Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Í ferðahandbók hestamanna „Áföngum“, sem út var gefin 1986, lýsir Hjalti Pálsson á góðan og skilmerkilega hátt leiðinni frá Stóru-Drageyri um Mannamótsflöt að Faxaborg. Nú skal leitast við að draga upp lýsingu á reiðleiðinni þaðan til Kaldármela.
Við gerum ráð fyrir að ferðamenn hafi tekið sér náttstað í Faxaborg, þar sem hægt er að fá aðstöðu fyrir ferðahesta í girðingu, sem Hestamannafélagið Faxi rekur og sér um. Upplýsingar gefur formaður félagsins. Þessi girðing er í landi Ferjukots vestan Síkisbrúa.
Við gerum ráð fyrir að ferðamenn hafi slegið tjöldum sínum á bökkum Hvítár undir Þjóðólfsholti. Þar sem það er í eðli hrossa að flatmaga og hvílast mjög snemma á morgnana, er gott fyrir ferðafólk að nota morguntímann til að ganga um og skoða hið fagra umhverfi. Hestamannafélagið Faxi var stofnað árið 1933. Þá þegar við stofnun haslaði Faxi sér kappreiðahöll á Hvítárbökkum undir Þjóðólfsholti, en áður hafði verið efnt til kappreiða á Hvítárbakka. Einnig voru kappreiðar á Norðurárbökkum, þar sem heitir Hólmavaðslág hjá Haugum, á hátíðahöldum í sambandi við vígslu Norðurárbrúar 1911.
Fyrstu ár kappreiðahalds hjá Faxa á Hvítárbökkum undir Þjóðólfsholti var notast við bakkana eins og þeir eru frá náttúrunnar hendi, og öll veitingasala fór fram í veitingatjöldum. Á þeim árum var fárra kosta völ um skemmtanir ungs fólks, en frá þessum samkomum á leiðsögumaður margar, góðar æskuminningar.
Um 1940 var svo hafist handa um byggingu húss þess, sem nú stendur og í dag væri kallað félagsheimili eða félagsmiðsmiðstöð. Bygging þess ásamt vallargerð og girðingum reis upp undir stjórn hins árvökula og framsýna félagsmálamanns Ara Guðmundssonar frá Skálpastöðum. Svo mikil var framsýnin í þessum framkvæmdum öllum að þær hafa þjónað kappreiðastarfsemi síðan og einnig fjórðungsmótum til ársins 1975, þegar síðast var haldið fjórðungsmót í Faxaborg. En síðan teljast hin öldnu hús í Faxaborg ekki hlutgeng á þessu sviði, og er enginn undrandi á því, svo sem framvindan hefur orðið í hestamennsku síðustu 15 – 20 árin.
Eftir skoðun á hinum gömlu byggingum er rétt að reika í vesturátt að vörðu, sem hlaðinn var og í er heygður, með minnismerki yfir, stóðhestur Hestamannafélagsins Faxa, Skuggi frá Bjarnanesi. Skuggi markaði djúp spor í hrossarækt okkar Borgfirðinga, en var umdeildur á sinni tíð svo sem ávallt er, þegar um höfðingja er að ræða.
Við vonum að ferðafólk hafi risið svo snemma úr rekkju að tími sé til að ganga upp á Þjóðólfsholt og virða fyrir sér og njóta útsýnis. Óvíða hér um sveitir er jafnfagurt og gott útsýni yfir byggðir og bú Borgfirðinga, og skaði ókunnugum ferðamanni að missa af því, sem þaðan blasir við augum.
Nú má ætla að ferðahestar hafi brugðið morgunblundi og þar að auki fengið sér drjúgan morgunverð á safamiklu grængresinu, og er þá kominn tími til að taka saman viðlegubúnað, reka saman hesta og leggja á. Þar sem ferðinni er heitið á Kaldármela, liggur ekki lífið á, er þangað er ekki nema 6 -7 klukkustunda reið, eitthvað lengur fyrir stóran hóp ferðafólks.
Þegar lagt er af stað er farið eftir þjóðvegi, fram hjá vegamótum, sem á stendur Ferjubakkavegur, enn fremur framhjá stórbýlinu Eskiholti á hægri hönd að Eskiholtsvegamótum á þjóðvegi nr 1. Þegar þangað er komið, er um þrjár leiðir að velja, sem sameinast svo allar hjá eyðibýlinu Grenjum í Álftaneshreppi. Fyrst skal lýst þeirri leið, sem er auðveldust og réttast að fara, ef menn eru í einhverjum vafa um að rata leiðir.
1
Farið er frá Eskiholtsvegamótum til hægri eftir þjóðvegi númer 1, þjóðveginum norður. Þarna er hægt að ríða utanvegar meðfram skurðum, sem grafnir hafa verið vegna nýlagningar vegarins. Þar sem svo hagar til sem þarna, er oft erfitt að fá lausa hesta til að rekast utan vegar, en við skulum vona að það takist, þegar um rekstrarvana hesta er að ræða. Mikil umferð er á þessum vegi og ástæða til að ráðleggja fólki að taka í taum þá hesta, sem þekktir eru að því að vilja hlaupa á veg við slíkar aðstæður.
Farið er fram hjá Galtarholti, á vinstri hönd. Í Galtarholti bjó á sínum tíma Jón Jónsson, sem um árabil á dögum landpóstanna var póstur á milli Borgarnes og Staðar í Hrútafirði. Hann var traustur ferðamaður, rólegur og úrræðagóður í hverri raun. Ástæða er til fyrir ferðafólk á hestum að minnast slíkra manna. Örstutt norðaustan Galtarholts eru vegamót til vinstri. Þar er vegmerki, sem á stendur Valbjarnarvellir. Þennan veg er haldið. Brátt er komið að öðrum vegamótum. Til hægri er sá vegur, sem liggur að Stjóra-Fjalli og Túni, við förum ekki þann afleggjara heldur áfram aðalveginn fram hjá bænum Litlu-Gröf á vinstri hönd. Næst eru á hægri hönd sumarbústaðir, myndarlega uppbyggðir, í fögru umhverfi. Síðan er farið fram hjá býli, sem nú er í eyði og Birkiból nefndist, en það er á vinstri hönd. Þetta var nýbýli úr landi Valbjarnarvalla, byggt löngu fyrir þann tíma, sem styrkir og fjárhagsaðstoð til slíkra framkvæmda komu til sögunnar, af manni, sem var fatlaður líkamlega, og ber býlið vitni um hagsýni, nægjusemi og starfsemi þess fólks, sem fætt var fyrir síðustu aldamót, en sá á manndómsaldri sínum örla fyrir nýjum tíma í atvinnusögu landsmanna. Þrátt fyrir líkamlega fötlun, fátækt og áhaldaskort, tókst þessum frumbyggja að reisa sitt býli og komast fjárhagslega vel af.
Það er skammt til Valbjarnarvalla, en þeir eru á vinstri hönd og nyrsti bær í Borgarhreppi. Þar standa við veg, tvö myndarleg fjárhús. Ástæða er til að benda fólki á að hafa tal af bóndanum þar, ef vatnavextir eru, til þess að fá upplýsingar um vöð á Langá, sem er á næsta leiti. Þá er haldið áfram eftir greinilegum bílvegi, sem að vísu er nokkuð harður fyrir hestafætur nú í seinni tíð, þar sem bílferðir sumarbústaðafólks eru þarna alltíðar. En þá er komið að sumarbústaðahverfi á sérlega fögrum stað, reist með miklum myndarbrag. Kannski er þetta það, sem koma skal, vegna sölutregðu á hefðbundnum framleiðsluvörum bænda – þó það eigi ekki við um bóndann á Valbjarnarvöllum – að lagðprúðar ær með sjálfstæði og stolt í fasi hverfi úr íslenskum fjallahlíðum, en í staðinn komi til tekjuöflunar fyrir bændur sumarbústaðir kaupstaðafólks. Allt er þetta ágætt og sjálfsagt að semja að siðum breyttra tíma, en sjónarsviptir verður það samt úr íslenskri náttúru, ef sauðkindin hverfur þaðan.
Þá liggur vegurinn eftir leið sem er fögur og heillandi. Þegar komið er skammt vestur frá sumarbústöðunum, er riðið fram hjá eyðijörð, sem heitir Litla-Fjall heitir. Á hæðardragi fyrir ofan garð er ástæða til að beina augum niður Mýrarnar, Borgarhrepp og Álftaneshrepp sunnanverðan. Þar skiptast á skógi vaxnar hæðir og ásar, en á milli þeirra eru mýrarsund og tjarnir. Þó þarna sé ágætur reiðvegur, ætti að fara þennan spotta lesta- eða klyfjagang, meðan ferðafólk virðir fyrir sér hið viðáttumikla landssvæði með Skarðsheiði og Hafnarfjall í baksýn.
Langá, sem nú er komið að, rennur á hreppamörkum Álftanes- og Borgarhrepps. Vaðið á þessum stað heitir Sveðjuvað eftir samnefndum fossi, sem er þar örskammt neðar. Þetta vað hefur alla tíð þótt viðsjárvert vegna flúða og klappa og nálægðar við fossbrúnina. Ef svo er háttað vatnsmagni árinnar, er hægt að finna betra vað neðar með henni, nálægt þeim stað, sem lækur rennur í hana að sunnan, sem Litla-Fjallslækur nefnist, en vaðið Lækjarósvað. Eins og áður sagði er ráðlegt að tala við Valbjarnarvallabónda, ef ókunnugir eru á ferð, því aldrei er of varlega farið í sambandi við ár í vexti. Þegar komið er að bænum Grenjum, sem nú er í eyði, er komið að girðingu austan túna. Þar er rétt að á um stund og bíða eftir því fólki, sem farið hefur leiðir 2 eða 3, en á þessum stað sameinast ferðahóparnir
2
Við erum aftur stödd við vegamót hjá Eskiholti og hópur 2 er að leggja upp. Hann verður samferða hóp 1 um Galtarholtstungu, en svo nefnist landsvæðið, sem þjóðvegur 1 liggur eftir. Rétt áður en komið er að Galtarholti er komið að vegi til vinstri, þar sem stendur á vegvísi Staðarhús og Laxholt. Vestur þann veg er farið um það bil 2 – 3 kílómetra að trébrú yfir Gufuá suðvestan Laxholts en norðan Staðarhúsa. Hér þarf að æja um sinn, bæði er það að hér er mátulegt að stansa, góðir hestahagar og aðhald við girðingar, og svo þarf að bíða eftir ferðahóp 3 sem brátt leggur af stað.
3
Þessi hópur fer nánast þvert yfir þjóðveg 1, þó aðeins til vinstri, og svo út af honum til hægri eftir akfærri bílaslóð til norðnorðvesturs um skógarása og mýrarsund, þar til komið er að eyðibýlinu Gufuá. Þar er búið að jafna öllu við jörðu, steinsteyptu íbúðarhúsi, fjósi og hlöðu úr sama efni, en uppi standa fjárhús vestan Gufuár. Enginn efast um það að rétt stefna er að jafna við jörðu það, sem ónýtt er og hætt er að nota, að ég tali nú ekki um, þegar eyðingaröfl tímans tönn eru farin að leika mannvirkin grátt. En samt sem áður snertir það einhvern streng í brjósti, þegar ekki sést lengur votta fyrir þeirri uppbyggingu , sem einu sinni var og vitnaði um verklag, stórhug og framsýni á sinni tíð. Farið er í gegnum ógirt heimatún á Gufuá, yfir ána norðan túns og upp með henni að vestan. Þótt þar hafi verið fyrir 40 árum vagnfær vegur milli Gufuár og Staðarhúsa, sem var einnig farinn á bílum, er nú svo komið að aðeins er um hestagötur að ræða, allgreiðfærar í þurrkatíð, en blautar í rigningartíð.
Þegar komið er að túnhliði á Staðarhúsum, verður fólk að fara suður yfir Gufuá, upp með henni að sunnan, þar til komið er að eystra túngirðingarhorni, þá vestur yfir ána aftur og á heimreið Staðarhúsa. Ef ber svo til að menn eru ekki með fleiri hesta en þeir geta tekið í taum, er átölulaust að fara í gegnum túnið, en um það liggur ógirtur vegur. Eftir örstuttan spöl er komið að trébrúnni, sem áður er nefnd, og hópar 2 og 3 hittast.
Þegar þeir hafa sameinast, er farið vestur ýtujafnaðan skurðaruðning. Eftir um það bil 6 kílómetra er komið að Stangarholti, þar sem farið er fyrir norðan tún og niður með því að vestan. Þá er farinn næsti afleggjari til hægri í gegnum hlið á vegi, sem er merkur ,,Einkavegur“. Umferð er heimiluð hestamönnum án nestisbíla, sem gætu valið sér venjulegu leiðina að Grímsstöðum. Þá er stuttur spölur að Langá. Riðið er upp með henni til hægri eftir bílfærum vegi, þar til komið er að læk, sem nefnist Litli-Fjallslækur og áður er nefndur. Þar er vað á ánni, sem heitir Lækjarósvað. Þar eða nokkru neðar er farið vestur yfir ána og upp með henni að vestan, þar til komið er að Grenjum og sameinast þar ferðafélögum í fyrsta hóp.
Meðan seinasti hópurinn áir hestum sínum, er rétt að fara nokkrum orðum til landkynningar á þessum slóðum. Í austri er Grenjadalur á milli Litla-Fjallsmúla og Grenjamúla, en um Grenjadal fellur Langá úr Langavatni. Þegar litið er vestur með Grenjamúla, blasa við tveir sérkennilegir klettadrangar í Grímsstaðamúla, sem heita Karl og Kerling. Þeir eru í Kerlingarskarði, sem svo heitir.
Við norðurhorn Grenjatúns greinast leiðir í tvennt. Önnur eftir nýlegum bílvegi, hin eftir götum, sem reyndar voru einu sinni bílfærar og liggja nær múlanum. Þær götur ættu allir hestamenn að fara, bæði vegna útsýnis niður Mýrarnar og nálægðar við múlann og einkennilegu klettamyndanir, sem þar eru.
Á Grímsstöðum var stórbúskapur áður fyrr. Þar fæddust og ólust upp merkir menn, svo sem prófessor Haraldur Níelsson, og þaðan eru ættaðir menn sem koma við sögu landsins á ýmsan hátt. Það mun að skapi ráðamanna þjóðarinnar að ekki er lengur hefðbundinn búskapur á því forna höfuðbóli, þar sem af sumum er talið fegurst bæjarstæða á Íslandi. Á Grímsstöðum er nú stunduð ferðamannaþjónusta. Hægt er að fá þar leigða hagagöngu fyrir hesta og gistingu fyrir fólk.
Þegar haldið er frá Grímsstöðum, er um tvær leiðir að velja, svo sem frá Grenjum. Ég ræð fólki án efa að leggja leið sína ofan túngarðs, og er þá rétt að láta hestana fara fót fyrir fót, svo sem kallað var í æsku minni, þegar talað var um fetgang, og virða fyrir sér útsýnið niður Mýrarnar vestanverðar. Þar er um svipað útsýni að ræða og ofan túns á Litla-Fjalli, nema nú blasir við hvert fjallið fram undan öðru, Svarfhólsmúli, Fagraskógarfjall, Kolbeinstaðafjall og Hafursfell, og síðan allur Snæfellsnesfjallgarðurinn með útvörð Snæfellinga og Mýramanna, Snæfellsjökul, í vestri.
Þegar farin er bæjarleiðin milli Grímsstaða og Hraundals, er rétt að koma við í Hraundalsrétt, sem er aflögð fyrir nokkru, og ný rétt þá reist á Grímsstöðum. Sú fyrrnefnda stendur í hraunjaðri skammt frá vegi, nokkru áður en komið er að Hraundal. Um hana segir í í Ferðabók Eggerts og Bjarna:
,,Hraundalsréttir eru nær því eini staðurinn á landinu þar sem eins konar markaður er haldinn. Aðkomumenn þeir frá sjóplássunum, sem fyrr getur, liggja í tjöldum við réttirnar. Þeir hafa meðferðis fisk, lýsi og ýmsar erlendar vörur, sem þeir kaupa fyrir sauði, smjer, vaðmál og aðrar landafurðir, sem þeir þarfnast. Sýslumaður, nágrannaprestar og ýmsir þeir, sem kallast fyrirmenn, koma þangað einnig til að sinna sínum málum, því að landbúnaðurinn og þá helzt sauðfjárræktin er mikilvægasta tekjugrein þeirra. Þá er full þörf þess, að sýslumaður sé viðstaddur til að halda uppi lögum og reglu, því að ekki er ótítt, að þar séu framdir þjófnaðir. Drykkjuskapur er þar og stundum, en honum fylgja þá oft illdeilur, áflog og hvers kyns óreiða.“
Út Hraundalsrétt er farið fram hjá bænum Syðri-Hraundal eftir bílfærum vegi í gegnum Hraundalshraun að Ytri-Hraundal. Á vinstri hönd er hin víðáttumikla hraunbreiða, en á þá hægri er Hraundalur milli Grímsstaðamúla að sunnan og Svarfhólsmúla að vestan. Þegar komið er vestur úr hrauninu, er farið til vinstri út af vegi, sem liggur heim að Ytri-Hraundal. Þaðan að eyðibýlinu Svarfhóli er mjög skemmtileg reiðleið með mjúkum reiðgötum á köflum. Frá Svarfhóli er farið norðan túns vestur með því eftir greiðfærum melgötum í átt að Grettisbæli. Þá tekur við hraungata sem vandhitt er á en er merkt. Þarna munu margir hafa farið vitlaust á leið til Kaldármela 1988 og tekið stefnu of mikið til hægri, svo að segja þvert úr leið. Til að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig er lögð áhersla á að taka stefnuna svo sem áður sagði frá Svarfhóli og veita athygli merkinu, þar sem ríða á inn í hraunið. Hraungata þessi liggur í vestur að Grjótá, þar sem er brú yfir hana á Hítardalsvegi. Þegar á þann veg er komið, er hann farinn til vinstri um það bil 100 metra, en þá út af honum til hægri. Er þar komin í áningarhólf.
Ástæða er til að huga að langslagi á þessum slóðum áður en lagt er af stað. Hér á það við sem annarsstaðar að ,,landslag yrði lítilsvirði ef það héti ekki neitt.“
Rétt suðvestan hraunkantsins, sem ferðafólkið er norðan undir, er Staðarhraun, kirkjustaður og prestssetur fram á okkar daga. Þar hafa margir merkisprestar setið, og bær þessi kemur oft við sögu í Sturlungu, þegar flokkar manna riðu um héruð og þá stundum í vafasömum tilgangi, og var þá nefndur Staður undir Hrauni. Hér blasir Hítardalur við með stórbýlið Hítardal fyrir botni dalsins undir sérkennilegu felli, sem Bæjarfell nefnist. Á hægri hönd blasir við býli með myndarlegum byggingum, en það heitir Helgastaðir. Við endann á lágum múla, sem Múlaselsmúli nefnist, er Múlasel, sem fyrir löngu er komið í eyði, bær hruninn og eftir standa auðar tóftir. Hægra megin við þennan múla er Grjótárdalur, lokaður að nokkru héðan að sjá, en blasti við frá Svarfhóli. Sunnan Grjótárdals er Svarfhólsmúli.
Fyrir botni Hítardals, að nokkru bak við Bæjarfellið, sést í hinn algræna Hítarhólm. Þar inn af til vinstri blasir Vatnshlíðin við, sem liggur meðfram Hítarvatni. Við þann enda Vatnshlíðarinnar, sem nær er, er svo Klifsandur og til vinstri við hann Hróbjörg, og enn til vinstri við þau Hróbjargarstaðafjall, þar til tekur við Fagraskógarfjall með burstalöguðu felli, sem að okkur snýr og Grettisbæli nefnist. Þar hafðist við útlaginn Grettir um tíma í útlegð sinni og koma þessi örnefni öll við sögu í Grettissögu. Þar með endar þessi fjallaröð, sem umlykur hinn fallega Hítardal. En við enda Fagraskógarfjalls gægist Hafursfell og lengra frá Snæfellsnesfjallgarður með Snæfellsjökul yst á nesinu (1446 metrar).
Úr áðurnefndu áningarhólfi er haldið í vestur, eftir akfærum vegi til að byrja með, þar til komið er að hraunjaðri og á, sem heitir Tálmi. Ekki veit ég skýringu á nafngift árinnar en trúlega hefur hún verið farartálmi í vatnavöxtum fyrir Hítardalsfólk áður en ár voru brúaðar. Á árbakkanum er merki, þar sem ríða á yfir Tálma. Einnig er merki við hraunjaðarinn, sem ríða á yfir. Þar er einstigisgata og ekki hægt að teyma lausa hesta, og í miðjum kambinum er girðing með lokuðu hliði, sem forreiðarmenn verða að opna. Þegar komið er vestur úr hrauninu, tekur Hítará við, og þegar yfir hana er komið, tekur við leiðsögn Snæfellinga.
Ef einhver vöxtur er í ánni, er varað við að ríða hana þarna. Einnig vegna þess að vaðið hefur spillst nú um árabil, þar sem hún er að grafa sig niður, svo sem stundum ber við um vatnsföll. Ef vafi leikur á að áin sé reið, sérstaklega ef óvanir eða börn eru með í ferð, er rétt að hafa tal af Staðarhraunsbónda og fá ráðleggingar hans um ána. Ef hún er varasöm yfirferðar, er önnur mjög skemmtileg reiðleið niður á Hítarárbrú hjá Brúarfossi, eftir hinni fornu póstleið frá Brúarfossi að Hítardal. Þar sem þessi leið er lítið lengri og þar að auki mjög skemmtileg, er ástæðulaust að leggja í tvísýnu yfir Hítará inn við Fagraskógarfjall, og skal þá farið sem nú skal lýst:
Þegar riðið er úr áningarhólfinu og komið nokkra tugi metra meðfram girðingu, sem þar er á vinstri hönd, er farið út af veginum við girðingarhorn. Þar er merki fyrir ríðandi menn. Þá er strax komið á fjárgötur yfir mólendi milli hraunkanta, og er stefnan þarna laust við Fagraskógarfjallsenda. Strax þegar komið er úr af veginum, er stefnt á lágan en töluvert áberandi hraunhól. Farið er með honum að norðvestan, eða til hægri handar. Áfram skal halda fjárgöturnar, þar til komið er niður úr hrauninu vestan við gamla Staðarhraun. Allnokkru sunnar er svo hin nýja uppbygging á Staðarhrauni. Þegar komið er niður úr hrauninu, snúum við baki við hinum aldna Stað undir Hrauni og höldum vestur með hraunjaðrinum. Eftir nokkurn spöl beygja göturnar til suðvesturs. Nokkru eftir að við höfum fjarlægst hraunjaðarinn er komið að lindá, sem rennur undan hrauninu, tær og hrein, sem Kverná heitir. Farið er yfir hana og út með henni að norðaustan. Nokkru vestar er aftur komið að Kverná, en hún liggur í boga, fyrst í suðvestur frá upptökum sínum, en beygir síðan til norðvesturs, og einmitt nokkru eftir þessa stefnubreytingu komum við að henni á ný og yfir hana til vinstri. Þegar yfir hana kemur, tekur við örstuttur melkambur eða alda, og þá er farið yfir aðra á, sem Melsá heitir. Rétt vestar eða á hægri hönd sameinast svo Melsá og Kverná, sem síðar renna svo í Tálma, sem á þá örstutt eftir að falla í Hítará og er þá orðinn allmikið vatnsfall. Áfram er haldið eftir sléttum melgötum, þar sem heitir Langidráttur, alla leið að Brúarfossi. Þá er farið vestur yfir Hítárá á brúnni og eftir þjóðvegi á Kaldármela eða hvert annað, sem ferðinni er heitið í vesturátt, en þá tekur við leiðsögn þeirra Snæfellinga.
Ef þú lesandi góður átt eftir að leggja leið þína að Múlum á Mýrum vestur, þá umfram allt annað skaltu haga ferð þinni á þann hátt að fara í austurátt að Staðarhrauni eða Svarfhóli síðdegis eða að kvöldi til. Ef sú ferð er farin, meðan enn varir sólskin og langdegi á Íslandi og sólin gengur vel til útnorðurs eða norðurs á leið sinni fyrir norðurpólinn, mætir auganu í suður- og austurátt sýn, sem seint mun úr minni líða. Þá standa Hafnarfjall og Skarðsheiði í hinni fegurstu litadýrð, sem tekur sífelldum breytingum eftir því sem sólin lækkar á lofti, uns hún að síðustu gyllir efstu toppa þessara fjalla og þau standa eftir dimmblá í sumarhúminu, meðan nóttin er ennþá björt og hlý.