Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Farið er frá Munaðarnesi eftir ruddri slóð ofan Munaðarnesengja. Þegar komið er að Hólma í Norðurá, er farið yfir álinn, sem rennur vestan hans, og út í hólmann sunnanverðan eins og götuslóðar vísa á. Ofan til suður úr þessum hólma er hið svonefnda Hábrekknavað í Norðurá. Þeir, sem ætla að leggja leið sína um Einifell á hinar ýmsu ferðaleiðir um Stafholtstungur eða hvað annað um sunnanverða Mýrasýslu, fara að sjálfsögðu suður yfir á fyrrnefndu vaði.
En þeir, sem ætla að fara upp með Norðurá að vestan, fara vestur yfir álinn aftur, efst úr hólmanum, svo sem götur benda til. Þá er komið á hinn forna samkomustað, Hestaþingseyrar. Farið er eftir þeim, með girðingu um sumarbústaði BSRB á vinstri hönd en Norðurá á þá hægri. Þó að þessi reiðleið öll sé mjög skemmtilegt og góð, þá er þarna á Hestaþingseyrum sérstakt tilefni til að lofa hestum að spretta úr spori og taka þá til kosta, ef svo ber til.
Enn eru góðir götuslóðar farnir, sem taka brátt stefnu til vinstri eða frá ánni. Þá er komið að gili, sem Grafargil nefnist. Yfir það er farið og eftir götuslóða, sem liggur eftir moldarruðningum, sem óðum eru að gróa upp, yfir veg, sem liggur að Norðurá, og áfram eftir hestagötunum um veg að veiðihúsinu við Norðurá, eftir honum milli lóðar veiðihússins og árinnar, svo sem gatan liggur, að fossi í ánni, sem Laxfoss nefnist. Farið er fyrir vestan sumarbústað og land hans, sem þar verður á vegi ferðamanns.
Þá er farið aftur að ánni. Eftir skamman spöl er komið að hrauninu, og er þar farið yfir smá bergsvatnsá, sem Hrauná nefnist. Nú er riðið með fram ánni með hraunið á vinstri hönd en ána á þá hægri. Eftir drjúglangan spöl eftir fagurri leið er komið að fossinum Glanna og þá á veg til vinstri frá ánni. Hann liggur að þjóðvegi 1, sunnan Hreðavatns.
Þegar hér er komið, standa margar leiðir til boða: norður Bröttubrekku, hjá Hreðavatni og Jafnaskarði, um ystu tungu Stafholtstungna eða vestur Borghreppingaafrétt, vestur Heiðarveg eða svo margt annað, sem ferðaáætlun viðkomandi ferðafólks gerir ráð fyrir.
Á þeirri leið, sem hér hefur verið lýst, er mikil náttúrufegurð og fyrir augu ferðafólks ber fleiri náttúruperlur en gengur og gerist.
Haraldur Jóhannesson í Munaðarnesi sagði til vegar.