Frá Borgarnesi, um Hvítsstaði og Árbæ að Grímsstöðum

Lýsing á reiðleið sem birtist í bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna, 2. bindi, 1994.

Kort fengið að láni úr bókinni Áfangar: ferðahandbók hestamanna.

Björn Jónsson lýsir leið um Hafnarskóg að Seleyri og Borgarfjarðarbrú í Borgarnesi. Það ferðafólk, sem ætlar lengra, á um fleiri en einn kost að velja til áframhalds.

Í fyrsta lagi að ríða Ólafsvíkurveginn, vestur, sem er slæmur kostur, nema ef fólk ætlar á fjöruleiðir, annað hvort í Álftaneshrepp eða Hraunhrepp. Þá er ekki um annað að ræða.

Í öðru lagi má ríða upp Borgarhrepp á einhverja þá leið sem lýst er í kaflanum um leið frá Faxaborg að Kaldármelum.

Í þriðja lagi er leið sú, sem nú skal lýsa. Þá er farið frá hesthúsahverfi þeirra Borgnesinga, sem byggt er upp af miklum myndarbrag með ágætum íþróttavelli fyrir hestaíþróttir, og ber allt það, sem þar er búið að gera, vitni um öflugt félagsstarf. Farið er norðvestur frá hesthúsahverfinu eftir vegi, sem er bílfær. Brátt er komið í klettaása, sem Borgareinkunnir og Hamarseinkunnir nefnast. Þarna er mjög fallegt innan um kletta og skóglendi, og mega Borgnesingar vera hreyknir af svo skemmtilegu útivistarsvæði. Áður en lagður var vegur sá, sem liggur vestur Mýrar og enn er lítið breyttur frá fyrstu tíð,  en fyrsta fjárveiting til hans var 1902, lágu svonefndar vatnsbrýr milli ásanna vestur Einkunnir um Valshamar, Álftártungu og Álftá, svo segja má að á þessari leið sé farið í fótspor liðinna kynslóða frá fyrstu tíð. Þegar vestur fyrir Einkunnir er komið, tekur við útjafnaður skurðaruðningur, sem Hestaeigendafélagið Skuggi í Borgarnesi lét gera, bæði grafa skurðinn og ýta út ruðningum. Þessi skurður nær alla leið að Langá. Öll þessi leið er hin skemmtilegasta, með fram og hjá skógi og kjarri vöxnum ásum, en hún er blaut í rigningartíð og þung fyrir fæti.

Komið er að Langá á merkjum milli Álfgerðarholts, eyðibýlis á vinstri hönd, en Jarðlangsstaða á þá hægri. Þarna er allmikið sumarbústaðahverfi í fallegu umhverfi. Farinn er vegur, sem liggur að Jarðlangsstöðum og Stangarholti til hægri með sumarbústaði á báðar hendur. Brátt hallar niður af ásnum, sem bústaðirnir eru byggðir á, og er þá farið yfir læk, sem Tannalækur nefnist.

Þá er um tvær leiðir að velja. Í fyrsta lagi áfram veginn alla leið að Grenjum og á veg, sem lýst er í leiðarlýsingu frá Faxaborg að Kaldármelum. Ef ferðast á vestur með Múlum, er þetta miklu lengra og þess vegna er mælt með þeirri leið, sem nú skal lýst. Þegar komið er yfir Tannalækjarbrúna, er farið út af veginum til vinstri og góðan spöl áfram eftir uppýttum vegi, þar sem lækur rennur í ána úr vestri. Sá heitir Hvítsstaðalækur.

Allnokkru neðan hans er farið yfir ána, og sést þá, hvar vegur liggur yfir mýrarsund, og þaðan liggur gata yfir mel að öðru mýrarsundi. Þá tekur við vélgrafinn skurður með jöfnuðum ruðningi frá hjá eyðibýlinu Hvítsstöðum, á mel, sem liggur upp og ofan, sem svo er kallað hér um slóðir, en þannig liggja flest holt og ásar á Mýrum. Upp þennan mel er haldið eftir góðri götu, þar til komið er enn að vélgröfnum skurði með jöfnuðum ruðningi, og er hann farinn. Eftir stuttan spöl er komið að eyðibýlinu Árbæ á bökkum Urriðaár, farið er í gegnum tún þar, yfir ána og á Grímsstaðaveg. Hann er farinn, þar til komið er að Grímsstöðum og við tekur leiðarlýsing frá Faxaborg að Kaldármelum.