Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar árið 2014.
Tígull-Sokki
Hann var fæddur 1929 Haraldi Bjarnasyni Álftanesi. Fyrir tamningaaldur eða kannski strax á folaldsaldri var hann kominn í eigu Guðmundar Stefánssonar, sem var að miklu eða öllu leyti alinn upp á Álftanesi hjá Mörtu Níelsdóttur og Haraldi Bjarnasyni.
Hann var brúnsokkóttur á litinn með hvítan tígullaga blett á herðakampi og hvítan lokk aftast í faxi. Á framfótum náðu hvítu sokkarnir um hófskegg, en á öðrum afturfæti upp á miðjan legg en á hinum rétt upp fyrir konungsnef. Brúni litur Sokka var milli þess að vera svartur og móbrúnn, á sumum árstímum sló aðeins jörpum lit á búkinn sem vafalaust var arfur frá jarpri móður hans.
Móðir hans hét Komma, jarptoppótt og sokkótt hryssa, sem Haraldur á Álftanesi átti og var afkomandi Skutulseyjarskjóna Bjarna Valdasonar í Skutulsey, sem var þekktur gæðingur á fyrsta og öðrum áratug síðustu aldar. Ármann Dalmannsson frá Fíflholtum reisti Skutulseyjar-Skjóna verðugan minnisvarða með kvæði um hann sem birtist fyrst í bókinni Borgfirzk ljóð, með ljóðum 54 höfunda og kom út í Reykjavík árið 1947. Faðir Tíguls hefur án efa verið Hafnarbrúnn frá Höfn í Melasveit, sem notaður var í Álftaneshrepp 1928. Undan honum komu og voru í notkun í Álftaneshreppi mikið af ágætum hrossum með miklum vilja og mörg með sama millibrúna litnum. Tígull var hans upphaflega nafn, en alltaf nefndur Sokki seinni hluta ævinnar og ég þekkti aldrei annað nafn á honum.
Við sviplegt fráfall Guðmundar Stefánssonar 5. okt. 1936 komst Sokki í eigu Axels Hallgrímssonar (1895-1992), sem þá var ráðsmaður ekkjunnar Kristínar Þórðardóttur á Lambastöðum. E.t.v. hefir Sokki verið kominn í tamningu til Axels áður og ekki þótt ráðlegt að hafa mannaskipti á honum svo stórbrotinn og erfiður sem hann var í tamningu.
Þótt Sokki væri erfiður í tamningu var hann aldrei hrekkjóttur því ef svo hefði verið var hann ótemjandi með öllu. Það var viðkvæmni hans og styggð sem gerðu hann svo vandmeðfarinn sem raun bar vitni. Þegar á bak var komið var hann viðbragðssnöggur og snarráður, viljamikill en taumléttur. Hreyfingar hans voru ullmjúkar með mikilli fótlipurð en fótlyftan þætti ekki mikil í dag, þó ágæt þætti á þeim tíma. Fyrstu skiptin sem Axel kom honum á bak hlýtur honum að hafa fundist sem hann sæti á púðurtunnu, sem gæti sprungið þá og þegar. Skapgerðin var tvíþætt, annars vegar stórbrotinn víkingur en hins vegar viðkvæm og lítil, sem auðvelt var að brjóta niður með rangri meðferð. Gangurinn var fjölhæfur, brokkið mjúkt, sem hann var lítið látinn nota enda erfitt um vik vegna eðlislægs töltgangs hans. Um sumarið 1939 vorum við Axel saman í vegavinnu og hafði hann orð á því áður en Sokki var allur, að næsta vetur ætlaði hann ,,að ríða hann vakran“ eins og hann orðaði það. Þá vildu menn ekki æfa unga hesta til skeiðs. Sjálfsagt hefir bygging eða vaxtarlag Sokka ekki verið gallalaust en hafi svo verið sást það ekki þegar Axel var sestur á bak. Sokki var holdgrannur alla ævi jafnvel svo að til lýta þótti. Kannski hefur þess vegna notast betur að léttleika hans og fótalipurð.
Þessi formáli að lýsingu á Sokka er orðinn lengri en ég ætlaði í fyrstu enda komið að lokum þessarar frásagnar þó tilefni hennar sé ósagt.
Það sem hér fer á eftir man ég eins og gerst hefði í gær. Svo mikil áhrif hafði það á mig enda stóð ég í sömu sporum nokkrum mánuðum áður að missa reiðhest minn sem var samfeðra Sokka. Slík lífsreynsla er örðug hesthneigðum unglingi.
Árið 1939 var Axel heimilsmaður á Grímsstöðum og í veguvinnu það sumar. Það var sunnudagskvöld í júlí. Kvöldhúmið var að breiðast yfir og stutt í sumarrökkrið. Flestir verkamanna voru komnir úr helgarfríi og stóðu í góða veðrinu utan við tjöldin. Þá kom Axel niður nýlagðan veginn, reið Sokka, rak á undan sér tvo eða þrjá lausa hesta og fór greitt. Þegar hann var kominn af baki og kastað á okkur kveðju hafði einhver orð á því að hratt væri riðið í hlað en Axel taldi að sá sokkótti hefði gott af því að teygja úr sér síðasta áfangann, sem varð reyndar raunin. Á þessum tíma meðan allt var girðingalaust á þessu svæði var algengt að menn kæmu á hestum á dvalarstað og hestarnir látnir skila sér heim. Í þetta skipti átti Sokki að fá frí um tíma og mátti fara að Álftanesi en hann sótti alltaf stíft á uppeldisslóðirnar. Á þriðjudag eða miðvikudag kom maður í vegavinnutjöldin með þær fréttir að Sokki hefði fundist dauður í haganum þá um daginn. Eftir vinnu sama dag fór Axel ásamt einum eða tveimur vinnufélögum til að grafa hestinn. Daginn eftir kom í ljós að þeir félagar hefðu flegið klárinn og tekið húðina með sér, orðið sér úti um salt til að salta hana og forða frá skemmdum. En Axel hafði á orði að hann ætlaði að bjóða örlögunum birginn og sjá til þess að að Sokki yrði með í ferðum sínum hér eftir. Fjótlega fór skinnið í verkun og síðan til söðlasmiðs í Reykjavík, sem ég man því miður ekki hver var. Úr húðinni smíðaði hann klyftöskur, eða þverbakstöskur sem sumir kölluðu. Axel stóð við orð sín um samfylgd Sokka meðan hann stundaði hestaferðalög.

Ólarnar sem sjást á annarri töskunni eru ýmist kallað yfirgjörð eða yfirgirðingur. Í notkun var hann færður þvert á töskurnar og girtur yfir þær. Ljósmynd: Lilja Árnadóttir
Þessar klyftöskur, sem nú eru í eigu og varðveislu Dóru dóttur Axels, eru í mínum augum merkur safngripur með tilliti til þeirra sögu sem hér er skráð. Það eru liðin allmörg ár síðan ég sá þær síðast, en alltaf þegar ég leit þær augum minntist ég með virðingu og lotningu þess hests, sem hána bar og þær voru smíðaðar úr.
Haraldi Jónassyni dóttursyni Mörtu og Haraldar á Álftanesi, sem var í sveit þar þegar þessir atburðir gerðust, þakka ég af heilum hug upplýsingar um ætternis- og eigendasögu Sokka og ýmislegt sem rifjaðist upp í samtali okkar Haraldar.
Tilefni þótti að birta mynd af Axel, sem sýnir annan þátt úr hestamennsku hans.
