 1953 flutti Gunnar Bjarnason tillögu þess efnis að stofna hrossaræktarsamband í Borgarfirði og mælti með að það starfaði sem deild innan búnaðarsambandsins með sérstakri undirstjórn. Hann taldi að deildirnar innan hins nýja sambands ef stofnað yrði kæmu til með að verða allt að fjórtán. Orðrétt úr fundargerðinni: „Út af þessu, og eftir að málið hafði verið athugað af allsherjarnefnd fundarins, var samþykkt samhljóðandi: „Fundurinn samþykkir að kjósa þriggja manna nefnd til að athuga og gera tillögu í hrossaræktarmálum héraðsins. Skal nefndin hafa lokið störfum það snemma, að tillögur hennar geti komið til álita hreppabúnaðarfélaganna áður en þau halda aðalfundi sína næsta vetur og verði svo tillögurnar lagðar fyrir næsta aðalfund B.S.B.“ Kosnir voru í nefndina Ingólfur Guðbrandsson bóndi Hrafnkelsstöðum, Ari Guðmundsson verkstjóri Borgarnesi og Hjálmar Jónsson ráðunautur Hvanneyri, en Gunnar Bjarnason sé ráðunautur nefndarinnar.“

Laugardaginn 24. okt. 1953 hélt millifundanefndin í hrossrækt sinn fyrsta fund að Hvanneyri. Allir nefndarmenn voru mætti svo og ráðunautur nefndarinnar. Á þessum fundi skýrði Gunnar Bjarnason á hvern hátt Búnaðarfélag Íslands mundi samkvæmt lögum styðja við bak hrossaæktar í landinu. Áréttað var að Hrossaræktarsambandið yrði deild innan B.S.B. með hreppadeildirnar gömlu sem undirdeildir svo sem samþykkt hafði verið á síðasta aðalfundi B.S.B. Gunnar lagði fram uppkast að reglum fyrir starfsemina og kosin var formaður nefndarinnar Ari Guðmundsson.

Hinn 8. nóv. skrifaði formaður nefndarinnar bréf sem var sent í öll búnaðarfélög á sambandssvæðinu 18 að tölu, þar með talið Akranes og Borgarnes ásamt þeim fundargerðum sem um málið hefðu fjallað, ennfremur uppkast að reglum deildarinnar.

Á aðalfundi B.S.B. 8. maí 1954 stóð málið þannig að sex höfðu svarað játandi, tveir neitandi en tíu var óvíst um. Eitt búnaðarfélag bættist við á fundinum svo alls voru sjö með er deildin var stofnuð.

Áhugi fyrir þessu virtist því ekki mega minni vera. Þá var kosin nefnd til að fjalla um málið á fundinum. Hana skipuðu: Friðjón Jónsson bóndi Hofsstöðum, Sigurður Daníelsson bóndi á Indriðastöðum og Ari Guðmundsson verkstjóri Borgarnesi. Tillaga nefndarinnar svohljóðandi var samþykkt með átta atkvæðum en enginn greiddi atkvæði á móti. „Fundurinn samþykkir að stofna deild innan Búnaðarsambands Borgarfjarðar er vinni að hrossaræktarmálum, samkvæmt lögum um búfjárrækt nr. 19/1948 og breytingum á þeim lögum frá 19. des. 1951. Þar sem nú þegar hafa sjö búnaðarfélög samþykkt á aðalfundum sínum að vera þátttakendur í deildinni, teljast þau sem aðalstofnendur og verði þegar unnið að því að stofna fleiri deildir. Fundurinn heimilar stjórn sambandsins að verja fé úr félagssjóði til nauðsynlegra framkvæmda í þessu skyni m.a. til girðinga fyrir vanskapaða hesta og unga hesta líklega til kynbóta síðar, enda greiði eigendur sanngjarna hagagöngu hestanna. Fundurinn treystir því að stjórn deildarinnar sjái um að fyrirmælum laga um lausagöngu graðhesta verði framfylgt. Að öðru leyti vísast til reglugerðaruppkasts millifundanefndarinnar.“ Þá var á fundinum kosin fyrsta stjórn Hrossaræktarsambands Borgarfjarðar sem starfaði sem deild innan B.S.B. en hún var svo skipuð: Ingólfur Guðbrandsson Hrafnkelsstöðum formaður, Guðmundur Pétursson Hesti og Ari Guðmundsson Borgarnesi.

Samkvæmt bókunum Hrossaræktarsambandsins hafði verið vel unnið að útbreiðslu starfsemi þess, því í ljós kom á stjórnarfundi föstudaginn 17. sept. 1954 að tólf deildir höfðu verið stofnaðar en samkvæmt lögum sambandsins voru það formlegar deildir þar sem graðhestar voru í girðingum þótt þeir væru fleiri en einn í sömu sveit.

Á aðalfundi B.S.B. 16. maí 1955 sem var jafnframt aðalfundur Hrossaræktardeildarinnar átti Guðmundur Pétursson að ganga úr stjórn deildarinnar en var endurkosinn. En á aðalfundi B.S.B. 8. júní 1956 átti Ingólfur á Hrafnkelsstöðum að ganga úr stjórn hrossaræktardeildarinnar. Hann baðst eindregið undan endurkosningu. Í hans stað var kosinn Páll Sigurðsson í Fornahvammi og var hann kosinn formaður þegar stjórnin skipti með sér verkum.

Ári síðar á aðalfundi B.S.B. hinn 27. júní 1957 var Ari Guðmundsson verkstjóri Borgarnesi kosinn formaður Hrossaræktardeildarinnar til tveggja ára og þá er einnig kosinn Einar Gíslason í stjórnina til þriggja ára í stað Páls í Fornahvammi, sem óskaði eftir að losna úr stjórninni.

27. júní 1958 er Símon Teitsson Borgarnesi fyrst kosinn í stjórn Hrossaræktardeildarinnar og þá að því er virðist í stað Einars Gíslasonar sem fluttist það ár að Stóra-Hrauni og þá var Guðmundur Pétursson á Hesti endurkosinn til þriggja ára. Þá hefst farsælt starf Símonar að hrossaræktarmálum sem stóð óslitið til ársins 1975 og ávallt formaður samtakanna eftir fráfall Ara Guðmundssonar.

Árið 1959 27. apríl var Ari Guðmundsson endurkosinn formaður Hrossaræktardeildarinnar. Svo sorglega vildi til að 21. maí 1959 féll Ari af hestbaki og beið bana. Enginn veit hvað olli hinu sviplega slysi því Ari var einn á ferð sen enginn sem þekkti til Ara sem hestamanns trúði því að hann hefði fallið af hestbaki af tilefnislausu. Eitthvað hlaut að hafa komið fyrir. Þótt Ari hafi verið umdeildur í starfi sínu að hrossaræktarmálum í héraðinu voru allir sammála um að fallið hefði frá ötull merkisberi hesta og hestamennsku sem fleytti mönnum af miklum dugnaði yfir það áhugaleysi sem ríkti í hestamennsku og hrossarækt um árabil.

13. maí 1960 var Símon Teitsson kosinn formaður deildarinnar og Þorsteinn Guðmundsson bondi á Skálpastöðum kosinn í stjórn sem nýr maður. 6. maí 1961 er Björn Jóhannesson bóndi á Laugavöllum kosinn í stjórn deildarinnar í stað Guðmundar Péturssonar, sem gerðist ráðunautur Hrossaræktarsambandsins þegar það var stofnað 1964, jafnframt því sem hann var ráðunautur í búfjárrækt hjá B.S.B.

Á stjórnarfundi deildarinnar að Laugarvöllum í Reykholtsdal hinn 18. mars 1962 þar sem allir stjórnarmenn voru mættir, þeir Símon Teitsson, Þorsteinn Guðmundsson og Björn Jóhannesson kom fyrst á dagskrá umræða um stofnun hrossaræktarsambands Vesturlands með þátttöku Borgfirðinga, Snæfellinga, Dalamanna og e.t.v. Strandamanna og Austur-Barðstrendinga vegna tilmæla frá Leifi Jóhannessyni ráðunaut á Snæfellsnesi. Samþykkt var að leggja málið fyrir næsta aðalfund B.S.B. 1962 þriðjudaginn 26. júní var samþykkt svohljóðandi ályktun um hrossaræktarmál á aðalfundi B.S.B.: „Vegna óska hestamannafélaganna í Strandasýslu, Dalasýslu og samskonar tilmæla frá Snæfellingum, gerir aðalfundur B.S.B. 1962 svofellda ályktun: „ Fundurinn lýsir því yfir, að Búnaðarsamband Borgarfjarðar er fúst til að ræða þessi mál. Jafnframt vill fundurinn benda á að hrossaræktarsambandið er deild í Búnaðarsambandi Borgarfjarðar. Myndi því eðlilegra að búnaðarsambönd þeirra héraða, sem hér óska samstarfs yrðu aðilar að málinu.““

Á aðalfundi B.S.B. föstudaginn 3. maí 1963 var samþykkt tillaga um þann möguleika að leggja hrossaræktardeildina innan B.S.B. niður og stofna sjálfstætt samband á Vesturlandi. Eftir nánari athugun verði málið lagt fyrir fulltrúafund B.S.B. Hinn 1. des. 1963 var fundur haldinn í skrifstofu Borgarneshrepps þar sem mættir voru fulltrúar frá þeim samtökum sem áður eru nefnd og rætt um stofnun hrossaræktarsambands þar sem sambandssvæðið væri Vesturlandskjördæmi ásamt Strandasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu. Á fundinum var mættur Þorkell Bjarnason hrossaræktarráðunautur. Samþykkt var að vinna að stækkun hrossaræktardeildar B.S.B.

Þriðjudaginn 23. júní 1964 á aðalfundi B.S.B. var tekin lokaákvörðun um að leggja deildina niður og stækka svæðið svo sem áður hefir verið skýrt frá og samþykkt samhljóða svofelld tillaga: „Aðafundur B.S.B. 1964 samþykkir að verða við óskum Hestamannafélags Snæfellinga, hestamannafélagsins Glaðs í Dalasýslu og hestamannafélagsins Blakks í Srandasýslu til stofnunar Hrossaræktarsambands Vesturlands samkvæmt samþykktum fundar er haldinn var í Borgarnesi 1. des. 1963 með fulltrúum frá nefndum félögum ásamt stjórn og ráðunautum B.S.B. og Þorkeli Bjarnasyni hrossaræktarráðunaut enda samþykki Búnaðarfélag Íslands lög sambandsins.“ Þar með var lokið afskiptum B.S.B. af hinni félagslegu hlið hrossaræktarstarfsins í héraði en áfram var búnaðarsambandið aðili að héraðssýningum og fjórðungsmótum í Borgarfirði svo sem lög mæla um.

Síðan 1964 hefur Hrossaræktarsambandið verið þannig uppbyggt að að því standa hreppadeildirnar gömlu, sem eru deildir í sinni sveit nema sveitirnar sunnan Skarðsheiðar á félagssvæði Hestamannafélagsins Dreyra en það félag fer með málefni hrossaræktarinnar á því svæði og er ein deild í Hrs. V., Snæfellingur á Snæfellsnesi, Glaður í Dalasýslu, Kinnskær Austur-Barðastrandarsýslu og Blakkur Strandasýslu eru svo deildir innan sambandsins hvert á sínu félagssvæði. Árið 1976 gekk Hestamannafél. Glaður úr hrossaræktarsambandinu þar sem Búnaðarsamband Dalamann hafði ákveðið að taka að sér málefni hrossaræktarinnar og stofna sérsamband. Hrossaræktarsamband Dalamanna hefur starfað síðan.

Síðan sameining þessari varð að veruleika í hrossaræktarmálum Vesturlands hefur saga hrossaræktar í Borgarfirði verið samofin hrossarækt annarra sýslna í landshlutanum. Trúlega hafa allir notið góðs af og héruðin stutt við bakið hvert á öðru til verndar því besta í hestakynjum viðkomandi héraða. Þótt ég hafi eytt tíma og rúmi til frásagna um upphaf þessara samtaka á fyrstu áratugum þessarar aldar er ekki hægt að fara út í jafn ýtarlega lýsingu á gerðum sambandsins eftir sameiningu héraðanna í hrossaræktarmálum 1964. En síðan má fullyrða að mikil framför hafi átt sér stað í hæfileikum hrossa og sigurganga íslenska hestsins bæði hérlendis og erlendis, og fjölgun þeirra sem hafa reiðmennsku að tómstundastarfi sé ótrúlega mikil og í öfugu hlutfalli við það sem var að gerast í þessum málum á fimmta tug þessarar aldar.

Frá upphafi hefur starfsemi Hrossaræktarsambands Vesturlands beinst fyrst og fremst að því að hafa á boðstólum graðhesta til leigu í hinar ýmslu deildir sambandsins annað hvort eigin hesta eða í eigu annarra hrossaræktarsambanda eða einstaklinga.

Eitt það merkasta í starfsemi sambandsins var stofnun tamningamiðstöðvar 1967 sem tók til starfa 1968. Þá var fárra kosta völ að fá hesta tamda og fáir tamningamenn sem unnu að því hér um slóðir, en sambandinu var nauðsyn á að fá hesta tamda vegna afkvæmarannsókna á stóðhestum þess. Hrossaræktarsambandið rak tamningastöð á Hvítárbakka og Tungulæk frá 1968-1980. Eftir það fóru afkvæmarannsóknir fram hjá tamningamönnum sem gáfu kost á sér til þeirra starfa. Tamningastöð sambandsins var barn síns tíma, nauðsynleg í upphafi en þegar tamningamönnum fjölgaði var leitað til þeirra með tamningastörf uns afkvæmarannsóknir lögðust niður í þeirri mynd og aðrar aðferðir notaðar til að kanna ágæti eða lesti einstakra stóðhesta til undaneldis.

Árið 1962 tók Þorkell Bjarnason Laugarvatni að öllu leyti við starfi hrossaræktarráðunautar af Gunnari Björnssyni og starfar hann enn í dag ásamt Kristni Hugasyni. Á starfstíma Þorkels hafa orðið stórstígar framfarir í íslenskri hrossarækt og þá eins í Borgarfirði sem annars staðar.

Þann 24. apríl 1971 var stofnfundur Hrossaræktarsambands Íslands haldinn í Borgarnesi. Segja má að Borgfirðingar og eða Vestlendingar hafi tekið virkan þátt í að koma þeim samtökum á. Þorkell Bjarnason, Guðmundur Pétursson Gullberastöðum og Leifur Jóhannesson Stykkishólmi höfðu fyrir stofnfundinn samið uppkast að samþykktum fyrir væntanlegt landssamband hrossaræktarsambandanna og var það lagauppkast samþykkt án breytinga og athugasemd með öllum greiddum atkvæðum á stofnfundi samtakanna. Samtökin sem hlutu nafnið Hrossaræktarsamband Íslands hefir starfað síðan með þeim hætti að hrossaræktarsamböndin sem mynda landssamtökin skiptast á að hafa stjórn landssambandsins með höndum eitt ár í senn og gengur starfið réttsælis í kringum landið og tekur hvert samband upp starfið að nýju þegar hringnum um landið er náð. Þessi tilhögun var tekin upp strax og hefur haldist síðan.

Áður hefir verið skýrt frá hverjir hafa setið í stjórn Hrossaræktarsambands Borgarfjarðar, því þykir rétt að geta um stjórnarmenn í Hrossaræktarsambandi Vesturlands til þess dags. Formenn hafa verið:
Símon Teitsson Borgarnesi 1964-1975
Árni Guðmundsson Beigalda 1975-1987
Guðmundur Sigurðsson Hvanneyri 1987-1993
Bjarni Marinósson Skáney 1993 og síðan

Gjaldkerar hafa verið:
Leifur Jóhannesson Stykkishólmi 1964-1977
Ólafur Sigurbjörnsson Akranesi 1977-1991 en þá var eftir eitt ár þar til kjósa átti um hann en hann óskaði eftir að hætta stjórnarstörfum vegna alvarlegra veikinda.
Marteinn Njálsson Vestri-Leirárgörum 1991 og síðan.

Ritarar hafa verið:
Marinó Jakobsson Skáney 1964-1976
Skúli Kristjónsson Svignaskarði 1976-1979 en þá óskaði hann eindregið eftir að í hans stað yrði kosinn Haukur Sveinbjörnsson Snorrastöðum 1979-1989
Tryggvi Gunnarsson Brimilsvöllum 1989 og síðan.

Meðstjórnendur samkvæmt breytingum á samþykktum sambandsins um fjölgun í stjórn 1975 hafa verið:
Ólafur Sigurbjörnsson Akranesi 1975-1977 eftir það gjaldkeri
Hallur Jónsson Búðardal 1975-1976 en þá hættu Dalamenn í sambandinu.
Björn Jóhannesson Laugavöllum 1976-1982
Gísli Höskuldsson Hofsstöðum 1982-1994
Haukur Sveinbjörnsson Snorrastöðum 1977-1979, eftir það ritari
Skúli Kristjónsson Svignaskarði 1979-1992.

1992 var sú breyting gerð á lögum sambandsins að varaformaður skyldi vera í aðalstjórn og eftir það einn meðstjórnandi.

Skúli Kristjónsson varaformaður 1992 og síðan Gísli Gíslason Stangarholti meðstjórnandi 1994 og síðan.

Ráðunautur Hrossaræktarsambands Vesturlands var frá upphafi Guðmundur Pétursson Gullberastöðum sem starfaði með stjórninni um faglega ráðgjöf þá fyrst og fremst vegna kaupa á kynbótahestum. Hann hætti störfum sem ráðunautur sambandsins 1975, enginn tók við hans starfi enda fluttist ráðgjöf um stóðhestakaup um það leyti til ráðunauts Búnaðarfélags Íslands Þorkels Bjarnasonar í meira mæli en áður hafði verið.

Þáttur Hestamannafélagsins Faxa í hrossarækt í Borgarfirði er stór þótt það starf hafi staðið í fá ár. Það var í hinni miklu lægð, sem kom í áhuga á hrossarækt í fimmta áratugnum sem hestamannafélagið lét til sín taka í hrossaræktarmálum héraðsins og sýndi það í verki með því að kaupa stóðhestinn Skugga 201 frá Bjarnarnesi. Hann var keyptur af Hrossaræktarfélagi Gnúpverjahrepps í Árnessýslu, en það hafði áður keypt hestinn austan úr Hornafirði. Umræður um kaup á kynbótahesti voru fyrst bókaðar í fundargerðabók 8. nóv. 1945. Fram kemur að ýmsir hestar hafi verið skoðaðir, bæði innan héraðs og utan en enginn uppfyllti þær kröfur sem skoðunarmenn gerðu, fyrr en Skuggi var skoðaður.

Nú var skammt stórra högga á milli, því 11. nóv. sama ár var samþykkt að kaupa Skugga þó kaupverðið þætti nokkuð hátt, kr. 6.500 auk flutnings.

24. nóvember 1945 var hesturinn keyptur og greiðslukvittun undirrituð þann dag á ofangreindu verði af Einari Gestssyni. Þótt Skuggi 201 hafi verið umdeildur stóðhestur á sinni tíð markaði hann djúp spor í hrossarækt, ekki einungis í Borgarfirði, heldur vítt um land. Á þessum árum var lítill tilflutningur stóðhesta milli héraða en afkomendur Skugga bæði synir og dætur fluttust burtu úr héraði og héldu þar uppi merki föðursins. Á hinni miklu landbúnaðarsýningu 1947 stóð Skuggi efstur stóðhesta sem sýndir voru í reiðhestarækt.

8. september 1956 var Skuggi felldur og heygður í Faxaborg. Haldin var vegleg erfidrykkja með ræðuhöldum og flutningi frumsaminna ljóða undir dýrum bragarháttum og hefir ekki heyrst um jafnvirðulega útför hests. Á haug hans stendur stór steindrangur, sem sóttur var á Kaldadal. Koparskjöldur er festur á steininn með áletruninni: „Hér er heygður stóðhesturinn Skuggi frá Bjarnarnesi 201. Fæddur 1937, felldur 1956.“

Haustið 1949 keypti Faxi stóðhestinn Blakk 302 frá Úlfsstöðum. Hann átti sér stutta sögu í Borgarfirði því hann var aðeins notaður hér í þrjár vikur vorið 1950. Fór svo sem einstaklingur á sýningu hins fyrsta landsmóts L.H. á Þingvöllum 6.-9. júlí 1950 þar sem hann náði öðru sæti í flokki I verðlauna stóðhesta 6 v. og eldri. Að loknu móti var Blakkur seldur nýstofnuðu Hr.s. Suðurlands. Var sú ákvörðun mjög umdeild og tók langan tíma fyrir menn að jafna þann ágreining sem þá reis upp.

Eftir daga Skugga 201 hefir hestamannafélagið Faxi ekki gert tilraun til hrossaræktar enda fluttist starfsemi árið 1954 til Hrossaræktarsambands Borgarfjarðar og síðar eða 1964 til Hrs. Vesturlands.

Þegar Skuggi 201 fór að sanna kynbótagildi sitt í Borgarfirði og kynni manna af öðrum hornfirskum hrossum jukust, vaknaði áhugi fyrir því að fara í stofnræktun hornfirskra hesta.

Aðalhvatamenn þeirrar stefnu í hrossrækt voru Einar Gíslason, sem var orðinn bústjóri á Hesti, Guðmundur Pétursson, þá ráðunautur síðar bóndi á Gullberastöðum en hann hafði áður haft náin kynni af hornfirskum hestum, einnig var Símon Teitsson Borgarnesi mikill áhugamaður um þessi mál.

Árið 1964 25. apríl var stofnfundur um ræktun hornfirskra hesta haldinn og stofnað félag sem hlaut nafnið Stofnræktarfélagið Skuggi, sem síðar meir gekk undir nafninu Skuggafélagið. Það starfaði með miklum blóma í allmörg ár og um tíma voru hross af því bergi brotin mjög áberandi í Borgarfirði bæði á hrossasýningum og öðrum hestamótum. Nú hefir starfsemin dalað allmikið enda hross þeirrar gerðar ekki lengur þau tískuhross sem áður voru. Samt sem áður koma enn fram hross af þessu kyni sem áhugaverð eru og áhrif þessa starfs munu lengi verða við lýði hér um slóðir. Þó áhugi á hornfirskum hrossum hafi dalað þá er langt í frá að þeim hafi verið hafnað. Hver veit nema upp komi áhugi á því að taka upp þráðinn að nýju áður en það er of seint.