Gamla leiðin um Bröttubrekku

Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Kort fengið að láni úr bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna.

Þegar farið er vestur í Dali um Bröttubrekku, mun þrautalending flestra ferðahópa vera sú að ríða þjóðveginn eins og hann liggur nú. Samt er það svo að vegurinn liggur ekki yfir hina eiginlegu Bröttubrekku, heldur er hún á gamla veginum, sem hér skal lýst, og er hestamönnum eindregið ráðlagt að fara þar.

Farið er út af þjóðvegi númer 60, Vestfjarðavegi, góðan spöl norðan Dalsmynnis í Norðurárdal, eða þegar komið er að Bjarnardalsá. Riðið er upp með henni að sunnan, og er þá komið á hina fornu leið um Bröttubrekku. Inn Bjarnardal er haldið eftir troðnum slóðum, og er það mjög góður reiðvegur. Farm undan á hægri hönd er hið sérkennilega fjall Baula, sem eykur á tign þess lands, sem riðið er um.

Haldið er áfram sunnan ár. Þegar Baula er komin á hlið ferðafólki, er riðið yfir gil nokkurt, sem Mælifellsgil nefnist og fellur í allmiklu gljúfri úr hálendinu að austan, milli Baulu og Mælifells, sem hér er að nokkru fram undan á hægri hönd. Foss er í ánni nokkru innar en gilið fellur í hana, Bjarnarfoss. Norðan við hann er komið að og farið yfir annað gil, Svartagil, sem fellur úr Baulusandi, sem hér er á hægri hönd, en vestan ár eða á vinstri hönd er Brekkumúli.

Stuttu norðan Svartagils beygir Bjarnardalur til norðausturs. Miðja vegu milli þess, sem Svartagil kemur í ána og olnbogans á dalnum, liggur leiðin til vinstri yfir Bjarnardalsá og upp í snarbratta brekku, þar sem gatan hlykkjast í mörgum sneiðingum upp hálsinn, og heitir þar Brattabrekka. Ekki má gera lítið úr þeim bratta, sem þarna er á leið ferðafólks, og þarna verður að teyma hestana hvort heldur farið er upp eða niður.

Þegar norðvestur af er farið, er brattinn mun minni. Þá er komið að og farið yfir nafnlaust smágil og skáhallt að öðru gili, sem heitir Rauðsteinagil. Ekki er farið yfir það, heldur út með því að suðvestan og með það á hægri hönd. Er þá komið eftir örstuttan spöl á þjóðveg númer 60, þar sem hann liggur um Suðurárdal.

Árið 1931 var þjóðvegurinn, sem nú er notaður, fyrst farinn á bíl. Friðrik Þórðarson í Borgarnesi varð fyrstur til þess. Allir Borgfirðingar og Mýramenn, sem komnir eru um miðjan aldur, minnast hans að góðu einu fyrir verslunar- og félagsmálastörf í Borgarnesi um margra ára skeið, en hann var brautryðjandi í því að keyra á bíl þar, sem ekki hafði verið farið á fjórum hjólum áður.

Þó að liðin séu 60 ár frá því að gamla leiðin um Bröttubrekku lagðist af, eru troðningar og götur skýrar, svo að þarna er ekki vandratað enn sem komið er. Leiðin forna um hina réttnefndu Bröttubrekku heyrir nú sögunni til og verður ekki farin nema af skemmtiferðafólki nútímans, annað hvort ríðandi eð gangandi, því að sjálfsögðu er þetta mjög skemmtileg leið fyrir göngufólk.

Um þessar slóðir hafa leiðir manna milli Norðurárdals og Miðdala legið allt frá landnáms- og söguöld, og þarna hafa fætur hesta landsmanna troðið götur, allt þar til bílaöld hóf innreið sína og nýr vegur var lagður. Þar þarf meira en 60 ár til þess að afmá þau spor og slóðir, sem myndast hafa í margar aldir.

Magnús Halldórsson í Hraunsnefi sagði til vegar.