
Guðmundur Ragnar Andrésson, Meistaravöllum 9, Reykjavík, andaðist þann 14. janúar í Landakotsspítala eftir stutta og erfiða legu. Hann var fæddur að Ferjubakka í Borgarhreppi þann 29. mars 1926, sonur hjónanna Lilju Finnsdóttur og Andrésar Guðmundssonar. Vorið 1930 fluttu þau hjón ásamt þeim börnum sem þá voru fædd að Saurum í Hraunhreppi. Ekki verður farið út í að rekja ættir Guðmundar að þessu sinni, en þeir sem til þekkja, vita að hann var af góðu fólki kominn að allri gerð.
Guðmundur fékk i vöggugjöf hina miklu atorku forfeðra sinna þó mest og best frá sínum ágætu foreldrum, sem jafnframt önnuðust hið frábæra uppeldi, sem einkennir systkinin frá Saurum í svo ríkum mæli. Við mikið starf en næga hvíld og elskulegt atlæti þar sem fyrirbænir og kristin trú voru í heiðri höfð, svo sem dugað höfðu þjóðinni mest og best frá öndverðu, ólst Guðmundur upp í glaðværum systkynahópi þar sem hin sanna og einlæga gleði fékk að njóta sín, ekki síður í hinu smærra en stærra.
Með þetta góða veganesti, sem öllum er hollt, hleypti Guðmundur heimdraganum ungur að árum og lagði út í hinn fláráða heim þar sem hættur og vá liggja í leyni við hvert fótmál, en á vegferðinni þraut aldrei veganestið. Hið góða uppeldi og hinir ótvíræðu eðliskostir blunduðu aldrei í brjósti hans en héldu vöku sinni í því að halla aldrei réttu máli og taka alltaf málstað þeirra sem minna mega sín eða eiga við erfiðleika að stríða á einn eða annan hátt.
Þó sá sem þessar línur skrifar hafi þekkt Guðmund frá barnæsku og verið náinn vinur hans alla ævi, vorum við aldrei samstarfsmenn utan nokkra mánuði þegar báðir unnum hjá Landssíma Íslands. Þá kynntist ég dugnaði hans, kappsemi, verklagni og því aðalsmerki, sem prýðir hvern mann í starfi, að vaxa með erfiðleikum og leysa verkefnin hversu vandunnin sem þau eru. Sem sagt líta á erfiðleikana til að yfirstíga þá en ekki til að guggna á þeim. Þessir eiginleikar voru rikir í fari hans, og honum eðlilegir ásamt mikilli smekkvísi og háttvísi í framkomu allri.
Þegar Guðmundur fór úr foreldrahúsum lá leiðin til Borgarness þar sem hann hóf verklegt nám í söðlasmíði hjá föðurbróður sínum, Jóni Bjarna Guðmundssyni frá Ferjubakka. Því miður lauk hann því námi ekki, vantaði aðeins nokkrar vikur á. Það er vart nokkur vafi, að hefði Guðmundur lokið námi og lagt fyrir sig þessa iðn á hefði það orðið einn þáttur í iðnsögu þjóðarinnar, þar sem fram hefðu komið hin ágætu verk og mikla reynsla Jóns Bjarna í söðlasmíði og vandvirknislegt handbragð Guðmundar á öllu því sem hann tók sér fyrir hendur.
Eftir að hann söðlaði um og sagði skilið við söðlasmíðina gerðist hann starfsmaður Landssíma Íslands 1948 þar sem hann vann til ársins 1954, en þá réðst hann til Bæjarsíma Reykjavíkur og starfaði þar til dauðadags, síðustu tíu árin sem verkstjóri. Eins og sést á yfirliti yfir störf Guðmundar skipti hann sjaldan um starf og mest alla ævi sína helgaði hann talsímaþjónustunni krafta sína, enda var maðurinn ekki þeirrar gerðar sem hleypur á milli vinnuveitenda í tíma og ótíma.
Konu sinni, Huldu Brynjúlfsdóttur, kvæntist Guðmundur þann 9. apríl 1955, hún er dóttir Brynjúlfs Dagssonar læknis og Guðlaugar Sigfúsdóttur. Hulda bjó manni sínum og börnum indælt heimili lengst af á Meistarvöllum 9 í Reykjavík. Þau eignuðust þrjú börn en þau eru Guðlaug, kennari fædd 1955, Andrés, nemur rafmagnstæknifræði í Danmörku, fæddur 1957, kvæntur Rannveigu Fannberg, hjúkrunarfræðing og eiga þau eina dóttur, Hildi, en yngst er Bryndís, bókbindari, fædd 1965.
Ekki er hægt að minnast svo míns kæra vinar og mágs að ekki sé minnst á lestrarhneigð hans. Hann var mikill lestrarmaður alla ævi og bókavinur hinn mesti, enda lét hann ekki sitja við orðin tóm í því efni heldur kom sér upp veglegu og fágætu bókasafni, sem á fáum árum hefur orðið mikið að gæðum og vöxtum.
Á síðustu árum hafa þau hjón komið sér upp sumarbústað í landi Alviðru í Grímsnesi. Þar einkenndist allt af sama handbragðinu og smekkvísinni, sem lífshlaup Guðmundar bar merki um, og nú var komin til samfylgdar lífsförunautur sem ekki lá á liði sínu við að bæta og laga til í kringum sig. Öllum frístundum, hvort sem um var ræða stutt helgarfrí eða heil sumarfrí, var varið í hinu undurfagra umhverfi þar sem öll náttúrufegurð Árnesþings blasir við augum í allri sinni tign og öllu sínu veldi, þar sem kyrrðin er svo djúp og friðurinn svo mikill að ekki verður með orðum lýst. Þangað var gott að leita þegar erilsömu dagsverki var lokið. Þegar ég hugsa um stundir hinnar elskulegu fjölskyldu í þessum unaðsreit íslenskrar náttúru koma ósjálfrátt upp í hugann vers úr sálmi hins ástsæla sálmaskálds Matthíasar Jochumssonar:
Þú komst frá lífsins háa helgidómi
en hollvin áttu í hverju minnsta blómi
í verju foldarfræi byggir andi
sem fæddur er á ódauðleikans landi.
Að lokum þakka ég allt sem þið hjónin hafið gert fyrir okkur fjölskylduna á Beigalda, ég þakka liðnar samverustundir okkar hjónanna með ykkur þegar við nutum gistivináttu ykkar á glaðværum stopulum stundum, þegar við vorum stödd í Reykjavík, en allt tilheyrir þetta hinu liðna sem geymist en glatast ekki.
Hulda mín ég veit að það er sárt að sjá á bak ástkærum eiginmanni, þegar síðdegi ævidagsins er í augsýn með hinni eftirvæntingarfullu tilhlökkun sem það æviskeið vekur að mega sitja á friðarstóli, líta yfir farinn veg og gleðjast yfir unnum sigrum á lífsleiðinni. En láttu ekki sorgina villa þér sýn, láttu ekki erfiðleikana smækka þig. Megi góður guð hjálpa þér til að koma sterkari en nokkru sinni fyrr úr hinni miklu þolraun, þar sem minningin um góðan dreng verður sú huggun sem veitir helgi og frið, sem tíminn einn er fær um að lækna.
Gulla, Addi, Binna og eftirlifandi foreldrar hins látna, Lilja og Andrés, Beigaldafjölskyldan sendir ykkur innilegar samúðarkveðjur.
Árni Guðmundsson