Hann kom eins og stormsveipur, ýmist gustmikill eða hlýr inn í líf mitt í september 1948. Þá um haustið var lagður sími á nokkra bæi í Borgarhrepp í Mýrasýslu og fékk ég vinnu við það. Hún átti að taka nokkra daga en varð að fimm ógleymanlegum árum. Það er hollt hverjum manni að kynnast persónu eins og honum, traustum og áreiðanlegum, sem gekk aldrei á bak orða sinna þar sem allt stóð eins og stafur á bók. Því er ekki að neita að Friðrik gat verið gustmikill á stundum ef honum mislíkaði og þá sérstaklega ef ekki var staðið eins vel að verki og kostur var á. Undir hjúpnum sló hlýtt og gott hjarta sem öllum vildi vel. Réttlætiskennd hans var mikil sem kom fram í því m.a. að taka ávallt málsstað þeirra sem minna máttu sín og hafði næma tilfinningu til að leggja dóm á það óréttlæti sem myndaðist þegar sá sem meira mátti sín drottnaði yfir eða sýndi lítilmagnanum lítilsvirðingu eða niðurlægingu. „Maður fyllist réttlátri reiði að heyra þetta“ sagði hann og bætti gjarnan við „réttast væri að gera þetta að blaðamáli“. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og annarra um mikil afköst og góð vinnubrögð, var ósérhlífinn og mikill dugnaðar- og þrekmaður, sem hlífði sér ekki við að ganga í verstu og erfiðustu verkin ef svo bar til.
Ein saga skal sögð til vitnis um það. Við Friðrik vorum staddir við vestanverðan Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi til eftirlits með símalínum. Vestan við Mjóafjörðinn var allhátt stauramastur með stögum til þriggja átta á tveimur hæðum vegna þess að yfir fjörðinn var strengd loftlína og hún þurfti að vera það há yfir fjörðinn svo bátar sem þar áttu leið um rækjust ekki í hana. Verkefnið var að fara upp í mastrið og kanna hvort slit væri komið í vírana sem þá þurfti að bæta. Ég tók stauraskóna og fór af stað upp í mastrið. Þegar ég var kominn nokkuð upp fyrir þá hæð sem ég var vanur að vinna í fann ég fyrir nokkurri lofthræðslu. Um leið og ég fann fyrir henni kallar Friðrik til mín: „Þú mátt alls ekki fara upp í mastrið ef þú finnur fyrir lofthræðslu“. Ég kom niður og Friðrik fór upp í mastrið. Þarna var eins og að Friðrik hefði séð þegar lofthræðslan kom yfir mig a.m.k. gerði hann enga athugasemd fyrr. Vegna rógburðar og sögusagna lítilsverðra manna skipti hann um starf sem hefur áreiðanlega verið til góðs fyrir þá aðila sem hann starfaði hjá eftir þetta. Þannig varð hann leiksoppur þeirra afla sem meira máttu sín og hann hafði svo mikla andúð á.
Þegar ég hugsa til þeirra fimm ára sem samstarf okkar stóð og rifja upp minningar í starfi og leik hitnar mér um hjartaræturnar í minningunni um hann. Sjálfsagt hefur það verið þegjandi samkomulag okkar í milli að kveðjustundin yrði sem styst en ennþá fyllist ég klökkva þegar ég minnist hennar.
Hann fór sem stormsveipur, ýmist gustmikill eða hlýr úr lífi mínu í september 1953. Endapunktur var settur aftan við þennan þátt í lífi okkar sem ekki var hægt að endurtaka. Því miður hitti ég hann aðeins tvisvar sinnum eftir þetta.
Með virðingu og þökk.
Árni Guðmundsson (Gufuá) frá Beigalda