Frá Faxaborg að Kaðalstöðum

Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Kort fengið að láni úr bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna.

Farið er frá Faxaborg upp með Þjóðólfsholti, norður Norðurárbakka yfir í Stafholtshólma og að Svarfhóli. Þaðan er vegur að vegamótum við Þverbrekkur. Þá liggur leiðin til hægri, gegnum tún að Hamraendum, síðan austur veg að Þverá á móts við Neðranes og þar yfir ána á ágætu vaði og suður með henni að norðaustan. Farið er eftir vegi yfir melana, og þarf að fara í gegnum hlið inn á tún. Þar er sumarbústaður. Rétt áður en komið er að honum er farið til vinstri á jeppaveg, sem liggur að Kaðalstaðalandi. Komið er að hliði við Hörðuhóla, slóðanum enn fylgt smáspöl og þá farið í gegnum hlið inn á tún. Þar heitir Eyrarnes. Slóðinn heldur áfram, með fram túninu og út um hlið. Þaðan er riðið eftir honum upp með Hvítá að Hellukoti.

Þarna er talið hafa verið landnámsjörð, sem hét Hella. Þar eru miklar rústir eftir húsakost úr torfi og grjóti og mikla grjótgarða, sem auðsjáanlega hafa verið vörslugarðar um tún. Um langan tíma voru þarna sauðahús frá Kaðalstöðum fyrir hátt á annað hundruð sauði og eftir það beitarhús fyrir ær, en notkun þeirra lagðist af á árunum 1918-1920, og rifin voru þau 1926. Þaðan er haldið í norðvestur, þvert frá ánni eftir nýgerðri jeppaslóð, á veg suðvestan Kaðalstaða.

Þessi reiðvegur liggur utan alfaraleiðar, bæði að fornu og nýju, og þar að auki þarf að fara um tún og slægjulönd bænda eftir slóðum eða vegum, sem ógirtir eru til beggja handa. Það er því útilokað að fara þarna með hrossarekstur, enda getur leiðin ekki verið áframhald eða upphaf lengri ferða. Fyrir þá, sem dvelja með hesta sína í nágrenninu, er þetta upplögð dagsferð með fáa hesta. Það gerir þessa reiðleið enn fremur ómögulega fyrir hrossarekstur að þarna með fram Hvítá er oft hrossastóð, sem erfitt getur verið að komast fram hjá. Einnig gildir um þessa leið eins og margar aðrar, sem liggja um ræktunar- og slægjulönd manna, að það þarf að fá leyfi á viðkomandi bæjum og nánari leiðarlýsingu.

Enn fremur skal það tekið fram, þó að Norðurá teljist ekki til stórfljóta þessa lands að hún er viðsjárverð fyrir ókunnuga, sérstaklega vegna sandbleytu ef eitthvað ber út af vaði. Því er varað við henni við Stafholtshólma nema í fylgd kunnugra. Ónákvæm lýsing á vaðinu í upphafi þessa kafla er til þess gerð að ókunnugir fái kunnuga með sér yfir ána.

Unnur Ólafsdóttir segir hér til vegar.