Friðgeir Friðjónsson

Þessi skrif fundust í fórum Árna en ekki er vitað hvar eða hvort þetta hefur verið birt.

Friðgeir Friðjónsson var fæddur 1. október 1931, hann lést 16. janúar 1994. Foreldrar: Friðjón Jónsson og Ingibjörg Friðgeirsdóttir, sem lifir enn í hárri elli, hjón á Hofsstöðum í Álftaneshreppi.

Bifreiðastjóri á Hofsstöðum og síðar á Sveinsstöðum í sama hreppi. Átti heima í Borgarnesi síðari hluta ævinnar og stundaði störf hjá Ræktunarsambandi Mýramanna á jarðýtum og skurðgröfum, ennfremur við störf á þungavinnuvélum hjá Vegagerð ríkisins.

Tók ungur að árum þátt í starfi Ungmennafélags Egils Skallagrímssonar í Álftaneshrepppi. Formaður þess félags árin 1954-1955 og 1957-1960 og 1964-1970.

Í framkvæmdanefnd byggingar félagsheimilisins Lyngbrekku fyrir hönd síns félags og í húsnefnd þess meðan hann átti heima í sveitinni.

Gekk ungur í Hestamannafélagið Faxa, formaður þess árin 1968-1974 og aftur 1977-1980. Gegndi þar mörgum öðrum störfum. Var valinn í gæðingadómnefndir meðan gamla fyrirkomulagið var enn við líði en þegar spjaldadómar ruddu sér til rúms kynnti hann sér þær aðferðir við dóma og aflaði sér réttinda á því sviði.

Hann stjórnaði mörgum gæðingakeppnum víða á landinu en oftast mun hann hafa komið við sögu í þeim efnum hjá Hestamannafélögunum Glaði í Dalasýslu og Stormi á Vestfjörðum.

Á seinni árum dró hann sig í hlé frá dómstörfum. Hann sat fjölmörg þing Landssambands Hestamannafélaga og tók þátt í störfum þeirra. Var þingforseti a.m.k. á einu landsþingi þegar það var haldið á félagssvæði Dreyra í Heiðarborg.

Friðgeir starfaði allverulega að málefnum hrossaræktar á Vesturlandi og var fundarstjóri á aðalfundum Hrossaræktarsambandi Vesturlands í mörg ár.