Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2007
I Úr ýmsum áttum
Heillavinur, þjer skal þakka
þína grónu ævitrygð.
Þigðu klappið mjúkt á makka,
meðan rökkvar yfir bygð.
(Úr Faxarímu Jóns Magnússonar)
Árið 1938 kom fyrir almenningssjónir ljóðabókin Björn á Reyðarfelli (einyrkjasaga) eftir Jón Magnússon skáld, sem er lýsing í bundnu máli á stórbrotnum og sérstæðum manni. Í bókinni eru nokkrir stuttir kaflar í óbundnu máli. Í einum þeirra segir: ,,Björn átti reiðhesta góða, hvern fram af öðrum og hjetu allir Faxi. Var hinn síðasti gæðingur mikill.” Talið er að fyrirmynd skáldsins að þessu verki sé Björn Sveinbjarnarson (1847-1912) bóndi á Þverfelli í Lundarreykjadal (sjá Borgfirskar æviskrár I. hefti bls. 455).
Vísan sem vitnað er til í upphafi þessa þáttar er upphafserindi eins stórbrotnasta kafla bókarinnar sem höfundur nefnir Faxarímu og er eintal söguhetjunnar við einn reiðhesta sinna sem Faxi hét.
Þó enginn sé til frásagnar um það nú hvaðan nafn Hestamannafélagsins Faxa er fengið, því ekkert er um það í fundargerðum frá þeim tíma, dettur mér í hug að fyrirmyndin að nafninu sé sagan um reiðhesta Björns. Bæði er að flest ef ekki öll hestamannafélög í landinu sækja nöfn sín til nafnkunnra gæðinga sem til hafa verið í félagssvæði þeirra, og svo að Ari Guðmundsson frá Skálpastöðum í Lundarreykjadal var mesti áhrifamaður hestamannafélagsins í upphafi, og fullyrða má að honum hafi verið kunn sögnin um reiðhesta Björns.
Árið 1932 komu nokkrir menn saman í Þverárrétt og bundust fastmælum um stofnun hestamannafélags. Hvorki er fært til bókar á hvaða tíma ársins þetta var, né hverjir komu þar við sögu. Fullvíst má telja að þetta hafi verið að miklu leyti sömu menn sem stóðu svo að stofnun félagsins, en e.t.v. einhverjir bæst í hópinn. Félagið var stofnað í Borgarnesi 23. mars 1933 og félagssvæðið Mýra-og Borgarfjarðarsýslur ásamt Akranesi og Borgarnesi. Stofnendur voru 18 að tölu. Láðst hefir að færa nöfn þeirra í fundargerðabók en þau eru skráð á minnisblað sem fylgt hefur fyrstu fundargerðarbókinni í gegnum árin en sú bók er í vörslu Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar ásamt fleiri gögnum sem tengjast sögu hestamannasamtaka í héraðinu. Símon Teitsson bóndi Grímarstöðum, seinna í Borgarnesi, hafði orð fyrir stofnendum og lagði fram frumvarp að lögum fyrir félagið, sem var samið og sniðið eftir félagslögum Hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. Þá fékk félagið samkvæmt nýsamþykktum lögum nafnið Sleipnir. Ári seinna á aðalfundi 21. maí 1934 var þriðja mál á dagskrá ,,breytt nafni félagsins og heitir nú Faxi”. Ekkert er um það bókað hvers vegna nafninu var breytt. Sennilega vegna þess að annað félag með því nafni hafði verið stofnað á Selfossi 2. júní 1929. Um Faxanafnið vísast til upphafsorða þessarar greinar.

Í fyrstu stjórn voru kosnir: Ari Guðmundsson Skálpastöðum formaður, Ásgeir Jónsson Haugum ritari, Helgi Ásgeirsson Knarrarnesi gjaldkeri
Ekki er annað að sjá en vel hafi verið staðið að útbreiðslustarfsemi félagsins því í árslok fyrsta starfsársins 1933 voru félagar orðnir 63 og í árslok 1934 rúmir 70.
Eins og áður segir var félagssvæðið í upphafi öll Mýra- og Borgarfjarðarsýsla, sennilega hefur eins og þá var háttað samgöngum, verið erfitt fyrir félaga sunnan Skarðsheiðar að sækja félagsstarfið enda fór það svo að á því svæði var stofnað sérfélag 1. maí 1947 sem í fyrstu var nefnt Neisti en síðar Dreyri. Síðasti maður sem var kosinn til starfa af því svæði á vegum Faxa var Pétur Torfason Höfn Melasveit á aðalfundi 1945. Ennfremur man ég eftir að Arnór Steinason Narfastöðum sat aðalfund Faxa í Brún vorið 1951.
Laugardaginn 28.júní 1941 voru félagar frá Hestamannafélaginu Faxa þátttakendur ásamt meðlimum frá þremur öðrum hestamannafélögum í hópreið ríðandi manna til Þingvalla. Á þeim fundi, sem þar var haldinn um kvöldið og daginn eftir, voru lögð drög að stofnun Landssambands hestamannafélaga. Ari Guðmundsson var talsmaður Faxa á þeim fundi og kosinn í nefnd sem starfaði við undirbúning að stofnun Landssambandsins enda var Ari kosinn ritari sambandsins þegar það var stofnað 18. des. 1949 og var það til dauðadags.
Í mörg ár hafa Faxafélagar átt sæti í stjórn eða varastjórn Landssambandsins.
Á aðalfundi árið 1950 var samþykkt áskorun til nýstofnaðs Landssambands hestamannafélaga efnislega á þá leið, að það beitti sér fyrir því að samið yrði nýtt uppkast að lögum um hrossarækt, þar sem fundurinn áleit að þáverandi lög um hrossakynbætur næðu ekki tilgangi sínum, og benti í nokkrum töluliðum á það sem betur mætti fara.
Hinn 16. mars 1951 var á stjórnarfundi samþykkt merki fyrir félagið sem er hestshöfuð eftir mynd af Skugga 201 og Gunnari Bjarnasyni falið að kanna kostnað við að gera barmmerki og hvort einhver vildi kaupa það. Nú á seinni árum hefur komið upp ótrúlegur misskilningur um merki félagsins þar sem álitið er að teikning sú af hesti sem er á félagsfánanum sé merki félagsins. Sú teikning var í upphafi einungis hugsuð sem fánamerki, þar sem álitið var að hið hringlaga merki félagsins myndi ekki fara vel á fána. Á stjórnarfundi 12. maí 2004 var ákveðið að láta endurhanna félagsmerki Faxa og 23. maí 2005 kom fram að það mál sé í réttum farvegi.

Á stjórnarfundi 1950 var samþykkt að láta gera verðlaunagrip sem veittur sé fegursta hesti mótsins í eigu félagsmanna. Ekki var keppt í góðhestakeppni um Faxaskeifuna fyrr en 1952 og óvíst hvort verðlaunaveitingin sem samþykkt var 1950 hafi nokkurn tíma komið til framkvæmda.
Árið 1976 var gert átak í að koma félagaskrá félagsins í betra horf en verið hafði. Fyrir tölvuöld var mikið verk að koma nýjum félögum í stafrófsröð en þá eins og áður og síðar gengu margir í félagið og aðrir úr því. Þá var tekið það ráð að prenta spjöld og gera spjaldskrá yfir félagana og smíðaðir voru sérstakir spjaldskrárkassar til notkunar í því skyni. Með innreið tölvualdar hefur notkun spjaldskrár reynst óþörf, enda var ég vitni að því á aðalfundi nokkrum árum síðar að umrædd spjöld voru klippt í sundur og notuð sem atkvæðaseðlar á fundinum. Það er slæmt vegna sögunnar þegar gögn félags eru leikin svo grátt.
Árið 1974 voru kosnir trúnaðarmenn, einn úr hverri sveit í þeim tilgangi að vera tengiliðir milli stjórnarinnar og hins almenna félagsmanns m.a. með það verkefni að boða fundi og aðra viðburði, kalla á fólk til starfa fyrir félagið o.fl. Fljótlega eftir þetta urðu Borgnesingar svo fjölmennir í félaginu að ástæða þótti að kjósa tvo menn þaðan, enda stofnuðu Borgnesingar sérfélag 1. janúar 1990 sem hlaut nafnið Skuggi.
Að öðru leyti voru félagarnir á þessum árum nokkuð jafndreifðir um félagssvæðið.
Eins og annars staðar segir var í fyrsta sinni gæðingakeppni á Faxamóti 1952 og voru verðlaunin gripur sem smíðaður var í því skyni og nefndur Faxaskeifa.
Í fyrstu var keppt í einum flokki en árið 1969 var gæðingakeppninni tvískipt í A-flokk, alhliða hesta og B flokk, klárhesta með tölti. Í fyrstu voru verðlaun í B flokknum einungis þau að tekin var mynd af viðkomandi hesti og eiganda hans. Hún síðan innrömmuð og afhent verðlaunahafa ásamt árituðu skjali. Ekki var alltaf hægt að taka mynd af verðlaunagripnum á mótsstað vegna skorts á góðum ljósmyndara á staðnum og dróst því verðlaunaafhendingin fram eftir sumri. Ekki er gott að sjá hvenær hætt var að gera B-flokkshestum í gæðingakeppni Faxa lægra undir höfði með verðlaunaveitingu, kannski í tvö eða þrjú ár. En þá var farið að hafa Faxaskeifurnar tvær og báðir flokkar verðlaunaðir jafnt og helst sú tilhögun enn.
Árið 1984 var lögum félagsins breytt og stofnuð íþróttadeild innan Faxa sem hélst þangað til sú tilhögun breyttist og hestamennskan fékk almennt viðurkenningu sem íþróttagrein.
Á seinni árum hefur starf hestamannafélagsins tekið miklum breytingum, áhugi fyrir hefðbundnum kappreiðum og mótum dofnað frá því sem áður var. Aftur á móti hefur önnur starfsemi blómstrað, svo sem unglingastarf í ýmsum myndum. Efnt er til vetrarleika með þriggja móta röð og þá á ís ef veður og ísalög leyfa o.fl.
Núverandi stjórn félagsins er svo skipuð: Gunnar Örn Guðmundsson Hvanneyri formaður, Sigurbjörn Garðarson Leirulæk varaformaður, Elíasbet Axelsdóttir Hvanneyri ritari, Gro Jorunn Hansen Bæ gjaldkeri, Björn Haukur Einarsson Hvanneyri meðstjórnandi.
II Faxaborg
Hvar leistu bjarta norðurheiðið, landi minn smár?
Hvar lékstu þér sem folald- við Borgarfjarðarár?
Eða flaug þinn skuggi um Skagafjarðargrundir?
Skein þér máske vorsólin Tindafjöllum undir?
(Íslenskur hestur eftir Huldu)
Strax á fyrsta ári efndi Hestamannafélagið Faxi til kappreiða, og voru þær í allmörg ár eina verkefnið sem það tók sér fyrir hendur að vinna. Ungmennasamband Borgarfjarðar hafði þá haslað sér völl til árlegs íþróttamóts á bökkum Hvítár nokkru ofan Ferjukots. Samið var við U.M.S.B. og eigendur Ferjukots- og Ferjubakkajarða, (en þær höfðu óskipt beitiland á þessum tíma) um afnot af íþróttamótsstaðnum til kappreiðahalds með því skilyrði af hálfu U.M.S.B. að kappreiðar Faxa yrðu ætíð seinna að sumrinu en íþróttamót þess.
Upphaflega voru kappreiðarnar haldnar á bökkum Hvítár sem var ágætur völlur frá náttúrunnar hendi, en sá galli var á, að engin aðstaða var fyrir áhorfendur, sem urðu að gera sér það að góðu að standa meðfram hlaupabrautinni án nokkurrar upphækkunar. Árið 1948 voru kappreiðarnar haldnar á nýjum stað þar sem merkt er bílastæði á meðfylgjandi teikningu af mótsstaðnum (sjá uppdrátt). Þar hafði verið ýtt fyrir 300 m langri hlaupabraut sem valin var vegna þess að þar fékkst allgóð áhorfendabrekka meðfram brautinni og við enda hennar. Fljótlega kom í ljós að völlurinn var ekki eins góður og menn vonuðu í fyrstu. Fólst það aðallega í því að gróf möl og jafnvel hnullungssteinar gengu upp úr jarðveginum eftir hvern vetur og fór mikil vinna árlega í að raka hann og hreinsa.

Árið 1951, 2. júlí á stjórnarfundi voru samþykktar stærri hugmyndir um framtíð Faxa en áður höfðu verið reifaðar í 18 ára sögu þess. Þar var talað um byggingu á stóru félagshúsi og því valinn staður ef langtímasamningur næðist við landeigendur. Þá voru í stjórn félagsins Ari Guðmundsson Borgarnesi, Sigursteinn Þórðarson Borgarnesi og Kristján Fjeldsted Ferjukoti.
Langtímasamkomulag náðist með landeigendum áður talinna jarða og stjórn Faxa, á fundi sem haldinn var á Ferjubakka 14. febrúar 1952 og samningur undirritaður þann dag sem gilti til ársloka 2000. Það ár var samningurinn framlengdur til 5 ára.
Undrahratt hefur tíminn liðið þá rúmu hálfu öld sem liðin er frá því að gjörningur þessi var undirritaður og þeir atburðir ljóslifandi í minningunni eins og gerst hefðu í gær.
Skammt var stórra högga á milli hjá Hestamannafélaginu Faxa á þessum tíma því vorið 1952 var hafist handa við að byggja hús á fyrrnefndu svæði sem í dag mundi kallað félagsmiðstöð. Húsið var teiknað af Ara Guðmundssyni og farið að öllu eftir hans hugmyndum að fengnu samþykki stjórnar. Verkið var unnið og húsinu komið upp að mestu leyti í sjálfboðavinnu. Það þurfti sterka stjórn til að ná því takmarki og var Ari Guðmundsson í þessu sem öðru hinn ötuli stjórnandi og hlífði hvorki sjálfum sér né öðrum uns áfanganum var náð.
Ungur maður, Guðmundur Bjarnason Eskiholti, síðar Brennistöðum tók að sér verkstjórn og umsjón með verkinu. Honum hefur verið mikill vandi á höndum, sökum þess að ávallt komu nýir menn til starfa, e.t.v. daglega þ.á.m. smiðir og aðrir sem voru vanir byggingavinnu. Við skulum nálgast í huganum það erfiði, sem því var samfara að koma upp slíku húsi á þeim tíma, þegar öll tækni til slíkrar mannvirkjagerðar var á algjörum byrjunarreit.
Steinsteypan í umtalaðri bygginu hefur ótrúlega staðist tímans tönn og stendur eftir 53 ár betur en margar byggingar þó yngri séu. Þá var í lok þessara framkvæmda húsinu valið nafnið Faxaborg.

Bygging Faxaborgar var fulllokið á stuttum tíma að öðru leyti en því að ekki var sett þak á þann hluta hennar sem ætlaður var til samkomuhalds svo sem dansleikja sem var og er ætíð kallaður Danspallurinn. Það var ekki gert fyrr en árið 1990. Það verk unnu vanir smiðir, Sigursteinn Sigursteinsson Skjólbrekku, Pétur Jónsson frá Innri-Skeljabrekku, Jóhann Viðar Aðalbjörnsson Víðigerði o.fl.
Árið 1953, 10. júlí var ársþing Landssambands hestamannafélaga haldið í Faxaborg í svonefndum fundarsal sem trúlega tekur um 40 manns í sæti. Það þing sátu 28 fulltrúar frá 11 hestamannafélögum. Um þá helgi, sem var önnur helgin í júlí, og í fjölda ára kappreiðahelgi félagsins, var stórmót sem fleiri hestamannafélög á Vesturlandi tóku þátt í. Margir aðalfundir Faxa hafa í gegnum árin verið haldnir í Faxaborg.
Fyrir fjórðungsmótið sem var haldið í Faxaborg 1960 kom fram krafa um að lengja hlaupabrautina. Hægt var að lengja hana um 50 metra með mikilli jarðýtuvinnu. Þá kom í ljós allmikill vatnsuppgangur á þeim 50 m sem bættust við. Reynt var að grafa rör niður, þvert undir enda brautarinnar en þau aflöguðust eftir hvern vetur því vegna klappar var ekki hægt að koma þeim niður, svo sem þurft hefði.
Á þessum árum fór fram umræða hvort betra væri að heyja kappreiðar á gras- eða malarvöllum. Margir töldu á þeim tíma að grasvellir væru betri og eðlilegri, sem sæist best á því að á slíkum svæðum iðkaði ungviðið leika sína á vorin og sumrin. Vísan sem vitnað er til í upphafi þessa þáttar á að minna á það. Með skírskotun til framangreindra umræðna var samþykkt á aðalfundi 1961 og aftur 1965 að gera tilraun með sáningu melgrasfræs á völlinn og nágrenni hans sem ógróið var, ef það mætti verða til þess að mynda gróðurþekju þar sem malarjarðvegur var. Þó þessi tilraun hafi verið gerð, sem ekki er gott að átta sig á, hefur hún algjörlega misheppnast.
Fyrir fjórðungsmótið 1971 voru tilbúnar þær umbætur í Faxaborg sem samþykkt var að ráðast í á stjórnarfundi á Beigalda 12. apríl 1969 sem fólust m.a. í því að völlurinn var færður á ný á bakkana við Hvítá, (sjá uppdrátt) bæði vegna þess að malarvöllurinn var alltaf að verða hrjúfari eftir því sem árin liðu og nú þurfti að kröfum tímans að vera með 800 m stökkbraut og 1500 m braut fyrir brokk. Allvel tókst að mæla fyrir hinni nýju hlaupabraut og rétt að segja frá því að 800 m stökkið hófst nálægt því sem fyrstu kappreiðarnar voru háðar. Fyrir hinum nýja velli mældi Guðmundur Pétursson bóndi Gullberastöðum, þá ráðunautur Búnaðarsambands Borgarfjarðar. Talið var að sú vinna hefði tekist vel a.m.k. töldu knapar á 800 m stökkhestum að hin skeifulaga beygja á vellinum væri mjög góð. Samkvæmt samþykkt frá 12. apríl 1969 á Beigalda var staðurinn bættur meira en fólst í færslu kappreiða- og sýningavallar. Girðingar um svæðið voru lagfærðar og aðrar girtar að nýju, húsin máluð, stóðhestahúsið, sem byggt var fyrir fjórðungsmót 1965, lagfært og síðast en ekki síst byggt salerni með rennandi vatni ásamt rotþró en það var nýjung á útisamkomustöðum á þessum tíma.
Árið 1975 var haldið fjórðungsmót í Faxaborg í síðasta sinni. Eftir það fóru að koma blikur á loft með framtíð hennar sem stórmótsstaðar. Þá var sýnilegra en áður að gestum fjórðungsmóta mundi fjölga í framtíðinni, kröfur vaxa um landrými, þörf á stærri svæðum fyrir tjaldstæði, sýningarhestum að fjölga vegna nýrra greina og þá óvíst hvort grasvöllur myndi þola slíka umferð og álag sem nauðsynleg er a.m.k. ekki í vætutíð. Þó fór svo að Íslandsmót í hestaíþróttum var haldið í Faxaborg 6.-7. ágúst 1983, sem félögin Faxi og Dreyri sáu um. ,,Aðstaðan til að halda slíkt mót í Faxaborg má teljast sæmileg, en í svo miklu vatnsveðri eins og þá var varð völlurinn þungur” segir í Eiðfaxa 8. hefti 1983. Þó náðust góðir tímar á mótinu t.d. í 150 m skeiði þar sem Leistur, Sigurbjörns Bárðarsonar skeiðaði á nýju meti á 13,8 sek. og Villingur sem Aðalsteinn Aðalsteinsson sat jafnaði metið í 250 m skeiði á 21,6 sek.
Frá árinu 1982 fóru fram í tvö eða þrjú skipti sameiginleg stórmót hestamannafélaganna Dreyra og Faxa í Faxaborg.
Nú á seinni árum hefir aðeins verið haldið eitt mót á ári í Faxaborg sem nefnd er Faxagleði. Þar fer fram firmakeppni og kappreiðar á óformlegan hátt þar sem keppnishestar eru skráðir á staðnum, um kvöldið er grillað og sitthvað gert sér til gamans. Slíkar samkomur eiga sannarlega rétt á sér og minna á það sem einu sinni var.
Á ferð minni í huganum um sögusviðið í samfylgd Hestamannafélagsins Faxa finnst mér saga Faxaborgar rísa hæst með fjórðungsmótinu 1971.
Þó blikur hafi dregið á loft seint á áttunda áratug síðustu aldar um framtíð Faxaborgar verður erfitt að skýra það eða skilja hvernig á því stóð að sól hennar gekk svo snögglega til viðar sem raun ber vitni.

III Unglinga- og fræðslustarf
Árið 1976 og síðar stóð hestamannafélagið fyrir fræðslufundum og fékk á þá fundi frummælendur, og eru mér minnisstæðastir frá þeim tíma Reynir Aðalsteinsson og Pétur Behrens sem fluttu þar fræðsluerindi. Þessir fundir urðu fleiri, þó ég muni ekki eftir öðrum framsögumönnum, og voru oftast haldnir í Brún í Bæjarsveit. Voru þeir ætíð vel sóttir og þar urðu oft skemmtilegar umræður.
Árið 1973, 16. júní var samþykkt á fundi tillaga um að starfrækja reiðskóla í Faxaborg. Vegna þessa var samið við Guðrúnu Fjeldsted í Ferjukoti um að koma á fót slíkri starfsemi. Þá um sumarið hóf hún starf sitt á grundvelli samþykktarinnar frá 16. júní. Frá upphafi hefur hún rekið reiðskólann á eigin reikning og aldrei kom Faxi að rekstri hans. Samt stóðu margir Faxafélagar við bakið á henni í byrjun og veittu t.d. aðstoð við járningar, útvega og lána hesta o.fl. Ásgeir Pétursson þá sýslumaður í Borgarnesi var mikill áhugamaður um þessa starfsemi, og þess vegna hlutaðist hann til um að Guðrún fengi styrk til starfsins frá sýslunni úr menningarsjóði. Féll sú úthlutun undir lið sem úthlutað var til æskulýðsstarfs, sem kom sér vel í upphafi þó upphæðin væri ekki há. Árið 1979 fluttist Guðrún að Ölvaldsstöðum. Eftir það starfrækti hún reiðskólann þar en hann hefur starfað óslitið frá 1973. Þó þessi starfsemi sem hér um ræðir hafi aldrei verið rekin af Hestamannafélaginu Faxa eða verið liður í starfsemi þess er ekki hægt að skrifa um málefni hestamanna í héraðinu nema geta um þetta æskulýðsstarf svo nátengt og skylt er það því starfi sem tengist hestamennskunni.
IV Tamningastöðvar
Á stjórnarfundi í Hestamannafélaginu Faxa 4. janúar 1951 var rætt um hvort ekki væri tiltækilegt að hestamannafélagið gengist fyrir því að setja á stofn tamningastöð í tilraunaskyni og sjá hvernig tiltækist. Þessari tilraun var hrint í framkvæmd þá um vorið eða snemma sumars.
Tamningastöðin var staðsett á Síðumúlaveggjum. Hún starfaði stuttan tíma enda segir í bókun að aðsókn til hennar hafi verið heldur dræm. Þó réðust til hennar þrír menn en það voru Svavar Kærnested garðyrkjubóndi Ásum Stafholtstungum sem var forstöðumaður hennar, Þorgrímur Einarsson Síðumúlaveggjum (Grímur á Veggjum) og Magnús Halldórsson Gufuá, síðar bóndi á Hraunsnefi í Norðurárdal.
Árið 1952 3. febrúar er ákveðið að halda þessari starfsemi áfram þrátt fyrir tap sem nam nokkrum hundruðum króna, sem hefur verið umtalsvert á þeim tíma. Ekkert varð samt úr þeim fyrirætlunum fyrr en seinni part vetrar 1961 þegar Skúli Kristjónsson Svignaskarði og Gísli Höskuldsson Hofsstöðum Hálsasveit tóku að sér rekstur tamningastöðvar í Svignaskarði. Sú tamningastöð starfaði einnig með sömu mönnum eftir áramót 1961-1962. Stöðin var starfrækt um tveggja mánaða skeið hvorn vetur.
Sumarið 1963 var starfrækt tamningastöð í forsvari hestamannafélagsins í tvo mánuði. Hún hafði aðstöðu í Galtarholti Borgarhreppi, við hana störfuðu Hallur Jóhannesson frá Gríshóli í Helgafellssveit og Sigvaldi Jóhannesson frá Bergvík á Kjalarnesi. Síðan þetta var hefur hestamannafélagið ekki haft frumkvæði að starfrækslu tamingastöðvar.
V Hrossarækt
Sá jeg þjer í ungum augum
ofurkappsins logablik.
Trausta fætur, fjör í taugum,
fjaðurmagnað vöðvakvik.
(Úr Faxarímu Jóns Magnússonar)
Fljótlega eftir stofnun Hestamannafélagsins Faxa fór fram umræða um hvort ekki væri rétt að félagið hæfist handa og færi að vinna að hrossaræktarmálum. Um 1940 fór að hjaðna sú áhugaalda sem reis þegar hrossaræktarfélögin voru stofnuð í sveitum landsins, það fyrsta um 1904. Hér í Borgarfirði voru þau stofnuð á árunum 1924-1931. Í hópi Faxafélaga voru menn sem sáu að hér mundi í óefni stefnt og töldu að hestamannafélög væri réttur vettvangur til að auka við og blása á ný lífi í hrossaræktina.
Á aðalfundi 1942 var samþykkt tillaga um að Faxi hæfist handa um hrossarækt. Árið 1945 var samþykkt á ný tillaga um kaup á stóðhesti og kosin nefnd til að leita að og velja hest í því skyni. Ýmsir hestar voru skoðaðir, bæði innan héraðs og utan en enginn uppfyllti þær kröfur sem gerðar voru fyrr en menn skoðuðu Skugga 201. Þótt kaupverðið þætti hátt kr. 6.500 voru kaupin gerð þann 24. nóv. 1945 og hann sóttur að Hæli í Gnúpverjahreppi. Alla tíð var Skuggi umdeildur og þess vegna ekki eins mikið notaður til kynbóta og ætla mætti.
Skuggi stóð fyrstur í röð kynbótahesta í reiðhestarækt á landbúnaðarsýningu í Reykjavík árið 1947, sem nægði honum þó ekki til verulegra vinsælda og enn deildu menn eftir sem áður um ágæti hans. Á fyrsta landsmóti L.H. 1950 vonuðu menn að Skuggi mundi gera stóra hluti eins og 1947, en sú von brást. „Varð Ara af þessu skapþungt mjög. Honum mislíkaði við mig, að Skuggi skyldi ekki standa ofar, og einnig deildum við nokkuð um ágæti Blakks frá Úlfsstöðum nr. 302, sem við Páll Sigurðsson þá hótelstjóri í Fornahvammi höfðum fengið ,,Faxa” í Borgarfirði til að kaupa árið áður. Fannst Ara lítið til um Blakk koma miðað við Skugga, enda seldi hann Jóni Pálssyni dýralækni á Selfossi, Blakk þarna á sýningunni. Þetta var af ýmsum gagnrýnt og aldrei varð, það upplýst, hvort kaupin fóru fram fyrir eða eftir dómsniðurstöður, en Jón var, eins og áður er sagt í dómnefnd kynbótahrossa. Þetta voru ósköp eðlileg viðskipti, þegar þess er gætt að Jón var formaður Hrossaræktarsambands Suðurlands, hafði mikla ágirnd á Úlfstaða-Blakk, en Ari, sem var formaður Faxa í Borgarfirði, hafði hreinustu skömm á hestinum og vildi losna við hann fyrir alla muni. Þótt ýmsir gagnrýndu þessa verslun, varð engin eftirleikurinn, því mennirnir voru báðir einarðir og skapmiklir og óhræddir við að taka ákvarðanir, höfðu enda bæði næga vitsmuni og orðleikni til að verja gerðir sínar í félagsmálum og voru vel virtir hvor í sínu héraði.” Innan tilvitnunarmerkja er orðréttur kafli eftir Gunnar Bjarnason hrossaræktarráðunaut um landsmótið 1950 sem tekinn er úr Ættbók og sögu II. bindi, bls. 45.
Á þessari sýningu árið 1950 var Blakkur 302 nr. 2 í röð næst á eftir Hreini frá Þverá en Skuggi nr. 4.
Þá er rétt að það komi fram að Gunnar Bjarnason var kosinn formaður Faxa vorið 1948 og því formaður þegar Blakkur var keyptur haustið 1949 en Ari kosinn formaður vorið 1950 og formaður þegar hann var seldur.
Eins og segir í hinni orðréttu tilvitnun hafði þetta mál engin eftirköst en mikil ólga var í mönnum og þeir skiptust í tvo hópa í þessu máli. Þann 4. janúar 1951 var stjórnarfundur í Hestamannafélaginu Faxa. Á þeim fundi mætti Gunnar Bjarnason. Þar var hart deilt á Ara fyrir söluna á Blakk og virtist Gunnar hafa komið á fundinn Ara til stuðnings í málinu. Svo sem fram kemur í fundargerð hafði Ari næg rök fyrir gerðum sínum. Þótt menn sættust á yfirborðinu kraumaði í nokkurn tíma undiralda sem hjaðnaði þó furðu fljótt.
Árið 1956 þegar Skuggi var 19 vetra sáu eigendur hans ekki ástæðu til að vera með hann lengur í notkun og var hann felldur og heygður í Faxaborg 8. september þá um sumarið á holti sem rís allhátt í vestur frá Faxaborg. Þaðan sér vel yfir mótssvæðið og reyndar óvíst hvort annars staðar er betra að vera með útsýn til hlaupabrautarinnar í huga. Vegna þessa atviks var haldin mikil veisla í Faxaborg þar sem áðdáendur Skugga minntust hans í máli sínu. Ætla má að enginn hestur hafi fengið jafn tilfinningaríka og eftirminnilega kveðju en Skuggi þegar Ingibjörg Friðgeirsdóttir húsfreyja á Hofsstöðum í Álftaneshreppi flutti undir húmdökkum rökkurtjöldum síðsumarsins 1956 kvæði sitt:
1
Allt líf
lúta hlýtur
lögum þeim
að liggja nár.
Stoðar ei
við andstæðing þann
æðru orð
ógn né bænir
2
Horfinn er blakkur
á helveg
hljóðnuð hófaslög
hestsins prúða,
en áfram lifir
í afkomendum
skörungsþróttur
skap og snilli
3
Góður fákur
er gulli dýrri
Guða gjöf,
gefin heimi,
reynumst því vera
á verði þeim
vökumenn
vits og dáða
4
Bregður lit
blóma fjöld,
stoltan stein
nagar tímans tönn,
en óbrotgjörn
áraraðir,
geymast skal
Skugga minning.
Þó upp hafi komið eftir þetta umræða um hvort hestamannafélagið ætti að halda áfram hrossaræktarstarfi, varð ekkert gert í því máli enda var Hrossaræktarsamband Borgarfjarðar (stofnað 1954) búið að taka þau mál í sínar hendur og ekki ástæða til að annar aðili mundi sinna því líka. Kafli hrossaræktar í sögu Hestamannafélagsins Faxa er stuttur en aldrei mun tímans tönn eyða því sem þá gerðist né fenna í þau spor sem þá voru stigin.
VI Örfá lokaorð
Um leið og ég slæ botninn í þessar hugleiðingar mínar um Hestamannafélagið Faxa vil ég taka fram við lesendur þessa greinarkorns að hér er ekki á nokkurn hátt reynt að skrá heildstæða sögu þess enda vona ég að lesendur líti ekki svo á. Hér er samt sem áður stiklað á stóru í sögu félagsins á langri ævi þess. Ég tel að allar staðar- og tímasetningar í greininni séu réttar og hef ég stuðst í því efni við fundargerðarbækur félagsins sem geymdar eru á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar í Borgarnesi, þær eldri, og hjá stjórn hestamannafélagsins, þær yngri; svo og samtöl við menn sem hafa trútt minni og þegar það á við sannreynt það á ýmsa vegu.
Mér finnst fara vel á því að enda þessar hugleiðingar mínar á síðustu vísu Faxarímu Jóns Magnússonar:
Tókstu nú í tauma sjálfur.
Tökin aldrei fipast þjer.
Inn í glæstar gleði álfur.
Gott er enn að lyfta sér.
(J.M.)
